Útskýringar á spá um snjóflóðahættu

Útskýringar á spá um snjóflóðahættu

Spárnar eru hugsaðar fyrir fjallendi

Spá um snjóflóðahættu er gerð mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 16 og uppfærð oftar ef þurfa þykir. Spáin gildir fyrir stór landsvæði, ekki einstök gil, og er einkum gerð með ferðafólk í fjallendi í huga. Spáin þarf ekki að vera lýsandi fyrir snjóflóðahættu í byggð.

Snjóflóðahættuspár

Lesa má um þessar snjóflóðaspár fyrir óbyggð og fjalllendi á stórum svæðum í grein frá 2013.

Í svæðisspánum, sem einkum eru hugsaðar með ferðalanga í huga, er snjóflóðahætta skilgreind í fimm stigum eftir aðþjóðlegri skilgreiningu fyrir slíkar spár. Umtalsverð snjóflóðahætta samkvæmt svæðisspá þarf ekki að fela í sér hættu á snjóflóðum í byggð á viðkomandi svæði.

Hugtök er varða náttúruvá

Til eru samræmd hugtök sem notuð eru af almannavörnum í viðbúnaði við náttúruvá, jafnt fyrir snjóflóð, sjávarflóð, storma og annað sem getur skapað lífshættu eða valdið eignatjóni.

Óvissustig

Óvissustig vegna snjóflóðahættu felur í sér aukinn viðbúnað snjóflóðavaktar Veðurstofunnar og snjóathugunarmanna ásamt samráði við lögreglu og almannavarnir í héraði vegna snjóflóðahættu sem upp kann að koma í byggð.

Óvissustig felur ekki í sér yfirvofandi snjóflóðahættu í byggðinni heldur að hætta geti skapast. Óvissustigi er lýst yfir til þess að þeir sem koma að aðgerðum, sem getur þurft að grípa til, séu viðbúnir. Óvissustigi er lýst yfir fyrir heila landshluta en ekki tiltekna staði áður en ákvarðanir eru teknar um aðgerðir svo sem rýmingu húsnæðis. Oftast er einungis um að ræða hugsanlega snjóflóðahættu á einum eða fáum stöðum á viðkomandi svæði.

Hættustig

Hættustig er næsta stig viðbúnaðar. Fyrir þéttbýli felur hættustig í sér rýmingu húsnæðis á ákveðnum reitum sem skilgreindir hafa verið í rýmingaráætlun. Í dreifbýli eru oftast rýmd einstök hús.

Neyðarstig

Neyðarstigi er lýst yfir þegar atburður hefur valdið hefur slysum á fólki og/eða tjóni á mannvirkjum. Gripið er til tafarlausra lífsbjargandi aðgerða; reynt er að afstýra fleiri slysum og koma í veg fyrir frekara tjón.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica