Heimasíða Veðurstofu Íslands Met Office (UK)
       Eldingar        Þrumuspá        Fróðleikur
Forsíða > Veður > Veðurathuganir - Eldingar > Skýringar

Skýringar

Mælingar á eldingum

Eldingar eru rafstraumur í gegnum loftið sem verður þegar hleðslumunur milli tveggja staða er orðinn mjög mikill. Frá eldingunni berst öflug rafsegulbylgja til allra átta. Mælitæki nema slík rafsegulhögg. Á vefsíðum Veðurstofunnar eru sýndar staðsettar eldingar úr sk. ATDnet mælikerfi (Arrival Time Differences), en það er rekið af bresku veðurstofunni UK Met Office. Kerfið hefur verið rekið síðan 1988. Þeir reka allmargar mælistöðvar í og umhverfis Evrópu. Stöðvarnar nema lágtíðnirafsegulbylgjur frá eldingum (13,733 kHz) og skrá komutíma bylgnanna með mikilli nákvæmni. A.m.k. fjórar stöðvar þurfa að nema eldingu svo hægt sé að staðsetja hana. Kerfið nemur bæði skýjaeldingar og eldingar til jarðar, þó það nemi eldingar til jarðar mun betur þar sem mælistöðvarnar mæla lóðrétt rafsvið. Kerfið mælir hvorki straumstyrk eldinganna, leiftrafjölda í eldingu, né pólun eldinga til jarðar. Lýsingu á ATDnet mælikerfinu má finna í ráðstefnugrein.

ATDnet eldingamælistöð á Keflavíkurflugvelli

Í júlí 2002 var sett upp ATD Sferics eldingamælistöð í húsi háloftastöðvar Veðurstofu Íslands á Keflavíkurflugvelli (63°58,100'N, 22°36,850'V). Á árinu 2007 var stöðin uppfærð í ATDnet stöð. Eldingastöðin er beintengd til bresku veðurstofunnar þar sem unnið er úr mælingunum og þær bornar saman við mælingar frá stöðvum í öðrum löndum. Eldingastöðin er í eigu bresku veðurstofunnar, en fyrir aðstöðu og aðstoð við uppsetningu og rekstur stöðvarinnar fær Veðurstofa Íslands aðgang að eldingagögnum Bretanna.