Fréttir
Yfirfarnir atburðir frá og með 19 Juli kl. 00.00 am við Fagradalsfjall
Yfirfarnir skjálftar við Fagradalsfjall frá og með 19. júlí.

Jarðskjálftahrina við Fagradalsfjall

Ekki hægt að útiloka stærri skjálfta

20.7.2020

Jarðskjálftahrina hófst við Fagradalsfjall 19. júlí um kl 1:30. Yfir 1700 jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu eftir það. Stærsti skjálftinn varð í gærkvöldi kl 23:36 og var hann 5,1 að stærð. Fjölmargir eftirskjálftar hafa mælst í kjölfarið, stærstu eftirskjálftarnir voru 4,6 að stærð kl 05:46 og 5,0 að stærð kl 06:23 í dag, þann 20. júlí. Að auki hafa 22 jarðskjálftar stærri en 3 að stærð mælst eftir miðnætti. Tilkynningar hafa borist um að stærstu skjálftarnir hafi fundist frá Akranesi í vestri allt að Vík í austri. Jarðkjálftahrinan er enn yfirstandandi.

Jarðskjálftavirkni er vel þekkt í námunda við Fagradalsfjall og hrinur hafa orðið þar áður. Fimm marktækar hrinur hafa mælst á svæðinu síðan 1991. Hrinur á stærð við þá sem er nú yfirstandandi (bæði hvað varðar stærð og fjölda skjálfta) eru ekki algengar. Síðast var virkni af svipaðri stærðargráðu og nú þann 16. september 1973, en í þeirri hrinu mældust fimm jarðskjálftar stærri en 4 að stærð og einn stærri en 5.


Jarðskjálftavirkni við Fagradalsfjall siðan árið 1991. Nýleg virkni er innan rauða kassans.

Túlkun framvindu erfið en nokkrar sviðsmyndir mögulegar

Jarðskjálftavirknin nú virðist eiga sér stað á norður-suður sprungum á brotabelti Reykjanesskaga. Það bendir til þess að virknin sé vegna flekahreyfinga, og hún á sér stað núna líklega af völdum spennubreytinga vegna kvikuinnskotsvirkninnar á Reykjanesskaga sem hófst í janúar á þessu ári. Þar sem nokkur innskot hafa orðið á skaganum síðan þá, er ekki hægt að útiloka að núverandi hrina sé vegna innskotsvirkni undir Fagradalsfjalli.

Saga jarðskjálftavirkninnar á Reykjanesskaganum sýnir að snarpir skjálftar hafa orðið í tengslum við meiriháttar jarðskjálftahrinur. Því er ekki hægt að útiloka að stærri jarðskjálftar fylgi hrinunni nú og talið er að þeir stærstu gætu orðið u.þ.b. 5.5 - 6 að stærð. Slíkir skjálftar geta valdið tjóni á höfuðborgarsvæðinu.

Ef jarðskjálftavirkni er tengd kvikuinnskoti eru sömu hættur og við Svartsengi/Grindavík sem áður hefur verið sagt frá, þ.e. möguleiki á sprungugosi með gostrókum, hraunrennsli og t.d. gasstreymi. Eins er möguleiki á meira grjóthruni á svæðinu.

Mögulegar sviðsmyndir:

1) Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.

2) Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 5.5-6 að stærð.

3) Kvikuinnskot verður í nágrenni við Fagradalsfjall:

i) Leiðir til flæðigoss

ii) Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar

Núverandi virkni á Reykjanesskaga er kaflaskipt og er erfitt að spá fyrir um nákvæma framvindu. Von er á nýjum gögnum síðar í vikunni sem geta varpað skýrara ljósi á ástæður þessarar hrinu. 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica