Fréttir
Ljósmynd tekin um 22:40, um klukkustund eftir að eldgos hófst. Gossprungan var þá orðin um 4 km löng. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Eldgosinu norðan við Stóra-Skógfell er lokið

Uppfært hættumat.

6.9.2024

Uppfært 6. september kl. 16:00

  • Engin sjáanleg virkni í gígunum síðan í gærkvöldi
  • Landris er hafið að nýju í Svartsengi
  • Eldgosið stóð yfir í um 14 daga
  • Hættumat uppfært

Í ljósi þess að eldgosið sem hófst 22. ágúst er lokið, hefur hættumat verið uppfært og gildir að öllu óbreyttu til 10. september. Helstu breytingar eru að svæði 3, þar sem upptök eldgossins voru, hefur verið fært niður í mikil hætta (rautt), sem er vegna þess að hætta á gosopnun, gasmengun og gjósku er talin minni. Einnig hefur hætta á svæði 6 farið niður í töluverð (appelsínugul) vegna þess að hætta á gasmengun er talin minni. Hætta er metin „lítil“ eða „mjög lítil“ á svæði 1 (Svartsengi).

Haettusvaedi_VI_6sept_2024

Landris er hafið að nýju í Svartsengi sem þýðir að kvika er byrjuð að safnast aftur í kvikuhólfið. Áfram verður fylgst með hraða kvikusöfnunarinnar, en samkvæmt fyrstu líkanreikningum bendir til að hann sé svipaður og áður.

Kvikuholf05072024

Mynd sýnir „lokað” kerfi, það er þegar ekki er opið fyrir hraunflæði á yfirborði og kvikan streymir frá dýpi (rauð ör) í kvikuhólf undir Svartsengi á 4-5 km dýpi (appelsínugult svæði) sem veldur auknum þrýstingi í umhverfinu og að lokum mælanlegri aflögun á yfirborði.

Uppfært 6. september kl. 9:30

  • Engin sjáanleg virkni í gígum í um hálfan sólarhring
  • Síðustu merki um gosóróa sáust síðdegis í gær
  • Eldgosið stóð yfir í um 14 daga
  • Landris er hafið að nýju í Svartsengi
  • Hættumat verður uppfært síðar í dag

Eldgosinu norðan við Stóra-Skógfell er lokið. Gosið stóð yfir í um 14 daga.

Þetta var þriðja lengsta eldgosið af þeim sex sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni frá því í desember 2023. Gosið sem hófst um miðjan mars stóð í um 54 daga og eldgosið sem hófst í lok maí stóð yfir í um 24 daga.

TveirGigar_05092024_2

Mynd tekin um kl. 19 í gær, 5. september af gígunum tveimur. Engin virkni er sjáanlega. En á hitamynd hér fyrir neðan sést að ennþá er mikill hiti í hraunbreiðunni og hún lífshættuleg yfirferðar. (Ljósmyndir: Almannavarnir/Björn Oddsson)

TveirGigar_Hitamyndavel_05092024

Út frá líkanreikningum er ljóst að aldrei hefur jafn mikið magn kviku komið upp á yfirborðið frá því að jarðhræringarnar hófust haustið 2023. Ekki hefur tekist að mæla umfang hraunbreiðunnar vegna veðurs og því liggja endanlegar tölur um rúmmál kviku ekki fyrir.

Landris mælist í Svartsengi og er kvika því farin að streyma inn í kvikuhólfið að nýju. Of snemmt er að fullyrða um hraða kvikusöfnunarinnar, en fyrstu líkanreikningar benda til þess að hann sé svipaður og áður.

Oroagraf

Óróagraf sem frá mæli staðsettum rétt norðan Fagradalsfjalls (fad). Mælirinn er nýr jarðskjálftamælir VÍ sem settur var upp þann 29. ágúst. Á grænu og bláu línunum sést að gosórói fellur á milli kl. 15:00 og 17:00 í gær, 5. september. 

Hættumat verður uppfært síðar í dag.


Uppfært 5. september kl. 13:40

Virknin í eldgosinu heldur áfram að minnka síðustu daga. En áfram virðast þó tvö gosop vera virk. Hraunbreiðan norðan við gosopin heldur áfram að stækka á hægum hraða til norðurs og þykknar einnig á sama tíma. Að svo stöddu ógnar hraunflæði ekki innviðum í nágrenni gosstöðvanna. Mælingar á gosóróa og gasútstreymi frá eldgosinu benda einnig til þess að dregið hafi nokkuð úr gosinu síðustu daga.

Hraunbreida_05092024

Kort sem sýnir virka hluta hraunbreiðunnar sem hefur myndast í þessu eldgosi. Kortið er byggt á gögnum úr Iceye gervitunglinu.

GPS mælingar sýna vísbendingar um að landris sé hafið á ný í Svartsengi. Á sama tíma hefur dregið úr flæði frá eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni. Það bendir til þess að innflæði í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé meira en flæði úr eldgosinu á yfirborðinu. Þróunin er svipuð og eftir að síðasta gos hófst þann 29. maí. Þá byrjaði landris í Svartsengi að verða greinanlegt um tveimur vikum eftir að gosið hófst.

Mogi_05092024_is

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Græna línan sýnir þróun kvikusöfnunar á milli síðustu tveggja eldgosa. Rauða línan sýnir þróun kvikusöfnunar eftir að yfirstandandi eldgos hófst sem sýnir mjög svipaðan feril og sú græna.

Veðurspáin fyrir daginn (fimmtudag) er suðvestlæg átt á gosstöðvunum, 13-20 m/s og dálítil rigning eða þokusúld framan af degi, en síðan 10-15 m/s. Mengun frá eldgosinu berst til norðurs og norðausturs og gæti hennar orðið vart á Vatnsleysu og á höfuðborgarsvæðinu.

Hægt hefur á skjálftavirkni síðan að eldgosið hófst, 22. ágúst. Síðustu daga hefur dregið enn frekar úr virkninni og mjög lítil skjálftavirkni mælst síðustu daga. Hvassviðri gæti þó haft einhver áhrif á næmni jarðskjálftakerfisins til að nema allra minnstu skjálftana.

Hættumat er að mestu óbreytt nema að hætta vegna gjósku er metin minni núna. Kortið gildir að öllu óbreyttu til 10. september.

Haettusvaedi_VI_5sept_2024

(Smellið á kortið til að stækka)

Uppfært 3. september kl. 15:15

Veðurstofan hefur uppfært hættumat sitt út frá þróun eldgossins og gildir það að öllu óbreyttu til 5. september. Helstu breytingar eru að svæði 5 fer úr mikilli hættu (rauð) í töluverða hættu (appelsínugul). Ástæðan fyrir því er að ekki er talin vera eins mikil hætta vegna gjósku. Hætta á gasmengun er metin út frá veðurspá næstu daga fyrir hvert svæði.

Önnur breyting á kortinu er að svæði 3, 5 og 6 hafa verið stækkuð um 2 km til norðausturs. Þessi breyting er gerð af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að hraunbreiðan sem hefur myndast í þessu gosi hefur náð út fyrir fyrri mörk svæðanna. Í öðru lagi til að taka tillit til þess að kvikugangurinn sem myndaðist þann 22. ágúst náði lengra til norðausturs en svæði 3 gerði áður.

Haettusvaedi_VI_3sept_2024

(Smellið á kortið til að stækka)

Spá veðurvaktar umgasdreifingu er norðvestlæg átt á gosstöðvunum í dag og mun loftmengun berast til suðausturs. Suðlæg átt er á morgun (miðvikudag), loftmengun berst til norðurs og gæti orðið vart á norðanverðu Reykjanesi.


Uppfært 3. september kl. 11:50

  • Innstreymi í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi er líklega jafnt útstreymi úr eldgosinu
  • Tvö gosop virk norðarlega á gossprungunni
  • Dregið hefur úr skjálftavirkni síðustu daga
  • Hættumat verður uppfært síðar í dag

Síðustu daga hefur hvorki mælst landris né landsig í Svartsengi. Það bendir til þess að innstreymi í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé sambærilegt við flæðið úr eldgosinu.

Til þess að fullyrða að landris sé hafið á ný þarf að horfa á þróun mælinga í nokkra daga. Það er vegna þess að breytingar á milli daga geta orðið vegna ýmissa áhrifa, t.d. rakainnihald í lofthjúp eða sólstorma.

 Kvikustreymi_1

Myndin hér að ofan sýnir aðstæður þar sem jafnvægi er á innstreymi kviku í kvikuhólfið og flæði úr eldgosi.  

SENG-plate-90d03092024

Færslur á GPS stöðinni SENG í Svartsengi síðan í lok júní 2024 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir lóðrétta hreyfingu í millimetrum. Rauða línan markar upphaf síðasta eldgoss, sem hófst 22. ágúst.

Tvö gosop er nú virk í eldgosinu sem hófst þann 22. ágúst. Þó nokkuð hefur dregið úr krafti eldgossins síðustu daga. Hraunbreiðan norðan við gosopin heldur áfram að stækka en dregið hefur verulega úr útbreiðsluhraðanum. Að svo stöddu ógnar hraunflæði ekki innviðum í nágrenni gosstöðvanna. Meðfylgjandi kort sem byggt er á Iceye gervitunglagögnum sýnir þróun hraunbreiðunnar frá 26. ágúst til 1. september.

Hraunflaedi03092024

Kort sem sýnir virka hluta hraunbreiðunnar sem hefur myndast í þessu eldgosi. Kortið er byggt á gögnum úr Iceye gervitunglinu.

Töluvert hefur dregið úr jarðskjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina síðustu daga. Þeir smáskjálftar sem mælast eru flestir norðarlega á gossprungunni sem var virk í upphafi þessa goss.

Uppfært hættumat verður birt síðar í dag.


Uppfært 29. ágúst kl. 16:50

  • Síðustu sólahringa hefur virknin í eldgosinu haldist nokkuð stöðug
  • Hraun flæðir að mestu til norðvesturs en einnig til austurs
  • Landsig mælist enn í Svartsengi. Kvikuhólfið er að tæmast hraðar en flæðir inn í það
  • Meiri skjálftavirkni eftir gos en í fyrri gosum. Um 20 skjálftar síðasta sólahring
  • Gasdreifingarspá í dag er norðvestan átt og fer gasmengun í suðaustur
  • Hættumat uppfært


Áfram gýs á svæðinu norðaustan við Stóra-Skógfell. Síðustu sólahringa hefur virknin haldist nokkuð stöðug. Það eru tveir meginstrókar virkir sem eru nokkuð kröftugir að sjá. Hraun heldur áfram að flæða að mestu til norðvesturs en einnig til austurs. Megin straumurinn er til norðvesturs en framrás hans er mjög hæg.

Output

Hér sjáum við þróun hraunsins út frá ICEye gervitunglamyndum á tímabilinu frá 26. ágúst kl 22:17 til 28. ágúst kl 23:23.

Meiri jarðskjálftavirkni er að mælast eftir að gos hófst 22. ágúst en í fyrri gosum á svæðinu. Ástæðan fyrir því er líklega að nú gýs norðar og þar eigi eftir að losa meiri spennu en sunnar þar sem hefur gosið áður. Um 20 skjálftar mældust í kvikuganginum síðasta sólarhring og 110 skjálftar síðan á mánudag, 26. ágúst. Að mestu bundið við virka gossvæðið.

Ennþá er að mælast landsig í Svartsengi, en það hægir á því. Þetta er mjög svipuð þróun og í síðasta gosi. Kvikuhólfið er því enn að tæmast hraðar en flæðir inn í það.

28082024_likan

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023.

Gasdreifingarspá í dag, fimmtudaginn 29. ágúst, er norðvestan 3-8 m/s og fer gasmengun í suðaustur. Snýst í vestan- og suðvestanátt í kvöld og þá blæs gasinu í austur og norðaustur yfir suðvestanvert landið. Á morgun er sunnan 10-15 (föstudag) og mengunin berst norður yfir Voga á Vatnsleysuströnd. Upplýsingar um loftgæði er að finna á vef Umhverfisstofnunar.

Hættumat uppfært

Hættumat hefur verið uppfært og gildir að öllu óbreyttu til 3. september. Helstu breytingarnar eru á Svæði 1 sem fer úr töluverðri (appelsínugul) hættu í nokkur (gul) hætta. Breytingin er gerð með tilliti til minni hættu vegna hraunflæði, gasmengunar og gjóskufalls. Minni gasmengun hefur einnig áhrif á Svæði 4 (Grindavík) og 7 samkvæmt gasdreifingarspá næstu daga. Svæðið innan brotalínunnar á Svæði 5 táknar líklega þróun hraunsins eftir nokkra daga.

Haettusvaedi_VI_29agust_2024

(Smellið á kortið til sjá það stærra)


Uppfært 26. ágúst kl. 14:45

  • Áfram gýs á svæðinu norðaustan við Stóra-Skógfell

  • Í upphafi eldgoss er áætlað að hraunflæði hafi verið um 1.500-2000 m3/s. Nú er það nokkrir tugir rúmmetra á sekúndu

  • Land seig um 40 cm þegar kvika hljóp úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina að kvöldi 22. ágúst

  • Allar mælingar benda til að þetta eldgos sé það stærsta frá því haustið 2023

  • Flatarmál hraunbreiðunnar orðið 15,1 km

  • Samkvæmt gasdreifingarspá verður mengun frá gosinu og gróðureldum m.a. í Svartsengi, Reykjanesbæ og Vogum.

  • Hættumat uppfært.

Allar mælingar sýna að þetta eldgos sé það stærsta á svæðinu frá því að jarðhræringarnar hófust haustið 2023. Það eru mælingar sem hafa verið gerðar á hraunbreiðunni hingað til og líkanreikningar sem áætla magn kviku sem fór úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina þegar eldgos hófst.

Áfram gýs á svæðinu norðaustan við Stóra-Skógfell. Síðasta sólahring hefur virknin einangrað sig nokkuð á einu svæði norðarlega á gossprungunni sem opnaðist að kvöldi 22. ágúst.

Hraunið flæðir nú að mestu til norðvesturs í tveimur megin straumum og hefur hægt verulega á framrás þess.

Hraunflaedi_26082024

Meðfylgjandi kort sýnir útbreiðslu hraunsins eins og hún var kl. 22:31 í gærkvöldi 25. ágúst. Þá var flatarmál hraunsins orðið 15,1 km2. Kortið er byggt á gögnum frá Iceye gervitunglinu.

Gera má ráð fyrir því að nú sé hraunflæði frá eldgosinu nokkrir tugir rúmmetra á sekúndu. Nákvæmar mælingar hafa ekki enn verið gerðar á því en matið er byggt á samanburði við fyrri eldgos á svæðinu og sjónrænt mat á virkni í gígunum. Í upphafi eldgossins er áætlað að hraunflæði hafi verið um 1.500 - 2000 m3/s, því er virknin í dag einungis brot af því sem hún var í upphafi.  

Þegar kvika hljóp úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina á fimmtudagskvöld seig land þar mest um 40 cm. Það er næstum tvöfalt meira en sigið sem mældist 29. maí í síðasta eldgosi sem passar vel við að þetta sé stærsti atburðurinn. Sigið heldur áfram en fer minnkandi dag frá degi. Ef gert er ráð fyrir því að kvikuflæði á laugardag hafi verið komið niður í 100 m3/s þá bendir minnkandi hraði á siginu til að nú sé flæðið komið niður í u.þ.b ¼ af því sem það var þá. Líkanreikningar benda til að 17-27 milljón rúmmetrar af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu í Svartsengi frá því að eldgosið hófst.

GPS__26082024

Færslur á GPS stöðinni HS02 við Svartsengi síðan í lok júní 2024 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu eldgosa, sem hófust 28. maí og 22. ágúst.

Ekki verður hægt að fullyrða um  áframhaldandi kvikuflæði inn í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi fyrr en landris fer að sjást aftur. Það gæti byrjað að sjást eftir að hraunflæði í eldgosinu verður komið niður fyrir 4 m3/s sem er sambærilegt við innflæðið undir Svartsengi eins og það hefur verið áætlað til þessa.

Jarðskjálftavirkni er áfram lítil á svæðinu og þá aðallega við nyrstu sprunguna síðasta sólahring, en einn skjálfti M 3,4 að stærð varð nærri Kleifarvatni rétt fyrir miðnætti í nótt.

Samkvæmt veðurspá er hæg austlæg eða breytileg átt á gosstöðvunum í dag. Mengun frá gosinu og gróðureldum dreifist væntanlega um Reykjanesskaga, hennar gæti orðið vart um tíma m.a. í Svartsengi, Reykjanesbæ og Vogum. Í nótt verður suðaustan og austan 5-13 m/s og mun gasið þá berast til norðvesturs og vesturs, yfir Reykjanesbæ. Hægari norðlæg eða breytileg átt eftir hádegi á morgun og þá gæti gasmengunar orðið vart í Grindavík.

Hættumat uppfært

Veðurstofa Íslandshefur gefið út uppfært hættumat sem gildir til 29. ágúst, að öllu óbreyttu. Miðað við þróun gossins undanfarna daga og gasspá hefur hættumatið tekið nokkrum breytingum. Helsta breytingin er á Svæði 1 (Svartsengi) sem færist úr mikilli hættu (rauð) í töluverða hættu (appelsínugul). Talið er að minni hætta sé vegna hraunflæðis en meiri líkur á gasmengun og gjóskufalli. Svæði 7 færist úr talsverði hættu (appelsínugul) í nokkra hættu (gul), það er vegna þess að minni líkur eru á hraunrennsli og gasmengunar á svæðinu. Hin svæðin eru óbreytt, hins vegar er metin meiri hætta vegna hugsanlegs gjóskufalls á Svæði 5.

Haettusvaedi_VI_26agust_2024_2

(Smellið á kortið til að stækka)

Uppfært 25. ágúst kl. 8:50

  • Virkni eldgossins stöðug

  • Ennþá gýs á tveimur stöðum

  • Gígbarmar farnir að hlaðast upp

  • Lítil skjálftavirkni á svæðinu

  • Mikilvægt að fylgjast með gasdreifingarspá

Virkni eldgossins hefur verið nokkuð stöðug í nótt. Ennþá gýs á tveimur stöðum norðaustan við Stóra-Skógfell. Af vefmyndavélum að dæma eru gígbarmar farnir að hlaðast upp.

Hraun flæðir að mestu til norðurs en einnig er örlítill hraunstraumur til vesturs. Framrás hraunsins er hæg. Sú hrauntunga sem rann upphaflega til vesturs í átt að Grindavíkurvegi milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells virðist byrjuð að kólna og engin hreyfing þar sjáanleg á vefmyndavélum.

Skjálftavirkni er heilt yfir lítil á svæðinu og aðallega bundin við þann hluta svæðis þar sem gýs. Einn skjálfti M2.2 var við gosstöðvarnar um klukkan tvö í nótt.

Við minnum á spá veðurvaktar um gasdreifingu frá gosstöðvunum

Vefmyndavel_Fagradalsfjall_25082024_0455

Skjáskot úr eftirlitsmyndavél Almannavarna á Fagradalsfjalli sem sýnir virknina um klukkan fimm í morgun.


Uppfært 24. ágúst kl. 9:30

  • Eldgosið virðist hafa náð jafnvægi í gærkvöldi

  • Virknin er öll norðan við Stóra-Skógfell

  • Engin skjálftavirkni mælist syðst, nálægt Hagafelli eða Grindavík.

  • Gasmengun mun berast til suðurs

Eldgosið virðist hafa náð jafnvægi í gærkvöldi og hefur virknin verð nokkuð stöðug í alla nótt. Hún er öll norðan við Stóra Skógfell.

Virknin er bundin tvö staði á nyrðri sprungunni sem opnaðist í fyrrinótt. Myndarlegir kvikustrókar eru enn sjáanlegir en miðað við sjónmat þá virðast strókarnir hafa minnkað frá því í gærkvöldi.

Hraunið flæðir að mestu til norðvesturs og virðist ekki fara hratt. Hraunflæði í átt að Grindavíkurvegi virðist hafa stöðvast.

Jarðskjálftavirkni mjög lítil, einstaka skjálftar hafa mælst norður af Stóra-Skógfelli og við Fagradalsfjall. Engin virkni mælist syðst, nálægt Hagafelli eða Grindavík.

Áfram er spáð norðanátt og gerir spá veðurvaktar um gasmengun að hún muni berast til suðurs yfir Grindavík.

Vefmyndavel_Fagradalsfjall_24082024_0548

Skjáskot úr eftirlitsmyndavél Almannavarna á Fagradalsfjalli sem horfir til norðvesturs.


Uppfært 23. ágúst kl. 15:00

Hægt hefur á skjálftavirkni og aflögun á gosstöðvunum. Virknin það sem af er degi hefur verið bundin við svæðið norður af Stóra-Skógfelli.

Samkvæmt upplýsingum úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar nú upp úr hádegi er megin virknin bundin við tvö svæði á norðan við Stóra-Skógfell.

Gossprungur_23082024_1330

Mynd úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar sem tekin var í flugi rétt upp úr hádegi í dag og horfir yfir nyrsta hluta gossprungunnar. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Mjög lítil virkni er á sprungunni sem opnaðist í upphafi goss. Einungi virðist gjósa á litlum kafla beint austur af Stóra-Skógfelli. Virðist virknin vera að dragast saman á afmarkaðri svæðum, líkt og sést hefur í fyrri gosum. Hrauntungan sem nálgaðist Grindavíkurveg í upphafi goss hefur því nánast stöðvast.

Hraunbreidan_23082024_1330

Ljósmynd úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar í morgun. Horft til suðurs. Þorbjörn og Svartsengi sjást í fjarska hægra megin á myndinni. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Megnið af hraunflæðinu hefur verið til norðvesturs eins og sést á ljósmyndinni hér að ofan og á yfirlitskortinu sem birt var fyrir hádegi í færslu hér fyrir neðan.

Talsvert er um gróðurelda vegna hraunflæðis. Mengun vegna þessa sem og gasmengun berst í suður. Sjá nánar gasdreifingarspá veðurvaktar næstu daga.

Hættumat uppfært

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat í ljósi nýjustu gagna. Þar er meðal annars tekið tillit til þess að engin skjálftavirkni eða aflögun hefur mælst suður af Stóra-Skógfelli. Einnig er tekið tillit til þess að ekkert hraunflæði er til suðurs. Því er helsta breytingin frá síðasta hættumati sú að hættustig fyrir svæði 4 – Grindavík – hefur verið fært niður úr rauðu í appelsínugult.

Hættumatið gildir til kl. 15, mánudaginn 26. ágúst, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_23agust_2024_1500


Uppfært 23. ágúst kl. 11:45

Í upphafi gossins opnaðist gossprungan á milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks líkt og í síðustu eldgosum. Fyrstu klukkustundir gossins lengdist sprungan stöðugt í norðaustur frá Stóra-Skógfelli þar til á milli kl. 5 og 6 í morgun. Á sama tíma og gosvirknin færðist norðaustur þá dró úr virkninni á suðurhlutanum og gýs nú á sprungu á svæðinu frá Stóra-Skógfelli og þaðan til norðaustur í um 2-3 km. Gossprungan sem nú er virk nær nokkuð norðar heldur en í þeim eldgosum sem hafa orðið síðan í desember 2023 á þessu svæði.       

Þegar virkni á gossprungunni færðist norðar hægði á hraunflæði í átt að Grindavíkurvegi norðan Svartsengis. Meginstraumur hraunflæðis er því til norðvesturs norðan Stóra-Skógfells. 

Hraunbreidan23082024

Kort sem sýnir útbreiðslu hraunsins (skástrikað svæði) sem hefur myndast í þessu gosi og staðsetningu gossprungunnar (rauð lína) eins og hún var kl. 03:39 í nótt. Einnig eru sýndar þær hraunbreiður sem hafa myndast á svæðinu frá desember 2023 (Fjólubláar þekjur). Kortið er byggt á gögnum úr IcEYE gervitungli.

Samhliða því að gossprungan lengdist mældist töluverð skjálftavirkni og aflögun í kringum gossprunguna.  Eftir klukkan 4 í morgun dró verulega úr skjálftavirkni og hægðist sömuleiðis á aflögun, sem passar vel við þróun gossprungunnar. Þrátt fyrir að dregið hafi úr hraða aflögunar mælist hún þó enn.  

Kortjardskjalftar23082024

Til vinstri er kort sem sýnir yfirlit yfir þróun og staðsetningu jarðskjálfta í kringum Sundhnúksgígaröðina síðan kl. 20:00 í gærkvöldi til kl. 11:00 í dag. Til hægri er súlurit sem sýnir fjölda skjálfta sem mældust á hverri klukkustund.

Í dag og á á morgun er norðan og norðvestanátt á gosstöðvunum. Gasmengun frá eldgosinu mun því berast til suðurs og suðausturs. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá á vefnumokkar.


Uppfært 23. ágúst kl. 9:35

Dregið hefur nokkuð úr virkni eldgossins frá því sem mest var í gærkvöldi.

Virknin er nú að mestu bundin við norðurenda gossprungunnar sem opnaðist fyrst og á gossprungunni sem opnaðist í nótt norður af upphaflegu sprungunni.

Skjálftavirknin minnkað hratt upp úr klukkan 4 í nótt. Áfram mælist þó gliðnun norður af Stóra-Skógfelli. Það bendir til þess að gosið er ekki búið að ná jafnvægi.

Gossprungan sem opnaðist norður af þeirri fyrstu virðist hafa lengst um 2 km milli klukkan 4 og 8 í morgun.

Hraunflæði í átt að Grindavíkurvegi hefur að mestu stöðvast og eins og staðan er núna eru engir innviðir í hættu.

Ekkert í gögnum bendir til þess að virknin komi til með að færast í suður í átt að Grindavík.

Samkvæmt vefmyndavélum virðist engin virkni vera suður af Stóra-Skógfelli.

Verið er að rýna nýjustu gögn til að meta betur mögulega þróun atburðarrásarinnar.



Uppfært 23. ágúst, kl. 01:00

Lengd gossprungunnar hefur haldist óbreytt síðustu klukkustundina.

Skjálftavirknin helst nú nokkuð jöfn og er mesta virknin við norðurenda gossprungunnar. Því er ólíklegt að gossprungan komi til með lengjast til suðurs. Ekki er hægt að útiloka að gossprungan geti lengst til norðurs.

Hraunrennsli er áfram til austurs og til vesturs í átt að Grindavíkurvegi. Ekkert hraunrennsli er til suðurs í átt að Grindavík.

Landhelgisgæslan mun fara í annað eftirlitsflug síðar í nótt.

Næsta uppfærsla á vefnum verður með morgninum. Sólarhringsvakt Veðurstofunnar mun birta færslur á Facebook síðar í nótt með nýjar upplýsingar af virkninni.

Veðurstofan hefur uppfært hættumat sem gildir til kl. 15 í dag, föstudaginn 23. ágúst.

Haettusvaedi_23082024
Rauða strikið innan hættusvæðis 3 táknar núverandi gossprungu.

Uppfært kl. 23:25

Við minnum á spá veðurvaktar um gasdreifingu.

Norðan og norðvestanátt á gossvæðinu á morgun. Gasmengun berst til suðurs og suðausturs.

Uppfært kl. 22:54

Gossprungan núna nær jafnt langt í norður og gossprungan náði sem opnaðist í eldgosinu í desember á síðasta ári.

Uppfært kl. 22:45

Áfram er talsverð skjálftavirkni við norðurenda gossprungunnar.

Klukkan 22:37 mældist skjálfti að stærð 4. Upptök skjálftans voru um 3 km norðaustur af Stóra-Skógsfelli.

Hraunrennsli er til austurs og vesturs. Ekkert hraunrennsli er í átt að Grindavík.

Uppfært kl. 22:30

Gossprungan hefur lengst til norðurs.

Heildarlengd sprungunnar er núna um 3.9 km og hefur því lengst um 1.5 km á um 40 mínútum.

Gossprungan_2228

Uppfært kl. 22:15

Myndaröð úr vefmyndavél á Stóra-Skógfelli.

Hún sýnir þróun hraunbreiðunnar á 10 mín fresti frá kl. 21:30 til 21:50.

Út frá þessum myndum hefur hraunbreiðan ferðast um 1 km á 10 mínútum.

Hreyfing_Webcam_2130

Uppfært kl. 22:00

Fyrstu myndir af eldgosinu úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar.

Gossprungan virðist stækka meira til norðurs en suðurs.

Lengd gossprungunnar er áætluð núna um 1.4 km.

Midill--16-

Gossprungan kl. 22:00. Horft til suðausturs. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Uppfært kl. 21:58

Gossprungan stækkaði til að byrja með bæði til norðurs og suðurs.

Á þessum tímapunkti sést engin skjálftavirkni til suðurs eftir kvikuganginum. Mesta skjálftavirknin er til norðurs sem bendir til þess að kvikan sé að brjóta sér leið í norður frekar en til suðurs.

Image--27-

Uppfært kl. 21:26

Eldgos er hafið.

Upptökin eru austan við Sýlingarfell.

Gosmökkur liggur til hásuðurs og var um 21:30 í innan við kílómetershæð.


Uppfært 22. ágúst kl. 21:25

Klukkan 20:48 hófst áköf smáskjálftahrina á Sundhnúksgígaröðinni milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells.

Einnig hefur mælst aukinn þrýstingur í borholum. 

Þetta eru skýr merki um að kvikuhlaup sé hafið og líklegt að eldgos hefjist í kjölfarið.



Uppfært 20. ágúst kl. 13:15

  • Skjálftavirkni vex dag frá degi
  • Tveir skjálftar yfir 2 að stærð mældust í nótt
  • Skýr merki um að þrýstingur er að aukast á svæðinu
  • Þróun í kvikusöfnun og landrisi hefur verið óbreytt síðustu daga
  • Magn kviku undir Svartsengi meira en fyrir síðustu atburði
  • Hættumat og sviðsmyndir óbreyttar

Skjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina sýnir áfram sömu merki og sáust dagana fyrir eldgosið sem hófst 29. maí. Tveir skjálftar yfir 2 að stærð mældust í nótt og hafa alls sex skjálftar yfir tveimur mælst síðustu viku.

Skjálftavirknin er merki þess að þrýstingur heldur áfram að vaxa á svæðinu vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi.

Þróun í kvikusöfnun og landrisi hefur verið óbreytt síðustu daga. Líkanreikningar sýna að heildarrúmmál kviku undir Svartsengi er nú meira en það hefur verið fyrir síðustu atburði.

Áfram eru því taldar miklar líkur á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni hvenær sem er.

Hættumat og sviðsmyndir eru áfram óbreyttar.

Graf_Merking_Landscape_IS_20082024

Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá 25. október. Heildarrúmmál kviku undir Svartsengi er nú meira en það hefur verið fyrir síðustu atburði


Uppfært 19. ágúst kl. 10:00

  • Aukning í skjálftavirkni á kvikuganginum um helgina
  • Um 110 skjálftar mældust í gær, í síðustu viku voru þeir um 60-90 á sólarhring
  • Meira en 50 skjálftar frá miðnætti
  • Skjálftavirkni svipar mjög til virkninnar dagana fyrir síðasta eldgos
  • Landris og kvikusöfnun á svipuðum hraða síðustu daga
  • Rúmmál kviku undir Svartsengi áætlað meira en fyrir síðasta eldgos 29. maí

Undanfarna daga hefur verið aukning dag frá degi í fjölda skjálfta í kringum Sundhnúksgígaröðina. Um 110 skjálftar mældust í gær, 18. ágúst, en í síðustu viku voru þeir um 60 til 90 á sólarhring. Meira en 50 skjálftar hafa mælst frá miðnætti í dag.

Flestir skjálftanna sem mælast eru undir 1,0 að stærð en um helgina mældust þó tveir skjálftar yfir 2,0 að stærð. Annar þeirra var skammt austan við Sýlingarfell og hinn á milli Hagafells og Sýlingarfells. Sá síðarnefndi var 2,5 að stærð og er það stærsti skjálftinn sem hefur mælst á svæðinu frá því að síðasta eldgosi lauk.

Skjálftavirknin nú svipar mjög til skjálftavirkninnar dagana fyrir eldgosið sem hófst 29. maí.

Áfram er því líklegt að dragi til tíðinda á Sundhnúksgígaröðinni með kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.


Uppfært 16. ágúst kl. 14:00

  • Landris og kvikusöfnun á svipuðum hraða síðustu daga
  • Rúmmál kviku undir Svartsengi áætlað meira en fyrir síðasta eldgos 29. maí
  • Skjálftavirkni stöðug og hafa um 60-90 skjálftar mælst á sólarhring
  • Hægt er að sjá hættumat hér, gildir til 20. ágúst að öllu óbreyttu

Jarðskjálftavirkni hefur verið nokkuð stöðug síðustu daga og hafa um 60 til 90 skjálftar mælst á sólarhring. Flestir skjálftanna er smáskjálftar undir 1.0 að stærð á svæðinu frá Stóra-Skógfelli að Grindavík. Þetta er svipuð virkni og hefur verið síðustu tvær vikur.

Landris og kvikusöfnun hefur verið á nokkuð stöðugum hraða undanfarna daga. Einnig sýna líkanreikningar að rúmmál kviku undir Svartsengi er núna áætlað meira en fyrir síðasta eldgos sem hófst þann 29. maí. Fyrir síðasta gos hélt kvikusöfnun áfram í 2 vikur eftir að fyrri mörkum var náð þar til eldgos hófst.

Ef skoðuð er virkni fyrir fyrri eldgos og kvikuinnskot, að þá er skjálftavirkni nú ásamt landrisi að sýna skýr merki um að kvikuinnskot og jafnvel eldgos geti hafist hvenær sem er. Ef miðað er við síðasta eldgos, þá gæti þurft áframhaldandi kvikusöfnun í 2-3 vikur til viðbótar áður en nýtt eldgos hefst.

GPS-svartsengi16082024

Færslur á GPS stöðinni SENG við Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (15. ágúst) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu fimm eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. Mars og 29. maí 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. Nóvember 2023 og 2. mars 2024).

Veðurstofa Íslands heldur áfram að fylgjast grannt með stöðunni allan sólahringinn.   Hægt er að sjá hættumat hér, en það gildir að öllu óbreyttu til 20. ágúst.


Uppfært 13. ágúst kl. 12:00

  • Aflögun og jarðskjálftavirkni sýna svipuð merki og fyrir síðustu eldgos á Sundhnúksgígaröðinni

  • Rúmmál kviku undir Svartsengi áætlað rúmlega 20 milljón rúmmetrar

  • Jarðskjálftavirkni á svæðinu hefur farið vaxandi síðustu vikur. Um 60-80 skjálftar á sólahring.

  • Hættumat óbreytt frá síðustu viku og gildir til 20. ágúst, að öllu óbreyttu.

Mælingar á aflögun og jarðskjálftavirkni sýna svipuð merki og fyrir síðustu eldgos á Sundhnúksgígaröðinni. Einnig sýna líkanreikningar að rúmmál kviku undir Svartsengi er núna áætlað meira en fyrir síðasta eldgos sem hófst þann 29. maí. Landris og kvikusöfnun hélt áfram í tvær vikur áður en til eldgoss kom. Þess vegna þarf að gera ráð fyrir því að kvikuhlaup og eldgos geti hafist hvenær sem er, en fyrri dæmi sýna að það gæti þó dregist.

Jarðskjálftavirkni á svæðinu hefur farið vaxandi síðustu vikur og sýnir svipaða þróun og fyrir síðustu kvikuhlaup og eldgos. Síðustu sjö daga hefur virknin verið svipuð á milli daga og um 60 til 80 skjálftar mælst á sólarhring á svæðinu frá Stóra-Skógfelli að Grindavík. Flestir skjálftanna eru á um 2 – 4 km dýpi, þeir grynnstu á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells.

Mynd_13082024-1

Jarðskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni síðan 1. desember 2023 sem sýnir breytingar í jarðskjálftavirkni á milli eldgosa og kvikuhlaupa sem hafa orðið síðan þá.

Aflögunargögn sýna að landris hefur verið stöðugt síðustu eina og hálfa viku en áfram hægir örlítið á því. Það bendir til þess að kvikuþrýstingur sé að aukast undir Svartsengi. Líkanreikningar áætla að rúmlega 20 milljón rúmmetrar af kviku hafi bæst við kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi frá síðasta eldgosi. Þetta er svipuð þróun og í aðdraganda síðustu kvikuhlaupa og eldgosa eins og eftirfarandi línurit sýnir.

Likan_Textaleidretting13082024

Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá 25. október. Hvert kvikuhlaup hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023.

Hættumat óbreytt

Hættumat Veðurstofunnar er óbreytt frá því sem áður var. Uppfært hættumat gildir til 20. ágúst að öllu óbreyttu. Sviðsmyndir eru einnig óbreyttar.

Haettusvaedi_VI_13agust_2024

(Smellið á kortið til að sjá stærri)

Sviðsmynd 1 - Eldgos með upptök milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks (Miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024.

  • Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur).
  • Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi við Þorbjörn á innan við 1,5 klukkustundum og á innan við 3 klukkustundum að Grindavíkurvegi við Svartsengi utan varnargarða.

Sviðsmynd 2  - Eldgos með upptök sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli (Syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti og efsti hluti svæðis 4). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024.

  • Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið. Lengri fyrirvari ræðst af því hversu langt til suðurs kvikan brýtur sér leið áður en hún leitar upp á yfirborðið.
  • Hraun gæti náð að Nesvegi og Suðurstrandavegi á innan við 1,5 klukkustund. Hraunflæði gæti mögulega lokað flóttaleiðum á landi út úr Grindavík á um 6 klukkustundum.
  • Í þessari sviðsmynd gæti hraun náð til sjávar austan Grindavíkur á 1,5 til 3 klukkustundum. Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýru (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar.
  • Kvikugangur sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 
  • Í þessari sviðsmynd þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að hraun geti komið upp innan Grindavíkur. Einn möguleikinn er sá að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða við Grindavík geti flætt ofan sprungur og komið svo aftur upp um opnar sprungur innan bæjarmarkanna.


Uppfært 9. ágúst kl. 11:30

  • Fjöldi skjálfta á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram að aukast
  • Um 300 skjálftar frá því á mánudaginn, 5. ágúst. Allt smáskjálftar undir M2,0 að stærð.
  • Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi er svipuð og síðustu daga
  • Hættumat er óbreytt. Sjá hér.

Fjöldi jarðskjálfta sem mælist á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram að aukast. Allt eru þetta smáskjálftar undir M2,0 að stærð og meiri hluti þeirra undir M1,0 að stærð. Í þessari viku, frá því á mánudaginn 5. ágúst, hafa hátt í þrjú hundruð jarðskjálftar mælst á svæðinu. Fjöldi skjálfta hefur farið vaxandi undanfarnar vikur.

Aflögunargögn og líkanreikningar sýna að landris og kvikusöfnun undir Svartsengi er svipuð og síðustu daga. Þessi gögn sýna merki um það að kvikuþrýstingur sé áfram að aukast og er þetta svipuð þróun eins og vikurnar fyrir undanfarin kvikuhlaup og eldgos.

Skjalftar09082024

Hér er yfirlit yfir jarðskjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina byggt á yfirförnum jarðskjálftum frá 3. júní til 9. ágúst. Vinstra megin má sjá staðsetningu jarðskjálftanna á korti, uppi hægra megin er línurit sem sýnir stærð skjálftanna og niðri hægra megin er súlurit sem sýnir fjölda jarðskjálfta á viku. Súluritið sýnir vaxandi skjálftavirkni síðustu vikur samanborið við litla skjálftavirkni á meðan síðasta gosi stóð frá 29. maí til 22. júní.

Hættumat Veðurstofunnar er óbreytt frá því sem áður var og gildir til 13. ágúst að öllu óbreyttu. Sviðsmyndir sem settar voru fram í síðustu fréttauppfærslu eru einnig óbreyttar.


Uppfært 6. ágúst kl. 12:00

  • Fjöldi skjálfta á dag á Sundhnúksgígaröðinni fer hægt vaxandi
  • Samkvæmt líkanreikningum er nægur þrýstingur búinn að byggjast upp í kerfinu til að koma af stað nýjum atburði á næstu dögum
  • Hættumat óbreytt frá síðustu viku

Fjöldi skjálfta á dag sem mælast á Sundhnúksgígaröðinni og nágrenni heldur áfram að aukast. Um 60 skjálftar mældust síðasta sólarhring. Til samanburðar var fjöldi skjálfta fyrir rúmri viku um 30 skjálftar að meðaltali á dag.

Þróun landriss og kvikusöfnunar undir Svartsengi er svipuð og síðustu daga. Áfram hægir örlítið á landrisinu og sú þróun samfara aukinni jarðskjálftavirkni eru vísbendingar um að þrýstingur í kerfinu sé að aukast. Nú er í raun spurning um hversu mikinn þrýsting jarðskorpan þolir áður en hún gefur undan og nýtt kvikuhlaup fer af stað.

Samkvæmt líkanreikningum er áætlað magn í kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi orðið svipað og fyrir gosið sem hófst í lok maí. Upphaflegir líkanreikningar gerðu ráð fyrir að í lok þessarar viku yrði efri mörkum þess sem talið er þurfa til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi náð. Hægst hefur á landrisinu og því þarf að reikna með að lengst geti í þeim tímaglugga ef ekki dregur til tíðinda á næstu dögum.

Hættumat Veðurstofunnar er óbreytt frá því sem áður var. Uppfært hættumat gildir til 13. ágúst að öllu óbreyttu. Sviðsmyndir eru einnig óbreyttar.

Haettusvaedi_VI_06agust_2024

Sviðsmynd 1 - Eldgos með upptök milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks (Miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024.

  • Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur).
  • Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi við Þorbjörn á innan við 1,5 klukkustundum og á innan við 3 klukkustundum að Grindavíkurvegi við Svartsengi utan varnargarða.

Sviðsmynd 2  - Eldgos með upptök sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli (Syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti og efsti hluti svæðis 4). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024.

  • Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið. Lengri fyrirvari ræðst af því hversu langt til suðurs kvikan brýtur sér leið áður en hún leitar upp á yfirborðið.
  • Hraun gæti náð að Nesvegi og Suðurstrandavegi á innan við 1,5 klukkustund. Hraunflæði gæti mögulega lokað flóttaleiðum á landi út úr Grindavík á um 6 klukkustundum.
  • Í þessari sviðsmynd gæti hraun náð til sjávar austan Grindavíkur á 1,5 til 3 klukkustundum. Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýru (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar.
  • Kvikugangur sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 
  • Í þessari sviðsmynd þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að hraun geti komið upp innan Grindavíkur. Einn möguleikinn er sá að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða við Grindavík geti flætt ofan sprungur og komið svo aftur upp um opnar sprungur innan bæjarmarkanna.






Uppfært 2. ágúst kl. 12:45

  • Fjöldi skjálfta á Sundhnúksgígaröðinni á dag fer hægt vaxandi
  • Samkvæmt líkanreikningum er nægur þrýstingur búinn að byggjast upp í kerfinu til að koma af stað nýjum atburði á næstu dögum

Eins og kom fram fyrr í vikunni þá sýna GPS mælingar að hægt hefur örlítið á landrisinu síðustu daga. Þegar sú þróun í landrisi fer saman við jarðskjálftavirkni líkt og mældist á Sundhnúksgígaröðinni í gær, geta það verið það vísbendingar um að það styttist í næsta kvikuhlaup og jafnvel eldgos.

Viðbragðsáætlanir Veðurstofunnar miðað við að kvikuhlaup gæti farið af stað hvenær sem er næstu daga og það jafnvel endað með eldgosi. Ef atburðarrásin verður sambærileg og í aðdraganda fyrri eldgosa, gæti fyrirvarinn verið mjög stuttur.


Uppfært 30. júlí kl. 11:45

  • Fjöldi skjálfta á Sundhnúksgígaröðinni á dag fer hægt vaxandi
  • Samkvæmt líkanreikningum er nægur þrýstingur búinn að byggjast upp í kerfinu til að koma af stað nýjum atburði á næstu dögum
  • GPS mælingar sýna að síðustu daga hefur hægt örlítið á landrisinu. Það samhliða jarðskjálftavirkni líkt og mældist í gær, geta það verið vísbendingar um að það styttist í næsta kvikuhlaup og jafnvel eldgos
  • Hættumat óbreytt frá síðustu viku

Í gærmorgun mældist aukin smáskjálftavirkni á Sundhnúkgígaröðinni. Virknin stóð yfir í um 50 mínútur og eru að öllum líkindum merki um að þrýstingur sé að aukast í kerfinu. Síðustu viku hefur fjöldi skjálfta á dag farið hægt vaxandi.

Samkvæmt líkanreikningum sem gerðir hafa verið í tengslum við kvikusöfnunina er nægur þrýstingur búinn að byggjast upp í kerfinu til að koma af stað nýjum atburði á svæðinu.

GPS mælingar sýna að síðustu daga hefur hægt örlítið á landrisinu. Þegar sú þróun í landrisi fer saman við jarðskjálftavirkni líkt og mældist á Sundhnúksgígaröðinni í gær, geta það verið vísbendingar um að það styttist í næsta kvikuhlaup og jafnvel eldgos. Því eru auknar líkur á að það dragi til tíðinda á næstu 7 – 10 dögum.

Hættumat óbreytt

Veðurstofan uppfærði hættumat í ljósi nýjustu gagna. Hættumatið er óbreytt frá því í síðustu viku og gildir til 6. ágúst, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_30juli_2024

Sviðsmyndir sem Veðurstofan gaf út 23. júlí eru óbreyttar

Þetta eru sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar ef til eldgoss kemur. Báðar sviðsmyndir eru taldar álíka líklegar og miðast við að kraftur eldgossins í upphafi verði álíka og í eldgosinu í maí.

 

Sviðsmynd 1 - Eldgos með upptök milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks (Miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024.

  • Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur).
  • Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi við Þorbjörn á innan við 1,5 klukkustundum og á innan við 3 klukkustundum að Grindavíkurvegi við Svartsengi utan varnargarða.

Sviðsmynd 2  - Eldgos með upptök sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli (Syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti og efsti hluti svæðis 4). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024.

  • Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið. Lengri fyrirvari ræðst af því hversu langt til suðurs kvikan brýtur sér leið áður en hún leitar upp á yfirborðið.
  • Hraun gæti náð að Nesvegi og Suðurstrandavegi á innan við 1,5 klukkustund. Hraunflæði gæti mögulega lokað flóttaleiðum á landi út úr Grindavík á um 6 klukkustundum.
  • Í þessari sviðsmynd gæti hraun náð til sjávar austan Grindavíkur á 1,5 til 3 klukkustundum. Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýru (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar.
  • Kvikugangur sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 
  • Í þessari sviðsmynd þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að hraun geti komið upp innan Grindavíkur. Einn möguleikinn er sá að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða við Grindavík geti flætt ofan sprungur og komið svo aftur upp um opnar sprungur innan bæjarmarkanna.
  • Ekki er hægt að útiloka möguleika að gossprunga opnist innan Grindavíkur en í því tilfelli er talið líklegast að gossprunga myndi fyrst opnast norðan við bæinn áður en sprunga opnist innan bæjarmarkanna. Líkur á gosopnun innan Grindavíkur eru metnar „töluverðar“ í núverandi hættumati.






Uppfært 29. júlí kl. 12:00

  • Skjálftavirknin síðustu daga hefur aukist lítillega

  • Aukin smáskjálftavirkni mældist snemma í morgun

  • Kvikusöfnun og landris heldur áfram á jöfnum hraða

  • Áfram gert ráð fyrir nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur vikum.

  • Kvikuhlaup án eldgoss getur skapað hættu og valdið tjóni í Grindavík.

Í morgun upp úr klukkan átta mældist aukin smáskjálftavirkni á Sundhnúkgígaröðinni. Virknin stóð yfir í um 50 mínútur og eru að öllum líkindum merki um að þrýstingur sé að aukast í kerfinu.

Ekki mældust marktækar breytingar á aflögun eða borholuþrýstingi samhliða skjálftavirkninni. Sambærilega kvikuhreyfingar hafa mælst í aðdraganda fyrri atburða á svæðinu.

Veðurstofan mun senda frá sér uppfært hættumat í lok dags á morgun, að öllu óbreyttu.


Uppfært 26. júlí kl. 10:30


  • Skjálftavirknin síðustu daga hefur aukist lítillega en er enn frekar lítil

  • Kvikusöfnun og landris heldur áfram á jöfnum hraða

  • Áfram gert ráð fyrir nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur vikum

  • Kvikuhlaup án eldgoss getur skapað hættu og valdið tjóni í Grindavík

Skjálftavirknin síðustu daga hefur aukist lítillega en er enn frekar lítil. Rúmlega 30 skjálftar hafa mælst í grennd við kvikuganginn í Sundhnjúksgígaröðinni síðastliðinn sólarhring og tæplega 130 síðastliðna viku. Flestir þeirra eru undir einum að stærð og eru á svipuðum slóðum og í fyrri atburðum. Til samanburðar mældust að öllu jöfnu rúmlega 50 skjálftar daglega í aðdraganda síðasta goss.

Skjalftavirkni_Dagleg_Mai_Juli2024

Í aðdraganda gossins í maí fór skjálftavirknin hægt vaxandi dag frá degi eins og sjá má á þessu súluriti, en hver súla táknar fjölda skjálfta á dag. Myndin sýnir fjölda skjálfta á dag frá því í byrjun maí fram að miðnætti 25. júlí. Eins og sjá má er skjálftavirknin síðustu daga umtalsvert minni en í aðdraganda síðasta goss sem hófst 29. maí. Þann dag mældust yfir 300 skjálftar á svæðinu umhverfis kvikuganginn.

Kvikusöfnun og landris heldur áfram á jöfnum hraða

Nýjustu GPS gögn og gervitunglamyndir staðfesta að landris og kvikusöfnun heldur áfram á nokkuð jöfnum hraða ef horft er til síðustu vikna. Ef hraðinn helst óbreyttur, má gera ráð fyrir nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur vikum.

SENG_Plot_25072024

Graf sem sýnir stöðu landriss á GPS stöð staðsettri við Svartsengi. Þarna má sjá að land hefur risið um 20 cm frá 5. júní. Þar á undan seig landið um 5 cm fyrstu dagana eftir að eldgosið hófst 29. maí. (Mynd af aflogun.vedur.is fyrir stöðina SENG).

Kvikuhlaup án eldgoss getur skapað hættu og valdið tjóni

Í fréttafærslu fyrr í vikunni birti Veðurstofan tvær sviðsmyndir ef til eldgoss kæmi. Í seinni sviðsmyndinni var talað um þann möguleika að hraun gæti komið upp innan Grindavíkur, skapað hættu og valdið tjóni. Kvikuhlaup án eldgoss getur þó einnig skapað hættu og valdið tjóni.

„Í þau 7 skipti sem kvika hefur hlaupið úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina höfum við 5 sinnum fengið eldgos. Við verðum því að reikna með þeim möguleika að fá kvikuhlaup án þess að til eldgoss komi“, segir Benedikt G. Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands. Hingað til hefur kvika brotið sér leið úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina rétt austan Sýlingarfells og þaðan í suður í átt að Hagafelli. „Það er mikilvægt að átta sig á því að ef við fáum öflugt kvikuhlaup úr Svartsengi þá er mögulegt að kvikugangur sem þá myndast nái suður fyrir Hagafell og það mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík, jafnvel þó að ekki komi til eldgoss. Mesta tjón á innviðum og eignum í Grindavík er einmitt vegna sprunguhreyfinga í atburðunum 10. nóvember 2023 og 14. janúar 2024“ segir Benedikt.

Heildarhætta metin „mikil“ fyrir Grindavík – líkur á gosopnun þar taldar „töluverðar“

Veðurstofan gaf út uppfært hættumat í byrjun vikunnar og gildir það til 30. júlí að öllu óbreyttu. Veðurstofan vill leggja áherslu á að hættumat fyrir hvert svæði er fengið með því að leggja mat á líkur þess að tiltekin hætta myndist eða muni hafa áhrif á skilgreindum svæðum. 

Lagt mat á líkur fyrir alls 7 hættur á hverju svæði. Þetta mat er lagt saman sem síðan gefur niðurstöðu fyrir „heildarhættu“ á svæðinu. Þetta er sýnt í töflunni hér að neðan. Þar sést til dæmis að þó svo að hættan fyrir allt svæði 4, Grindavík, sé metin „mikil“ eru líkur á „gosopnun“ metnar „töluverðar“. Líkur á hættu vegna „hraunflæðis“ og „gasmengunar“ eru hins vegar metnar „miklar“. 

Í síðustu viku þegar svæðið fyrir Grindavík fór úr appelsínugulu (töluverð hætta) yfir í rautt (mikil hætta) var það vegna þess að auknar líkur voru á hættu vegna hraunflæðis og gasmengunar. Mat fyrir líkur á gosopnun innan Grindavíkur stóð í stað, og er nú metin „töluverð“.

Haettumat_Mat_Svaedi4_23072024

Dæmi um útfyllingu hættumats. Svona hættumatsfylki eru fyllt út við mat á hættu innan hvers svæðis. Lagt er mat á líkur þess að hætta myndist eða muni hafa áhrif á skilgreindum svæðum. Hættu er gefið ákveðið vægi eftir því hversu líklegt er talið að hættan myndist eða muni hafa áhrif á skilgreindum svæðum. Heildarstig hættumatsfylkis, talan í rauða kassanum neðst til hægri, stjórna hættukvarða svæðisins (sjá töflu hér fyrir neðan).

Myndkvardi






Tengsl heildarstiga hættumatsfylkis og hættukvarða. Heildarstig hættumatsfylkisins ræður hvaða hættuvarða og lit svæði fá á hættumatskorti.


Haettur_Svaedi4_23072024

Sé hætta metin töluverð, mikil eða mjög mikil (innan bláa svæðisins) er hún sérstaklega nefnd í lista á viðkomandi hættumatskorti og þær hættur sem eru metnar miklar eða mjög miklar eru að auki feitletraðar. Samkvæmt þessu er hætta vegna gosopnunar innan Grindavíkur metin töluverð og því ekki feitletruð.

Einnig er hægt að lesa meira um gerð hættumatsins í frétt á vefnum okkar.



Uppfært 23. júlí kl. 16:00
  • Landris heldur áfram og hefur kvikusöfnun undir Svartsengi verið nokkuð stöðug ef horft er til síðustu vikna
  • Talið er að á bilinu 13 til 19 milljón rúmmetrar af kviku þurfi nú að bætast við undir Svartsengi frá síðasta gosi til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.
  • Samkvæmt líkanreikningum er líklegast að magnið sem bæst hefur við frá síðasta eldgosi nálgist 16 milljónir rúmmetra á næstu dögum
  • Hættustig hefur verið hækkað í ljósi nýjustu gagna og sviðsmyndir uppfærðar

Skjálftavirknin síðustu daga hefur verið mjög lítil. Tíu skjálftar hafa greinst í grennd við kvikuganginn í Sundhnjúksgígaröðinni síðastliðinn sólarhring og um 90 síðastliðna viku. Flestir þeirra eru undir einum að stærð og eru á svipuðum slóðum og í fyrri atburðum. Til samanburðar mældust rúmlega 50 skjálftar daglega í aðdraganda síðasta goss. Skjálftavirknin fer hægt vaxandi dag frá degi ef horft er til síðustu vikna sem er í takti við þróun kvikusöfnunar undir Svartsengi.

Landris heldur áfram og hefur kvikusöfnun undir Svartsengi verið nokkuð stöðug ef horft er til síðustu vikna. Talið er að á bilinu 13 til 19 milljón rúmmetrar af kviku þurfi nú að bætast við undir Svartsengi frá síðasta gosi til að byggja upp nægan þrýsting til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Samkvæmt líkanreikningum er líklegast að magnið sem bæst hefur við frá síðasta eldgosi nálgist 16 milljónir rúmmetra á næstu dögum. Ákveðin óvissa er í þessum útreikningum en gera má ráð fyrir nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur til þremur vikum.

Graf_Merking_Landscape_23072024

Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá 25. október. Hvert kvikuhlaup hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023.

Likan_Textaleidretting_23072024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023.

„Allar okkar mælingar og útreikningar benda til þess að kvikusöfnunin undir Svartsengi haldi áfram með jöfnum hraða“ segir Michelle Maree Parks, sérfræðingur í aflögun á Veðurstofu Íslands. „Það er ekki óeðlilegt að við fáum sveiflu í mælingar á landrisinu milli einstakra daga og þess vegna er mikilvægt að horfa á heildarmyndina út frá GPS mælingum, gervitunglamyndum og líkönum yfir lengra tímabil. Það eru engar vísbendingar í okkar gögnum sem benda til annars en að búast megi við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur til þremur vikum eða svo“, segir Michelle.

Hættustig hefur verið hækkað í ljósi nýjustu gagna

Veðurstofan hefur uppfært hættumat í ljósi þess að búast megi við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu vikum. Hættustig hefur því verið hækkað á öllum svæðum, nema á svæði 7. Hættumatið gildir til 30. júlí að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_23juli_2024

Sviðsmyndir ef til eldgoss kemur

Veðurstofan hefur uppfært þær sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar ef til eldgoss kemur. Báðar sviðsmyndir eru taldar álíka líklegar og miðast við að kraftur eldgossins í upphafi verði álíka og í eldgosinu í maí.

Sviðsmynd 1 - Eldgos með upptök milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks (Miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024.

  • Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur).
  • Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi við Þorbjörn á innan við 1,5 klukkustundum og á innan við 3 klukkustundum að Grindavíkurvegi við Svartsengi utan varnargarða.

Sviðsmynd 2  - Eldgos með upptök sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli (Syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti og efsti hluti svæðis 4). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024.

  • Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið. Lengri fyrirvari ræðst af því hversu langt til suðurs kvikan brýtur sér leið áður en hún leitar upp á yfirborðið.
  • Hraun gæti náð að Nesvegi og Suðurstrandavegi á innan við 1,5 klukkustund. Hraunflæði gæti mögulega lokað flóttaleiðum á landi út úr Grindavík á um 6 klukkustundum.
  • Í þessari sviðsmynd gæti hraun náð til sjávar austan Grindavíkur á 1,5 til 3 klukkustundum. Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýru (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar.
  • Kvikugangur sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 
  • Í þessari sviðsmynd þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að hraun geti komið upp innan Grindavíkur. Einn möguleikinn er sá að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða við Grindavík geti flætt ofan sprungur og komið svo aftur upp um opnar sprungur innan bæjarmarkanna. Ekki er hægt að útiloka möguleika að gossprunga opnist innan Grindavíkur en í því tilfelli er talið líklegast að gossprunga myndi fyrst opnast norðan við bæinn áður en sprunga opnast innan bæjarmarkanna.

„Þær sviðsmyndir sem við birtum í dag eru byggðar á nýjustu gögnum og greiningum og þær gefa tilefni til þess að hafa áhyggjur af því að hraun geti náð inn fyrir varnargarða við Grindavík“ segir Matthew J. Roberts, framkvæmdastjóri þjónustu- og rannsóknasviðs á Veðurstofu Íslands. „Við þurfum því að vera undirbúin fyrir þann möguleika að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða ofan bæjarins geti leitað ofan í sprungukerfið sunnan Hagafells og leitt hraunstraum inn fyrir bæjarmörkin“ segir Matthew.

„Reynslan frá eldgosinu í janúar segir okkar að við getum ekki útilokað þann möguleika á að gossprunga opnist innan Grindavíkur. En í því tilfelli er líklegast að gossprunga myndi fyrst opnast norðan við bæinn áður en sprunga opnist innan bæjarmarkanna“.

„Þessu til viðbótar sýna hraunflæðilíkön að ef gýs við Hagafell gæti hraunflæði lokað flóttaleiðum á landi út úr bænum á nokkrum klukkustundum eftir að gos hefst“, segir Matthew.


Uppfært 16. júlí kl. 15:15
  • Líkanreikningar áætla að um 13 milljónir rúmmetrar af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi
  • Í dag er magn kviku sem bæst hefur við komið að lægri mörkum þess magns kviku sem talið er þurfa að bætast við til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Ef gert er ráð fyrir því að á bilinu 13 til 19 milljónir rúmmetra af kviku þurfi að bætast við undir Svartsengi til að byggja upp nægan þrýsting til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi, benda ný líkön benda til þess að mjög miklar líkur eru á því að það eigi sér stað á næstu þremur vikum

  • Hættumat uppfært sem gildir til 23. júlí, að öllu óbreyttu

Kvikusöfnun undir Svartsengi hefur haldist nokkuð stöðug síðustu vikur. Líkanreikningar áætla að um 13 milljónir rúmmetrar af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi frá því að kvika hljóp þaðan síðast í Sundhnúksgígaröðina og eldgosið 29. maí hófst. Í dag er magn kviku sem bæst hefur við komið að lægri mörkum þess magns kviku sem talið er þurfa að bætast við til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Efri mörkin liggja í kringum 19 milljónir rúmmetra af kviku.

Ef gert er ráð fyrir því að á bilinu 13 til 19 milljónir rúmmetra af kviku þurfi að bætast við undir Svartsengi til að byggja upp nægan þrýsting til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi, benda ný líkön benda til þess að mjög miklar líkur eru á því að það eigi sér stað á næstu þremur vikum

Áður hefur þó verið bent á að reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meira magn kviku og þar með meiri þrýsting til að koma þeim af stað. Ef miðað er við að um 20 milljón rúmmetrar þurfi að safnast fyrir, líkt og sást fyrir eldgosið 29. maí, mun það magn nást á næstu þremur til fjórum vikum. Þetta er byggt á því að innstreymi kviku inn í kvikuhólfið undir Svarstengi haldist óbreytt frá því sem nú er.

Uppfært hættumat

Nýjustu greiningar á því hvernig staðsetning gosopnunar hefur þróast í síðustu eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni benda til þess að gosvirknin færist sunnar og nær Grindavík með hverjum atburði. Með hliðsjón af þessum greiningum og ef tekið er tillit til þess að frá því í nóvember 2023 hafa jarðhræringarnar valdið umtalsverðum sprunguhreyfingum innan Grindavíkur, er hætta vegna gosopnunar, hraunflæðis og gasmengunar nú metin sem „töluverð“, en var áður metin „nokkur“ innan svæðis 4. Þetta er sambærilegt mati á þessari hættu innan svæðis 3.

Þessar breytingar á einstaka hættum innan svæða 3 og 4 hafa á þessu stigi ekki áhrif á heildarmat á hættu innan þeirra.

Hættumatið gildir til 23. júlí 2024, að öllu óbreyttu

Haettusvaedi_VI_16juli_2024

Uppfært 9. júlí kl. 11:15
  • Tæplega 20 jarðskjálftar hafa mælst yfir kvikuganginum, sá stærsti 1.3 að stærð vestan við Grindavík.
  • Rúmlega 260 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga í liðinni viku.
  • Aflögunargögn sýna að landris heldur áfram á svipuðum hraða síðustu daga
  • Hættumat uppfært. Nánast óbreytt en hætta vegna hraunflæðis hefur minnkað.

Það hafa mælst tæplega 20 jarðskjálftar yfir kvikuganginum, sá stærsti 1,3 að stærð vestan við Grindavíkurbæ. Þetta er svipuð virkni eins og hefur verið síðustu tvær vikur.

Rúmlega 260 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga í liðinni viku. Um 60 skjálftar mældust í Lambafelli í Þrengslum. Um tugur í Brennisteinsfjöllum. Rúmir 100 skjálftar mældust umhverfis Kleifarvatn, rúmlega 40 austan vatnsins og rúmlega 60 vestan og suðvestan við Vatnið við og umhverfis jarðhitasvæðið í Seltúni. Rétt tæplega 40 jarðskjálftar mældust í Fagradalsfjalli, allir undir 1,0 að stærð og flestir á 7 til 10 km dýpi. Um 20 skjálftar mældust úti við Reykjanestá í liðinni viku og annar tugur skjálfta lengra úti á Reykjaneshrygg um 90 km suðvestur frá landi.

GPS aflögunargögn sýna að landris undir Svartsengi heldur áfram og er búið að vera á svipuðum hraða síðustu daga. Gervitunglamynd frá Sentinel 1 sem spannar tímabilið 25. júní - 7. júlí sýnir sama mynstur. Líkanreikningar byggðir á aflögunargögnum benda áfram til að kvikuinnstreymi sé meira nú en fyrir eldgosið 29. maí. Þessi gögn benda áfram til að annað kvikuhlaup og/eða eldgosi sé líklegt á næstu vikum eða mánuðum.

Hættumat hefur verið uppfært, og gildir að öllu óbreyttu til 16. júlí. Það er að mestu óbreytt nema að á Svæði 1 (Svartsengi) er minni hætta vegna hraunflæðis. Hætta færist þvi niður úr töluverð hætta (appelsínugul) í nokkur (gul).  Hætta vegna hraunflæðis er einnig metin minni á Svæði 6.

Haettusvaedi_VI_9juli_2024
(Smelltu á kortið til að stækka)

Uppfært 5. júlí kl. 17:00
  • Skjálftavirkni á Svartsengi verið mjög lítil síðan eldgosinu lauk 22. júní
  • Landris á svæðinu heldur áfram
  • Líkan byggt á aflögunargögnum sýnir að innstreymi kviku á dýpi hafi að jafnaði verið á bilinu 4-6 m3/s.
  • Heildarmagn gosefna ásamt rúmmálsbreytingum í Svartsengi bendir til þess að kvikuinnstreymi síðan um miðjan janúar sé nokkuð stöðugt

Frá því að gosinu lauk í Sundhnúksgígnum 22. júní hefur skjálftavirkni á Svartsengi verið mjög lítil og fáir smáskjálftar mælst á hverjum degi.

Aflögunargögn sýna að landris á svæðinu heldur áfram. Þetta er túlkað sem áframhaldandi kvikustreymi inn í Svartsengi.

Kvikuholf05072024
Mynd sýnir „lokað” kerfi, það er þegar ekki er opið fyrir hraunflæði á yfirborði og kvikan streymir frá dýpi (rauð ör) í kvikuhólf undir Svartsengi á 4-5 km dýpi (appelsínugult svæði) sem veldur auknum þrýstingi í umhverfinu og að lokum mælanlegri aflögun á yfirborði.

Líkan byggt á aflögunargögnum hefur verið notað til að meta magn kviku inn í Svartsengi á tímabilum þar sem engin gos eru. Á þessum tímabilum er kerfið talið „lokað“ og sem slíkt tekur grafið ekki tillit til magns kviku sem kemur inn í kerfið eins og þegar það er opið á gostíma (t.d. magn kviku sem streymir í gegnum kerfið og kvikuflæði á gostíma). Því endurspeglar þetta graf ekki heildar magn kviku inn í kerfið frá nóvember 2023 heldur einungis það magn kviku sem streymir inn í kerfið þegar kerfið er lokað. Líkanið sýnir að innstreymi kviku á dýpi hafi að jafnaði verið á bilinu 4-6 m3/s. Ef heildarmagn gosefna er skoðað ásamt rúmmálsbreytingum í Svartsengi þá bendir það til þess að kvikuinnstreymi síðan um miðjan janúar sé nokkuð stöðugt.

Svartsengi_lokad_kerfid

Grafið sýnir áætlað magn innstreymis kviku í Svartsengi á tímabilum þar sem gos eru ekki til staðar. Gráu svæðin eru tímabil þar sem gos og/eða kvikuhlaup er til staðar. Líkanið reiknar magn innstreymis kviku fyrir þau tímabil sem eru utan gráu svæðanna (litaðar láréttar línur). Rauða línan með tilheyrandi óvissu (rauða svæðið) er núverandi magn innstreymis kviku. Í grafinu merkir bókstafurinn D: Dike intrusion eða kvikuhlaup og stjarna þýðir þegar eldgos hófst.



Uppfært 2. júlí kl. 15:50
  • Hraði landriss meiri nú en fyrir gosið 29. maí.
  • Um 13-19 milljón m3 fóru úr kvikuhólfinu þegar eldgosið hófst 29. maí
  • Líkur á öðru kvikuhlaupi og/eða eldgosi á næstu vikum og mánuðum
  • Uppfært hættumat. Sjá hér.

Hraði landriss er meiri nú en fyrir gosið 29. maí og á svipuðum hraða og það var í byrjun árs, en það hafa ekki verið miklar breytingar milli atburða hvað varðar hraðann á landrisinu. Líkan byggt á aflögunargögnum sýnir að innflæði kviku inn í kvikuhólfið undir Svartsengi er nú 4-6 m3/s. Í upphafi kvikuinnskotsins og síðan eldgossins 29. maí er metið að um 13-19 milljón m3 hafi farið úr kvikuhólfinu. Niðurstöður líkanreikninga gefa til kynna að miðað við núverandi innflæði verður kvikuhólfið undir Svartsengi komið í svipaða stöðu og fyrir eldgosið 29. maí eftir þrjár til sex vikur. Frá og með deginum í dag er því líklegt að kvikuhlaup eða eldgos fari af stað á næstu vikum og mánuðum.

Graf02072024

Línurit, byggt á jarðeðlisfræðilegum líkanreikningum, sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá 25. október 2023 og þróun þess á milli atburða. Rauðu punktarnir sýna stöðuna síðan 30. maí 2024.

Uppfært hættumat

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat sem gildir að öllu óbreyttu til 9. júlí.  Hættur tengdar hraunrennsli og gasmengun hefur verið lækkað en heildar hættumatið er óbreytt, fyrir utan tvö svæði. Hættustig innan svæðis 3 fer úr því að vera mikið (rautt) í það að vera töluvert (appelsínugult) og innan svæðis 5 úr því að vera töluvert (appelsínugult) í það að vera í nokkur (gult).

Haettusvaedi_VI_2juli_2024

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)


Uppfært 28. júní kl. 11:55
  • Hraunið er 9,3 km2 að flatarmáli og rúmmál þess er um 45 milljónir m3
  • Landrísið í Svartsengi heldur áfram með auknum hraða
  • Gögn sem safnað verður á næstu dögum/vikum munu hjálpa til við að meta stöðuna með meiri vissu

Skjálftavirknin við Svartsengi og Sundhnúk er mjög lítil og hafa fáir smáskjálftar mælst undanfarna daga. Hraunið sem gekk í átt að norðanverðu Sýlingarfelli hélt áfram að renna mjög hægt frá því að gosinu lauk 22. júní og er nú alveg hætt að hreyfast.

Hópur frá Náttúrufræðistofnun og Landmælingum Íslands hefur unnið úr gögnum sem sérfræðingar frá Eflu, Verkís og Svarmi söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar 24. júní. Gögnin sýna að hraunið er nú 9,3 km2 að flatarmáli og rúmmálið um 45 milljónir m3.

Hraunbreida28062024

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt hraunbreiðunnar sem hefur myndast í eldgosinu sem hófst 29. maí. Kortið er afurð samvinnu margra aðila en er byggt á mælingum Verkís, Eflu og Svarma frá 24. júní. Á kortinu sést hvar hraun hefur safnast í hrauntjörn suðaustan við Sýlingarfell (rauðleit svæði) og hraunstraumurinn sem rennur þaðan norður fyrir Sýlingarfell. Gráleit svæði sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

Nýjustu aflögunarmælingarnar (bæði GNSS og InSAR gervitunglamyndir) sýna að landrísið undir Svartsengi heldur áfram. Hraði landrisins jókst eftir að gosi lauk og er nú orðin meiri en það sem mældist fyrir gosið sem hófst 29. maí. Hraða aflögunar má túlka sem að kvikuinnstreymi inn í kvikuhvolfið á 4-5 km dýpi haldi áfram.

Bylgjuvixlmynd28062024

Bylgjuvíxlmynd (InSAR) fyrir tímabilið 13. til 25. júní sýnir að aflögun á þessu tímabili er um 3-4 cm þar sem hún er mest. Myndin er byggð á gögnum frá gervitunglinu Sentinel-1. Hraun frá Fagradalsfjalli og Sundhnúksgígum eru afmörkuð með hvítum útlínum.

Með þessar forsendur að leiðarljósi má gera ráð fyrir að kerfið muni haga sér á svipaðan hátt og áður og að nýtt kvikuinnskot og/eða eldgos muni eiga sér stað á ný á Sundhnúkssvæðinu á næstu vikum. Frá og með deginum í dag er erfitt að sjá fyrir með vissu hvernig ástandið mun þróast. Gögnum sem safnað verður á næstu dögum/vikum munu hjálpa til við að meta stöðuna og hugsanlega við að skilja breytingar og þróun innan kvikukerfisins.



Uppfært 24. júní kl. 14:00

 

  • Eldgosinu er lokið. Gosið stóð yfir í 24 daga.
  • Fimmta eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023
  • Landris hefur verið stöðugt, en þó hægara en það var á milli síðustu eldgosa

Eldgosinu sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni þann 29. maí er lokið, en engin virkni hefur sést í gígnum frá 22. júní. Gosið stóð yfir í 24 daga og var fimmta eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023. Jafnframt er hraunbreiðan sem myndaðist sú stærsta að rúmmáli og flatarmáli.

Þrátt fyrir að ekkert hraun renni frá gígnum eru áfram töluverðar hreyfingar í hraunbreiðunni norðan Sýlingarfells vegna þess að enn er fljótandi hraun undir storknuðu yfirborðinu. Síðustu tvo sólarhringa hefur verið virkni í þeim hrauntungum sem fóru yfir varnargarð við Sýlingarfell og einnig í hraunbreiðunni norðan varnargarðsins. Áfram má búast við því að hreyfinga verði vart í hraunbreiðunni á næstu dögum þar sem það tekur töluverðan tíma fyrir þetta ferli að stöðvast.

Um það bil tíu dögum eftir að eldgosið hófst byrjaði landris í Svartsengi að mælast aftur sem bendir til þess að kvikusöfnun þar haldi áfram. Landrisið hefur verið stöðugt síðan þá en er nú hægara en það var á milli síðustu atburða.  Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og mælingar næstu daga og vikur munu hjálpa til við að túlka mögulega þróun jarðhræringanna.

Likan_Textaleidretting-24062024

Línurit, byggt á jarðeðlisfræðilegum líkanreikningum, sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá 25. október 2023 og þróun þess á milli atburða. Rauðu punktarnir sýna stöðuna síðan 30. maí 2024 og þar sést að nú er hraði kvikusöfnunar hægari en á fyrri kvikusöfnunartímabilum.

Á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á endurteknum kvikuhlaupum og eldgosum. Að svo stöddu er erfitt að segja til hvenær næsti atburður verður eða hvenær kvikusöfnun hættir.

Uppfært hættumat

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat. Það að síðasta gosi sé lokið hafði áhrif á breytingar á nokkrum svæðum. Hætta er metin lægri á öllum svæðum þar sem minni líkur eru á hraunflæði og gasmengun. Sérfræðingar VÍ mældu gasútstreymi frá gígnum á föstudaginn, 21. júní, og var það mælt mjög lítið eða um 1 kg/s. Hættumatið er í gildi til 2. júlí, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_24juni_2024



Uppfært 22. júní kl. 18:00

Eldgosinu sem hófst 29. maí síðastliðinn virðist vera lokið. Í gær var litla virkni að sjá í gígnum og nú í hádeginu var engin virkni sjáanleg þegar Almannavarnir flugu dróna til athugunar. Einnig hefur órói á nálægum jarðskjálftamælum dottið niður og er nú sambærilegur því sem mældist áður en gos hófst.

Enn má þó búast við í einhvern tíma að eldra hraun haldi áfram að streyma hægt meðfram Sýlingarfelli norðanverðu og við varnargarð L1 þar sem spýjur hafa runnið yfir.

Mynd_AV22062024

Mynd úr drónaflugi í hádeginu frá Almannavörnum.

Uppfært 21. júní kl. 14:55

Í myndum sem teknar voru í morgun í drónaflugi Almannavarna sést að virkni í gígnum fer minnkandi. Hraunrennsli frá gígnum er ekki sjáanlegt á yfirborði en getur verið í lokuðum rásum frá honum. Þó er áfram rennsli í þeim hrauntungum sem fóru yfir varnargarð norðan Sýlingarfells í gær. Mynd úr vefmyndavél Almannavarna á Sýlingarfelli sýnir þær þrjár hrauntungur sem renna yfir garðinn og vélar sem vinna að því að hemja hraunrennslið. Mest virkni er í hrauntungunni lengst til vesturs sem hefur færst áfram um nokkra metra og þykknað á síðustu klukkustundum. Gosórói fer einnig minnkandi og sést það vel á jarðskjálftamæli Veðurstofunnar í Grindavík eins og meðfylgjandi graf sýnir.

Minnkandi virkni í gígnum og lækkun í gosóróa bendir til þess að þessu eldgosi gæti lokið á næstunni en þó er óvissa um nákvæmlega hvenær. GPS mælingar sýna enn landris á Svartsengissvæðinu. Það er vísbending um að þrýstingur í kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi haldi áfram að byggjast upp, þótt hraði landrissins sé minni en áður.

Mynd1_21062024

Mynd af gígnum sem tekin var um kl. 9:30 í morgun í drónaflugi Almannavarna yfir gosstöðvarnar.  Ljósmynd: Almannavarnir
Mynd2_21062024
Hrauntungurnar sem renna yfir varnargarð norðan Sýlingarfells og vinna við að hemja hraunrennslið. Ljósmynd: Almannavarnir
Mynd3_21062024

Órómælingar á jarðskjálftamæli VÍ í Grindavík frá því að eldgosið hófst þann 29. Maí til 21. Júní. Þær sýna að gosóróin hefur minnkað síðustu daga.



Uppfært 20. júní kl. 13:05


  • Áfram gýs úr einum gíg rétt austan Sundhnúks

  • Hrauntungan norðan Sýlingarfells heldur áfram að þykkna. Hraunspýja frá henni fór yfir varnargarð 18. júní

  • Landris mælist á stöðugum hraða í Svartsengi þótt eldgos standi yfir

  • Hér er hægt að fylgjast með gasdreifingarspá og loftgæðum

  • Hættumat er óbreytt

Eldgosið sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni þann 29. maí hefur nú staðið í rétt rúmar þrjár vikur og áfram gýs úr einum gíg rétt austan Sundhnúks. Hrauntungan norðan Sýlingarfells heldur áfram að þykkna en á þriðjudaginn 18. júní, fór hraunspýja frá henni yfir varnargarð L1 sem er norðaustur af Svartsengi, en fór ekki langt.

Eins og undanfarna daga mælist áfram landris á stöðugum hraða í Svartsengi þótt eldgos sé enn í gangi. Það má túlka þetta sem svo að kvikuflæði frá dýpi haldi áfram og sé meira en flæði frá gígnum og kvikusöfnun undir Svartsengi haldi því áfram eins og áður.

Veðurspáin í dag er sunnan og síðar suðaustan 3-8 m/s. Gas berst til norðurs og norðvestur í átt að Reykjanesbæ og Vogum. Á morgun (föstudag) er austan og síðar norðaustan 3-8 m/s, gas berst til vesturs og suðvesturs. Hæg breytileg átt seinnipartinn á morgun, gasmengunar getur orðið vart víða á suðvesturhorninu.

Hættumat hefur verið uppfært og er óbreytt. Það gildir, að öllu óbreyttu, til næsta þriðjudags 25. júní.

Haettusvaedi_VI_20juni_2024

(Smellið á kortið til að sjá stærra)

Uppfært 18. júní kl. 13:50
  • Eldgosið stöðugt og áfram gýs úr einum gíg.
  • Hraun flæðir mestmegnis til norðurs meðfram Sýlingarfelli
  • Landris heldur áfram í Svartsengi á svipuðum hraða. Hraðinn er þó minni en áður en eldgosið hófst
  • Gasdreifingarspá og hægt að fylgjast með loftgæðum hér

Eldgosið hefur verið nokkuð stöðugt síðustu daga og áfram gýs úr einum gíg. Frá honum flæðir hraun mestmegnis til norðurs en einnig safnast hluti hraunsins upp sunnan megin við gíginn. Hraunið sem fer til norðurs fer í hrauntjörnina við Sýlingarfell og þaðan áfram norður fyrir það þar sem hraunið þykknar. Í gær um hádegisbil kom lítið gat í gíginn vestanverðan og þaðan flæddi hrauntaumur stutta leið vestur í átt að Sundhnúk, en sá taumur hefur ekki verið virkur frá því í gær. Lítil sem engin skjálftavirkni er á gosstöðvunum.

Á tímabilinu 3. - 10. júní var hraunflæði frá eldgosinu metið um 10 m3/s og síðan þá hafa ekki orðið markverðar breytingar á virkni eldgossins sem bendir til að flæðið sé nokkuð stöðugt. Þrátt fyrir að eldgosið sé enn í gangi mælist landris í Svartsengi (eins og í síðasta eldgosi). Niðurstöður líkanreikninga sýna að landrisið í Svartsengi sé vegna kvikuinnflæðis sem er á bilinu 1-2 m3/s og bætist við í kvikusöfnunarsvæðið. Ef kvikusöfnun undir Svartsengi ásamt hraunflæði á yfirborði er lagt saman sýnir það svipað kvikuflæði frá dýpi og fyrir eldgosið. Enn þá er talsverð óvissa í líkanreikningum og mati á hraunflæði frá eldgosinu síðustu vikuna sem getur haft áhrif á þetta mat. Áfram verður fylgst náið með framvindu atburðarins.

Likan_Textaleidretting18062024

Eftirfarandi línurit sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Rauða línan sýnir áætlað rúmmál kviku sem hefur bæst við kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi frá 30. maí til 17. júní.

Samkvæmt veðurspá er suðaustanátt í dag, en suðlægari í kvöld. Gasmengunin fer til norðvesturs og síðar norðurs og má gera ráð fyrir að mengun mælist á norðanverðu Reykjanesi. Á morgun er hæg breytileg og síðar vestlæg átt. Gasmengunin mun þá færast í átt að höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is og gasdreifingarspá hér .

Hættumat sem gefið var út þann 13. júní er enn í gildi til 20. júní, að öllu óbreyttu.



Uppfært 13. júní kl. 15:55
  • Eldgosið hefur staðið yfir í 15 daga. Einn gígur virkur 
  • Hraunbreiðan í þessu gosi er orðin 9,2 km2 og rúmmál um 41 milljón m3 og þar með sú stærsta síðan í desember 2023. 
  • Hrauntjörn er enn til staðar en hraun rennur úr henni í virka hraunstrauminn norðan Sýlingarfells
  • Líklegt að gasmengun haldi áfram næstu daga. Sjá gasdreifingarspá.
  • Hættumat uppfært – að mestu óbreytt

Eldgosið sem hófst 29. maí stendur enn og hefur því staðið yfir í 15 daga. Það hefur verið nokkuð stöðugt undanfarna daga og áfram er einn gígur virkur, eins og hefur verið síðan 4. júní. Mjög lítil skjálftavirkni hefur mælst á svæðinu.

Áfram er meginhraunstraumurinn frá gígnum í átt að Sýlingarfelli og meðfram því norðanmegin. Hrauntjörn er enn til staðar við Sýlingarfell en þó rennur hraun úr henni í virka hraunstrauminn norðan Sýlingarfells. Sá straumur er í svipuðum farvegi og hraunið sem rann yfir Grindavíkurveg síðastliðinn laugardag. Hraunjaðarinn nærri Grindavíkurvegi hreyfist mjög hægt áfram en þykknar.

Hraunbreiðan frá þessu gosi sú stærsta að flatar- og rúmmáli

Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga hefur unnið úr gögnum sem sérfræðingar Eflu, Verkís og Svarma söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar þann 10. júní. Gögnin sýna að flatarmál hraunbreiðunnar er orðið 9,2 km2 og rúmmál um 41 milljón m3. Þar með er hraunbreiðan sem myndast hefur í þessu gosi sú stærsta að flatar- og rúmmáli sem myndast hefur í þeim fimm eldgosum sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023. Til samanburðar var hraunbreiðan sem myndaðist í eldgosinu sem hófst 16. mars og stóð yfir til 9. maí um 6,2 km2 að flatarmáli og 35 milljón m3.

Út frá þessum gögnum er meðalhraunflæði frá eldgosinu á tímabilinu 3. - 10. júní metið um 10 m3/s. Frá því síðdegis 29. maí til 3. júní var hraunflæðið metið um 27 m3/s, því dró nokkuð úr gosinu milli þessara tveggja mælinga.

Hraunbreida14062024

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt hraunbreiðunnar sem hefur myndast í eldgosinu sem hófst 29. maí. Kortið er afurð samvinnu margra aðila en er byggt á mælingum Verkís, Eflu og Svarma frá 10. júní. Á kortinu sést hvar hraun hefur safnast í hrauntjörn suðaustan við Sýlingarfell (rauðleit svæði) og hraunstraumurinn sem rennur þaðan norður fyrir Sýlingarfell. Gráleit svæði sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.


GPS mælingar benda til að landris í Svartsengi haldi áfram og að staðsetning kvikusöfnunar undir Svartsengi sé óbreytt. Það má túlka þetta sem svo að kvikuflæði frá dýpi haldi áfram og sé meira en flæði frá gígnum og kvikusöfnun undir Svartsengi haldi því áfram eins og áður. Áfram verður fylgst náið með framvindu atburðarins og reynt að varpa skýrara ljósi á þróunina.


SENG13062024

Færslur á GPS stöðinni SENG við Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (10. júní) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu fimm eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. Mars og 29. maí 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. Nóvember 2023 og 2. mars 2024).

Mikil gasmengun síðustu daga

Gasmengun frá eldgosinu hefur verið nokkuð mikil í gær og í dag. Mælir sem Veðurstofan er með hjá Bláa lóninu og mælir Umhverfisstofnunar í Höfnum sýna töluvert mikla gasmengun. Það hefur verið austlæg átt í nótt og því blés gas frá eldgosinu til vesturs. Mesti styrkur SO2 mældist rúmlega 8000 µg/m3 (10 mínútna meðaltal). Það má búast við að gasmengun verði viðvarandi næstu daga. Áfram er austlæg átt í dag og berst gasið þá til vesturs yfir Svartsengissvæðið og þaðan áfram yfir vestanverðan Reykjanesskagann. Á morgun verður breytileg átt og því útlit fyrir að gasið dreifist víða um Reykjanesskagann en er líður á daginn gengur í norðanátt og þá mun gas blása suður yfir Grindavík.

Hættumat hefur verið uppfært í ljósi þróunar á eldgosinu og veður- og gasdreifingarspár. Það er að mestu óbreytt, en á svæði 5 hefur hætta vegna hraunflæðis aukist. Áfram er mjög mikil hætta á svæði 3, Sundhnúksgígaröðin, þar sem eldgosið hófst. Einnig er mikil hætta (rautt) á svæði 4 (Grindavík) og svæði 6. Á svæði 1, 5 og 7 er töluverð hætta (appelsínugult). Á öllum svæðum nema svæði 7 eru miklar líkur á gasmengun. Kortið gildir að öllu óbreyttu til 20. júní.

Haettusvaedi_VI_13juni_2024
(Smellið á kortið til að skoða stærra)

Uppfært 11. júní kl. 13:20
  • Eldgosið hefur staðið yfir í 13 daga. Einn gígur virkur og virknin stöðug
  • Talsverð mengun frá eldgosinu víða á höfuðborgarsvæðinu og á vestanverðu Suðurlandi. Gasdreifingarspá hér.
  • Óæskilegt að stunda útivist á þeim svæðum sem mengun mælist. Hægt að fylgjast með loftgæðum hér.
  • Mælingar benda til að landris sé hafið að nýju
  • Hraun safnast enn í hrauntjörn rétt suðaustan Sýlingarfells

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina sem hófst fyrir 13 dögum helst stöðugt. Einn gígur er virkur og hefur virknin verið svipuð síðustu daga. Skjálftavirkni hefur verið afar lítil síðustu viku, einungis örfáir skjálftar hafa mælst.

Eins og fram kom í fréttum okkar um helgina tók hraunstreymi að aukast neðan við Sýlingarfell til vesturs og Grindavíkurvegur fór undir hraun í þriðja sinn frá því eldvirknin hófst við Sundhnúk í nóvember síðastliðinum. Enn er hreyfing á hrauntungunni sem rennur nú til norðvestur eftir svipuðum farvegi og sú sem rann yfir Grindavíkurveg á laugardag. Virkur jaðar hennar er þó enn í nokkur hundruð metra fjarlægð frá veginum og hreyfist afar hægt. Hraun safnast enn í hrauntjörn rétt suðaustan Sýlingarfells sem gæti tæmt sig að nýju og komið af stað öðru áhlaupi á næstu dögum.

Það lítur út fyrir að landris sé hafið að nýju síðan um helgina og landsigið sem mældist fyrstu daga gossins því lokið. Ekki er hægt að meta hraðan á landrisinu á þessari stundu, en gera megi ráð fyrir að innflæði kviku í kvikusöfnunarsvæðið sé orðið meira en útstreymi úr gígnum. 

THOB-plate_since-20231112

Færslur á GPS stöðinni THOB á Þorbirni síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (10. júní) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu fimm eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. nóvember 2023 og 2. mars 2024).

Mengun frá eldgosinu viðvarandi í dag

Talsverð mengun mælist nú frá eldgosinu víða á höfuðborgarsvæðinu og á vestanverðu Suðurlandi. Samkvæmt gögnum frá Umhverfisstofnun eru hæstu gildi SO2 á höfuðborgarsvæðinu komin yfir 500 µg/m3 og viðbúið er að mengunin verði viðvarandi í allan dag. Fólk sem er viðkvæmt fyrir í öndunarfærum getur fundið fyrir óþægindum. Æskilegt er að takmarka líkamlega áreynslu utandyra og forðast að láta ungabörn sofa utandyra þegar megnun er þetta mikil.

Í morgun hafa þokuský legið yfir vestanverðu landinu, einnig hefur verið sýnileg gosmóða sem stafar af umbreytingu SO2 gasi í SO4. Gosmóða er samsett úr mjög fínum brennisteinsögnum (SO4) sem hafa orðið til vegna efnahvarfa gosmakkarins við raka og súrefni andrúmsloftsins með tilstuðlan sólarljóss. Þegar dagur er langur, eins og nú er, eru því auknar líkur á að gosmóða myndist. Gosmóða mælist ekki á SO2 gasmælum en séstsem blá móða þegar ákveðnum styrk er náð. Hækkun á örfínu svifryki (PM1 og PM2.5) getur verið vísbending um að SO4 sé til staðar. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á loftgæðamælum Umhverfisstofnunar.

Spá veðurvaktar um gasdreifingu er fremur hæg breytileg átt og gasmengunar getur orðið vart víða á suðvesturhorninu. Snýst í suðlæga átt eftir hádegi, gasi blæs til norðurs og gæti mengunar orðið vart í Vogum og Reykjanesbæ. Suðaustlæg átt á morgun, gas blæs til norðvesturs.

Gasdreifingin11062024


Uppfært 8. júní, kl. 15:30
  • Áfram virkni í einum gíg sem helst nokkuð stöðug
  • Í nótt jókst hraunstreymið norður fyrir Sýlingarfell og í átt að Grindavíkurvegi 
  • Hrauntungan náði veginum um hálf 11 í morgun
  • Framendi hraunbreiðunnar í um 800 metra fjarlægð frá heitavatnslögnum

Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram og eru nú tíu dagar síðan það hófst. Frá því á þriðjudag, 4. júní, hefur einn gígur verið virkur. Hraun hefur undanfarna daga runnið að mestu til norðvesturs og þykknað við Sýlingarfell ásamt því að renna mjög hægfara norður fyrir Sýlingarfell og til vesturs. Í nótt, aðfaranótt laugardags, tók að auka á hraunstreymið norður fyrir Sýlingarfell til vesturs og í átt að Grindarvíkurvegi. Í morgun, laugardag, var farið í að loka skarðinu í varnargarðinum við Grindarvíkurveg og um hálf ellefu náði hrauntungan veginum rétt norðan við varnargarðinn. Hraun hefur einnig leitað niður með garðinum og er það mjög þykkt við garðinn og hrynur úr því yfir garðinn á kafla. Dregið hefur úr hraða hraunsins eftir hádegi. Framendi hraunbreiðunnar hefur náð í um 800 metra fjarlægð frá heitavatnslögnum og færist hægt í áttina að þeim.

Má álykta að áhlaupinu sé lokið að sinni en búast má við því að það mjatlist eitthvað áfram. Fylgst verður vel með aðstæðum og ekki er útilokað að annað áhlaup geti átt sér stað á næstu dögum.


Vefmyndavel08062024

Myndin er tekin klukkan 10:10 í morgun úr myndavél í eigu Veðurstofu Íslands sem staðsett er á Þorbirni. Hún sýnir hraunfrontinn færast í átt að Grindavíkurvegi og starfsmenn á svæðinu að loka opnun í varnargarðinum L1.  


Uppfært 7. júní, kl. 15:20
  • Áfram virkni í einum gíg sem helst nokkuð stöðug
  • Hraun rennur að mestu til norðvesturs
  • Land hætt að síga í Svartsengi
  • Hættumat uppfært. Gasmengunar gæti orðið vart í Grindavík

Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram og eru nú níu dagar síðan það hófst. Frá því á þriðjudag, 4. júní, hefur einn gígur verið virkur. Hraun frá honum rennur að mestu til norðvesturs í átt að Sýlingarfelli þar sem hraunbreiðan þykknar en þaðan eru virkir hraunstraumar norður fyrir Sýlingarfell.

InnRaud_07062024

Gervitunglamynd frá 5. Júní sem sýnir hraunbreiðuna við Svartsengi og Grindavík. Á myndinni má einnig sjá gíginn og hraunstraum frá honum eins og þeir voru þá til norðvesturs að Sýlingarfelli og til suður í átt að Hagafelli. Myndin er svokölluð „nær-innrauð“ mynd þar sem gróður að aðrar ljóstillífandi lífverur koma fram sem í mismunandi rauðum litum. Þessi framsetning hentar einnig vel til að greina ný hraun frá mun eldri hraunum og svæði sem hafa orðið gróðureldum að bráð.

Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga hefur unnið úr gögnum sem sérfræðingar Eflu, Verkís og Svarma  söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar þann 3. júní. Gögnin sýna að flatarmál hraunbreiðunnar er orðið 8,6 km2 og rúmmál um 36 milljón m3.

Út frá þessum mælingum er áætlað meðalhraunflæði frá eldgosinu frá því síðdegis 29. maí til 3. júní um 30 m3/s. Þessar niðurstöður eru byggðar á gögnum sem ná yfir um 70% af hraunbreiðunni en gert er ráð fyrir því að ekki hafi orðið markverðar breytingar á hraunbreiðunni utan þess svæðis á milli mælinga. Eftir að þessar mælingar voru gerðar varð sú breyting á virkni gossins að virkum gígum fækkaði og einn gígur hefur verið virkur síðan 4. júní. Ekki eru til mælingar á hraunflæði síðan þá, en til samanburðar var hraunflæði frá síðasta eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni áætlað um 3-4 m3/s þegar einn gígur var virkur.

Land hætt að síga í Svartsengi

Fyrstu dagana eftir að eldgosið hófst mældist landsig á Svartsengissvæðinu sem benti til þess að meira magn kviku flæddi úr kvikusöfnunarsvæðinu og upp á yfirborð heldur en flæddi inn í það af dýpi. Aflögunarmælingar undanfarna daga sýna að landsig virðist hafa stöðvast og því líklegt að flæði kviku frá dýpi inn í kvikusöfnunarsvæðið sé núna sambærilegt því sem er á yfirborði í Sundhnúksgígaröðinni.

Likan_Textaleidretting_IS_07062024

Eftirfarandi línurit sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Rauða línan sýnir niðurstöður líkanreikninga frá 30. maí þar sem sést að fyrstu dagana eftir að gos hófst minnkaði rúmmál kviku undir Svartsengi. Síðustu punktar sýna stöðugt rúmmál kviku undir Svartsengi sem bendir til þess að jafnt magn af kviku sé að flæða inn í kvikusöfnunarsvæðið af dýpi og er að flæða upp á yfirborð á Sundhnúksgígaröðinni. Sjá nánari umfjöllun um kvikustreymi undir Svartsengi í eldri frétt.

Fylgst með mögulegum breytingum á kvikusöfnun undir Svartsengi

Eins og nefnt var í síðustu fréttauppfærslu þá var það í fyrsta skipti, síðan eldgosavirkni hófst í Sundhnúksgígaröðinni í desember 2023, sem landsig mældist í Svartsengi á meðan eldgosi stendur. Í gær birti Jarðvísindastofnun Háskólans fyrstu berg- og jarðefnafræðigögn frá yfirstandandi  eldgosi. Gögnin sýna að efnasamsetning kvikunnar sem nú kemur til yfirborðssé ólík þeirri sem hefur komið upp í síðustu fjórum eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni,en líkist kvikunni frá byrjun eldgossins í Geldingadölum 2021. Þessar niðurstöður eru merki um að kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé að breytast. Að svo stöddu er ekki hægt meta nákvæmlega hvers konar breytingar eru í gangi, en á næstunni verður fleiri gögnum safnað og þau rýnd til að reyna að varpa ljósi á þær.   

Mikilvægt að fylgjast reglulega með gasmengunarspá

Verðurspá gerir ráð fyrir norðanátt í dag og á morgun. Gasmengun berst því til suðurs og hennargæti orðið vart í Grindavík. Enn er talsverð óvissa með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is og gasdreifingarspáVeðurstofunnar hér.

Hættumat hefur verið uppfært í ljósi þróunar á eldgosinu og veður- og gasdreifingarspár. Hættumat er að mestu óbreytt, en svæði 7 hefur verið fært af gulu upp í appelsínugult vegna mögulegrar gasmengunar. Kortið gildir að öllu óbreyttu til 13. júní.

Haettusvaedi_VI_7juni_2024

Uppfært 4. júní, kl. 16:30
  • Eldgosið hefur staðið yfir í sex sólahringa
  • Einn gígur virkur
  • Hraun hefur aðallega runnið til norðvesturs að Sýlingarfelli
  • Nýleg gögn benda til þess að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi líkt og áður
  • Hættumat að mestu óbreytt

Eldgosið sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni þann 29. maí hefur nú staðið í sex sólarhringa. Eftir nokkuð kröftuga byrjun dróst virknin saman í þrjá gíga sem voru virkir um síðastliðna helgi. Breyting varð á virkninni í nótt og svo virðist sem einungi einn gígur sé virkur eftir nóttina. (Sjá staðsetningu gígsins á hættumatskorti ) Gígurinn sem ennþá er virkur er staðsettur rétt við þann gíg sem gaus lengst úr í eldgosinu sem hófst 16. mars og endaði 9. maí.

Hraunstraumar úr þeim gíg sem er virkur eru til norðvesturs að Sýlingarfelli og meðfram því að norðan. Einnig eru virkir hraunstraumar til suðurs í átt að Hagafelli. Gera má ráð fyrir að dregið hafi úr hraunstraumi til suðaustur í átt að Fiskidalsfjalli eftir að virknin færðist yfir í einn gíg.

Meðfylgjandi eru tvær myndir úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem staðsett er uppi á Þorbirni og horfir yfir gosstöðvarnar. Á fyrri myndinni, sem tekin er kl. 02:00 sést kvika koma upp úr tveimur  gígum, en seinni myndin sem tekin er klukkustund síðar sýnir einungis kviku koma úr stærri gígnum.

Gigar1_04062024
Gigar2_04062024

Nýleg gögn benda til þess að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi líkt og áður

Aflögunarmælingar sýna að land heldur áfram að síga í Svartsengi. Þegar kvikuhlaupið byrjaði í aðdraganda eldgossins þann 29. maí seig land í Svartsengi um 15 cm, en hefur nú sigið um 4-6 cm til viðbótar á undanförnum dögum. Það að land haldi áfram að síga þetta mörgum dögum eftir upphaf goss er ólíkt því sem hefur áður sést í eldgosunum á Sundhnúksgígaröðinni.

Í fyrri kvikuhlaupum/eldgosum, hefur mest allt sig samfara þeim einungis mælst á allra fyrstu dögum en strax í kjölfarið farið að mælast landris. Landsigið bendir til þess að á þessu stigi flæði meira magn kviku úr kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, heldur en að flæði inn í það af dýpi.

Aflögunarmælingar á Svartsengissvæðinu og þróun eldgossins næstu daga munu gefa skýrari mynd af framhaldi kvikusöfnunar undir Svartsengi. Líkanreikningar og mat á hraunflæði í gosinu benda hins vegar til þess að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi líkt og áður.

Uppfært hættumat

Veðurspá í dag (þriðjudag) er norðanátt og mun gasmengunin berast til suðurs, líkur á mengun um tíma í Grindavík. Norðvestlægari á morgun, gasmengun mun þá berast til suðausturs. Talsverð óvissa er með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is.

Hættumat hefur verið uppfært í ljósi þróunar eldgossins og veður- og gasdreifingaspár. Hættumat er að mestu óbreytt, en svæði 7 hefur verið fært niður í nokkra hættu (gult). Áfram er mjög mikil hætta (fjölublátt) á svæði 3 sem nær yfir Sundhnúksgígaröðina og upptök eldgossins. Á svæði 4 (Grindavík) og 6 er áfram mikil hætta (rauð) og svæði 1 og 5 töluverð hætta (appelsínugult). Kortið gildir að öllu óbreyttu til 7. júní.

Haettusvaedi_VI_4juni_2024

Uppfært 31. maí kl: 15:30
  • Virkni eldgossins nokkuð stöðug síðasta sólahring
  • Hraunrennsli aðallega milli Hagafells og Sýlingarfells
  • Meðalhraunflæði fyrstu fjórar klukkustundir gossins var metið um 1500 m3/s
  • Gosmóðu vart víða um land. Hægt er að fylgjast með loftgæðum hér
  • Gasmengun gæti orðið vart í Ölfusi og á höfuðborgarsvæðinu næstu daga. Fylgist með gasdreifingarspá hér
  • Sjá uppfært hættumat hér
  • Athugasemd náttúruvársérfræðings verða uppfærðar eftir þörfum um helgina

Virkni eldgossins sem byrjaði um hádegisbil 29. maí hefur verið nokkuð stöðug síðasta sólahring. Virkni á gossprungunni er frá gígnum sem gaus lengst af í síðasta gosi, til móts við Sundhnúk og á gossprungunni norðan við hann. Hraun rennur aðallega frá gígnum í átt að svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells og þykknar einnig nærri honum. Hraun frá nyrðra hluta gossprungunnar rennur mest til austurs. Engin framrás hefur orðið á þeim hrauntungum sem fóru yfir Grindavíkurveg til móts við Þorbjörn og vestan við bæinn. Hraunið í kringum gamla gíginn bunkast upp í nálægð við virka gíginn.

Lítil sem engin skjálftavirkni er á svæðinu og óróinn hefur haldist stöðugur síðan í fyrradag. Töluvert sig mældist á aflögunarmælum í Svartsengi í kjölfar kvikuhlaupsins á miðvikudag, en síðan þá hafa ekki mælst markverðar breytingar sem benda til þess að kvikusöfnun sé hafin aftur þar. Mælingar næstu daga munu gefa frekari upplýsingar um þróun á kvikusöfnun undir Svartsengi og framvindu eldgossins.

Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands hefur unnið úr gögnum úr mælingaflugi sem farið var í  um fjórum klukkustundum eftir að gos hófst ásamt gervitunglamyndum. Út frá þeim gögnum sést að flatarmál hraunsins var síðdegis þann 29. maí þegar orðið 8,7 km2 og rúmmál þess 24 milljón m3. Meðalhraunflæði fyrstu fjórar klukkustundir gossins er metið ~1500 m3/s byggt á sömu gögnum. Mat á flæði hrauns sem kemur upp úr gígunum hefur ekki verið uppfært síðan þá, en gera má ráð fyrir því að nú sé það margfalt minna en í upphafi gossins. Til samanburðar var meðalhraunflæðið fyrstu klukkustundirnar í eldgosinu sem hófst 16. Mars metið um 1100-1200 m3/s. Nánar um það á vef Jarðvísindastofnunar.

Gosmóðu vart víða um land

Suðvestlægar áttir fram á sunnudag, en þá snýst vindur til vestlægrar áttar. Víða dálítil væta, einkum um landið suðvestanvert. Gasmengun berst því til norðausturs og síðar austur og gæti orðið vart í Ölfusi og á höfuðborgarsvæðinu næstu daga. Gosmóðu hefur orðið vart víða um land síðasta sólahring og hefur mælst á mælum Umhverfisstofnunar.  Gosmóða er samsett úr mjög fínum brennisteinsögnum (SO4) sem hafa orðið til vegna efnahvarfa gosmakkarins við raka og súrefni andrúmsloftsins með tilstuðlan sólarljóss. Þegar dagur er langur, eins og nú er, eru því auknar líkur á að gosmóða myndist. Gosmóða mælist ekki á SO2 gasmælum en sjást hins vegar sem gráblá móða þegar ákveðnum styrk er náð. Hækkun á örfínu svifryki (PM1 og PM2.5) getur verið vísbending um að SO4 sé til staðar. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á loftgæðamælum umhverfisstofnunar.

Í næstu viku eru líkur á norðan og norðvestan áttum og því litlar líkur á gas og loftmengun í byggð. 

31052024so2

Meðfylgjandi gervitunglamynd (Sentinel-5p) sem tekin var kl. 13:47 í gær, 30. maí, sýnir SO2 mökkin sem barst frá eldgosinu til austurs og varð m.a. vart á Austfjörðum.

Uppfært hættumat


Veðurstofan hefur uppfært hættumat í ljósi þróunar á eldgosinu. Svæði 1, 5 og 7 fara úr mikilli hættu í töluverða hættu (appelsínugult). Helsta breytingin er að hætta á gasmengun, gjóskufalli og hraunflæði er nú talin minni en áður á þeim svæðum. Áfram er mjög mikil hætta á svæði 3 (fjólublátt) sem er Sundhnúksgígaröðin og upptök eldgossins. Heildarhætta á svæði 4 (Grindavík) helst óbreytt og er áfram metin mikil (rauð) en þó er hætta á gosopnun, hraunflæði og gjóskufalli metin minni en áður. Kortið gildir að öllu óbreyttu til 4. júní.

Haettusvaedi_VI_31mai_2024
(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Uppfært 30. maí kl: 12:20
  • Dregið verulega úr virkni eldgossins

  • Hraunrennsli aðallega á svæðinu í kringum Hagafell

  • Engin sprengivirkni síðan síðdegis í gær

  • GPS mælingar sýna að land í Svartsengi seig um 15 cm þegar kvika hljóp þaðan.

  • Möguleg gasmengun á Suðurlandi í dag og á Höfuðborgarsvæðinu síðdegis og á morgun. Gasdreifingarspáaðgengileg hér

  • Talsverð óvissa um magn gastegunda frá gosstöðvunum. Rauntímamælingar á loftgæðum aðgengileg á vef Umhverfisstofnunar.

Frá því síðdegis í gær hefur dregið verulega úr virkni á gossprungunni við Sundhnúksgígaröðin. Virknin í gosinu hefur verið á svipuðum nótum í nótt og í morgun en gosórói hefur verið stöðugur síðan seint í gærkvöldi. Engin sprengivirkni hefur sést síðan í síðdegis í gær, en gufusprengingar urðu þar sem hraun flæddi ofan í sprungur og komst í snertingu við grunnvatn við Hagafell. Virkni er mest nærri þeim gíg sem var lengst virkastur í eldgosinu sem hófst 16. mars og virkni á nokkrum hlutum gossprungunnar norðan hans. Hraunrennsli er nú mest á svæðinu í kringum Hagafelli. Hægt hefur á framrás hraunrennslis við Grindavíkurveg til móts við Svartsengi og við varnargarðana vestur af Grindavík.

Sérfræðingar úr myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands fóru í mælingaflug yfir gosstöðvarnar. Aðstæður til loftmyndatöku voru krefjandi þar sem gosmökkurinn lá yfir hluta hraunbreiðunnar sem myndaðist í upphafi gossins. Verið er að vinna frekar úr þeim gögnum sem náðust í loftmyndafluginu ásamt því að nota gervitunglamyndir til þess að fá skýrari mynd á hraunflæði fyrstu klukkustundir gossins. Meðfylgjandi kort sýnir gróflega áætlaðar útlínur hraunbreiðunnar, eins og þær voru um kl. 17 í gær, eða þegar eldgosið hafði staðið í rúmar fjórar klukkustundir. Staðsetning gossprungunnar einnig sýnd með rauðum strikalínum.


Utbreidsla30052024

Land seig í Svartsengi um 15 cm þegar kvika hljóp þaðan

Gervitunglamyndir teknar snemma í morgun, 30. maí, sýna ekki markverðar hreyfingar á sprungum innan varnargarða við Grindavík. Rauntímaaflögunarmælingar sýna einnig að frá því í gærkvöldi hefur ekki mælst markverð aflögun þar.

GPS mælingar sýna að land í Svartsengi seig um 15 cm þegar kvika hljóp þaðan yfir í Sundhnúksgígaröðina í gær. Kvikugangur sem myndaðist og fæðir nú eldgosið nær frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli. Áætlað er að um 15 milljón rúmmetrar af kviku séu nú þegar farin úr kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi.

Mælingar næstu daga munu gefa frekari upplýsingar um þróun á kvikusöfnun undir Svartsengi og mögulega þróun eldgossins. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og fylgjast með þróun atburðarins.  

Gasdreifingarspá

Spá veðurvaktar framan af degi (fimmtudag) er vestlæg átt og gasmengun berst þá til austurs og gæti hennar orðið vart í Ölfusi og víðar á Suðurlandi. Suðvestlægari vindur síðdegis og áfram á morgun (föstudag). Berst þá gasmengun til norðausturs og gæti hennar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu. Talsverð óvissa er þó með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá og rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is.

Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um gosmóðu í Mývatnssveit, á Jökuldal og á Flúðum, ásamt því að mælast á mæli Umhverfisstofnunar á Húsavík. Miðað við gasdreifingarspá má ætla að stór hluti landsins geti orðið var við gosmóðu í dag. Gosmóða er samsett úr brennisteinsögnum (SO4) sem hafa orðið til vegna efnahvarfa gosmakkarins við súrefni andrúmsloftsins. Þetta gerist hraðar þegar lofthiti er meiri og sól skín, líkt og var raunin í gær þegar gosið hófst. Þessar brennisteinsagnir mælast ekki á SO2 gasmælum en sjást hins vegar sem gráblá móða þegar ákveðnum styrk er náð. Hækkun á örfínu svifryki (PM1 og PM2.5) getur verið vísbending um að SO4 sé til staðar. Þau gildi sem hafa mælst í dag eru ekki yfir neinum heilsufarsmörkum, en hægt er að fylgjast með loftgæðamælum umhverfisstofnunar.


Uppfært 29. maí kl: 18:35
  • Hættumat uppfært í ljósi gjóskufalls
  • Meginhluti gossprungunnar er um 2,4 km langur
  • Hraunið hefur runnið yfir Grindavíkurveg og Nesveg
  • Útstreymishraði hrauns í upphafi goss var gróflega áætlaður 1.500-2.000 m3/s
  • Í kvöld snýst vindátt til suðvesturs. Gasmengunar gæti orðið vart á höfuðborgarsvæðinu í nótt og á morgun.

Enn er töluverð kvikustrókavirkni á meginhluta gossprungunnar, sem er um 2,4 km löng. Gossprungan nær suður fyrir Hagafell og rennur hraun ákaft þaðan að mestu til suðurs og vesturs. Hraun hefur runnið yfir Grindavíkurveg til móts við Þorbjörn og þaðan áfram meðfram varnargörðum vestan Grindavíkur og yfir Nesveg. Nokkur hluti þess hraunstraums sem fer til suðurs fer ofan í sprungu til móts við Hagafell og kemur aftur upp rétt norðan varnargarða norðaustan við Grindavík. Hrauntunga sem rennur til vesturs fer norðan við Sýlingarfell og nálgast þar Grindavíkurveg til móts við Svartsengi.

Líkanreikningar gera ráð fyrir því að eins og staðan var kl. 16:30 hafi um 14 milljón m3 af kviku farið frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina.  Hraði aflögunar hefur minnkað töluvert en áfram streymir kvika frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina.

Hættumat hefur verið uppfært vegna hraunflæðis og gjóskufalls. Svæði 7 fer úr töluverðri hættu í mikla hættu (rautt). Svæði 4 (Grindavík) er óbreytt (rautt) en hætta hefur aukist vegna gjóskufalls, en einnig eru auknar líkur á gosopnun innan svæðisins og hraunflæðis. Hætta á svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin) er áfram mjög mikil (fjólublátt). Svæði 1 og 5 helst óbreytt og er hætta þar talin mikil (rautt).

Haettusvaedi_VI_29mai_2024_kl1800(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Laust fyrir kl. 16 hófst sprengivirkni í gosinu vegna þess að kvikan komst í snertingu við grunnvatn þar sem hraunstraumur fer ofan í sprungu til móts við Hagafell. Þá snögghitnar vatnið og framkallar gufusprengingar og gjóskufall (aska).

Töluverð óvissa er með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Í kvöld snýst vindátt til suðvesturs og því berst gasmengun til norðausturs og gæti hennar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu í nótt og á morgun (fimmtudag). Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá og rauntímamælingum ýmissa gastegunda á loftgæði.is


Uppfært 29. maí kl: 15:30
  • Hættumat uppfært
  • Hraunið rennur yfir Grindavíkurveg
  • Gossprungan er nú um 3,4 km að lengd
  • Útstreymishraði hrauns er gróflega áætlaður 1.500-2.000 m3/s
  • Jarðskjálftavirkni hefur minnkað hratt
  • Stöðugt sig sést á GPS stöð við Svartsengi
  • Hæstu strókar eru um 60-70 metrar
  • Hraun komið að varnargörðum vestan við Grindavík

Veðurstofan hefur uppfært hættumat í ljósi eldgossins og hraunflæðis frá gossprungunni. Þær breytingar eru á hættumatinu að hættan á Svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin) hefur verið aukin í mjög mikla (fjólublátt) vegna gosopnunar og mikils hraunflæðis. Hætta á Svæði 1 (Svartsengi) og 5 (norðan Svartsengis) hefur verið fært upp í mikla hættu (rautt) vegna hraunflæðis og gasmengunar. Svæði 4 (Grindavík) er óbreytt frá fyrra hættumati en auknar líkur eru á gosopnun innan svæðisins og hraunflæðis.

Haettusvaedi_VI_29mai_2024_kl1430

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Uppfært 29. maí kl: 14:50

  • Hraunið rennur yfir Grindavíkurveg
  • Gossprungan er nú um 3,4 km að lengd
  • Útstreymishraði hrauns er gróflega áætlaður 1.500-2.000 m3/s
  • Jarðskjálftavirkni hefur minnkað hratt
  • Stöðugt sig sést á GPS stöð við Svartsengi
  • Hæstu strókar eru um 60-70 metrar

Svo virðist sem mesti krafturinn í gosinu sé nú í suður enda sprungunnar sem opnaðist fyrr í dag. Samkvæmt upplýsingum úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar er nokkuð ákaft hraunrennsli að umlykja Hagafell austan og svo suður fyrir í átt að Melhólsnámu.

Syðsta op sprungunnar er nú innan við kílómetra fjarlægð frá varnargörðum norðan Grindavíkur.

Útstreymishraði hraunsins er talsvert meiri á fyrstu klukkustundum í gosinu heldur en í fyrri 4 gosum á svæðinu.


Uppfært 29 maí kl: 14:15

  • Mikið flæði sunnan Stóra-Skógfells sem nálgast Grindavíkurveg
  • Hraunið hefur runnið um 1 km til vesturs fyrstu 45 mínútur gossins.
  • Kl: 14:05 gossprungan er nú um 3,4 km að lengd
  • Sprungan hefur lengst til suðurs og er komin um 300-400 metra norðan við mars-apríl gíginn.
  • Útstreymishraði hrauns er gróflega áætlaður 1.000 m3/s
Hraunið hefur runnið um 1 km til vesturs og er mikið flæði sunnan Stóra-Skógfells sem nálgast Grindavíkurveg. Þegar klukkan var rúmlega tvö var gosmökkurinn um 3,4 km. Fyrsta sprungan hefur lengst til suðurs og er komin um 300-400 metra norðan við gíginn sem myndaðist í gosinu sem hófst 16. mars. Útstreymishraði hraunsins er gróðflega áætlaður um 1.000 m3/s.

Image--24-
Áætluð staðsetning gossprungunnar. Smellið á kortið til að sjá það stærra.

Gasmengun berst til suðausturs og síðar austurs í dag og gæti hennar því orðið vart í Selvogi og Ölfusi. Í kvöld snýst vindátt til suðvesturs og því berst gasmengun til norðausturs og gæti hennar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu í nótt og á morgun (fimmtudag). Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Gasdreifing29052024

Uppfært 29. maí 2024, kl 12:50
  • Eldgos hófst á Sundhnúksgígaröðinni kl. 12:46
  • Gosið er á svipuðum slóðum og fyrri gos
  • Gossprungan er rúmlega 1 km að lengd
  • Gosmökkurinn náði upp í um 3.5 km hæð í upphafi goss
  • Fylgjst er vel með því hvort að sprunga lengist til suðurs

Eldgos er hafið nærri Sundhnúkum og virðist vera staðsett norðaustan við Sýlingafell. Gosstrókarnir ná að minnsta kosti 50 metra hæð og lengdin á spurngunni virðist vera rúmlega 1 kílómetri. 
Þyrla Landhelgisgæslunnar var að fara í loftið til þess að staðsetja nákvæma staðsetningu og stærð eldgossins. Nánari upplýsingar verða aðgengilegar fljótlega.
Eldgos29052024
(áætluð staðsetning gossprungu)

Uppfært 29. maí 2024, kl 12:35


Kvikuhlaup er hafið. Öll merki sem sést hafa í aðdragenda fyrri eldgosa sjást nú á mælitækjum. Staðbundin og áköf smáskjálftavirkni, þrýstingsbreyting í borholum og aflögunarmerki á GPS mælum. Auknar líkur eru því á að þetta kvikuhlaup leiði til eldgoss.

Uppfært 29. maí 2024, kl 11:00

Áköf jarðskjálftavirkni stendur yfir á Sundhnúksgígaröðinni. Þetta bendir til þess að kvikuhlaup gæti verið að hefjast eða hafið og líklegt sé að eldgos hefjist í kjölfarið.

Uppfært 28. maí 2024, kl. 18:30

  • Aflögunargögn sýna að landris við Svartsengi heldur stöðugt áfram

  • Um 20 milljónir rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars

  • Áfram líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi

  • Um 400 jarðskjálftar hafa mælst síðustu sjö daga

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Alls hafa um 400 jarðskjálftar mælst síðustu sjö daga nærri Sundhnúksgígaröðinni. Stærsti skjálftinn var 2,2 að stærð við Sundhnúk. Virknin dreifist frá Grindavík norðaustur að Stóra Skógfelli eftir kvikuganginum. Í gær mældust hátt í 100 jarðskjálftar á svæðinu og það sem af er degi í dag hafa mælst tæplega 70 skjálftar. Frá því  að eldgosinu lauk, 9. maí, hafa flesta daga mælst á milli 40 og 60 skjálftar en stöku daga um 80 skjálftar, að frátöldum 24. og 25. maí þegar töluvert færri skjálftar mældust vegna hvassviðris. Því virðist vera sjáanleg aukning í fjölda skjálfta frá því í gær.

Landris við Svartsengi heldur áfram á stöðugum hraða sem bendir til að kvika haldi áfram að safnast fyrir í kvikhólfinu undir Svartsengi. Líkanreikningar áætla að um 20 milljón rúmmetrar af kviku hafi bæst við kvikuhólfið síðan eldgosið hófst 16. mars. Engin gögn benda til að það sé að draga úr flæði kviku inn í kvikuhólfið. Ekki er hægt að áætla annað en að áfram séu miklar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi. Töluverð óvissa er þó í kerfinu um hvenær það verður og líka nákvæmlega hvar það mun koma upp. Þó er líklegast að kvikuhlaup verði á svipuðum slóðum og þau sex kvikuhlaup sem hafa orðið síðan í nóvember 2023. Líklegt er að fyrirvarinn á því verði stuttur.

Graph_timeseries_mogi_is27052024

Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá október 25. október. Hvert kvikuhlaup hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023. Hér sést að heildarmagn kviku hefur aldrei verið meira frá því að kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember.

Í síðustu viku mældust nokkrum sinnum minniháttar þrýstingsbreytingar í mjög skamman tíma í borholum HS Orku í Svartsengi. Slíkar breytingar hafa ekki mælst síðustu þrjá daga. Áður hefur komið fram að merki um nýtt kvikuhlaup væru staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun ásamt þrýstingsbreytingum í borholum á svæðinu. Gera má ráð fyrir því að meiri þrýstingsbreytingar muni mælast í aðdraganda kvikuhlaups ásamt því að breytingar verði í öðrum mælikerfum.

Hættumat er óbreytt frá síðustu útgáfu sem gildir að öllu óbreyttu til 4. júní.

Þar sem jarðskorpan á umbrotasvæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells er mikið sprungin er líklegt að kvika eigi greiða leið til yfirborðs og því muni ekki endilega fylgja mikil skjálftavirkni þeim umbrotum. Fyrirvarinn á nýju eldgosi getur því orðið mjög stuttur eða jafnvel enginn. Því er mjög varasamt að vera á ferðinni á svæði 3 eins og það er skilgreint á hættumatskorti Veðurstofunnar.

Haettusvaedi_VI_28mai_2024

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Uppfært 24. maí 2024, kl. 15:20

  • Hvassviðri fram á nótt gæti haft áhrif á næmni jarðskjálftamæla

  • Aflögunargögn sýna að landris við Svartsengi heldur stöðugt áfram

  • Um 18 milljónir rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars

  • Áfram líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Það hafa mælst um 140 skjálftar í kringum kvikuganginn síðustu tvo sólahringa, allir undir 2,0 að stærð. Skjálftarnir voru flestir á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar. Í dag hafa mælst færri skjálftar á svæðinu miðað við undanfarna daga. Það er vegna hvassviðris sem hefur áhrif á næmni jarðskjálftamæla til þess að nema allra minnstu skjálftana. Fram á nótt er áfram gert fyrir að veður hafi áhrif á næmni jarðskjálftakerfis Veðurstofunnar en ekki önnur mælitæki sem nýtt eru til vöktunar á svæðinu.

Aflögunargögn sýna að landris við Svartsengi heldur stöðugt áfram. Það bendir til þess að kvika heldur áfram að safnast fyrir undir Svartsengi. Líkanreikningar áætla að um 18 milljón rúmmetrar af kviku hafa bæst þar við frá 16. mars þegar síðasta eldgos hófst. Heildarrúmmál kviku undir Svartsengi er nú meira en það hefur verið fyrir síðustu atburði. Engin merki eru um að hægt hafi á kvikusöfnun. Þetta þýðir að þrýstingur í kerfinu er að aukast og því er ekki hægt að áætla annað en að áfram séu töluverðar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni. Þó er töluverð óvissa um hvenær það verður en fyrirvarinn á því gæti orðið mjög stuttur.

Graph_inflation_mogi_is24052024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Þær örlitlu breytingar sem sjást á línuritinu eru innan skekkjumarka og hafa sést áður á kvikusöfnunarferlinu.


Uppfært 21. maí 2024, kl. 12:30

  • Kvikusöfnun undir Svartsengi áfram stöðug

  • Um 17 milljón rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars

  • Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Um 200 skjálftar mældust á svæðinu í kringum kvikuganginn um Hvítasunnuhelgina, flestir undir 1,0 að stærð. Þetta er svipuð skjálftavirkni og mælst hefur síðustu daga, en um 50 skjálftar hafa mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar.

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og rís land þar með sama hraða og áður. Að svo stöddu er ekki ástæða til að áætla annað en að áfram séu töluverðar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni næstu daga.

Graph_inflation_mogi_is_21052024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Þær örlitlu breytingar sem sjást á línuritinu eru innan skekkjumarka og hafa sést áður á kvikusöfnunarferlinu.

Áfram mestar líkur á að kvika komi upp á Sundhnúksgígaröðinni

Í fréttum fyrir helgi var talað um smáskjálftavirkni sem hafi verið viðvarandi undanfarnar vikur á svæðinu sunnan Þorbjarnar í stóra sigdalnum vestan við Grindavík. Í fréttinni var nefnt að mögulega væru veikleikar í jarðskorpunni sem kvika gæti hugsanlega nýtt sér til að ná til yfirborðs. Það að kvika hlaupi úr kvikuhólfinu yfir á svæðið sunnan Þorbjarnar er á þessum tímapunkti talin afar ólíkleg sviðsmynd. Það mat er byggt á nýjum líkanreikningum og öðrum gögnum sem voru rædd á fundi vísindamanna nú í morgun. Þessi hæga aukning í skjálftavirkni er líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.

Áfram eru yfirgnæfandi líkur á að endurtekning verði á því að kvika hlaupi úr kvikuhólfinu við Svartsengi og yfir í Sundhnúksgígaröðina.

Fylgst vel með hvort að kvika sé á ferðinni

Veðurstofan hefur fylgst með þrýstingsbreytingum í borholum HS Orku í tengslum við vöktun á virkninni í Svartsengi. Skyndileg þrýstingsbreyting hefur verið einn af fyrirvörum um að kvika sé að hlaupa úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina. Áður hefur komið fram að merki um nýtt kvikuhlaup væru staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun ásamt þrýstingsbreytingum í borholum á svæðinu. Í morgun mældist minniháttar þrýstilækkun í borholu HS Orku. Engin skjálftavirkni eða breyting í aflögun sást samfara þessum þrýstingsbreytingum sem mældust. Því virkjaði Veðurstofan ekki viðbragðsáætlanir vegna mögulegs kvikuhlaups.

Hættumat er óbreytt frá síðustu útgáfu. Uppfært hættumat gildir til 28. maí, að öllu óbreyttu.


Uppfært 17. maí 2024, kl. 17:10

  • Kvikusöfnun undir Svartsengi áfram stöðug

  • Um 16 milljón rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars

  • Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Um 50 skjálftar mældust á svæðinu í kringum kvikuganginn í gær, 16. maí, flestir undir 1,0 að stærð. Þetta er svipuð skjálftavirkni og mælst hefur síðustu daga, en um 50 til 80 skjálftar hafa mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar.

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og rís land þar með sama hraða og áður. Að svo stöddu er ekki ástæða til að áætla annað en að áfram séu töluverðar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni næstu daga.

Síðasta eldgos á Sundhnúksgígaröðinni hófst 16. mars. Á þeim 62 dögum sem liðnir eru síðan þá, hafa um 16 milljónir rúmmetra af kviku bæst við kvikuhólfið undir Svartsengi. Þetta er lengsta lota kvikusöfnunar frá því að þessi atburðarás hófst í lok október 2023.

Uppfært hættumat og sviðsmyndir

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat sem gildir til 21. maí að öllu óbreyttu. Hætta vegna gasmengunar á svæði 7 hefur verið hækkuð í tengslum við auknar líkur á nýju eldgosi á svæði 3. Vegna breytingarinnar er heildarhætta á svæðinu nú metin töluverð (appelsínugul) en var áður nokkur (gul). Hætta vegna gasmengunar á öllum öðrum svæðum er óbreytt frá síðustu viku og metin töluverð. Vegna aukinnar smáskjálftavirkni innan svæðis 4 hefur hætta vegna jarðskjálftavirkni verið hækkuð þar.

Haettusvaedi_VI_17mai_2024

Veðurstofan hefur einnig uppfært þær sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar:

Sviðsmynd 1 - Eldgos milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells (Miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti) Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar 2024 og 16. mars 2024.

  • Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur), jafnvel enginn fyrirvari
  • Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi á 2 til 4 klukkustundum

Sviðsmynd 2  - Eldgos sunnan eða suðvestan við Hagafell (Syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti) Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024 

  • Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið.
  • Hraun gæti náð að varnargörðum við Grindavík á um 1 klst.. 
  • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 

Heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi aldrei verið meira frá því fyrir 10. nóvember. Huga þarf að fleiri sviðsmyndum ef kvikusöfnun heldur áfram án kvikuhlaups eða eldgoss

Hingað til hefur verið horft til þess magns kviku sem bætist við í kvikuhólfið á milli kvikuhlaupa eða eldgosa. Þegar talað er um að kvikuþrýstingur sé að aukast í kvikuhólfinu undir Svartsengi er gott að horfa á það heildarmagn kviku sem áætlað er að sé til staðar.

Frá 25. október til 10. nóvember 2023 söfnuðust rúmlega 10 milljón m3 af kviku undir Svartsengi. Þegar 15 km langur kvikugangur myndaðist þann 10. nóvember er talið að um 80 milljón m3 af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu. Því má gera ráð fyrir að um 70 milljón m3 af kviku hafi verið til staðar í kvikuhólfinu undir Svartsengi á þeim tímapunkti. Kvikusöfnun hefur haldið óslitið áfram síðan þá og kvika hlaupið að minnsta kosti fimm sinnum frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina. Fjögur af þessum fimm skiptum hafa endað með eldgosi.

Hvert kvikuhlaup eða eldgos hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023 eins og sést á myndinni hér fyrir neðan.

Vincent_Likan_Timeseries_Lagfaert_Mynd1

Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá október 25. október. Hvert kvikuhlaup hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023. Hér sést að heildarmagn kviku hefur aldrei verið meira frá því að kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember.

Nokkur líkindi eru milli atburðarásarinnar á Sundhnúksgígaröðinni og þeirrar sem varð í Kröflueldum sem hófust 1975. Á 10 ára tímabili urðu þar 20 kvikuhlaup og enduðu 9 þeirra með eldgosi. Í Kröflueldum fóru kvikuhlaupin öll inn í sama kvikugang en voru mismikil að umfangi. Reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meiri þrýsting til að koma þeim af stað. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, en nokkur óvissa er um hvenær nægilegum þrýstingi verður náð til að koma nýju kvikuhlaupi af stað og að kvika nái til yfirborðs.


Kroflueldar_Umbrotahrinur

Myndin sýnir samspil milli myndunar kvikuganga og landhæðar í miðri Kröfluöskjunni. Neðri myndin sýnir landhæð mælipunkts innan Kröfluöskjunnar, en sú efri hvar umbrotasvæði voru í hverri hrinu. Á efri myndinni táknar rauði liturinn eldgos.(Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir, 2021)

Nú er svo komið að heildarmagn í kvikuhólfinu undir Svartsengi hefur aldrei verið meira síðan kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Eftir því sem lengra líður án þess að nýtt kvikuhlaup verði yfir í Sundhnúksgígaröðina aukast líkur á að kvika leiti á önnur svæði þar sem veikleika er að finna í jarðskorpunni.

Smáskjálftavirkni hefur verið viðvarandi undanfarnar vikur á svæðinu sunnan Þorbjarnar í stóra sigdalnum við Grindavík. Á þessu svæði eru veikleikar í jarðskorpunni sem kvika gæti nýtt sér til að ná til yfirborðs. Það að kvika hlaupi úr kvikuhólfinu yfir á svæðið sunnan Þorbjarnar er á þessum tímapunkti ólíklegri sviðsmynd en þær sem eru nefndar hér að ofan. Því er ekki tekið tillit til þessarar sviðsmyndar í uppfærðu hættumati. Veðurstofan mun safna og vinna úr gögnum næstu daga til að varpa betur ljósi á þennan möguleika.

Jardskjalftavirkni_10052024

Kortið sýnir yfirfarna skjálfta frá 10. - 16. maí. Efra grafið sýnir stærð skjálftanna og neðra grafið sýnir fjölda skjálfta á hverjum degi fyrir sama tímabil.



Uppfært 16. maí, 2024 kl. 11:20
  • Kvikusöfnun undir Svartsengi áfram stöðug

  • Um 16 milljón rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars

  • Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Um 80 skjálftar mældust á svæðinu í kringum kvikuganginn í gær, 15. maí, flestir undir 1,0 að stærð. Þetta er svipuð skjálftavirkni og mælst hefur síðustu daga, en um 50 til 80 skjálftar hafa mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður, staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og rís land þar með sama hraða og áður. Að svo stöddu er ekki ástæða til að áætla annað en að áfram séu auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni næstu daga.

Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúksgígaröðina. Nú er magn kviku sem bæst hefur við komið upp fyrir efri mörkin, en alls hafa um 16 milljónir rúmmetra að kviku bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi frá 16. mars, þegar að síðast gos hófst.

Reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meiri þrýsting til að koma þeim af stað. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, en nokkur óvissa er um hvenær nægilegum þrýstingi verður náð til að koma nýju kvikuhlaupi af stað og að kvika nái til yfirborðs.

Graph_inflation_mogi_is_16052024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúksgígaröðina. Nú er magn kviku sem bæst hefur við komið upp fyrir efri mörkin, en alls hafa um 16 milljónir rúmmetrar að kviku bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi frá 16. mars, þegar að síðast gos hófst.


Uppfært 14. maí 2024, kl. 10:00

  • Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Um 60 skjálftar hafa mælst á kvikuganginum síðasta sólarhring.  Þetta er svipuð skjálftavirkni og mælst hefur síðustu daga, en um 50 til 80 skjálftar hafa mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar.

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og rís land þar með sama hraða og áður. Auknar líkur eru því á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni næstu daga. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður, staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.


Uppfært 13. maí 2024, kl. 11:35

  • Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Land rís í Svartsengi með sama hraða og áður. Frá 16. mars, þegar síðasta eldgos hófst, hefur land risið um tæplega 20 cm á GPS stöðinni í Svartsengi. Kvikusöfnun heldur því áfram og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi. 

Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúksgígaröðina. Nú er magn kviku sem bæst hefur við frá 16. mars komið upp fyrir efri mörkin.

Skjálftavirkni er nokkuð svipuð á milli daga. Síðustu viku hafa um 50 til 80 skjálftar mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar. Flestir skjálftanna eru undir 1,0 að stærð en stöku skjálftar nærri 2,0 að stærð hafa mælst. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður, staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist náið með virkninni. Nýjar gossprungur gætu opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og hraunflæði gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum, jafnvel engum fyrirvara.

Linurit_Kvikusofnun_Athugasemd

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Það skal tekið fram að sólstormur um helgina hafðu áhrif á mælingar. (Sjá umfjöllun hér að neðan).

Sólstormur hafði áhrif á GPS mælingar

Mælingar á landrisi byggja á því að reikna út breytingar á þeim tíma sem það tekur merkið að berast frá gervitunglum sem eru á sveimi umhverfis jörðina í GPS mæla á jörðu niðri. Ef tíminn sem það tekur merkið að ferðast á milli tungls og mælis styttist, þýðir það að land hefur risið.

Um helgina varð einn öflugasti segulstormur síðustu ára þegar sólvindar frá stærðarinnar sólblettum á sólinni skullu á jörðinni. Síðast varð svo sterkur segulstormur 30. október 2003.

Sterkir sólvindar senda hlaðnar agnir inn í segulsvið jarðar sem hafa áhrif á merkjasendingar milli GPS mæla á jörðu niðri og gervitungla. Þessi truflun hefur áhrif á ferðatíma merkisins og kemur fram eins og að dregið hafi úr kvikusöfnuninni. Það er þau ekki raunin, enda er nýr punktur sem reiknaður var í morgun, á „eðlilegum“ stað miðað við fyrri mælingar. (Sjá línurit hér að ofan).

Truflanir vegna sólstorma hafa ekki áhrif á getu Veðurstofunnar til að vara við yfirvofandi kvikuhlaupi eða eldgosi.



Uppfært 10. maí 2024, kl. 16:15

  • Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

  • Nýtt hættumat gefið út

Lítil breyting hefur orðið á landrisinu eftir að eldgosinu lauk. Kvikusöfnun heldur áfram á sama hraða og áður. Í dag má gera ráð fyrir að um tæpir 14 milljónir rúmmetra af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið frá því að eldgosið hófst 16. mars.

Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúksgígaröðina. Nú er magn kviku sem bæst hefur við komið upp fyrir efri mörkin, en reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meiri þrýsting til að koma þeim af stað. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, en nokkur óvissa er um hvenær nægilegum þrýstingi verður náð til að koma nýju kvikuhlaupi af stað og að kvika nái til yfirborðs.

Graph_inflation_mogi_is_09052024_NEW

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. 

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að fylgjast náið með virkninni. Nýjar gossprungur gætu opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og hraunflæði gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður,  staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.

Aukin skjálftavirkni hefur verið að mælast á Sundhnúksgígaröðinni síðusta daga. Þessi aukning í skjálftavirkni er líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi. 

Í nótt varð sólarhringsvakt Veðurstofunnar vör við aukna og staðbundna skjálftavirkni suður af Stóra-Skógfelli, eða á svipuðum stað og fyrri kvikuhlaup hafa byrjað.  Aflögunar- og þrýstingsmælingar, sem væru merki um kvikuhlaup, sýndu ekki marktækar breytingar. Virknin stóð yfir í frekar stuttan tíma, en ekki er hægt að útiloka að þarna hafi lítið magn kviku verið að brjóta sér leið.

Varasamt að vera á ferðinni á Sundhnúksgígaröðinni

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat. Það að síðasta gosi sé lokið hafði áhrif á breytingar á nokkrum svæðum, en hættumatið nú endurspeglar hættur í tengslum auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.

Þar sem jarðskorpan á umbrotasvæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells er mikið sprungin er líklegt að kvika eigi greiða leið til yfirborðs og því muni ekki mikil skjálftavirkni fylgja þeim umbrotum. Fyrirvarinn á nýju eldgosi getur því orðið mjög stuttur eða jafnvel enginn. Því er mjög varasamt að vera á ferðinni á svæði 3 eins og það er skilgreint á hættumatskorti Veðurstofunnar.

Nýtt hættumat gildir til 17. maí að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_10mai_2024_NYTT


Uppfært 9. maí 2024, kl. 8:05

  • Engin virkni í gígnum í næstum sólarhring

  • Þessu eldgosi er lokið

  • Áfram mælist landris í Svartsengi

  • Hraði kvikusöfnunar haldist svipaður síðustu vikur

  • Áfram auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi

  • Fyrirvari á nýju eldgosi gæti orðið mjög stuttur

  • Hættumat óbreytt að svo stöddu

Sérfræðingar Almannavarna flugu dróna yfir gosstöðvarnar við Sundhnúk í gærkvöldi og þá var enga virkni að sjá í gígnum. Gosórói hafði farið minnkandi í gær og engar hraunslettur sáust úr gígnum í nótt. Þessu eldgosi sem stóð yfir í tæpa 54 dagar er því lokið.

Gigur_08052024

Úr eftirlitsflugi Almannavarna í gærkvöldi. Engar hraunslettur sjást í gígnum þó áfram rjúki úr honum. (Ljósmynd: Almannavarnir)

Kvikusöfnun heldur þó áfram undir Svartsengi og líkanreikningar gera ráð fyrir því að um 13 milljón rúmmetrar af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið frá því að eldgosið hófst 16. mars. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina áður en langt um líður.

Veðurstofan mun fylgjast náið með stöðunni á gosstöðvunum, en að svo stöddu er hættumat óbreytt. 

Graph_inflation_mogi_is_07052024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023.



Uppfært 7. maí kl. 15:45

  • Áfram mælist landris í Svartsengi.

  • Hraði kvikusöfnunar haldist svipaður síðustu vikur

  • Dregið hefur úr virkni í gígnum undanfarna daga

  • Áfram auknar líkur á að kraftur gossins aukist eða að nýjar gossprungur opnist

  • Fyrirvari aukinnar virkni gæti orðið mjög stuttur

  • Gasdreifingarspá má finna hér.

  • Hættumat óbreytt

Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram. Hraun rennur stutta vegalend frá gígnum og virknin í gígnum fer minnkandi. Litlar eða engar breytingar hafa orðið á suðurhluta hraunbreiðunnar nærri varnargörðunum austan Grindavikur síðustu vikuna.

Kvikusöfnun og landris heldur áfram í Svartsengi. Hefur hraðinn haldist nánast óbreyttur síðustu vikur (sjá mynd hér að neðan). Þessar mælingar benda til þess að þrýstingur haldi því áfram að byggjast upp í kvikuhólfinu. Áfram eru því líkur á nýju kvikuhlaupi úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina.

Smáskjálftavirkni hefur aukist jafnt og þétt undanfarna viku á svæðinu í og við kvikuganginn. Skjálftarnir, sem langflestir eru undir 1 að stærð, hafa verið norðan við núverandi gosop, á milli Sundhnúks og Stóra Skógfells, sunnan Þorbjarnar í stóra sigdalnum við Grindavík, og á milli Grindavíkur og gosstöðva. Þessi hæga aukning í skjálftavirkni er líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.

Mynd07052024

Kortið sýnir skjálftavirkni á svæðinu frá 15. apríl, bæði sjálfvirkar stærðir og staðsetningar og yfirfarna skjálfta Á efra grafinu hægra megin sést stærð skjálftanna og á neðra grafinu sést fjöldi skjálfta á dag.

Þessar tvær sviðsmyndir eru áfram líklegastar hvað varðar framhaldið á virkninni á Sundhnúksgígaröðinni:

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningar í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.
  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í virka gíginn á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður afar skyndileg smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu. Mikilvægt er að benda á að fyrirvarinn getur orðið mjög stuttur, innan við hálftími, jafnvel enginn.

Hættumat er óbreytt frá síðustu útgáfu. Í síðustu viku var hætta vegna hraunflæðis á svæði 4 (Grindavík) aukin úr töluverðri hættu í mikla, sem er út frá þeim sviðsmyndum sem nú eru taldar líklegastar.

Haettusvaedi_VI_7mai_2024

(Smellið á kortið til að sjá stærra)

Erfitt að spá fyrir um endalok atburðarásarinnar sem hófst í lok október

Eins og áður hefur komið fram ríkir óvissa um framvindu jarðhræringanna nú þegar eldgos hefur varað í meira en mánuð á sama tíma og kvika safnast saman í kvikuhólfið undir Svartsengi. Þó svo að sviðsmyndirnar hér að ofan séu taldar þær líklegustu er áfram grannt fylgst með hvort að kvika sé að leita annað en yfir í Sundhnúksgígaröðina. Horft er til svæðanna norðan Stóra-Skógfells og sunnan Hagafells og Þorbjarnar.

Ef kvika færi að brjóta sér leið til yfirborðs utan þeirra svæða sem gosið hefur á nú þegar, væri fyrirvarinn á slíkum jarðhræringum meiri og kæmi fram í mun kraftmeiri og ákafari skjálftavirkni en verið hefur í aðdraganda síðustu gosa.


Uppfært 2. maí kl. 12:15

  • Enn mælist landris við Svartsengi. Þrýstingur heldur því áfram að byggjast upp í kvikuhólfinu.

  • Hraunflæði úr gígnum sem gýs úr hefur farið minnkandi síðustu daga.

  • Mælingar og líkanútreikningar benda til að talsverð óvissa sé um framhaldið. Áfram eru auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist.

  • Hætta er á að hraun nái yfir varnargarða austan Grindavíkur ef kraftur gossins eykst á ný.

  • Hættumat er óbreytt

Áfram mælist landris við Svartsengi og hefur hraðinn haldist nokkuð stöðugur allt frá því í byrjun apríl (sjá mynd hér að neðan). Fram kom í fréttum fyrr í vikunni að vísbendingar væru um að hægt hefði á því dagana á undan. Mælingar síðan þá sýna að hraðinn hefur haldist jafn ef horft er til síðustu vikna. Þrýstingur heldur því áfram að byggjast upp í kvikuhólfinu og líkur er á nýju kvikuhlaupi úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina.

Skjamynd-2024-05-02-104618_Aflogun_SKHS_02052024

Grafið sýnir lóðrétta færsla á GPS stöðinni SKSH í Svartsengi. Mælingarnar sýna að hraði landriss hefur haldist nokkuð stöðugur allt frá því í byrjun apríl. Bláa línan táknar tímasetningu kvikuinnskotsins sem leiddi ekki til goss, en sú rauða táknar upphaf eldgossins sem nú er í gangi.

Skjálftavirkni hefur aukist á Sundhnúksgígaröðinni síðustu daga. Um er að ræða smáskjálfta sem eru líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.

Hraunflæði úr gígnum er umtalsvert minna en það var fyrir þremur vikum. Hraunflæðið eins og það er í dag er metið verulega lítið en þó þarf að reikna með því að gosið haldi áfram í einhvern tíma þrátt fyrir þetta litla hraunflæði.

Lava_time_series_april_15_25_30_compare

Meðfylgjandi kort sýnir breytingar á þykkt hraunbreiðunnar á milli 15., 25. apríl og 30. apríl.

Hraun úr gígnum hefur undanfarnar vikur hlaðist upp við varnargarða austan Grindavíkur. (L12 á myndinni hér að ofan). Ef kraftur gossins eykst eða nýjar sprungur opnast suður af núverandi gosopi, þarf að gera ráð fyrir framrás hraunjaðarsins við varnargarða austan Grindavíkur. Á laugardaginn, 27. apríl, fór lítil hrauntunga yfir varnargarð austan Grindavíkur. Hætta er á að slíkum tilfellum fjölgi, ef kraftur gossins eykst á ný.

Þessar tvær sviðsmyndir eru áfram líklegastar hvað varðar framhaldið á virkninni á Sundhnúksgígaröðinni:

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningar í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.
  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í virka gíginn á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður afar skyndileg og áköf smáskjálftahrina í og við kvikuganginn og landsig í Svartsengi.

Hættumat Veðurstofunnar er óbreytt og gildir til 7. maí, að öllu óbreyttu.

Hér má svo gasmengunarspá veðurvaktar.




Uppfært 30. apríl kl. 14:55

  • Enn mælist landris við Svartsengi en þó eru vísbendingar um að hægt hafi á því síðustu daga.

  • Þrátt fyrir að hægi á landrinu, sýna líkanútreikningar að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram á svipuðum hraða og áður. Það bendir til þess að þrýstingur sé að aukast í kvikuhólfinu.

  • Heildarrúmmál kviku undir Svartsengi síðan 16. mars er metið yfir 10 milljón rúmmetrar.

  • Síðustu tvær vikur mælist meðal hraunflæði úr gígnum sem enn gýs úr er um þriðjungur af meðalflæði í fyrri hluta mánaðarins

  • Mælingar og líkanútreikningar benda til að talsverð óvissa sé um framhaldið en líklegt er að það dragi fljótlega til tíðinda og kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni gæti aukist.

  • Hættumat uppfært. Hætta vegna hraunflæðis hefur verið aukin en hætta vegna gjósku minnkuð.

Eldgosið við Sundhnúk heldur áfram og rennur hraun til suðurs frá gígnum líkt og undanfarið. Suðurhluti hraunbreiðunnar heldur áfram að þykkna þangað sem hraun rennur í lokuðum rásum. Á laugardaginn, 27. apríl, fór lítil hrauntunga yfir varnargarð austan Grindavíkur. Ekki hefur meira hraun farið yfir varnargarðinn síðan þá.

Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar (NÍ) og Landmælinga Íslands (LMÍ) hefur unnið úr gervitunglamyndum og gögnum síðan 25. apríl. Flatarmál hraunbreiðunnar sem myndast hefur í eldgosinu er nú 6,16 km2 og er nánast óbreytt á milli mælinga. Rúmmál og þykkt hraunbreiðunnar heldur hins vegar áfram að aukast og er rúmmálið nú 34 ± 1.9 milljón m3 og meðalþykkt hraunbreiðunnar 5,5 ± 0,3 m.

Út frá þessum niðurstöðum er áætlað meðalhraunflæði í eldgosinu á milli 15. og 25. apríl 0,9 ± 0,4 m3/s. Í fyrri mælingum á meðalhraunflæði fyrir tímabilið frá 3. til 15. apríl var það metið um 3 til 4 m3/s.

Lava_time_series_april_15_25_compare

Myndatexti: Meðfylgjandi kort sýnir breytingar á þykkt hraunbreiðunnar á milli 15. og 25. apríl.

Enn mælist landris við Svartsengi en þó eru vísbendingar um að hægt hafi á því síðustu daga. Á sama tíma hefur gosórói sýnt smávægilega aukningu og smáskjálftavirkni aukist tímabundið á SundhnúksgígaröðinniÞó svo vísbendingar séu um að það hægi á landrisinu sýna líkanreikningar að kvikusöfnun undir Svartsengi haldir áfram á svipuðum hraða og áður. Heildarrúmmál kviku sem safnast hefur undir Svartsengi síðan gos hófst er metið yfir 10 milljón rúmmetrar. Það að hægi á landrisinu en að kvika flæði áfram inn í kvikuhólfið bendir til þess að þrýstingur sé að byggjast þar upp.

Mælingar og líkanútreikningar benda til að talsverð óvissa sé um framhaldið en líklegt er að það dragi fljótlega til tíðinda. Haldi kvikusöfnun áfram eru meiri líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist verulega frekar en að það lognist út af. Út frá nýjustu mælingum er þó erfitt að fullyrða um hvor sviðsmyndanna hér að neðan sé líklegri

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningu í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.
  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í virka gíginn á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.
Graph_inflation_mogi_is29042024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undirSvartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. 

Gasdreifingarspá

Veðurspáin í dag er norðlæg átt (þriðjudag) og gasmengun berst til suðurs og gæti orðið mengun í og nær Grindavík. Lægir í nótt og þá gæti mengun safnast nálægt gosstöðunum. Snýst í vestanátt á morgun (miðvikudag) og suðvestanátt síðdegis. Gasmengun berst til austurs í fyrstu og gæti orðið við Suðuströndina en síðar til norðurs og norðausturs og gæti mengun orðið á Höfuðborgarsvæðinu, Vogum og Vatnsleysuströndinni. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Hættumat uppfært

Á vísindafundi Veðurstofunnar í morgun var hættumat yfirfarið. Þær breytingar eru á hættumatinu að hætta vegna gjósku hefur verið lækkuð úr töluverðri hættu í litla á svæði 1 og 6. Þessi breyting er gerð vegna þess að það hefur ekki verið mikil gjóska að sleppa út í andrúmsloftið. Hættan á svæði 4 (Grindavík) hefur verið aukin úr töluverðri hættu í mikla vegna hraunflæðis, þar sem hrauntungan hefur verið að stækka, þó hægt sé, innan svæðisins síðustu daga. Þetta hefur í för með sér að heildarhætta á svæði 4 fer úr töluverðri (appelsínugult) í mikla (rautt). Þar að auki eru auknar líkur á að það dragi fljótlega til tíðinda á svæðinu í kringum Sundhnúka og er metið líklegra en áður að hraun geti runnið hratt til suðurs.

Haettusvaedi_VI_30april_2024

(Smelltu hér til að sjá kortið stærra)


Uppfært 26. apríl kl. 12:30

  • Hluti hraunbreiðunnar nærri varnargörðum austan Grindavíkur heldur áfram að þykkna hægt og rólega

  • Landris í Svartsengi heldur áfram á sama hraða

  • Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða eru meiri líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist verulega

  • Áfram er hætta á gasmengun á svæðinu. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér og loftgæðum.

Eldgosið við Sundhnúk heldur áfram og líkt og síðan 5. apríl er einn gígur, skammt austan við Sundhnúk, virkur. Hraun rennur stutta vegalend til suðurs frá gígnum í opinni hrauná en lengra í lokuðum rásum. Hluti hraunbreiðunnar nærri varnargörðum austan Grindavíkur heldur áfram að þykkna hægt og rólega.

Yfirlitsmynd26042024

Mynd úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem tekin er kl. 4:30 í morgun skömmu fyrir sólarupprás. Myndavélin er staðsett uppi á Þorbirni og horfir til norðausturs í átt að gígnum. 

Landris í Svartsengi heldur áfram á sama hraða og líkön gera ráð fyrir því að það magn kviku sem bæst hefur við kvikuhólfið í Svartsengi frá því að eldgosið hófst 16. mars nálgist nú 10 milljón m3 eins og línuritið hér að neðan sýnir. Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið frá Svartsengi þegar á bilinu 8 til 13 milljónir m3 hafa bæst við í kvikuhólfið frá síðasta kvikuhlaupi.

Mogi24042024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra  eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023.  

Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða eru meiri líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist verulega.

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningu í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.
  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Einnig er mögulegt að það verði kvikuhlaup sem endi með því að nýjar gossprungur opnast annarsstaðar en á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Þessi sviðsmynd er talin ólíklegri en hinar og henni myndi fylgja töluverð skjálftavirkni og aflögun með meiri fyrirvara en undanfarin eldgos

Á miðvikudaginn, 24. apríl, framkvæmdu sérfræðingar Veðurstofunnar mælingar á gasútstreymi frá eldgosinu. Það ver metið 6-9 kg/s af SO2 en í síðustu mælingu sem gerð var fyrir tveimur vikum, 12. apríl, var gasútstreymið metið 10 –18 kg/s. Það eru ekki vísbendingar um að það sé að draga gasútstreymi út frá eldgosinu. Á meðan að eldgos heldur áfram getur flæði SO2 verið mjög breytilegt frá degi til dags (eins og í eldgosin við Fagradalsfjall sýndu). Áfram er hætta á gasmengun inn á svæðinu umhverfis gíginn sem og í byggð á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæðum og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Gasmengun26042024

Gosmengun (SO2) í andrúmslofti sést vel á gervihnattamynd frá í gær 25. apríl apríl kl 14:27.

Veðurspá gerir ráð fyrir norðan 5-10 m/s í dag, föstudag, og gasmengun berst því til suðurs frá gosstöðvunum og gæti orðið vart í Grindavík. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.


Uppfært 23. apríl kl. 14:50

  • Landris í Svartsengi mælist á svipuðum hraða sem bendir til þess að kvikusöfnun haldi áfram.
  • Mælingar á hraunflæði í eldgosinu sýna að frá því í byrjun apríl hefur það verið á milli 3 og 4 m3/s.

  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Spá veðurvaktar um gasdreifingu má finna hér
  • Uppfært hættumat

Áfram gýs úr einum gíg skammt austan við Sundhnúk, eins og hefur gert frá 5. apríl. Líkt og áður rennur hraun stutta vegalengd í opinni hraunelfur til suðurs frá gígnum en lengra í lokuðum rásum. Sá hluti hraunbreiðunnar sem liggur meðfram varnargörðum austan Grindavíkur hefur þykknað undanfarna daga eins og meðfylgjandi hreyfimyndir sýna. Myndirnar sýna muninn hraunbreiðunni á milli 18. og 23. Apríl. Efri myndirnar eru úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er á varnargarði austan Grindavíkur og horfir á hrauntunguna sem rann í átt að Suðurstrandarvegi í upphafi eldgossins. Neðri myndirnar eru einnig úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er uppi á Hagafelli og horfir til suðurs.

8c6cfe1b-c87b-4501-bd10-41e7c2079707

Myndir úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er á varnargarði austan Grindavíkur og horfir á hrauntunguna sem rann í átt að Suðurstrandarvegi í upphafi eldgossins. Gulur kassi er utan um það svæði hraunbreiðunnar sem þykknar mest á tímabilinu.

57f4a945-2487-4adc-af84-b11fcc474350

Myndir úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er uppi á Hagafelli og horfir til suðurs. Gulur kassi merkir svæði þar sem hraunið nærri varnargörðunum hefur þykknað mest.

Mælingar á hraunflæði í eldgosinu sýna að frá því í byrjun apríl hefur það verið á milli 3 og 4 m3/s. Síðustu mælingar eru síðan 15. apríl og búist er við því að nýjar niðurstöður liggi fyrir í næstu viku sem mun varpa ljósi á það hvort mælanlegar breytingar hafi orðið á hraunflæði frá 15. apríl.

Landris í Svartsengi mælist á svipuðum hraða sem bendir til þess að kvikusöfnun haldi áfram. Líkanreikningar byggðir á GPS og gervitunglagögnum áætla að um 7 til 8 milljón m3 hafi bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi frá því að eldgosið hófst 16. mars. Í fyrri kvikuhlaupum hefur kvika hlaupið frá Svartsengi þegar á bilinu 8 til 13 milljónir m3 hafa bæst við í kvikuhólfið frá síðasta kvikuhlaupi.

Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða aukast líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist verulega.

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells eða/og núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningu í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.

  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Einnig er mögulegt að það verði kvikuhlaup sem endi með því að nýjar gossprungur opnast annarsstaðar en á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Þessi sviðsmynd er talin ólíklegri en hinar og henni myndi fylgja töluverð skjálftavirkni og aflögun með meiri fyrirvara en undanfarin eldgos.

Uppfært hættumat

Á vísindafundi Veðurstofunnar í morgun var hættumat yfirfarið. Líkur á gosopnun á svæði 1 (Svartsengi), 4 (Grindavík) og 7 hafa verið lækkaðar frá því að vera metnar töluverðar í litlar. Á föstudag, vegna áframhaldandi kvikusöfnunar og mikillar óvissu vegna nýrrar stöðu og mögulegra þróunar jarðhræringanna, var ákveðið tímabundið að auka líkur á gosopnun innan þessara svæða. Á vísindafundinum í morgun var það metið að ekki væru skýrar vísbendingar að svo stöddu að auknar líkur væru á gosopnun innan þessara svæða.

Haettusvaedi_VI_23april_2024

Á meðan áfram gýs við Sundhnúk er talið líklegast ef það kemur til aukins kvikuflæðis þá muni kvikan fylgja þeirri opnu rás sem nú fæðir eldgosið og/eða nýjar gossprungur muni opnast þar nærri. Vegna þessa eru líkur á gosopnun án fyrirvara áfram taldar mjög miklar á svæði 3 (Sundhnúksgígaröðinni). Að öllu óbreyttu gildir hættumatið til 30. Apríl. 


Uppfært 19. apríl kl. 14:55

  • Landris í Svartsengi heldur áfram á stöðugum hraða
  • Frá 5. apríl hefur einungis gosið úr einum gíg og hraunflæði úr honum haldist nokkuð stöðugt síðan þá, rúmlega 3m3/s
  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Spá veðurvaktar um gasdreifingu má finna hér
  • Haldi kvikusöfnun undir Svartsengi áfram á svipuðum hraða aukast líkur á öðru kvikuhlaupi á næstu dögum eða vikum, þrátt fyrir að eldgos sé enn í gangi.

Eftir að fjórða eldgosið hófst þann 16. mars hægði landris verulega á sér fyrst um sinn og nánast stöðvaðist. Það gaf til kynna að jafnvægi væri á innstreymi kviku inn í kvikuhólfið undir Svartsengi og uppá yfirborð í Sundhnúksgígaröðinni (mynd 1). 

Í byrjun apríl fór landris að aukast aftur og er nú um það bil jafn stór hluti kvikunnar að flæða upp á yfirborð og er að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi með tilheyrandi auknum kvikuþrýstingi (mynd 2).

Sú staða sem er uppi núna er ný, þar sem eldgos með frekar stöðugu hraunrennsli er í gangi á Sundhnúksgígaröðinni á sama tíma og land rís í Svartsengi. Því er meiri óvissa nú en áður um mögulega þróun atburðarins.

Kvikustreymi_1

(Mynd 1)

Kvikustreymi_2

(Mynd 2)

Líkanreikningar gera ráð fyrir því að nú hafi rúmlega 6 milljón m3 af kviku bæst við  í kvikuhólfið undir Svartsengi síðan 16. mars. Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið frá Svartsengi þegar á bilinu 8 til 13 milljónir m3 hafa bæst við í kvikuhólfið frá síðasta atburði.


Graf19042024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir  Svartsengi á milli þeirra  eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. 

Meiri óvissa um þróun jarðhræringanna næstu daga eða vikur

Hingað til hefur verið talað um auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi í kjölfar þess í tengslum við atburðarrásina á Sundhnúksgígaröðinni. Gott er að rifja upp að kvikuhlaup er skyndilegt og mikið flæði af kviku sem streymir út úr kvikuhólfi og getur endað með því að kvika nær að brjótast upp á yfirborð. Eftir kvikuhlaupið 2. mars, sem endaði ekki með eldgosi, varð breyting á virkninni sem hafði frá desember verið nokkuð formföst.

Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða aukast líkur á öðru kvikuhlaupi á næstu dögum eða vikum, þrátt fyrir að eldgos sé enn í gangi. Það að fá kvikuhlaup út úr kvikuhólfinu í Svartsengi samhliða eldgosinu sem nú er í gangi, er sviðsmynd sem ekki hefur verið uppi áður. Meiri óvissa er því um þróun jarðhræringanna næstu daga eða vikur.

Líkleg atburðarrás ef kvikuhlaup á sér stað samhliða núverandi eldgosi:

  • Kvika hleypur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, líkt og í síðustu sex skipti.

  • Í kjölfar kvikuhlaupsins gætu nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells eða/og núverandi gosop stækkað með skyndilegri aukningu í hraunflæði. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.

  • Ef kvikuhlaup endar með því að nýjar gossprungur opnast annars staðar á kvikuganginum sem myndaðist 10. nóvember má búast við mun lengri fyrirvara, líklegast er áköf smáskjálftavirkni, aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum.

  • Einnig er mögulegt að ekki verði kvikuhlaup, heldur kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og uppá yfirborð.

  • Ef kvikuhlaup endar með því að nýjar gossprungur opnast annarsstaðar en á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells myndi slíkri atburðarás þó mjög líklega fylgja mikil skjálftavirkni og aflögun með talsvert meiri fyrirvara en undanfarin eldgos.

Uppfært hættumat

Í ljósi þeirrar óvissu sem vaxandi þrýstingur í kvikuhólfinu undir Svartsengi veldur, hefur Veðurstofan hækkað hættu vegna gosopnunnar á svæðum 1, 4 og 7 úr litlum í töluverðar". Heildarhætta (litur) á viðkomandi svæðum breytist þó ekki vegna þessa.

Haettusvaedi_VI_19april_2024

(Smellið á kortið til að stækka)

Uppfært 18. apríl kl. 13:45

  • Flatarmál hraunbreiðunnar orðið 6,15 km2 og rúmmál 33,2 ± 0,8 milljón m3

  • Meðalhraunflæði frá gígnum yfir tímabilið 8. til 15. Apríl var metið 3,2 ± 0,2 m3/s

  • Landris í Svartsengi heldur áfram á stöðugum hraða

  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Spá veðurvaktar um gasdreifingu í dag (fimmtudag) er norðvestlæg átt 3-8 m/s og gasmengun frá eldgosinu berst að mestu til suðausturs. Gasdreifingarspá er að finna hér.

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina er stöðugt og  gýs úr einum gíg skammt austan við Sundhnúk. Hraunbreiðan heldur áfram að byggjast upp nærri gígunum en hraun rennur einnig í lokuðum rásum um 1 km í suðaustur og eru virk svæði í hraunbreiðunni til móts við Hagafell. 

Mánudaginn 15. apríl fór myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar (NÍ) og Landmælinga Íslands (LMÍ) í flug yfir gosstöðvarnar. Niðurstöður mælingaflugsins sýna að flatarmál hraunbreiðunnar þann 15. apríl var 6,15 km2 og rúmmál 33,2 ± 0,8 milljón m3. Útbreiðsla og þykkt hraunbreiðunnar er sýnd á korti hér að neðan.

Korthraunbreida18042024

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt þess hrauns myndast hefur í eldgosinu sem nú stendur yfir. Fjólubláar þekjur sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

Meðalhraunflæði frá gígnum yfir tímabilið 8. til 15. apríl var metið 3,2 ± 0,2 m3/s. Það er lítil breyting m.v. meðalhraunflæði tímabilið frá 3. til 8. apríl sem var metið 3,6 ± 0,7 m3/s. 

Landris í Svartsengi heldur áfram á stöðugum hraða. Þetta bendir til að u.þ.b. helmingur af kvikunni sem er að koma af dýpi sé að safnast fyrir í kvikuhólfinu en hinn helmingur er að flæða upp á yfirborð i Sundhnúksgígaröðinni.

SENG-plate_since-20231112

Færslur á GPS stöðinni SENG í Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (17. apríl) er sýnd með grænum punkti. Rauðu lóðréttu línurnar eru tímasetningar á síðustu fjórum eldgosum (18. desember 2023, 14. Janúar, 8. Febrúar og 16. mars 2024) og bláu línurnar þau kvikuhlaup sem hafa orðið í Sundhnúksgígaröðinni án þess að komi til eldgoss (10. Nóvember 2023 og 2. Mars 2024) .

Áfram er hætta á gasmengun frá eldgosinu sem getur valdið mengun í byggð á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Spá veðurvaktar um gasdreifingu í dag (fimmtudag) er norðvestlæg átt 3-8 m/s og gasmengun frá eldgosinu berst að mestu til suðausturs. Á morgun (föstudag) gengur í suðaustan 8-13 með rigningu en suðlægari annað kvöld. Gasmengun mun fara til norðvesturs og síðar til norðurs. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Gasdreifing18042024


Uppfært 16. apríl kl. 14:45

  • Uppfært hættumat. Heildarhætta fyrir Grindavík (Svæði 4) talin töluverð (appelsínugult).
  • Áfram gýs úr einum gíg skammt austan við Sundhnúk.
  • Landris heldur áfram. Stöðugt síðan í byrjun apríl.
  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Gasdreifingarspá er að finna hér.

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram og hefur nú staðið í einn mánuð eins og fjallað var um í frétt sem var gefin út fyrr í dag. Áfram gýs úr einum gíg skammt austan við Sundhnúk. Hraun rennur áfram til suðurs frá gígnum en nær ekki langt og hraunbreiðan heldur því áfram að byggjast upp nærri gígnum. Virkur hraunjaðar er nærri Hagafelli eins og sést á mynd úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem staðsett er á Þorbirni.

 Eldgos16042024

Mynd frá kl. 5:10 í morgun, 16. apríl, tekin úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem staðsett er uppi á Þorbirni og horfir til austurs á gosstöðvarnar. Fyrir miðri mynd er gígurinn og hraunstraumurinn frá honum. Þar fyrir framan er Sundhnúkur og hægra megin á myndinni sést í Hagafell þar sem sést í virka hraunjaðra.

Skjálftavirkni hefur verið með fremur rólegu móti á gossvæðinu frá því gos hófst, eða þar til smáskjálftahrina hófst eftir hádegi 14. apríl við Lágafell. Sú hrina stóð yfir í rúma 4 tíma og hefur verið tengd spennubreytingum í skorpunni vegna landriss í Svartsengi. Áfram er viðvarandi smáskjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli á um 6-8 km dýpi sem hefur fylgt umbrotunum síðastliðna 4 mánuði.

Landris stöðugt síðan í byrjun apríl

Landris heldur áfram og hefur verið stöðugt síðan í byrjun apríl. Líkanreikningar af GPS færslum benda til að flæði kviku inn í kvikuhólfið sé um það bil helmingur af því sem var áður en gos hófst 16. mars síðastliðinn. Þetta bendir til að u.þ.b. helmingur af kvikunni sem er að koma af dýpi sé að safnast fyrir í kvikuhólfinu en hinn helmingur er að flæða upp á yfirborð.

Kvikustreymi_2

Myndatexti: Í byrjun apríl fór landris að aukast aftur og er nú um það bil jafn stór hluti kvikunnar að flæða upp á yfirborð og er að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi með tilheyrandi auknum kvikuþrýstingi.

Áfram er hætta á gasmengun frá eldgosinu sem getur valdið mengun í byggð á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Veðurspá í dag (þriðjudag) er hæg breytileg átt, gas getur safnast saman nærri gossvæðinu. Í kvöld verður svo suðaustan 10-15 m/s og mun þá gas berast til norðvesturs í átt að Reykjanesbæ. Vestan og norðvestan 3-10 á morgun, gas berst til austurs og suðausturs í átt að Þorlákshöfn. Hægt að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Hættumat uppfært

Hættumat hefur verið uppfært og gildir frá kl: 15:00 í dag þangað til 23. apríl, að öllu óbreyttu. Þær breytingar eru á hættumatinu að hætta vegna hraunflæðis hefur verið lækkuð á öllum svæðum nema svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin) og svæði 6. Þessi breyting er gerð vegna þess að það hefur ekki verið virkt hraunflæði á hinum svæðunum síðustu tvær vikur. Miðað við virkni í eldgosinu núna eru metnar minni líkur á því að hraun flæði langt frá gígnum og inn á önnur hættusvæði. Þessi breyting hefur það í för með sér að heildarhætta á svæði 4 (Grindavík) er nú metin töluverð (appelsínugult) en var áður mikil (rautt). Heildarhætta á öðrum svæðum er óbreytt. Áfram er hætta af völdum gasmengunar metin mikil á öllum svæðum nema Sundhnúksgígaröðinni (svæði 3) þar sem hún er metin mjög mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) og svæði 6 eru áfram metin mikil vegna jarðfalls ofan í sprungu og sprunguhreyfinga. 

Haettusvaedi_VI_16april_2024

(Smellið á kortið til að sjá stærra)

Uppfært 15. apríl kl. 10:50

  • Eldgos sem hófst 16. mars helst stöðugt
  • Landris heldur áfram á svipuðum hraða síðan í byrjun apríl.
  • Hættumat gildir til 16. apríl, að öllu óbreyttu
  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Gasdreifingarspá er að finna hér.

Rétt eftir hádegi í gær hófst smáskjálftahrina við Lágafell, rétt norðvestan við Grindavík. Henni var að mestu lokið um klukkan hálf fjögur í gær. Skjálftarnir voru um 90 talsins og var virknin mest milli kl. 13 og 14 þegar 35 skjálftar mældust. Allir skjálftarnir voru undir 1 að stærð og flestir á um 2-4 km dýpi. Þessi smáskjálftahrina er líklega afleiðing spennubreytinga í jarðskorpunni vegna áframhaldandi landriss í Svartengi eins og fjallað var um í fréttauppfærslu í gær.

Meðfylgjandi er samsett mynd sem sýnir staðsetningu skjálftanna á korti og neðan þess er graf sem sýnir dýpt þeirra. Efst til hægri er sýnd stærð skjálfta frá hádegi í gær þar til í gærkvöldi. Þar fyrir neðan er uppsafnaður fjöldi skjálfta og neðst fjöldi skjálfta á klukkustund. Eins og gröfin sýna mældust nokkrir smáskjálftar á svæðinu síðdegis í gær en eftir miðnætti í dag hefur ekki mælst skjálftavirkni þarna.   

Skjalftar14042024

Uppfært 14. apríl, kl. 17:15

  • Eldgos sem hófst 16. mars helst stöðugt
  • Landris heldur áfram á svipuðum hraða síðan í byrjun apríl.
  • Hættumat gildir til 16. apríl, að öllu óbreyttu
  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Gasdreifingarspá er að finna hér.

Allnokkrir smáskjálftar (minni en 1 að stærð) hafa mælst norðvestur af Grindavík síðustu klukkustundirnar. (Sjá yfirlitsmyndir hér að neðan.) Virknin er að megninu til staðsett innan sigdalsins sem myndaðist 10. nóvember og er líklega vegna áhrifa frá landrisinu í Svartsengi sem veldur spennubreytingum á svæðinu.

Skjálftavirknin í dag er sambærileg virkni sem mældist á þessu svæði um miðjan mars síðastliðinn. Skjálftavirknin er því ekki merki um einhverjar breytingar í virkninni í eldgosinu sem haldist hefur nokkuð stöðugt um helgina. Skjálftavirknin norðvestur af Grindavík er heldur ekki merki um að kvika sé á ferðinni undir því svæði.

Þegar þetta er skrifað hefur aðeins dregið úr skjálftavirkninni norðvestur af Grindavík. Ekki er talið líklegt að stórir skjálftar fylgi þessari virkni sem mælist nú.

Ef kvika færi að leita annað en þá leið sem hún hefur farið yfir í Sundhnúksgígaröðinni, t.d. í vestur í átt að Eldvörpum eða suður af Þorbirni, væri undanfari mögulegs eldgoss á því svæði mjög ákafar skjálftahrinur og aflögun sem kæmi skýrt fram á mælitækjum og gervitunglamyndum. Engin merki eru um slíkt á þessum tímapunkti.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið og gosstöðvarnar.

Hrina_14042024_Sigdalur

Myndin sýnir skjálftavirkni á tímabilinu 9. mars til dagsins í dag, 14. apríl. Svörtu línurnar tákna ytri mörk sigdalanna sem mynduðust í tengslum við kvikuhlaupið mikla 10. nóvember 2023 og eldgosið 14. janúar í ár. Yfirgnæfandi meirihluti skjálftanna í dag hefur verið minni en 1 að stærð. Blálitaðir skjálftar urðu 9.-14. mars á meðan rauðlitaðir skjálftar áttu sér stað í dag, 14. apríl. Staðsetning skjálftanna er í vesturjaðri sigdalsins sem myndaðist 10. nóvember sl..

Hrina_14042024_Sprungur

Á svæðinu norðvestur af Grindavík er einnig fylking af þekktum sprungum með norður-suður stefnu sem hnikuðust þegar kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Skjálftarnir í dag eru því einnig merki um spennulosun á þessum sprungum vegna landrissins í Svartsengi.



Uppfært 12. apríl kl. 14:15

  • Eldgos sem hófst 16. mars helst stöðugt
  • Landris heldur áfram á svipuðum hraða síðan í byrjun apríl.
  • Hættumat gildir til 16. apríl, að öllu óbreyttu
  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Gasdreifingarspá er að finna hér.

