Íslensk eldfjöll
Askja úr fjarlægð að kvöldi 21. júlí 2014.

Órói á jarðskjálftamælum vegna skriðunnar í Öskju

Martin Hensch, Sigþrúður Ármannsdóttir og Kristín S. Vogfjörð

Skriðan sem féll úr austurbrún Öskju mánudagskvöldið 21. júlí 2014 um kl. 23:25 kom fram sem sterk og óvenjuleg óróahviða á jarðskjálftamælum, jafnvel í mikilli fjarlægð frá upptökunum.

Þetta kom fram á öllum mælum í kringum Öskju og hófst með sterkum púls sem síðan dvínaði á næstu 20-25 mínútum (sjá mynd 1, stækkanleg). Áþekk merki sjást stundum sem afleiðing af sterkum jarðskjálftum fjarri Íslandi en í þetta sinn höfðu alþjóðleg net jarðskjálftamæla ekki numið nokkuð slíkt.

Mynd 1


Greining á óróahviðunni sýnir að tíðnin í upphafsfasanum var um 0,05 Hz sem er óvenjulega lágt. Á mynd 2 (stækkanleg) eru óróagröf sem sýna eingöngu tíðnisviðið 0,02 – 0,2 Hz. Upphaf fyrstu bylgju er auðkennt með rauðum lit. Á eftir lágu upphafstíðninni kemur órói með hærra tíðnisvið, 1-4 Hz, sem dvínar svo hægt á næstu tuttugu mínútum. Sá órói sést á öllum mælum kringum Öskju en upphaflega lágtíðnin sést á öllum breiðbandsmælum landsins.

Mynd 2


Ferðatími óróans eftir jarðskorpunni, frá Mókollum (mko) nærri Öskju til Ásbjarnarstaða (asb) í Borgarfirði, er um 55 sekúndur en fjarlægðin milli stöðvanna tveggja er um 220 km. Þar af leiðir, að hraðinn er um 4 km/s sem er dæmigert fyrir yfirborðsbylgju. Þetta er klárlega allt öðruvísi órói heldur en frá jarðskjálftum en orsök þeirra er höggun og hnik í jarðskorpunni. Í hefðbundnum brotaskjálfum koma alltaf skýr merki um P- og S-bylgjur frá þeim áður en yfirborðsbylgjur berast.

Túlkun

Þó gögnin verði betur greind síðar, þá er fyrsta túlkun á þessari óróahviðu sú að lágtíðnibylgjurnar í upphafi endurspegli það þegar öskjuveggurinn rifnar smám saman og grjótið losnar frá. Hápunktur óróans er síðan þegar skriðan fellur. Sú flóðbylgja, sem fylgdi í kjölfarið og fór yfir vatnið fram og til baka nokkrum sinnum, veldur samfelldum en dvínandi óróa sem sést næstu tuttugu mínútur á gröfunum.

Engin merki um stóra gufusprengingu sjást í skjálftagögnunum en ekki er hægt að útiloka að tímabundnar breytingar hafi orðið á jarðhitavirkni sem hugsanlega hafi orsakað mökkinn sem sást í kjölfar atburðarins, sjá efstu mynd (forsíðumynd).





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica