Eftirlits- og spásvið

Hlutverk Eftirlits- og spásviðs

Eftirlits- og spásvið leikur lykilhlutverk í íslensku samfélagi þegar kemur að eftirliti, vöktun og þjónustu við almenning og stofnanir vegna náttúruvár og veðurs.

Hlutverk sviðsins er að annast samþætta rauntímavöktun og útgáfu viðvarana og spáa vegna náttúruvár á Íslandi innan þess þjónustusvæðis sem stofnunin ber ábyrgð á. Undir samþætta rauntímavöktun fellur eftirlit með jarðvá, veðurvá, vatnavá, ofanflóðum, sjávarflóðum sem og allri þeirri vá sem ógnað getur öryggi á hafsvæðum umhverfis landið, s.s. hafís, ísingu, ölduhæð og stormum.

Sviðið veitir almenningi, fyrirtækjum og stofnunum innanlands veðurþjónustu í samræmi við lög, reglugerðir og samninga.

Sviðið veitir alþjóðlegri flugstarfsemi flugveðurþjónustu innan íslenska flugstjórnarsvæðisins samkvæmt samningi við Alþjóðaflugmálastofnunina (ICAO). Sviðið veitir jafnframt innlendri flugstarfsemi flugveðurþjónustu samkvæmt samstarfssamningi við Isavia.

Til að tryggja gæði þjónustunnar skal Eftirlits- og spásvið sjá til þess:

  • Að fullnægjandi gögn séu ávallt fyrir hendi til eftirlits og spágerðar samkvæmt samningum við hlutaðeigandi aðila eða önnur svið Veðurstofunnar.
  • Að veitt þjónusta sé miðuð við þarfir notenda, skýrt fram sett og miðlað tímanlega til þjónustuþega.
  • Að áreiðanleg og notendavæn eftirlits- og stoðkerfi séu í rekstri sem auðveldi starf sérfræðinga sviðsins, stuðli að öryggi almennings og verndi samfélagshagsmuni.
  • Að niðurstöður bestu spálíkana séu gerðar aðgengilegar og nýttar við þjónustuna.
  • Að viðeigandi váábendum, verkferlum og viðbragðsáætlunum sé fylgt.
Spásalur
starfsmenn við vinnu
Unnið við veðurspár og jarðskjálftaeftirlit á Veðurstofunni. Myndin er tekin 28. júlí 2010. Frá vinstri á myndinni eru Sigþrúður Ármannsdóttir landfræðingur og veðurfræðingarnir Þorsteinn Jónsson og Haraldur Eiríksson. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica