Greinar
Glitský 20. janúar 2008
Glitský 20. janúar 2008.

Glitský á 17. öld

Af gömlum blöðum

Trausti Jónsson 28.1.2008

Glitskýja er stundum getið í eldri heimildum, þar af alloft á 19. öld. Dæmið hér að neðan er það elsta sem fundist hefur. Hér er hugsanlega um að ræða elstu athugun á glitskýjum í heiminum. Viti lesendur um eldri dæmi væri gott að fá fréttir af þeim.

Í bókinni „Lýsing Íslands“ (annað bindi s. 367-368) vitnar Þorvaldur Thoroddsen í Annál Guðmundar Þorsteinssonar (Lbs. 158 4°), sem nefndur er Vallholtsannáll í „Íslenskum annálum 1400-1800“ (1. bindi bls. 325-367). Í prentuðu útgáfunni er tilvitnun Þorvaldar ekki að finna, um aðra uppskrift annálsins er að ræða (það kemur fram í formála). Athuga þyrfti málið nánar. En tilvitnunin er svona og á við 1644:

Morgun annars dags jóla sáust ský mörg og stór á lofti í austur og landssuður og suður, undrafögur, rauð og blá, græn og gul, eitt í miðið fagurt sem tungl, þau sáust þar til bjart var af degi, var þá veður kyrt og andaði lítið sunnan. Sást einnig nokkuð til þeirra á þriðja daginn, þau sáust syðra og um allt Ísland fyrir jól og eftir.

Hugsanlega er hér um að ræða elstu lýsingu á glitskýjum sem vitað er um. Annar jóladagur er 26. desember, en árið 1644 var júlíanska tímatalið (gamli stíll) enn í notkun hér á landi. Réttur almanaksdagur, miðað við sól, hefur því verið 5. janúar að okkar tali.

Að tilvitnunin finnist hjá Þorvaldi, en ekki í prentaðri gerð Annálsins, er enn eitt vitni um þá einkennilegu ritskoðun á veðurupplýsingum sem hér viðgengst í útgáfu eldri heimilda og mörg fleiri dæmi eru um.

Sjá einnig Árstíðasveiflu glitskýja yfir Íslandi 1964-2002.

Þess má geta að enskt heiti glitskýja er nacreous clouds.

Heimildir:

Annálar 1400-1800, I - VII, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 1922 - 1998.

Þorvaldur Thoroddsen, 1933, Lýsing Íslands II. Sjóður Þorvalds Thoroddsen, Reykjavík.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica