Súðavík

Rýmingaráætlun fyrir Súðavík

Snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands og almannavarnanefnd Súðavíkur

Rýmingarkort

Rýmingarkort af Súðavík (pdf 0,8 Mb)

Greinargerð um snjóflóðaaðstæður

Greinargerð VÍ-07027

Inngangur

Samkvæmt lögum nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum frá maí 1997 með breytingu í lögum nr. 71/2000 frá maí 2000 ber Veðurstofu Íslands að gefa út viðvaranir um staðbundna snjóflóðahættu. Skal þá rýma húsnæði á reitum, sem tilgreindir eru í viðvörun Veðurstofunnar, í samræmi við gildandi rýmingaráætlun. Veðurstofan hefur, í samráði við heimamenn, unnið sérstaka uppdrætti af þéttbýlisstöðum landsins þar sem talin er snjóflóðahætta og sýna uppdrættirnir reitaskiptingu rýmingaráætlana viðkomandi staða. Greinargerðin sem hér fer á eftir lýsir reitaskiptingu Súðavíkur og aðstæðum sem leitt geta til rýmingar á reitum sem þar hafa verið skilgreindir.

Fjöllunum fyrir ofan byggðina í Súðavík hefur verið skipt í tvö snjósöfnunarsvæði og eru þau grundvöllur „lóðréttrar“ svæðaskiptingar vegna rýmingar af völdum snjóflóðahættu. Mörk svæðanna eru valin þannig að snjósöfnunaraðstæður séu svipaðar í efri hluta hlíðarinnar á hverju svæði.

Hér á eftir er fyrst lýst landfræðilegum aðstæðum, en síðan er hverju svæði lýst fyrir sig. Getið er um þekkt snjóflóð og farvegum þeirra lýst stuttlega. Gefin er umsögn um snjóflóðahættu og veðurlag sem veldur snjósöfnun í upptakasvæðum. Rýmingarsvæði í byggðinni neðan hvers snjósöfnunarsvæðis eru afmörkuð og sýnd á korti í mælikvarða 1:5000 eða 1:7500 (pdf 0,8 Mb). Rýmingaráætlunum og rýmingarsvæðum er nánar lýst í greinargerð VÍ-07014.

Greinargerð þessi byggist á niðurstöðum samráðsfundar heimamanna og starfsmanna Veðurstofunnar í Súðavík þann 24. janúar 1996 og hættumati sem staðfest var af umhverfisráðherra í ágúst 2005. Endurskoðun og samræming við hættumat var unnin á Veðurstofu Íslands á árunum 2004 til 2007. Við endurskoðunina var miðað við að mörk rýmingarsvæða á stigi II fylgi í stórum dráttum C-svæði hættumats og að rýmingarsvæði á stigi III samsvari A-svæði hættumats.

Aftur upp

Landfræðilegar aðstæður, byggð og örnefni

Þorpið Súðavík stendur við Álftafjörð við vestanvert Ísafjarðardjúp. Fjörðurinn hefur meginstefnuna SSV-NNA, en sveigir örlítið yst og opnast til N. Þorpið stendur vestanmegin fjarðarins, utan við Langeyri, og hefur til skamms tíma staðið að mestu undir Súðavíkurhlíð og Súðavíkurfjalli, en einnig neðan við Traðargil. Eftir snjóflóðin sem féllu 16. janúar 1995 var ákveðið að færa byggðina nokkuð innar, og er hún nú undir öxl Kofra, við mynni Sauradals.

Brún Súðavíkurhlíðar er í 5-600 metra hæð, en að ofan er fjallið fremur flatt. Upp af byggðinni liggur þó hryggur á fjallstoppnum og rís hann um 30 metra yfir umhverfið. Efst í hlíðinni ofan byggðarinnar er klettabelti, sem er skorið af grunnum giljum, en neðar er hlíðin skriðurunnin, án sérstaklega afmarkaðra farvega. Fjallshlíðin hefur stefnuna N-S. Meginbyggðin í gömlu Súðavík liggur í þremur til fjórum húsaröðum niður undir fjöruborðinu og nær hvergi meiri hæð en 15 metrum yfir sjó. Þar eru bæði íbúðarhús og fyrirtæki.

