Greinar
kort af Íslandi - öskudreif
Þykktardreifing ösku frá Eyjafjallajökli. Höfundar: Guðrún Larsen, Ármann Höskuldsson, Magnús Tumi Guðmundsson, Þorvaldur Þórðarson, Björn Oddsson, Þórdís Högnadóttir.

Rennsli í ám á vatnsárinu 2009/2010

29.12.2010

Vatnsárið stendur yfir frá 1. september ár hvert til 31. ágúst næsta árs. Á haustin eru gögn vatnsársins yfirfarin og margvíslegar skýrslur skrifaðar um vatnsföllin og hegðun þeirra.

Það sem einkennir rennsli vatnsfalla á nýliðnu vatnsári (1.09.2009 - 31.08.2010) er annars vegar hin mikla jökulbráð á svæðum þar sem aska frá Eyjafjallajökulsgosinu lá í hæfilegri þykkt á jöklum landsins og hins vegar lítið rennsli í drag- og lindám vegna lítillar úrkomu, einkum á Vesturlandi.

Jökulbráð varð mest dagana 16. til 20. ágúst.

Jökulsá á Fjöllum
Mynd 1. Rennsli Jökulsár á Fjöllum, vatnsárin frá 2005. Vatnsárið 2009/2010 svart.

Á mynd 1 sést að rennsli Jökulsár á Fjöllum (mælt við Grímsstaði) var mjög nærri meðallagi þar til í júní þegar jökulbráðin hófst. Hlýtt var í veðri og sólríkt. Rennslið fór langt fram úr meðallagi og vatnsmagnið sem rann fram í júní, júlí og ágúst varð 1,4 km3 meira en á sama tíma í meðalári. Það svarar til umframbráðnunar sem nemur 1,2 m þykks íss yfir allt vatnasvið árinnar á jökli, en heildarbráðnun íssins á tímabilinu nemur 2 m. Umframbráðnunin samsvarar 2/3 af rými Hálslóns.

Jökulsá á Fjöllum
Mynd 2. Rennsli Jökulsár á Fjöllum frá miðjum apríl út ágúst. Vatnsárið 2009/2010 er svart.

Á mynd 2 er sýndur hluti myndar 1, eða frá miðjum apríl til loka ágúst. Þar má sjá að vorleysingar af hálendinu hefjast í byrjun maí, en síðan hefst jökulbráðnunin í júní.

Skaftá við Sveinstind
Mynd 3. Rennsli Skaftár við Sveinstind frá seinni hluta maí til ágústloka á vatnsárunum frá 2005. Vatnsárið 2009/2010 svart.

Rennsli Skaftár var langt yfir meðallagi á jökulleysingatímanum. Auk mikillar jökulbráðnunar hljóp úr báðum Skaftárkötlum í júní 2010. Fyrra hlaupið kom úr vestari katlinum en það síðara, hæsti toppurinn, er úr þeim eystri. Í vatnavöxtum flæmist Skaftá víða út á hraun og hripar niður í grunnvatn og eykur rennsli lindalækja á svæðinu. Meðalársrennsli Skaftár við Sveinstind var 88 m3/s á vatnsárinu en á árum áður, fyrir 1995, var meðalársrennsli ársins yfirleitt um 40 m3/s.

Þjórsá við Norðlingaöldu
Mynd 4. Rennsli Þjórsár við Norðlingaöldu frá miðjum maí til ágústloka á vatnsárunum frá 2005. Vatnsárið 2009/2010 svart.

Vatni hefur verið veitt úr Þjórsá ofan Norðlingaöldu með Kvíslaveitu öll þessi vatnsár. Rennslið í júní, júlí og ágúst var miklu meira en nokkurn tíma áður á þessum árum og dagsveiflur miklar. Áberandi er hversu mikil bræðsla er í sólskini.

Markarfljót við brúna í Emstrum
Mynd 5. Rennsli Markarfljóts við brúna í Emstrum frá seinni hluta maí til ágústloka á vatnsárunum frá 2005. Vatnsárið 2009/2010 svart.

Rennsli Markarfljóts var ekki mikið á jökulbráðnunartímanum. Líklegt er að þykk aska hafi einangrað vatnasviðið á jökli, sem er einkum norðvestanverður Mýrdalsjökull. Úrkoma kemur kröftulega fram í Markarfljóti.

Hvítá í Árnessýslu við Fremstaver
Mynd 6. Hvítá í Árnessýslu við Fremstaver frá lokum maí til loka ágúst. (Vatn úr Hofsjökli og Langjökli.)
Hvítá við Hvítárvatn
Mynd 7. Hvíta við Hvítárvatn maí til ágúst. (Samanburður er í vatnshæð.)
Farið við Einifell
Mynd 8. Farið við Einifell maí til ágúst.
Hvítá í Borgarfirði við Kljáfoss
Mynd 9. Hvítá í Borgarfirði við Kljáfoss frá miðjum maí til ágústloka. Vatnsárið 2009/2010 er svart.

Afrennsli frá Langjökli er ekki eins áberandi mikið eins og sums staðar annars staðar, nema í Farinu og úr Hvítárvatni. Afrennsli jökulsins til suðausturs er þar á þéttari grunni. Rennsli til vesturs í Hvítá í Borgarfirði er rétt í meðallagi síðustu ára. Eiríksjökull er á vatnasviðinu. Aðeins hluti árinnar er jökulvatn en þó má geta þess að grunnvatnið sem lindirnar koma úr er mjög háð jöklinum. Lækir og ár sem renna frá vesturjaðri jökulsins hverfa margar út í Hallmundarhraun og koma fram sem lindarvatn neðar. Mikill grunnvatnsstraumur er frá þessum jökli. Þurrviðrið virðist hafa vegið þungt í rennsli Hvítá síðsumars. Norðlingafljótið er stærst áa sem renna í Hvítá ofan mælisins.

Haffjarðará
Mynd 10. Rennsli í Haffjarðará frá miðjum maí til loka ágúst.

Haffjarðará er dragá. Rennslið síðsumars í þurrviðrinu á Vesturlandi var lítið.

Austari-Jökulsá við Skatastaði
Mynd 11. Austari-Jökulsá við Skatastaði frá 1. maí til vatnsáramóta.

Drjúgt rennsli hefur verið í Austari-Jökulsá í Skagafirði í sumar en vorflóð af hálendinu utan jökuls hafa verið fremur lítil. Mikið rennsli, sem jafnan er í júní og kemur úr Nýjabæjarfjalli og því umhverfi, vantar alveg en í stað þess er komin jökulbráð með venjulegum dagsveiflum.

Þessa fróðleiksgrein má einnig skoða sem pdf-skjal (1,8 Mb) um vatnsárið 2009-2010.

Kort af umræddum vatnsföllum má einnig skoða sem pdf-skjal (7,2 Mb) í betri upplausn og inn á kortið eru mælistaðirnir merktir.

kort af vatnsföllum á Íslandi





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica