Úrkoma á Íslandi frá 1860 - ítarefni
[1]
Helstu vandamál við úrkomumælingar
Margs konar alvarleg vandamál koma við sögu úrkomumælinga. Í grófum dráttum má skipta þeim í tvo eða þrjá meginflokka:
(a) Vandamál tengd sjálfum mælinum
(b) Vandamál tengd veðurlagi
(c) Vandamál tengd mælingamanni og athuganaháttum
Fyrri tvo flokkana mætti í fljótu bragði taka saman í einn en rétt er þó að benda á að mismunandi mælitegundir henta mismunandi veðurlagi, enginn einn mælir hefur enn fundist sem jafnvígur er við allar aðstæður.
Flosi Hrafn Sigurðsson hefur í ritgerð (1990) fjallað um afleiðingar þessara vandamála hérlendis og er vísað til hennar til frekari fróðleiks.
Á árunum 1987 (sumar) til 1993 (vor) var í gangi mikið alþjóðlegt verkefni í Jokioinen í Suður-Finnlandi þar sem fjölmargar gerðir úrkomumæla voru bornar saman með sérstakri áherslu á hæfni þeirra til magnmælinga á snjókomu (úrkomu í „föstu“ formi). Skemmst er frá því að segja að árin sex eru einhver þau snjólausustu sem komið hafa í Finnlandi. Marktækir „atburðir urðu því færri en reiknað hafði verið með en á móti kom að verkefnið var framlengt talsvert umfram það sem upphaflega hafði verið áætlað.
Á íslenskan mælikvarða er Jokioinen sérstaklega hægviðrasamur staður, þar fer vindhraði sjaldan upp í meir en 10 m/s og úrkomuatburðir með meiri vindi eru mjög fátíðir. Niðurstöður mælinganna eru því nokkuð fatlaðar hvað íslenskar vindaðstæður varðar.
Við lok mælinganna í Jokioinen var tekin saman myndarleg skýrsla (Førland og félagar, 1996) þar sem vandamál þau sem telja má í (a)-flokki hér að ofan eru tíunduð nokkuð ítarlega. Sömuleiðis er fjallað um hluta (b)-flokks vandamála, en minna um (c)-flokkinn.
Af öllum þeim mælum sem notaðir voru í samanburðinum virtist sem svokallaður Tretyakov-mælir í Valdai-girðingu næði „bestri mælingu í snjókomu.
Valdai-girðingin er fyrirferðarmikil og það stór að almenn notkun á öllum veðurstöðvum kemur ekki til greina. Þess má geta að önnur girðingin á svæðinu féll í hvassviðri (eða þannig) sem gerði í Jokioinen 1988.
Tretyakov-mælar þóttu koma næstir að „gæðum, en þeir eru upphaflega af rússneskri gerð, kenndir við þekktan rússneskan veðurfræðing sem uppi var á síðari hluta 19. aldar. Gallinn er hins vegar sá að hér er fremur um mælaætt en eina fasta gerð mælitækis að ræða, flestum þykir samt best að vera ekkert að rifja það upp.
Þess skal getið að hérlendis voru í framhaldinu settir upp tveir Tretyakov-mælar, í mælireitunum í Reykjavík og á Hveravöllum, en ekki hefur verið unnið úr niðurstöðum enn sem komið er. Þó virðist ljóst að Tretyakov-mælarnir ná úrkomu heldur betur en þeir íslensku, en hafi aftur á móti þann stóra galla að safna mun meiri snjó í sig í skafrenningi (án úrkomu) heldur en íslensku mælarnir.
Í Finnlandi eru Tretyakov-mælar nú notaðir til reglubundinna mælinga, en í Svíþjóð, Noregi, Íslandi og Danmörk svokallaðir Hellman-mælar og eru norsku og íslensku mælarnir með vindhlíf.
Vindhlífar hafa einnig lengst af á síðari árum verið notaðar á Grænlandi.
Tilraunamælingarnar í Finnlandi sýndu að hlífarmælarnir skiluðu um 70% þeirrar úrkomu sem féll í föstu formi og náðist í Tretyakov í Valdai-girðingu, óvarinn Hellman mælir skilaði hins vegar um 50%. Mun minni munur var þegar úrkoman var í fljótandi formi (regn eða súld), hlífarmælarnir sýndu þá að meðaltali 5% minni úrkomu en girðingar-mælirinn, en þeir óvörðu um 8% minna.
Í rannsókn á samfellu 129 norskra úrkomumæliraða (Førland og Hanssen-Bauer, 1992) kom í ljós að þriðjungur mælinganna þurfti ekki á ósamfelluleiðréttingum að halda og að um 50% þurfti aðeins eina leiðréttingu (færslu).
Helmingur ósamfellutilvika var tengdur flutningi úrkomumælis eða stöðvar, en aðrar algengar ástæður voru breytingar nærri stöðinni (t.d. húsbyggingar og trjávöxtur), sem og uppsetning á vindhlíf.
Leiðréttingar vegna vindhlífar voru oft á bilinu 10 til 30% miðað við ársúrkomusummur. Í um 20% tilvika tókst ekki að finna ástæður samfellubrota.