Nýlegar rannsóknir

Nýlegar rannsóknir

Hættumat vegna jökulhlaupa samfara eldgosum í Öræfajökli

Forgreining áhættumats vegna jökulhlaupa samfara eldgosum í Öræfajökli var unnið af sérfræðingum á Veðurstofunni, Jarðvísindastofnun Háskólans og Almannavörnum ríkislögreglustjóra og kom út í formi skýrslna á ensku (2015) og íslensku (2016). Tenglarnir hér undir opna kynningarefni, þar sem hægt er að sækja heildartexta eða valda kafla.

 • Skýrsla á ensku
 • Pagneux, E., Gudmundsson, M. T., Karlsdóttir, S., & Roberts, M. J. (Eds.) (2015). Volcanogenic floods in Iceland: An assessment of hazards and risks at Öræfajökull and on the Markarfljót outwash plain. Reykjavík: IMO, IES-UI, NCIP-DCPEM.
 • Íslensk samantekt
 • Magnús Tumi Guðmundsson, Emmanuel Pagneux, Matthew J. Roberts, Ásdís Helgadóttir, Sigrún Karlsdóttir, Eyjólfur Magnússon, Þórdís Högnadóttir, Ágúst Gunnar Gylfason (2016). Jökulhlaup í Öræfum og Markarfljóti vegna eldgosa undir jökli: Forgreining áhættumats. Reykjavík: IMO, IES-UI, NCIP-DCPEM.

Helstu niðurstöður

 • Tvö gos eru þekkt frá því land byggðist, gosið 1727 og stórgosið 1362. Stór jökulhlaup fylgdu báðum gosum og manntjón varð. Sandur lagðist yfir svæði sem áður voru gróin, einkum í fyrra gosinu og áttu hlaupin án efa þátt í að gera Litlahérað óbyggilegt um tíma, þó gjóskufallið hafi sjálfsagt vegið þar þyngst á metunum. Hlaupin sem fylgdu gosinu 1362 eru talin hafa náð rennsli af stærðargráðunni 100.000 rúmmetrar á sekúndu meðan hlaupin sem komu 1727 voru sennilega ekki meira en um helmingur af því í hámarki.
 • Jökulhlaup sem tengjast gosum í Öræfajökli eru talin vera af þremur gerðum. Tveggja fyrstu gerðanna væri einkum að vænta í upphafi gosa:

  a. Hlaup sem verða vegna eldgosa í öskju Öræfajökuls þar sem ís er yfir 500 metra þykkur. Stórhlaup, af stærðargráðunni 100.000 rúmmetrar á sekúndu geta orðið í stórgosum eins og 1362. Jökulhlaupa af þeirri stærðargráðu væri að vænta niður Virkisjökul-Falljökul eða Kvíárjökul auk þess sem eitthvert vatn gæti komið niður Kotárjökul.

  b. Hlaup sem yrðu vegna sprungugosa í jökli þöktum hlíðum Öræfajökuls þar sem ísinn er 50–100 metra þykkur gætu náð hámarksrennsli á bilinu 1.000 – 10.000 rúmmetrar á sekúndu. Slík hlaup geta komið fram víðast hvar á svæðinu frá Virkisjökli austur um að Hrútárjökli.

  c. Hlaup gætu orðið í stórgosum vegna falls gosmakkar sem leiddi til gjóskuflóða, þar sem heit gjóska, 300–600°C, færi eftir yfirborði jökulsins á miklum hraða og bræddi ís og hjarn. Slík gjóskuflóð mynduðust í gosinu 1362. Rennsli gæti verið á bilinu 1.000–20.000 rúmmetrar á sekúndu. Í stórgosi gætu hlaup af þessu tagi komið fram frá Svínafellsjökli í vestri að Hrútárjökli eða Fjallsjökli í austri.

 • Jökulhlaup sem orsakast af eldgosum geta flokkast undir aurflóð og flutt með sér gríðarmikið af gosefnum og ís sem brotnar upp úr skriðjöklum í atganginum.
 • Stærstur hluti láglendis á svæðinu milli Skaftafellsár og Breiðár (340 km2) flokkast undir svæði sem hlaup kynnu að fara yfir, ef til goss kemur. Ósennilegt er að í hverju gosi fari hlaup yfir nema lítinn hluta svæðisins, en mjög fáir staðir geta talist öruggir.
 • Svæði sem hlaup kynnu að fara yfir, ef til goss kemur.

 • Aðdragandi jökulhlaupa vegna eldgosa getur verið mjög skammur og framrásarhraði þeirra mikill. Hlaup gætu náð að þjóðvegi 1 framan við helstu framrásarleiðir á 20–30 mínútum frá upphafi gosa.
 • Reiknaður lágmarkstími (í mínútum) frá upphafi goss í hlíðum jökuls þar til hlaup úr Fall- og Virkisjökli og Kotárjökli nær að þjóðvegi og áfram niður eftir (tímar eru sýndir sem hvítar jafntímalínur en við þjóðveginn sem hvítir punktar).

 • Jökulhlaup vegna eldgosa í Öræfajökli geta valdið fullkominni eyðingu mannvirkja og gróðurlendis þar sem þau fara yfir. Möguleg áhrif slíkra hlaupa á innviði og efnahag svæðisins gætu því orðið mikil.
 • Full rýming Öræfasveitar milli Skaftafellsár og Fjallsár tekur að lágmarki 35–40 mínútur.
Aðrir tengdir vefirEkkert skjal tengt
Þetta vefsvæði byggir á Eplica