Innan við Súðavíkurhlíð tekur við Traðargil, með stefnuna VNV-ASA. Efst er gilið líkara hvilft eða dal, en þrengist þegar neðar dregur í mjótt afmarkað gil. Neðan gilkjaftsins er víðáttumikil aurkeila sem nær niður undir sjó. Meðfram fjöruborðinu liggur þjóðvegurinn inn Djúp og við hann eru nokkur hús.

Innan við Traðargil er Eyrardalsá og kemur hún úr Sauradal. Sunnan árinnar er Kofri, en svo nefnist fremsti hluti Hlíðarfjalls. Kofri er 635 metra hár, brattur og hömrum girtur tindur. Frá Kofra liggur öxl, Kofrahögg, niður að bænum Eyrardal, og afmarkar öxlin ysta hluta Sauradals að sunnanverðu. Neðan Kofrahöggsins, frá Eyrardalsá og inn undir Langeyri, hefur verið byggt nýtt þorp í Súðavík.

Aftur upp

Snjósöfnunaraðstæður og rýmingarsvæði

Súðavíkurhlíð/Súðavíkurfjall og Traðargil

Margar heimildir eru um snjóflóð á svæðinu. Flest snjóflóð úr Súðavíkurhlíð hafa stöðvast í hlíðinni ofan gömlu byggðarinnar, önnur hafa fallið að efstu húsunum í þorpinu og stór aftakaflóð hafa náð niður undir fjöru. Allmörg snjóflóð úr Traðargili hafa náð niður í byggð og sum jafnvel niður í sjó. Mörg snjóflóð hafa valdið eignatjóni. Í snjóflóðinu úr Súðavíkurhlíð þann 16. janúar 1995 fórust 14 manns.

Snjóflóðafarvegir í Súðavíkurhlíð eru í grunnum rásum í klettum efst í brekkunni. Neðan þeirra eru skriður, þar sem ekki markar fyrir farvegum. Hryggurinn sem er uppi á fjallinu virðist valda meiri snjósöfnun á ákveðnum stað ofan byggðarinnar (þar sem stóra flóðið fór í janúar 1995) en öðrum. Upptakasvæðið er í tiltölulega opinni hlíð norðanvert í skál sem Traðargilið myndar ofarlega í fjallinu, en farvegurinn er í afmörkuðu gili þegar neðar dregur. Neðan gilsins er víðáttumikil aurkeila, sem veldur því að úthlaupssvæðið er breitt.

Íbúðarbyggð í gömlu Súðavík var samfelld neðan við brekkufótinn áður en byggðin var flutt. Byggð neðan Traðargilsins er að mestu einföld röð húsa meðfram þjóðveginum. Snjóflóðin 16. janúar eyðilögðu þrjú hús og nokkur hafa verið flutt í nýja bæinn.

Mikil hætta er á snjóflóðum, stórum sem litlum.

Snjósöfnun í Súðavíkurhlíðina er mest í NV-N-lægum áttum. NA-áttin flytur snjó úr hlíðinni, inn með henni og jafnvel eitthvað upp með henni, og inn í Traðargil. Sökum þess að ekki eru afmarkaðir farvegir (gil) í hlíðinni, er ekki um hliðfyllingu að ræða þegar vindur blæs meðfram henni. Þegar vindur snýst til NV-N-áttar tekur að skafa fram af Súðavíkurfjalli, en þar er allmikið aðsópssvæði. Við það safnast snjór gjarnan í hengjur efst í hlíðinni, en einnig myndast dyngjur neðar. Ef áttin snýst vestur fyrir norðrið verður snjósöfnunin í hlíðina mest. Snjósöfnun í Traðargilið ofan frá er í NV-NA-áttum ofan af Súðavíkurfjalli, en stórt aðsópssvæði er ofan gilsins uppi á fjallinu. Í NA-átt stendur vindur inn með Súðavíkurhlíð og hleðst þá snjór í meginupptakasvæði Traðargils frá hlið.

