Fréttir
aftanskin
Í nágrenni Elliðavatns hinn 17. febrúar kl. 17:45.

Tíðarfar í febrúar 2012

Stutt yfirlit

1.3.2012

Mánuðurinn var mjög umhleypingasamur og hlýr. Hlýindin voru að tiltölu mest austanlands þar sem hiti á Fljótsdalshéraði var meira en 4 stigum ofan meðallags. Úrkoma var mikil um allt sunnan- og vestanvert landið og var á stöku stöð meiri heldur en hún hefur áður mælst í febrúar.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 2,6 stig og er það 2,2 stigum ofan við meðallag. Þetta er áttundi hlýjasti febrúar sem vitað er um í Reykjavík. Á Akureyri var meðalhitinn 2,3 stig, 3,8 stigum ofan við meðallag og er mánuðurinn sá fimmti hlýjasti frá upphafi samfelldra mælinga á Akureyri. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 3,7 stig og -2,4 á Hveravöllum. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu, þar má einnig sjá röð hita mánaðarins frá þeim hlýjasta talið. Meðalhiti í febrúar hefur aldrei orðið jafnhár eða hærri á Egilsstöðum en nú.

 

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 2,6 2,2 8 142
Stykkishólmur 2,0 2,7 6 til 8 167
Bolungarvík 1,4 2,4 11 115
Akureyri 2,3 3,8 5 131
Egilsstaðir 2,5 4,4 1 57
Dalatangi 3,8 3,2 1 til 2 73
Teigarhorn 3,4 3,1 5 140
Höfn í Hornaf. 3,7 3,1
Kirkjubæjarklaustur 2,0 1,8 12 86
Árnes 1,4 2,4 [10] [131]
Stórhöfði 3,6 1,6 11 135
Hveravellir  -2,4 3,6 2 47


Hæsti meðalhiti mánaðarins mældist í Surtsey, 4,6 stig, þar á eftir komu Vestmannaeyjabær og Kvísker með 4,1 stig. Lægstur var meðalhitinn á Þverfjalli -4,0 stig, næstlægstur var meðalhitinn í Sandbúðum, -3,8 stig. Lægsti meðalhiti í byggð var -1,0 stig í Svartárkoti.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,8 stig á Teigarhorni þann 14. Á mannaðri stöð mældist hæsti hitinn á Sauðanesvita þann 7., 13,4 stig. Lægsti hiti mánaðarins mældist á Sátu þann 18. og á Setri þann 20., -18,2 stig. Mest frost í byggð mældist við Mývatn þann 20., -15,9 stig.

Lægsta lágmark á mannaðri stöð mældist -11,7 stig. Það var í Stafholtsey þann 18.

Eitt dægurlandshámarkshitamet var slegið í mánuðinum þegar hiti fór í 14,8 stig á Teigarhorni við Berufjörð þann 14. Gamla metið var 13,0 og var sett á Sandi í Aðaldal 2004.

Úrkoma

Mjög úrkomusamt var á Suður- og Vesturlandi en úrkoma í meðallagi eða lítillega minni en það um landið norðaustanvert.

Í Reykjavík mældist úrkoman 135 mm og er það um 90% umfram meðallag. Úrkoma í febrúar hefur alloft mælst meiri en þetta í febrúar, síðast 2008. Úrkoma mældist 40,2 mm á Akureyri og má það heita í meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 161 mm.

Endanlegt uppgjör liggur ekki fyrir víðar en svo virðist sem mánaðarúrkomumet fyrir febrúar hafi verið slegin á nokkrum stöðvum. Á stöðvum sem athugað hafa í 20 ár eða meira var meiri úrkoma í febrúar nú heldur en dæmi eru um áður: Í Stafholtsey, á Brekku í Norðurárdal, Hjarðarfelli á Snæfellsnesi, Vík í Mýrdal, Vatnsskarðshólum og Hjarðarlandi í Biskupstungum. Í Vík hefur úrkoma verið mæld linnulítið frá 1926.

Úrkomudagar voru sérlega margir, 28 í Reykjavík, allir nema einn. Hafa úrkomudagar einu sinni orðið jafnmargir í Reykjavík í febrúar. Það var 1981. Þá var hins vegar ekki hlaupár og úrkoma mældist þar með alla daga mánaðarins - sjónarmunur er því á þessum mánuðum tveimur - 1981 telst með flesta úrkomudaga í febrúar.

Snjóalög

Fremur snjólétt var á landinu lengst af. Alhvítir dagar voru sjö í Reykjavík og er það þremur dögum færri en í meðalári (1961 til 1990). Á Akureyri voru alhvítu dagarnir einnig sjö og er það 13 dögum undir meðallagi.

Vindhraði

Vindhraði í byggð var rétt undir meðallagi í mánuðinum. Bráðabirgðaniðurstöður virðast gefa til kynna að mesti 10-mínútna meðalvindhraði hafi mælst á Gagnheiði þann 14., 33,7 m/s, en mesta hviða hafi mælst á Miðfitjahól á Skarðsheiði þann 2., 55,4 m/s.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 37,1 og er það 15 stundum undir meðallagi. Ámóta sólarlítið var síðast 2005. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 38,6 og er það tveimur stundum yfir meðallagi.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1003,7 hPa og er það 1,1 hPa yfir meðallagi. Lægsti þrýstingur mánaðarins mældist 971,1 hPa á Stórhöfða þann 23. en hæstur á Keflavíkurflugvelli þann 13., 1030,3 hPa.

Fyrstu tveir mánuðir ársins

Fyrstu tveir mánuðir ársins hafa verið hlýir, þó var hlýrra þessa tvo mánuði í Reykjavík í fyrra (2011) en á Akureyri var síðast hlýrra 2006.

Úrkoma hefur verið óvenjumikil. Heildarúrkomumagn í Reykjavík við lok mánaðarins var um 35 prósent af meðalársúrkomu 1961 til 1990 - nærri tvöfalt það sem er í meðalári. Úrkoma var 20 mm meiri í Reykjavík í þessum mánuðum 1991 heldur en nú. Metið er hins vegar frá 1921, þá mældist úrkoma fyrstu tvo mánuði ársins 41 prósent af ársmeðalúrkomu 1961 til 1990.

prufa





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica