Fréttir
Fundur vísindaráðs Almannavarna 7. desember 2017
Fundinn sátu fulltrúar frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum á Suðurlandi, Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Embætti Sóttvarnarlæknis.
Niðurstöður:
- Á síðustu viku hefur smáskjálftum sem mælst hafa í Öræfajökli fjölgað. Í síðustu viku mældust þar 160 smáskjálftar. Svo margir skjálftar hafa ekki mælst þar fyrr.
- Jarðskjálftarnir eru aðallega dreifðir í og við öskjuna í efstu 10 km jarðskorpunnar.
- Nýjustu mælingar á sigkatlinum í öskju Öræfajökuls sýna að hann heldur áfram að dýpka og stækka í samræmi við viðvarandi aukna jarðhitavirkni og að vatn renni frá katlinum.
- Mælingar í Skaftafellsá, Virkisá, Kotá og Kvíá sýna óverulegar breytingar undanfarnar vikur. Mælingar á leiðni og efnasamsetningu sýna að jarðhitavatn kemur fram í Kvíá.
- Frekari túlkun á mælingum á jarðskorpubreytingum síðustu ára sýnir smávægilegar færslur við suðurjaðar jökulsins.
- Atburðarás og mælingar á svæðinu benda til minniháttar kvikuinnskots á um 2-6 km dýpi undir fjallinu.
Á síðustu vikum hefur vöktun við Öræfajökul verið aukin til muna, bætt hefur verið við vatnamælum, jarðskjálftamælum og síritandi GPS tæki auk nokkurra vefmyndavéla. Rannsóknir á vettvangi hafa verið auknar.
Fundur vísindaráðs Almannavarna 21. nóvember 2017
Vísindaráð almannavarna hittist til þess að ræða mælingar og vöktun vegna Öræfajökuls.
Kynntar
voru niðurstöður úr mælingum á vatnssýnum sem tekin voru um helgina úr
ám sem renna frá Öræfajökli. Þær voru bornar saman við mælingar sem
framkvæmdar voru 1988. Í ljós kom að það vatn sem kemur fram í Kvíá er
blanda bræðslu- og jarðhitavatns. Ekki sjást greinileg merki um
kvikugös í vatninu. Af því má draga þá ályktun að stækkun á sigkatlinum
í Öræfajökli stafi af aukinni jarðhitavirkni.
Aukin
jarðhitavirkni getur stafað af meiri lekt og sprungumyndun í
jarðhitakerfinu samfara jarðskjálftum og/eða auknum hita í
jarðhitakerfinu tengt grunnstæðu kvikuinnskoti.
Vegna illviðris næstu
daga hafa áætlanir um uppsetningar á síritandi mælitækjum riðlast, en
þau verkefni verða kláruð um leið og tækifæri gefst. Fram að því verða
gerðar reglulegar handvirkar mælingar á ám sem renna frá Öræfajökli.
Mikilvægt er að fylgjast áfram vel þróun mála í eldstöðinni.
Stöðufundur á Veðurstofunni um Öræfajökul 18. nóvember 2017
Vísindamenn Jarðvísindastofnunar Háskólana og Veðurstofunnar ásamt fulltrúum almannavarna flugu yfir Öræfajökul í dag. Í kjölfarið, kl18:30-20:30, var haldinn stöðufundur á Veðurstofunni um Öræfajökul.
Farið var á þyrlu Landhelgisgæslunnar og flugvél Isavia auk þess sem vísindamenn voru við árnar og söfnuðu vatni. Gerðar voru mælingar á gasi og rafleiðni vatns í ám, vatnssýnum safnað og yfirborðshæð jökulsins mæld í öskju Öræfajökuls. Sigketilinn sem greint var frá í gær var m.a. mældur og er hann um 1 km í þvermál og 15-20 m djúpur. Vatn úr katlinum rennur í Kvíá og á meðan svo er eru ekki taldar miklar líkur á umtalsverðu jökulhlaupi.
Ljóst er að verulegur jarðhiti er kominn upp í öskju Öræfajökuls en ekki nein merki eru um að eldgos sé að hefjast. Verulegt óvissa er um framhald þeirrar atburðarásar sem nú er í gangi. Fylgjast þarf náið með henni og auka eftirlit og rannsóknir. Á Veðurstofunni er sólarhringsvakt þar sem fylgst er með jarðskjálftum og óróa. Næstu daga þarf að vinna að fullu úr gögnum frá ferðum dagsins.
Óvissustig almannavarna verður áfram í gildi meðan sú vinna fer fram. Litakóði Öræfajökuls vegna flugs verður áfram gulur.
Ketill í Öræfajökli - 17. nóvember 2017
Nýlegar gervihnattamyndir af Öræfajökli sýna að nýr ketill hefur myndast í öskjunni síðastliðna viku. Flugstjóri í farþegaflugi náði einnig ljósmyndum af katlinum í dag og sendi Veðurstofunni. Ketillinn er um 1km í þvermál og endurspeglar nýlega aukningu í jarðhitavirkni í öskju Öræfajökuls.
Svo virðist sem jarðhitavatn hafi lekið hægt undan katlinum og komið fram undan Kvíárjökli, en brennisteinslykt hefur fundist í nágrenni við Kvíá síðastliðna viku. Líklega er mesta vatnið nú þegar runnið undan katlinum. Aukin skjálftavirkni hefur verið síðustu mánuði, en heldur hefur dregið úr henni síðustu daga. Þessi gögn benda til aukinnar virkni í eldstöðinni sem hefur ekki gosið síðan 1727. Engin merki eru um gosóróa eða yfirvofandi eldgos.
Landhelgisgæslan mun fljúga með vísindamenn til að kanna aðstæður og taka sýni í fyrramálið. Veðurstofan hefur aukið vöktun á svæðinu og fylgist vel með í samráði við jarðvísindamenn Háskóla Íslands og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.
Veðurstofa Íslands hefur í kjölfar þessarar auknu virkni hækkað litakóða Öræfajökuls vegna flugs í gu í gulan.

Nýir jarðskjálftamælar við Öræfajökul - 1. nóvember 2017
Skjálftavirkni hefur aukist í Öræfajökli á undanförum mánuðum og hefur Veðurstofan brugðist við með því að efla eftirlit og bæta við mælistöðvum á svæðinu. Í síðustu viku settu starfsmenn Veðurstofunnar upp tvo nýja jarðskjálftamæla við Öræfajökul, við Háöxl (hox), suður af jöklinum, og við Kvísker (kvi), austan megin. Fyrr í mánuðinum tók Veðurstofan í notkun skjálftamæli í eigu bresku jarðfræðistofnunarinnar BGS sem rekur mæli við Falljökul (fal), vestan við Öræfajökul. Jarðskjálftamælirinn, sem var settur upp til að rannsaka jöklaskjálfta, hefur nýst vel við að staðsetja jarðskjálfta í Öræfajökli síðan hann var tekinn í notkun.