Greinar
graf með línum og punktum - ártöl og °C
Þróun hitafars í Stykkishólmi og Reykjavík.

Fjórða skýrsla IPCC

Tómas Jóhannesson 8.3.2007

Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (The Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) hefur birt útdrátt úr fyrsta bindi af ástandsskýrslu sinni um loftslagsbreytingar sem kemur út í fjórum bindum síðar á þessu ári. Fyrri skýrslur IPCC komu út 1990, 1995 og 2001.

Íslenska þýðingu á fréttatilkynningu um skýrsluna frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO) og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) frá 2. febrúar 2007 má lesa hér á vefnum (pdf 0,03 Mb).

Útdrátt á ensku úr skýrslunni, fyrir almenning, embættis- og stjórnmálamenn má einnig lesa hér á vefnum (2,2 Mb).

Frekari upplýsingar er hægt að finna á vefsíðu IPCC.

Niðurstöður skýrslunnar eru í öllum meginatriðum í samræmi við niðurstöður þriðju skýrslu IPCC frá 2001 en minni óvissa er um niðurstöðurnar en áður.

Meðal þeirra atriða sem fram koma í hinni nýju skýrslu:

  1. Áhrif gróðurhúsalofttegunda á geislunarbúskap jarðar hafa aukist meira sl. 10 ár en á nokkru öðru 10 ára tímabili a.m.k. síðustu tvær aldirnar.

  2. Taldar eru yfirgnæfandi líkur á því að athafnir manna hafi valdið hlýnandi veðurfari og muni hafa í för með sér frekari hlýnun.

  3. Í skýrslunni leggur IPCC í fyrsta sinn fram „líklegastamat á hlýnun sem leiðir af ákveðinni aukningu í styrk gróðurhúsalofttegunda. Með þessu greinir IPCC á skýrari hátt en í fyrri skýrslum á milli óvissu sem stafar af skorti á þekkingu okkar á eðli lofthjúpsins annars vegar og óvissra spáa um losun mannkyns á gróðurhúsalofttegunum í framtíðinni hins vegar.

  4. Líklegasta“ hlýnun af mannavöldum á þessari öld er talin á bilinu 1,8-4,0°C ef aðeins er tekið tillit til óvissu um losun gróðurhúsalofttegunda, en bilið er 1,1-6,4°C þegar einnig er tekið tillit til óvissu í skilningi okkar á viðbrögðum lofthjúpsins. Hlýnunin er talin verða meiri nærri heimskautunum en við miðbaug og meiri á meginlöndum en á úthöfum.

  5. Breytingar í sólgeislun síðan 1750 eru nú taldar hafa haft helmingi minni áhrif á veðurfar en talið var líklegast í síðustu skýrslu IPCC.

  6. Tekist hefur að samræma túlkun hefðbundinna hitamælinga við yfirborð jarðar og mælinga úr gervihnöttum á hita í neðri lögum lofthjúpsins og eru þær nú báðar í samræmi við kenningar um hlýnum veðurfars af mannavöldum.

  7. Skilningur hefur aukist á áhrifum ryks og annarra agna vegna mengunar af mannavöldum á veðurfar. Þessi áhrif eru talin hafa vegið á móti aukningu gróðurhúsalofttegunda á 20. öld.

  8. Ekki eru taldar líkur á meiriháttar röskun á straumakerfi heimshafanna á þessari öld. Hins vegar er líklegt að eitthvað hægi á djúphafshringrásinni, hinu svokallaða færibandi, á þessari öld.

  9. Vaxandi styrkur koltvísýrings í andrúmslofti veldur því að yfirborðslög sjávar á víðáttumiklum hafsvæðum eru að súrna. Súrnunin kann að hafa áhrif á lífríki hafsins.

  10. Grænlandsjökull rýrnar hraðar en áður var talið líklegast vegna þess að hraði skriðjökla og kelfing þeirra í sjó fram vex hratt þegar leysing eykst.

Þrátt fyrir að hlýnun af mannavöldum hafi þegar haft mikil áhrif á veðurfar og áhrifin verði meiri í framtíðinni, ráðast sveiflur í staðbundnu veðurfari einnig mikið af náttúrulegum breytileika. Á meðfylgjandi mynd er sýnd þróun hitafars í Stykkishólmi og Reykjavík síðan um miðja 19. öld. Þar sést bæði að hlýnað hefur verulega hér á landi síðustu rúma öldina og einnig að nokkurn veginn jafnhlýtt var á fjórða áratug síðustu aldar og nú, um sjötíu árum síðar.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica