Veðurstofa íslands

Valmynd.


Hlusta
Óson

Mælingar á ósoni

Hér er fjallað um mælingar á heildarmagni ósons, upp í gegnum lofthjúpinn. Einnig um mælingar á ósonlaginu sem umlykur jörðina og eyðingu þess. Að lokum er fjallað um mælingar á ósoni við jörð, sem getur haft áhrif á heilsu manna við innöndun.

Heildarmagn ósons

Dobsontækið prófað í Þýskalandi
uppi á þaki byggingar í Þýskalandi - fólk og tæki
Mynd 1. Ósontæki Veðurstofunnar borið saman við Dobson 64 sem er alþjóðlegt viðmiðunartæki. © Bert Doemling.

Hefðbundnar ósonmælingar hafa verið gerðar af þaki aðalhúss Veðurstofunnar í áratugi, með Dobsontæki sem mælir heildarmagn af ósoni frá mælistað og upp í gegnum lofthjúpinn.

Unnið er úr niðurstöðunum á Umhverfisstofnun Kanada og þær sýndar á kortum af norðurhveli jarðar.

Ósontæki Veðurstofu Íslands, Dobson 50, þykir óvenjugott eintak. Það kom til Reykjavíkur árið 1957 og síðan þá er til nær óslitin mæliröð af ósoni. Það var flutt til Hohenpeissenberg í Þýskalandi og skipt um rafbúnað í því árið 2007.

Línuritið hér undir sýnir nýjustu gögnin. Það birtir þrettán mánuði í einu og uppfærist daglega.

Ósonmælingar í Reykjavík síðastliðið ár ásamt meðalsveiflu áranna 1991-2020
Ósonlagið yfir norðurhveli jarðar í gær
Mynd 3. Ósonlagið yfir norðurhveli jarðar, kort frá Umhverfisstofnun Kanada.

Um eyðingu ósonlagsins

úr Nord 1996:25

Ósonlagið er að finna í heiðhvolfi lofthjúpsins, einkum í 10 til 30 km hæð á okkar breiddargráðum. Þetta lag hlífir lífríki jarðar við útfjólublárri geislun frá sólu.

Klórflúorkolefni, CFC, eru einskonar kolvetni þar sem klór og flúor koma í stað allra vetnisatóma. Að sjálfsögðu hafa þau aldrei verið náttúruleg en verið framleidd til notkunar í varmadælur, kæliskápa, við gerð frauðplasts og sem leysiefni. Þessi framleiðsla margfaldaðist á árunum eftir seinni heimstyrjöldina. Fyrr eða síðar leka efnin út í andrúmsloftið og berast upp í gufuhvolfið þar sem líftími þeirra er áratugir eða aldir.

Stöðugleiki og lífslengd kolvetna eykst þegar vetnisatómum er skipt út fyrir klór. Klórflúorkolefni eru svo stöðug að þau eru ekki eitruð því hvarfgirni þeirra er lítil sem engin og þau hafa vart nokkur áhrif á lifandi vefi.

Hluti þeirra berst upp í heiðhvolfið þar sem efnin sundrast loks í útfjólubláu sólarljósinu en þá fyrst reynast þau skaðleg: Klórinn sem losnar við þetta er svo hvarfgjarn að hann ræðst á ósonsameindir, án þess þó að bindast þeim þannig að sama klórfrumeind getur sundrað tugum þúsunda ósonsameinda.

Þetta veldur þynningu eða jafnvel eyðingu ósonlagsins sem verndar lífríki jarðar fyrir skaðlegum útfjólubláum geislum frá sólu. Í ljós hefur komið að bróm sundrar ósoni í enn ríkara mæli en klór. Styrkur þess í gufuhvolfinu er verulega minni en klórs en notkun þess í eldtefjandi efni og við meindýraeyðingu hefur farið vaxandi.

Lausnin á þessum vanda hefur einkum fólgist í því að framleiða skyld efni þar sem aðeins hluta vetnisfrumeindanna er skipt út fyrir klór eða flúor en þau eru þó ekki skaðlaus með öllu. HCFC inniheldur nokkuð af klór og hefur áhrif á ósonlagið þó vægari séu. HFC inniheldur engan klór og skaðar ekki ósonlagið en flúorefnin í því hindra vissan hluta varmageislunar frá jörðu og það telst til gróðurhúsaáhrifa.

Þess má geta að þau flúorsambönd sem innihalda einnig klór eða bróm (svo sem HCFC) og sundra því ósonlaginu eru ekki talin valda nettó gróðurhúsaáhrifum vegna þess að sú verkun er gagnstæð við áhrif flúorsins. Engu að síður er mælt gegn notkun þeirra því eyðing ósonlagsins getur verið lífverum svo hættuleg.

Heimild:

Heimskautssvæði Norðurlanda - ósnortið, ofnýtt, mengað?

Norræna ráðherranefndin, Kaupmannahöfn, 1996 (Nord 1996:25)
Höfundur meginmáls: Claes Bernes. Þýðendur: Ásta Erlingsdóttir og Erling Erlingsson



Tengt efni

  • Umhverfisráðuneytið
  • Umhverfisstofnun
  • Landgræðsla ríkisins
  • Landbúnaðarháskóli Íslands
  • Náttúrufræðistofnun Íslands
  • Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn
  • Skógrækt ríkisins
  • Stofnun Vilhjálms Stefánssonar
  • Norska loftrannsóknastofnunin
  • Samningurinn um loftmengun sem berst langar leiðir

vedur.is

  • Forsíða
  • Veður
  • Jarðhræringar
  • Vatnafar
  • Ofanflóð
  • Loftslag
  • Hafís
  • Mengun
  • Um Veðurstofuna

Mengun

  • Mengun
  • Geislun
  • Óson
  • Fróðleikur

Reykjanesskagi
gottvedur.is

Leit á vefsvæðinu


Aðrir tengdir vefir

  • English

Samskipti

© Veðurstofa Íslands | Bústaðavegi 7-9 | 105 Reykjavík | Sími 522 6000 | Kennitala 630908-0350
Hafa samband | Starfsfólk | Notkunarskilmálar | Veftré | Spurt og svarað um vefinn | Persónuvernd


Þetta vefsvæði byggir á Eplica