Fréttir
merki, lógó
Nýtt merki Veðurstofu Íslands.
1 2 3

Umhverfisráðherra opnar nýja útgáfu vefsins

Nýtt merki

23.3.2009

Umhverfisráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir, opnaði nýja útgáfu af vef Veðurstofu Íslands í dag, á alþjóðaveðurdeginum 23. mars.

Nýja útgáfan er birtingarmynd þess að sameining Veðurstofu Íslands og Vatnamælinga Orkustofnunar er um garð gengin. Er það vel við hæfi þar sem í gær var dagur vatnsins.

Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr. 70 frá árinu 2008 og hefur fengið nýtt merki (lógó) sem nú birtist í fyrsta sinn á vefsetri hennar. Merkið var hannað á Vinnustofu Atla Hilmarssonar.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á vefnum. Á vefjum stofnananna beggja var mikið efni sem nú er skipulega fram sett á einum vef.

Mestu breytingarnar eru á forsíðunni en einnig eru fjölmargar breytingar á undirsíðum, bæði á kvikum síðum og textasíðum.

Efri hluta forsíðu er skipt upp í fjóra hluta: veðurspá, veðurathuganir, jarðskjálfta og vatnafar. Hver hluti tekur yfir allan efri helminginn þegar hann er valinn. Segja má að um sé að ræða fjórar forsíður.

Á veðurspárforsíðunni er vinda-, hita- og úrkomuspánum gert hærra undir höfði á kostnað staðaspákortsins sem var á forsíðunni. Þetta er gert af öryggisástæðum en á vindaspákortum er hægt að sjá hvar og hvenær stormar verða verstir. Það er oft nánast ógerlegt á staðaspákortum.

Um viðmótshönnun og útfærslu þessarar nýju útgáfu sá Helgi Borg verkfræðingur. Um útlit og vefun sá Hugsmiðjan ehf en vefurinn byggist á Eplica vefumsjónarkerfinu. Verkefnisstjórnun annaðist Vigfús Gíslason og fjölmargir starfsmenn Veðurstofunnar komu að þessum breytingum.

Leiðbeiningar eru gefnar fyrir spáforsíðu og forsíður veðurathugana, jarðhræringa og vatnafars.

Eldra efni

Alþjóðlegi veðurdagurinn 2008.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica