Árið 2004

Guðrún Þ. Gísladóttir 9.1.2007

Árið 2004 var hlýtt um land allt, í flestum landshlutum hið fimmta til áttunda hlýjasta frá upphafi mælinga. Árið var þó yfirleitt um hálfu stigi kaldara en árið 2003. Að slepptu árinu í fyrra þarf að fara 4 til 6 áratugi aftur í tímann til að finna jafn hlý ár eða hlýrri . Í Reykjavík var árið hið níunda í röð þar sem hiti er yfir meðallaginu 1961 til 1990, en á Akureyri hið sjötta. Sé meðalhiti síðustu 5 ára í Reykjavík reiknaður, kemur í ljós, að þetta er hlýjasta 5 ára tímabil sem vitað er um frá upphafi samfelldra mælinga, hið sama á við um síðustu 4, 3 og 2 árin tekin saman. Aðeins vantar 0,2°C upp á að síðustu 10 árin nái fyrra hlýjastu 10 ára tímabilum hvað hita snertir . Meðaltal síðustu 5 ára á Akureyri er einnig hærra nú en vitað er um áður, en þar er meðaltal áranna 1933 og 1934 (saman) er lítillega hærra en meðaltal 2003 og 2004.

Meðalhiti í Reykjavík 2004 var 5,6°C eða 1,3°C yfir meðallagi, hálfu stigi kaldara en árið 2003, en álíka hlýtt og 1960 og 1964. Í Stykkishólmi var meðalhiti ársins 4,9°C eða 1,4°C yfir meðallagi. Eins og í Reykjavík er það 9. árið í röð með hita ofan meðallags, meðalhiti í Bolungarvík árið 2004 er 4,3°C og er það 1,4°C yfir meðallagi. Á Akureyri var meðalhitinn 4,8°C og er það 1,5°C yfir meðallagi. Aðeins er vitað um þrjú marktækt hlýrri ár þar, 1933, 1939 og árið í fyrra, 2003. Meðalhiti á Dalatanga mældist 4,8°C og 3,7°C á Raufarhöfn. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhitinn í ár 6,0°C og er það 1,2°C yfir meðallagi.

Úrkoma í Reykjavík mældist um 940 mm og er það um 17% umfram meðallag, á Akureyri mældist úrkoman um 535 mm og er það um 9% umfram meðallag.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1435 og er það um 166 stundum umfram meðallag, sólskinsstundir hafa ekki mælst jafn margar á ári í Reykjavík síðan 1994. Á Akureyri mældust 1050 sólskinsstundir og er það í meðallagi. Almennt yfirlit Hiti í janúar var nærri meðallagi á landinu, snjóþungt var um tíma um miðbik Norðurlands, en snjólétt í öðrum landshlutum. Í febrúar var hiti ofan meðallags en veður var nokkuð umhleypingasamt og sums staðar á Vestfjörðum og á Norður- og Austurlandi var snjóþungt fram yfir miðjan mánuð. Slæmt hríðarveður gerði víða um land þ. 6. til 7. Mars var mjög hlýr og nokkuð vindasamur, ár voru víða vatnsmiklar framan af mánuðinum sökum úrkomu og leysinga. Frá því að mælingar hófust hafa aðeins fimm marsmánuðir verið hlýrri í Reykjavík, síðast 1964, en þá var meðalhiti 1,8°C hærri en nú. Samfelldar mælingar hófust á Akureyri 1881 og hefur aðeins tvisvar orðið hlýrra í mars, 1929 og 1964. Í Stykkishólmi hófust mælingar 1845 og þar hefur hiti fimm sinnum orðið hærri í mars en nú, síðast 1964 eins og í Reykjavík. Samfelldar mælingar hófust í Vestmannaeyjum 1877 og hefur sjö sinnum orðið hlýrra þar í mars en nú, síðast 1974, en þá var hiti reyndar nær hinn sami og nú.

Veturinn (desember til mars) var mjög hlýr, þó ekki nærri jafn hlýr og 2003, þar munar um einu og hálfu stigi á flestum stöðvum. Snjólétt var lengst af víðast hvar á landinu nema um tíma um miðbik Norðurlands og stöku daga í öðrum landshlutum. Úrkoma var 20 til 25% umfram meðallag.
Tíðarfar í apríl var hagstætt um land allt. Meðalhiti í Reykjavík var 5,2 stig og er það 2,3 stigum ofan meðallags. Aðeins er vitað um fimm hlýrri aprílmánuði í Reykjavík síðan samfelldar mælingar hófust fyrir um 140 árum. Úrkomusamt var um sunnanvert landið.
Maímánuður var fremur kaldur framan af, en síðasta vikan var óvenju hlý um mikinn hluta landsins. Sólarlítið var norðanlands.
Tíðarfar í júní, júlí og ágúst var hlýtt og hagstætt um allt land og í annarri viku ágústmánaðar gerði mjög óvenjulega hitabylgju. Hennar gætti einkum um sunnan- og vestanvert landið og inn til landsins í öðrum landshlutum. Hitamet féllu víða, m.a. 113 ára gamalt hitamet í Reykjavík, en hiti komst þar í 24,8 stig þann 11. Hitabylgjan var ekki síst óvenjuleg fyrir það hversu marga daga hún stóð og fór hiti yfir 20 stig í Reykjavík fjóra daga í röð, en ekki er vitað til þess að slíkt hafi gerst áður. Á Egilsstaðaflugvelli mældist hámarkshiti 29,2 stig þ. 11. og er ekki vitað um jafn háan hita hér á landi í ágústmánuði. Ágústmánuðir áranna 2003 og 2004 eru þeir hlýjustu í Reykjavík síðan samfelldar mælingar hófust þar um 1870. Ágúst í ár varð nú meira en einu stigi hlýrri en júlí, en óvenjulegt er að svo miklu muni á mánuðunum tveimur á þennan veginn, því ágúst er yfirleitt ívíð kaldari en júlí. Í Akurnesi rigndi óvenju mikið fyrstu viku ágústmánaðar og urðu nokkrir vatnavextir austanlands samfara þeirri úrkomu og hlýindunum í kjölfarið. Sólríkt var á landinu í ágúst og hefur ekki mælst svo mikið sólskin í ágúst síðan 1960. Á Akureyri hefur aldrei mælst jafn mikið sólskin í ágúst og nú. September var nokkuð hlýr, en úrkomusamt var og fremur sólarlítið.
Sumarið (júní til september) var hlýtt. Í Reykjavík var það hið fimmta hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga. Hlýrra var sumrin 1939, 1941, 1958 og í fyrra (2003). Á Akureyri var sumarið einnig hið fimmta hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga, en þar var hlýrra 1894, 1933, 1939 og 1941. Ómarktækur munur er á hita Akureyri í sumar og árið 2003. Sólskinsstundir sumarsins í Reykjavík mældust 753 og er þetta níunda mesta sólarsumar frá því að sólskinsstundamælingar hófust. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 682 og hafa þær aðeins fimm sinnum orðið fleiri á Akureyri að sumarlagi. Tíð var nokkuð umhleypingasöm í október, m.a. gerði snörp norðanáhlaup bæði þ. 3 til 5. og 17. til 20. Í báðum tilvikum urðu skaðar á landi. Hiti í Reykjavík fór nú niður fyrir meðallag í fyrsta sinn eftir 30 mánaða samfelldan tíma yfir meðallagi, en þó munaði aðeins 0,1°C.
Nóvember var nokkuð umhleypingasamur á landinu og hitasveiflur miklar. Hiti var yfir meðallagi, þrátt fyrir að mikið kuldakast hafi gert dagana 15. til 20. Frost í Reykjavík fór í 15,1 stig aðfaranótt 19. og hefur svo mikið frost ekki mælst þar síðan í janúar 1981 og hitinn er sá lægsti í Reykjavík í nóvember frá 1893, en þá mældist frostið 17,4 stig.
Haustið (október og nóvember) var nokkuð umhleypingasamt en þó var tíð fremur hagstæð. Hiti var í rétt rúmu meðallagi, úrkoma nokkuð yfir meðallagi, en sólskinsstundir ekki fjarri meðallagi.
Desember hefur verið mjög umhleypinga- og úrkomusamur, en hiti ekki fjarri meðallagi. Snjór hefur ekki verið teljandi til trafala utan hríðarveðurs um norðan- og austanvert landið á aðfanga- og jóladag. Aðeins 1 sólskinsstund hefur mælst í Reykjavík fram til 30. desember, svo sólarlítið varð síðast í desember 1992.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica