Veðurstofa íslands

Valmynd.


Hlusta
Íslensk eldfjöll

Saga vitanna við Íslandsstrendur

stytt og endursagt úr
Stórhöfðaviti 100 ára
eftir Guðjón Ármann Eyjólfsson

Ef við reynum að gera okkur í hugarlund aðstæður við siglingar hér við landið um og eftir aldamótin 1900 er þar reginmunur á miðað við nútímann, eitt hundrað árum síðar. Þá voru engin þeirra tækja til sem í dag þykja sjálfsögð um borð í hverju skipi, öll sjókort voru ónákvæm og víðast hvar vantaði allar upplýsingar um grunn og boða, þar eð skipulegar sjómælingar höfðu ekki verið hér að neinu ráði.

Að vetrinum var hér allt í kolsvarta myrkri í skammdeginu, bæir til sveita voru lýstir með grútar- eða lýsislömpum og þéttbýli var ekkert. Einu siglingatækin sem skip höfðu á nokkurra daga siglingu yfir hafið frá meginlandi Evrópu voru kompás, klukka og vegmælir og sextant þegar sá til sólar eða stjarna. Þegar skipin nálguðust landið var notað lóð til að meta dýptina.

Frá Stórhöfða
sól veður í skýjum - dimmt yfir landi og hafi
Ljósmynd: Elvar Ástráðsson.

Því var það mikilvægt að hafa einhvern ákveðinn stað eins og góðan vita, svonefndan landtökuvita, til þess að átta sig þegar skip voru að „taka landið“ eftir nokkurra daga siglingu á úthafinu án þess að hafa séð til lands. Um leið og landið sást var mikilvægt að fá öruggan stað skipsins sem byggði á nákvæmum staðarákvörðunum.

Það sýnir vel þá þörf sem landsmenn höfðu fyrir vita og öruggari siglingar að landinu og umhverfis Ísland, að frumvarp um byggingu vita á Íslandi var lagt fyrir Alþingi árið 1874, fyrsta löggjafarþing eftir að Íslendingar fengu stjórnarskrá og Alþingi fékk löggjafar- og fjárveitingavald.

Fyrsti ljósviti landsins var reistur á Valahnúk á Reykjanesi, alveg fram við sjó, en síðar var hann fluttur ofar í landið. Reykjanesviti var næstu 20 árin eini viti landsins. Það var ekki fyrr en sumarið 1897 að vitar voru byggðir á Garðskaga og Gróttu. Innsiglingarviti var reistur í Reykjavík og litlir leiðarvitar við Ísafjarðardjúp og á Breiðafirði 1902.

Í kjölfar þessa komst mikil hreyfing á vitamál við Íslands strendur. Þegar sjómenn sáu og fundu það hagræði og öryggi sem ljósvitar á ströndum landsins veittu, óskuðu þeir eftir fleiri vitum og skriður komst á málið og í janúar 1901 skrifaði Skipstjórafélagið Aldan í Reykjavík bréf til landshöfðingja þar sem þeir óskuðu sérstaklega eftir vita, helst í Vestmannaeyjum en þar næst á Dyrhólaey.

Nefnd skipuð fjórum sjóliðsforingjum, fyrrverandi skipherrum með langa og mikla reynslu á dönskum varðskipum hér við land, skilaði í mars 1905 merkilegri skýrslu og tillögum um byggingu vita og vitamál á Íslandi. Nefndin lagði mikla áherslu á að vel yrði séð fyrir gæslu vitanna og eftirliti og lauk skýrslunni með þeim orðum að viti sem væri illa gætt væri verri en enginn viti.

Félag þýskra siglingafræðinga tók til umræðu á fundi sínum í febrúar 1906 efni sem nefndist Bygging ljósvita á suðurströnd Íslands. Þar kom fram að a.m.k. 475 erlend fiskiskip hefðu verið á Íslandsmiðum árið 1905 og var þessi fjöldi tekinn sem dæmi um þörfina fyrir að byggja vita á suðurströnd Íslands. Einnig var tíundað að á síðustu 25 árum hefðu 237 skip strandað á suðurströnd Íslands og aðeins einu þeirra hefði verið bjargað; að á þessum skipum hefðu verið 2110 manns og hafi 87 þeirra drukknað, en 8 látist af vosbúð eftir strandið eða á leið til bæja.

Þá þegar hafði, með fjárlögum árið 1905, verið ákveðið að byggja vita á Stórhöfða.

stytt og endursagt úr
Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 2006
56. árgangur, bls. 52-64, Stórhöfðaviti 100 ára
eftir Guðjón Ármann Eyjólfsson


Tengt efni

  • Umhverfisráðuneytið
  • Umhverfisstofnun
  • Landgræðsla ríkisins
  • Landbúnaðarháskóli Íslands
  • Náttúrufræðistofnun Íslands
  • Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn
  • Skógrækt ríkisins
  • Stofnun Vilhjálms Stefánssonar
  • Norska loftrannsóknastofnunin
  • Samningurinn um loftmengun sem berst langar leiðir

vedur.is

  • Forsíða
  • Veður
  • Jarðhræringar
  • Vatnafar
  • Ofanflóð
  • Loftslag
  • Hafís
  • Mengun
  • Um Veðurstofuna

Mengun

  • Mengun
    • Sýnaraðir
    • Brennisteinn
    • Þungmálmar
    • Þrávirk lífræn efni
    • Vistfræði
    • Stórhöfði
      • Mengunarmælingar á Stórhöfða
      • Veðurathuganir á Stórhöfða
      • Vitaverðir á Stórhöfða
      • Saga Stórhöfðavita
      • Saga vitanna við Íslandsstrendur
    • Gróðurhúsalofttegundir
    • Um lofttegundirnar
    • Þolmörk jarðar
  • Geislun
  • Óson
  • Fróðleikur

Reykjanesskagi
gottvedur.is

Leit á vefsvæðinu


Aðrir tengdir vefir

  • English

Samskipti

© Veðurstofa Íslands | Bústaðavegi 7-9 | 105 Reykjavík | Sími 522 6000 | Kennitala 630908-0350
Hafa samband | Starfsfólk | Notkunarskilmálar | Veftré | Spurt og svarað um vefinn | Persónuvernd


Þetta vefsvæði byggir á Eplica