Ekki er gert ráð fyrir rýmingu á stigi I í Súðavík eftir flutning byggðarinnar. Rýming á stigi II á reit nr. 5 nær til allrar gömlu byggðarinnar að frátöldu frystihúsinu og hafnarsvæðinu. Þar hafa öll íbúðarhús verið keypt upp og mjög lítil starfsemi er á þessu svæði að vetrarlagi. Hins vegar er umferð um svæðið vegna atvinnustarfsemi við höfnina. Við aftakaaðstæður er gert ráð fyrir rýmingu á stigi III á reit nr. 6 sem nær til frystihússins og hafnarsvæðisins.

Eyrardalssvæði

Engar heimildir eru um snjóflóð á svæðinu.

Hugsanleg upptakasvæði eru í sunnanverðum Sauratindum og/eða utan í Kofrahöggi. Bæði upptök og farvegir eru að mestu í opnum fjallshlíðum, en eitt gil er þó í Sauratindum.

Nýja þorpið er niðri við þjóðveginn, á flötu svæði innan við bæinn Eyrardal. Það er allt lægra en 25 m yfir sjó.

Snjóflóðahætta er talin mjög lítil.

Snjósöfnun í Sauratinda ofanfrá er í NA-átt, en er ekki mikil sökum þess að Traðargil tekur við snjónum áður en hann kemst að Sauratindum. Snjósöfnun frá hlið, eftir Sauradal, í NV-átt er talin ólíkleg. Snjósöfnun í Kofrahögg er hugsanleg í N-átt, en er ekki talin líkleg að sögn heimamanna. Stíf V-átt gæti hlaðið snjó í Kofrahögg, en það er ekki talið líklegt.

Ekki er gert ráð fyrir rýmingu á svæðinu (reitur nr. 4).

Aftur upp

Almennt um snjóflóðaveður á Vestfjörðum

Mesta snjóflóðahætta á Vestfjörðum, einkum á norðanverðum fjörðunum, tengist aftakaveðrum af norðri þegar lægðir ganga norður fyrir land úr suðri eða austri. Lægðir þessar beina tiltölulega hlýju lofti að sunnan með mikilli úrkomu norður fyrir landið og valda mikilli snjósöfnun á upptakasvæðum margra snjóflóðafarvega á Vestfjörðum. Mikil snjósöfnun getur einnig átt sér stað í sömu farvegum í langvarandi norðaustanátt með mikilli ofankomu. Áköf úrkoma í suðaustanátt getur einnig valdið snjóflóðahættu í ákveðnum hlíðum sem vita mót norðri.

Aftur upp

Útgáfur

Fyrsta útgáfa, mars 1996.

Önnur útgáfa, júlí 1997. Smávægilegar orðalagsbreytingar og leiðréttingar.

Aðlögun að vefbirtingu, m.a. tenging við rýmingarkort á PDF-formi, desember 2004.

Þriðja útgáfa, nóvember 2007. Endurskoðun og samræming við hættumat.

Aftur upp

Tilvísanir í kort og önnur gögn

Rýmingarkort af Súðavík (pdf 0,8 Mb)

Skýringar við rýmingarkort (pdf 0,1 Mb)

Hættumatskort af Súðavík (pdf 1,2 Mb)

Kynningarbæklingur um rýmingaráætlun fyrir Súðavík (pdf 0,2 Mb)

Yfirlitskort (pdf 0,6 Mb) ©Landmælingar Íslands, f.h. íslenska ríkisins, leyfi nr. L02100001


Aftur upp

Athugasemdir sendist til: snjoflod@vedur.is





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica