Heimasíða Veðurstofu Íslands
       Veðurkort í dag        Stök veðurkort        Eldri veðurkort        Skýringar
Forsíða > Veður > Veðurathuganir - Eldri vefur > Veðurathuganir > Veðurkort > Skýringar

Skýringar við veðurathuganakort

Á veðurkortunum eru sýndar veðurathuganir frá nokkrum völdum mönnuðum veðurstöðvum. Sýndur er hiti, vindhraði og vindátt ásamt mati veðurathugunarmanns á skýjahulu, úrkomu og úrkomutegund eða annarra veðurfyrirbæra.

Veðrið í dag og eldri veðurkort

Annars vegar er um að ræða veðurkort á þriggja tíma fresti síðastliðinn sólarhring og hins vegar er hægt að skoða eldri veðurkort á hádegi hvaða dag sem er frá árinu 1949. Þegar eldri veðurkort eru skoðuð má stökkva fram og aftur um áratug með því að smella á [+/- 10 ár], á stikunni efst til vinstri.

Veðurstöðvar á kortunum

Það er háð tímabilum hvaða veðurstöðvar eru notaðar við gerð veðurkortanna, en þær eru þessar:
  • Reykjavík (frá 1949)
  • Stykkishólmur (frá 1949)
  • Bolungarvík (1949-1953), Galtarviti (1953-1994), Bolungarvík (frá 1994)
  • Blönduós (1949-1965), Hjaltabakki (1967-1981), Blönduós (1981-2003), Blönduós sjálfvirk stöð (frá 2003)
  • Akureyri (frá 1949)
  • Raufarhöfn (frá 1949)
  • Egilsstaðir (1949-1998), Egilsstaðir sjálfvirk stöð (frá 1998)
  • Hólar (1949-1965), Höfn (1965-1985), Hjarðarnes (1985-1992), Akurnes (1992-2006), Höfn (frá 2006)
  • Kirkjubæjarklaustur (frá 1949)
  • Stórhöfði (frá 1949)
  • Hveravellir (1965-2004), Hveravellir sjálfvirk stöð (frá 2004)
Á kortunum eru einungis sýndar veðurathuganir frá 10 til 11 völdum veðurstöðvum, en í gagnagrunni Veðurstofunnar eru athuganir frá mun fleiri stöðvum. Þá er á eldri veðurkortum einungis sýnd athugun kl. 12 á hádegi, en til eru reglulegar athuganir á þriggja tíma fresti kl. 3, 6, 9, 12, 15 18, 21 og 24. Athuganir fyrir 1949 eru þó ekki enn aðgengilegar úr gagnagrunni.

Veðurtákn

Veðurtákn gefur til kynna mat veðurathugunarmanns á skýjahulu, úrkomu og úrkomutegund eða annarra veðurfyrirbæra. Notast er við sól/tungl á táknmyndunum ef athugun fer fram eftir birtingu/myrkur.

   Heiðskírt              Úði (súld), lítils háttar           Skúr, lítils háttar
   Léttskýjað       Úði (súld), miðlungs eða mikill    Skúr, miðlungs eða mikil
   Skýjað       Rigning, lítils háttar    Slydduél, lítils háttar
      Alskýjað       Rigning, miðlungs eða mikil    Slydduél, miðlungs eða mikið
      Reykur eða mistur       Slydda, lítils háttar    Snjóél, lítils háttar
      Moldrok eða sandfok       Slydda, miðlungs eða mikil    Snjóél, miðlungs eða mikið
      Skafrenningur       Snjókoma, lítils háttar    Haglél
      Þoka, skyggni minna en 1 km       Snjókoma, miðlungs eða mikil       Þrumuveður

Mistur ef af völdum þurra örsmárra rykagna sem eru ósýnilegar hver fyrir sig, en draga þó úr skyggninu. Mistrið er gulleitt ef það ber við björt ský eða sólina. Moldrok eða sandfok. Mold eða sandur þyrlast upp, svo að dregur úr skyggni. Skafrenningur. Snjór þyrlast upp af völdum vinds. Ýmist er skafrenningur aðeins niðri við jörð, svo að skyggni í mannhæð minnkar ekki, eða hann nær svo hátt að verulega dregur úr skyggni. Þoka er sveimur af örsmáum, nær ósýnilegum vatnsdropum, er dregur svo úr skyggni, að það verður minna en 1 km. Þokan er venjulega ljósleit eða gráhvít. Úði (súld). Droparnir eru af jafnri stærð, minni en regndropar og virðast svífa í loftinu. Rigning. Mörk milli rigningar og úða miðast við dropastærðina 0,5 mm. Slydda er mynduð af regni og/eða úða og snjó, sem fellur samtímis. Snjókoma. Snjóstjörnurnar eru yfirleitt sexstrendar eða sexgreindar, stundum margar saman í stórum flygsum. Riginig eða skúrir. Gerður er verulegur greinarmunur á rigningu, slyddu eða snjókomu annars vegar og skúrum, slydduéljum eða snjóéljum hins vegar. Úrkoman í skúra- og éljaveðri byrjar og endar snögglega, og úrkomumagnið tekur snöggum breytingum. Oft sést í heiðbláan himin milli dökkleitra skýjabólstra eða skúraflóka, sem úrkoman fellur úr. Stundum sést þó ekki til himins milli skúra, og jafnvel getur verið að úrkoman hætti ekki alveg, en nokkuð birtir þó með tiltölulega stuttu millibili. Rigning, slydda og snjókoma koma fyrst og fremst úr regnþykkni, þar sem birtubreytingar eru allar mun hægari. Stundum rignir/snjóar með uppstyttum án þess að um sé að ræða skúrir/él. Hagl. Hálfgagnsæ og hörð, hnöttótt eða óregluleg, stöku sinnum keilulaga, höglin yfirleitt 2-5 mm að þvermáli. Venjulega er hvert þeirra myndað utan um snæhagl sem kjarna, þakið af þunnri skel úr ís. Hagl kemur einungis úr skúraflókum. Þrumuveður. Þrumur og eldingar eru ávallt samfara, en þó getur verið að ekki verði vart við nema annað fyrirbærið í sama skipti, einkum ef þrumuveðrið er fjarlægt. Eldingar koma einungis úr skúraflókum.

Hiti og vindur

Lofthiti er sýndur í °C. Hitadepillinn er rauður ef hiti er yfir frostmarki, en blár ef um frost er að ræða.
Hiti yfir frostmarki, hér er lofthiti +4°C
Hiti undir frostmarki, hér er lofthiti -4°C

Vindur er sýndur með ljósblárri ör. Stefna vindsins er auðkennd með stefnu vindörvarinnar. Meðalvindhraði er gefinn í m/s á stéli örvarinnar.
Austanvindur með meðalvindhraða 5 m/s
Breytileg vindátt, meðalvindhraði 3 m/s
Logn, engin vindátt og vindhraði núll

Uppfærsla

Veðurkort sl. sólarhring eru uppfærð á sjálfvirkan hátt eftir mannaðar veðurathuganir á þriggja tíma fresti. Uppfærsla veðurkorta og vefsíðna er endutekin nokkrum sinnum, því ekki er víst að allar veðurathuganir hafi borist frá veðurathugunarmönnum og séu komnar í gagnagrunn Veðurstofunnar í fyrstu atrennu.

Hönnun veðurkortanna

Kortin voru hönnuð og teiknuð af Þórði Arasyni. Forrit sem uppfæra kortin og vefsíðurnar voru einnig skrifuð af Þórði Arasyni en þar var byggt að verulegu leyti á eldra forriti og hugmyndum frá Gunnari B. Guðmundssyni. Veðurtáknmyndir voru hannaðar og teiknaðar af Ara Þórðarsyni og voru þar m.a. eldri táknmyndir eftir Baldur Ragnarsson og Sigrúnu Gunnarsdóttur höfð til hliðsjónar.

Þórður Arason, Veðurstofu Íslands, 21. október 2004