Eldgosið sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni að kvöldi 16. mars er enn í gangi. Áfram er einn gígur virkur eins og hefur verið síðan 5. apríl. Hraun rennur áfram til suðurs frá gígnum en nær ekki langt og hraunbreiðan heldur því áfram að byggjast upp nærri gígnum. Engin greinileg merki eru um framrás hrauns við varnargarða norðan Grindavíkur, Suðurstrandarveg eða Melhólsnámu. 

Landris í Svartsengi heldur áfram á svipuðum hraða, en í byrjun apríl jókst hraði þess miðað við tímabilið frá því að eldgosið hófst 16. mars til mánaðarmóta. Það gefur til kynna að meirihluti kvikunnar sem streymir undir Svartsengi safnist saman þar og valdi auknum þrýstingi og landrisi. Á meðan eldgosinu stendur er þó áfram opin tenging á milli kvikusöfnunarsvæðisins í Svartsengi og Sundhnúksgígaraðarinnar og hluti kvikunnar flæðir þar upp á yfirborð. Mishraðar breytingar á landrisinu geta sést á milli daga en heilt yfir er hraðinn stöðugur síðan í byrjun apríl.

Hættumat er óbreytt og gildir að öllu óbreyttu til kl. 15:00 þann 16. apríl. Sjá nánar hér

Áfram er hætta á gasmengun frá eldgosinu sem getur valdið mengun í byggð Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Gos12042024

Mynd sem tekin var á miðvikudaginn, 10. apríl, sem sýnir virka gíginn eins og hann sést frá Sundhnúk. (Ljósmynd: Jón Bjarni Friðriksson/Veðurstofa Íslands)

Veðurspáin í dag er norðan 8-13 m/s, en hægari á morgun. Gasmengunin berst þá til suðurs. Breytist í vestlægari átt seint á morgun og þá berst gasmengun til austurs. Hér er hægt að fylgjast með gasdreifingarspá.


Uppfært 9. apríl kl. 15:00

  • Þrátt fyrir að dregið hafi úr krafti eldgossins eru ekki merki um að heildar kvikuflæði frá dýpi sé að minnka.

  • Meðalhraunflæði frá gígunum á milli 3. og 8. apríl er metið 3,6  ± 0,7 m3/s

  • Austan og suðaustanátt á morgun. Gasmengunin berst þá til vesturs og norðvesturs frá gosstöðvunum. Gasdreifingarspá hér.

  • Áfram mælast tímabundið há gildi af SO2 í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með loftgæðum.

Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands fóru í mælingaflug yfir gosstöðvarnar í gær, 8. apríl. Út frá þeim gögnum sem safnað var í fluginu var hægt að leggja mat á stærð hraunbreiðunnar og hraunflæði í eldgosinu. Niðurstöðurnar sýna að dregið hefur jafnt og þétt úr krafti eldgossins. 

Meðalhraunflæði frá gígunum á milli 3. og 8. apríl er metið 3,6  ± 0,7 m3/s. Byggt á gögnum sem Verkfræðistofan Efla safnaði þann 3. apríl í drónaflugi var meðalhraunflæðið metið 6,6 ±  0,3  m3/s frá 27. mars til 3. apríl. Flatarmál hraunbreiðunnar er orðið 6,14 km2 og rúmmál 31,3 milljón m3. Undanfarið hefur hraun runnið að mestu til suðurs frá gígnum, en tímabundið rann það skammt til norðurs á sunnudagskvöld (7. Apríl) þegar gígbarmur brast eins og fjallað var um í síðustu fréttauppfærslu. Eins og sést á meðfylgjandi korti þá hefur hraunið þykknað mest nærri gígnum og skammt sunnan þeirra þar sem mest virkni er í hraunbreiðunni. Engin greinileg merki eru um framrás hrauns við varnargarða norðan Grindavíkur, Suðurstrandarveg eða Melhólsnámu.  

Grindavik_Svartsengi_lava_thickness_map_8april2024

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt þess hrauns myndast hefur í eldgosinu sem nú stendur yfir. Fjólubláar þekjur sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

(Smelltu á kortið til að sjá stærra)

Hraði landriss aukist undanfarna viku

Landris í Svartsengi heldur áfram og hefur hraði þess aukist undanfarna viku á sama tíma og dregið hefur úr krafti eldgossins. Það gefur til kynna að meirihluti kvikunnar sem streymir undir Svartsengi safnist saman þar og valdi auknum þrýstingi og landrisi. Á meðan eldgosinu stendur er þó áfram opin tenging á milli kvikusöfnunarsvæðisins í Svartsengi og Sundhnúksgígaraðarinnar og hluti kvikunnar flæðir þar upp á yfirborð.

Skjálftavirkni í kvikuganginum við Grindavík hefur haldið áfram að vera mjög lítil, og er helst milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells en einnig aðeins í vestanverðri Grindavík. Við Fagradalsfjall heldur áfram smáskjálftavirkni sem hefur verið viðvarandi undanfarna mánuði, og eru þeir áfram mjög staðbundir á um 6-7 km dýpi.

Gasmælingar sem framkvæmdar voru í gær, 8. apríl, áætla að 10-18 kg/s af brennisteinsdíoxíð (SO2) flæði úr gígunum. Áfram mælast tímabundið há gildi af SO2 í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Gaslosun frá eldgosinu er líkleg til að valda mengun á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Samkvæmt veðurspá verður norðan gola í dag og gasmengunin berst til suðurs. Hæg breytileg átt síðdegis og þá eru líkur á mengun nærri gosstöðvunum. Austan og suðaustanátt á morgun og gasmengunin berst þá til vesturs og norðvesturs. Gasdreifingarspá hér.

Hættumat óbreytt.

Hættumat hefur verið uppfært og gildir frá kl: 15:00 í dag þangað til 16. apríl, að öllu óbreyttu. Engar breytingar eru á hættumatinu og áfram er hætta af völdum gasmengunar metin mikil á öllum svæðum nema Sundhnúksgígaröðinni (svæði 3) þar sem hún er metin mjög mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) og svæði 6 eru áfram metin mikil vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga, hraunflæðis og gasmengunar. 

Haettusvaedi_VI_9april_2024

(Smelltu á kortið til að sjá stærra)

Þrátt fyrir að dregið hafi úr krafti eldgossins eru ekki merki um að heildar kvikuflæði frá dýpi sé að minnka. Þar er átt við samanlagt magn kviku sem safnast undir Svartsengi auk kvikunnar sem flæðir uppá yfirborð í eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni. Erfitt er að spá fyrir um hvenær þessu eldgosi lýkur, það gæti haldið áfram í lengri tíma með stöðugu flæði eða stöðvast á næstunni. Þar sem kvika safnast áfram undir Svartsengi og þrýstingur þar eykst er líka möguleiki á að kraftur eldgossins aukist aftur, líkt og gerðist í Fagradalsfjalli 2021. Ef eldgosið stöðvast á næstunni er líklegast að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi og svipuð atburðarás, eins og sést hefur síðustu mánuði, muni endurtaka sig.


Uppfært 8. apríl kl. 16:10

  • Eldgosið heldur áfram. Einn gígur virkur.   
  • Land hefur risið í Svartsengi um sirka 2-3 cm frá 2.-7. apríl.

  • Lítil gasmengun hefur mælst um helgina en áfram geta mælst tímabundið há gildi brennisteinsdíóxíðs í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með loftgæðum.

  • Veðurspá í dag er norðaustlæg átt og gasmengunin berst því til suðvesturs, þ.á.m. yfir Grindavík. Austlæg átt á morgun og þá má búast við gasmengun vestur af gosstöðvunum. Gasdreifingarspá hér.

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram og er nú einn gígur virkur. Hraunrennsli úr gígnum flæddi í suðurátt í gærdag í fremur afmörkuðum straumi, sem varð að tilkomumikilli hrauná. Jafnframt hækkaði yfirborð kviku í gígnum smám saman þar til hann nánast fylltist. Nyrðri gígbarmurinn  brast um kl. 21:30 í gærkvöldi svo kvika fór að streyma í norður átt. Í dag 8. apríl má sjá að hraunflæðið er að megninu til aftur farið að renna til suðurs en sú framrás kviku sem við sáum í gærkvöldi og nótt til norðurs, virðist hafa bunkast þar upp á hæðina. Gígbarmurinn heldur áfram að hlaðast upp.

Hraunrennsli er greinanlegt á óróamælingum 1 til 2 Hz. (græntíðni á grafi) þegar hraunstraumurinn frá gígnum er hvað mestur, eykst óróinn samhliða. Eftir að gígbarmurinn gaf sig þá má sjá að óróinn fellur niður aftur. Sambærileg óróavirkni sást einnig í eldgosum í Geldingadölum þar sem órói jókst þegar að hraunstraumurinn jókst.

Grv08042024oroi

Landris hefur aukist nokkuð í Svartsengi, en út frá GPS mælingum og gervitunglamyndum hefur land risið um 2-3 cm frá 2.-7. apríl, sem er þó minna landris en mældist eftir fyrri gos síðustu mánuði. Aukið landris gæti verið merki um að kvikuflæði hafi aukist inn í Svartsengi eða að tregða sé komin í flæði kviku úr eldgosinu.

Lítil gasmengun hefur mælst á gasmælum Umhverfisstofnunar UST og Veðurstofunnar um helgina en áfram geta mælst tímabundið há gildi brennisteinsdíóxíðs í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með loftgæðum á síðu Umhverfisstofnunar.

Veðurspáin í dag er norðaustlæg átt og gasmengunin berst því til suðvesturs, þ.á.m. yfir Grindavík. Austlæg átt á morgun og þá má búast við gasmengun vestur af gosstöðvunum. Nýjustu gasdreifingarspá má finna hér.


Uppfært 4. apríl kl. 15:45

  • Eldgosið heldur áfram. Tveir gígar virkir, nyrðri gígurinn stærri.
  • Á bylgjuvíxlmynd sem sýnir aflögun frá 18. mars til 3. apríl sést að land hefur risið um 3 cm í Svartsengi á því tímabili.
  • Áfram mælast tímabundið há gildi brennisteinsdíóxíðs í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með loftgæðum.

  • Gasmengunin berst til norðvesturs og norðurs í dag og gæti orðið vart við mengun í Vogum, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Gasdreifingarspá hér.


Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram og enn eru tveir gígar virkir eins og undanfarna daga. Nyrðri gígurinn er stærri og virðist megnið af hraunflæðinu koma frá honum eins og sést á eftirfarandi mynd sem tekin var í gærkvöldi, 3. apríl. Hraun rennur áfram til suðurs frá gígunum ofan á hraunbreiðu sem myndaðist fyrstu daga gossins. Í gærkvöldi voru engin greinileg merki um framrás hrauns við varnargarða norðan Grindavíkur, Suðurstrandarveg eða Melhólsnámu.

Dronamynd04042024

Loftmynd úr drónaflugi á vegum Almannavarna í gærkvöldi, 3. apríl. Myndin sýnir gígana tvo og hraunflæðið frá þeim til suðurs.

Á bylgjuvíxlmynd sem sýnir aflögun frá 18. mars til 3. apríl sést að land hefur risið um 3 cm í Svartsengi á því tímabili. Það er töluvert hægara landris en mældist fyrir þau eldgos eða kvikuhlaup sem orðið hafa á síðustu mánuðum. Út frá GPS mælingunum á sama tímabili virðist hraði landrissins hafa verið breytilegur en erfitt getur verið að meta breytingar frá degi til dags út frá þeim. Ef horft er á GPS mælingar yfir allt tímabilið sem bylgjuvíxlmyndin sýnir sést að samræmi er í niðurstöðum beggja mælinga. Landris mælist í Svartsengi á meðan eldgosinu stendur en það hefur ekki sést í þeim atburðum sem hafa orðið á síðustu mánuðum á Sundhnúksgígaröðinni. Það er vísbending um að kerfið sé opið og kvika streymi áfram af miklu dýpi undir Svartsengi og þaðan til yfirborðs í Sundhnúksgígaröðinni.

Csk_reykjanes_A33-krysuvik_20240318-20240403_unw

Bylgjuvíxlmynd sem sýnir aflögun frá 18. mars til 3. apríl. Gulur og appelsínugulur litur sýnir svæði í kringum Svartsengi þar sem landris mælist.

Áfram mælast há gildi brennisteinsdíoxíðs í kringum eldgosið

Gasmælingar sem framkvæmdar voru á þriðjudaginn síðasta, 2. apríl, áætla að um 37 – 41 kg/s af SO2 flæði úr gígunum. Áfram mælast tímabundið há gildi brennisteinsdíoxíðs í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Gaslosun frá eldgosinu er líkleg til að valda mengun á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Veðurspá í dag (fimmtudag) er suðaustan og sunnan 8-13 m/s á gosstöðvunum og berst gasmengunin þá til norðvesturs og norðurs og gæti orðið vart við mengun í Vogum, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Austan 5-10 á morgun (föstudag) og berst mengunin þá til vesturs, m.a. yfir Svartsengi. Norðaustan 5-10 seint á morgun og berst mengunin þá til suðvesturs og mögulega yfir Grindavík um tíma. Gasdreifingarspá hér.

Gasdreifing04042024

Hættumat sem birt var 2. apríl er óbreytt og enn í gildi til 9. apríl að öllu óbreyttu.

 

Uppfært 2. apríl kl: 12:50

  • Eldgosið heldur áfram og eru nú tveir gígar virkir. Landris hefur ekki mælst síðustu daga
  • Undanfarið hafa kviknað gróðureldar í kringum hraunbreiðuna en það er viðvarandi hætta á meðan þurrt er í veðri.
  • Gasmengun berst til suðvesturs og síðar til vesturs og verður hennar líklega vart öðru hvoru í Grindavík og jafn vel í Höfnum. Hægt er að fylgjast með gasmengunarspá og loftgæðum.
  • Hraunjaðrar eru víða orðnir háir og getur glóandi hraun fallið úr hraunjaðrinum
  • Hættumat óbreytt

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram og nú eru tveir gígar virkir. Það slokknaði í þriðja gígnum um páskana, en hann var mun minni en hinir tveir. Gosórói er áfram stöðugur.

Landris í Svartsengi hefur ekki mælst síðustu daga sem bendir einkum til þess að kvikan safnist síður fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi en flæði frekar beint út um gosopin. Mögulega er komið á jafnvægi í aðstreymi kviku inn undir Svartsengi og upp úr gígunum, en jarðefnafræðimælingar gætu staðfest það á næstunni.

Sérfræðingar Landmælinga Íslands hafa unnið úr gervitunglagögnum frá 27. mars sem sýna að hraunbreiðan var þá 5,99 km2 og rúmmál hrauns frá upphafi gossins 25,7 ± 1,9 mill. m3. Meðalflæði hrauns frá gígunum á tímabilinu 20. - 27. mars var metið 7,8 ± 0.7 m3/s en það er mjög sambærilegt við hraunflæðið í fyrsta fasa eldgossins í Geldingadölum 2021. Stefnt er að því að taka loftmyndir af svæðinu á næstu dögum til að fá uppfærðar tölur um hraunflæði frá 27. mars sem myndu varpa skýrara ljósi á virkni gossins. Meðfylgjandi kort sýnir útbreiðslu hraunsins og þykkt þess eins og það var 27. mars.

Kort02042024

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt þess hrauns myndast hefur í eldgosinu sem nú stendur yfir. Fjólubláar þekjur sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

Gróðureldar í kringum hraunbreiðuna

Undanfarið hafa kviknað gróðureldar í kringum hraunbreiðuna en það er viðvarandi hætta á meðan þurrt er í veðri.

Hraunjaðrar eru víða orðnir háir og getur glóandi hraun fallið úr hraunjaðrinum og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða.

Síðustu daga hafa tímabundið mælst há gildi af brennisteinsvetni í Grindavík. Veðurspáin í dag (þriðjudag) er norðaustan og síðar austan 5-13 m/s á gosstöðvunum. Gasmengun berst því til suðvesturs og síðar til vesturs og verður hennar líklega vart öðru hvoru í Grindavík og jafn vel í Höfnum. Austan og suðaustan 3-10 m/s á morgun (miðvikudag) og gasmengun berst því til vesturs og norðvesturs og gæti mælst víða á vesturhluta Reykjaness, þ.á m. í Reykjanesbæ. Gasdreifingarspá er hér.

Hættumat óbreytt

Hættumat hefur verið uppfært og gildir frá kl: 15:00 í dag þangað til 9. apríl, að öllu óbreyttu. Engar breytingar eru á hættumatinu og áfram er hætta af völdum gasmengunar metin mikil á öllum svæðum nema Sundhnúksgígaröðinni (svæði 3) þar sem hún er metin mjög mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) og svæði 6 eru áfram metin mikil vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga, hraunflæðis og gasmengunar. 

Haettusvaedi_VI_2april_2024


Uppfært 27. mars kl. 13:30

  • Áfram hætta á gasmengun. Sjá gasdreifingarspá.
  • Útlit er fyrir að mengunin berist til vesturs og suðvesturs í dag, m.a. yfir Svartsengi, Hafnir og Grindavík. Huga þarf að loftgæðum.
  • Virkni eldgossins stöðug. Hrauná rennur til suðurs frá gígunum þremur.

Virkni í eldgosinu hefur verið nokkuð stöðug síðan á mánudaginn 25.mars. Órói hefur haldist stöðugur síðan þá sem og virknin í gígunum þremur. Hraun rennur áfram í hrauná til suðurs frá gígunum að mestu ofan á hraunbreiðunni sem myndaðist á fyrstu dögum gossins. Meðfylgjandi mynd sýnir útbreiðslu hraunsins eins og hún var kortlögð frá gervitunglamynd síðan 26. mars og svæði þar sem breytingar hafa orðið á milli 20. og 26. mars.

Kort27032024

Skástrikaðar þekjur sýna svæði þar sem breytingar hafa orðið á hraunbreiðunni á milli 20. og 26. mars. Sá hluti skástrikaða svæðisins sem er rauðlitaður táknar svæði þar sem hraun hafði ekki runnið yfir áður í þessu eldgosi, þ.á.m. er Melhólsnáma sunnan Hagafells. Ljósfjólubláar þekjur sýna svæði þar sem hraun rann frá eldgosum í febrúar og janúar.

Land heldur áfram að rísa í Svartsengi en mun hægar en það hefur gert fyrir þau eldgos eða kvikuhlaup sem orðið hafa á síðustu mánuðum. Það bendir til þess að enn safnist upp kvika í söfnunarsvæðið undir Svartsengi þótt það sé eldgos í gangi. Lítil sem engin skjálftavirkni hefur mælst á svæðinu.

Áfram hætta á gasmengun

Veðurstofan hefur síðustu daga, í samstarfi við Almannavarnir, bætt við gasmælum á tveimur stöðum til að fylgjast með gasmengun (SO2). Annar þeirra er staðsettur við Bláa lónið og hinn á hafnarsvæði Grindavíkur. Þetta er viðbót við þá mæla sem Umhverfisstofnun heldur úti. Báðar stöðvarnar eru að streyma gögnum á vefsíðu Umhverfisstofnunar .

Há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) mældust í skamma stund í Grindavík í nótt (allt upp í 9000 míkrógrömm/m3) en þau lækkuðu fljótt aftur niður í eðlileg gildi. Há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) mældust í Bláa lóninu og í Höfnum í gær. Hæst fóru gildin í 7000 microgröm/m3 í Bláa lóninu og í 2000 microgröm/m3 í Höfnum. Slíkur styrkur er talinn mjög óhollur og líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum. Mikilvægt er að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu þegar svo há gildi mælast. Huga þarf vel að málum þar sem vinna fer fram utandyra, eins og vinnueftirlitið bendir á, og þá þurfa fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins að huga vel að þróun loftgæða vegna mögulegrar hættu á gasmengun. Gaslosun frá eldgosinu er líkleg til að valda áfram mengun á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Gas27032024

Mynd úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem staðsett er á Hópsnesi  suðaustan Grindavíkur. Fyrir miðri mynd er Þorbjörn og gosstöðvarnar þar austan við þaðan sem gosmökkurrin rís og berst undan austanvindi til vesturs.

Veðurspáin í dag (miðvikudag) er austan og norðaustan 5-10 m/s og er útlit fyrir að mengunin berist þá til vesturs og suðvesturs, m.a. yfir Svartsengi, Hafnir og Grindavík. Á morgun, Skírdag er vindáttin heldur ákveðnari norðaustan og berst þá gasmengunin til suðvesturs. Sjá gasdreifingarspá sem reglulega er uppfærð.


Uppfært 25. mars kl. 15:00

  • Há gildi af SO2 (brennisteinsdíoxíð) mældust um helgina. Hægt að fylgjast með gasdreifingarspá hér .
  • Þessi styrkur er talinn mjög óhollur. Mikilvægt að huga vel að þróun loftgæða.
  • Virðist hafa dregið úr eldgosinu við Sundhnúksgíga
  • Hættumat óbreytt. Áfram er aukin hætta vegna gasmengunar

Það virðist hafa dregið úr eldgosinu við Sundhnúksgíga síðasta sólarhringinn. Virkni í gígunum er minni og mögulega slökknað í minnstu gígunum. Einnig hefur gosórói minnkað mjög hægt og rólega undanfarna daga. Megin hraunstraumurinn rennur frá gígunum fyrst í suður og beygir síðan til vesturs. Um helgina hélt hraun áfram að flæða í Melhólsnámuna og hefur nú fyllt hana en heldur áfram að þykkna nær gígunum.

GPS mælingar síðustu daga benda til þess að landris sé í gangi í Svartsengi, en mun hægara en áður. Það bendir til þess að enn safnist upp kvika í söfnunarsvæðið undir Svartsengi þótt það sé eldgos í gangi.

Há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) mælst síðustu daga

Það hafa mælst há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) í Höfnum og Grindavík síðustu daga og í dag. Þessi styrkur er talinn mjög óhollur og líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum. Mikilvægt er að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. Þetta á ekki síst við þar sem vinna fer fram utandyra, eins og vinnueftirlitið bendir á, þá þurfa fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins að huga vel að þróun loftgæða vegna mögulegrar hættu á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Veðurspáin um og eftir hádegi í dag (mánudag) er norðaustan 3-8 m/s á gosstöðvunum og gasmengunin berst því til suðvesturs (yfir Grindavík og Svartsengi), auk þess sem gas gæti safnast saman nærri gosstöðvunum því vindur er fremur hægur. Í kvöld, nótt og framan af morgundegi er útlit fyrir austan 8-13 m/s á gosstöðvunum og mengunin berst þá til vesturs, m.a. yfir Hafnir. Á þessu tímabili er einnig mögulegt að vindur verði suðaustlægur um tíma og gæti mengunar þá orðið vart í Njarðvík, Keflavík og Sandgerði. Gasdreifingarspá er að finna hér.

Hættumat óbreytt

Hættumat hefur verið uppfært og gildir frá kl: 15:00 í dag þangað til 2. apríl, að öllu óbreyttu. Engar breytingar eru á hættumatinu og áfram er hætta af völdum gasmengunar metin mikil á öllum svæðum nema Sundhnúksgígaröðinni (Svæði 3) þar sem hún er metin mjög mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) er áfram metin mikil vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga, hraunflæðis og gasmengunar.  

Haettusvaedi_VI_25mars_2024

(Smellið á kortið til að stækka)

Uppfært 23. mars kl. 12:20

  • Aukin hætta vegna gasmengunar á öllum svæðum á hættumatskorti. Gasdreifingarspá hér.
  • Áfram nokkuð stöðug virkni í eldgosinu. Hraun flæðir meðfram varnargörðum.

  • Landris á svæðinu hefur verið væg síðan gos hófst 16. mars.

Áfram er nokkuð stöðug virkni í eldgosinu og hraun flæðir meðfram varnargörðun norðan og austan Grindavíkur. Hraunið sem rennur meðfram varnargörðunum norðan Grindavíkur heldur áfram að fylla upp í Melhólsnámu eins og sést á meðfylgjandi hreyfimynd. Hreyfimyndin sýnir hraunflæði frá kl. 15 í gær til kl. 9 í morgun, 23. mars.

Hagafell2203_2303--002-

Myndirnar eru úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er uppi á Hagafelli og Melhólsnáma er lengst til hægri á myndinni og vestan hennar er Grindavíkurvegur.

Í dag er spáð norðaustan 8-15 m/s á gosstöðvunum. Gasmengun berst því til suðvesturs og gæti hennar orðið vart í Grindavík. Í kvöld snýst í austan og suðaustan 5-13 m/s, gasið berst þá til vesturs og norðvesturs í átt að Svartsengi og gæti einnig orðið vart við það í Reykjanesbæ og nálægum byggðarlögum. Það lægir annað kvöld og þá minnka líkur á að gasmengun berist langt frá gosstöðvunum, en ávallt eru líkur á gasmengun nálægt þeim.

Uppfært 22. mars kl. 16:10

  • Uppfært hættumat
  • Aukin hætta vegna gasmengunar á öllum svæðum. Gasdreifingarspá hér.
  • Eldvirkni á gosstöðvunum við Sundhnúk stöðug milli daga

  • Landris á svæðinu hefur verið væg síðan gos hófst 16. mars


Eldvirknin á gosstöðvunum við Sundhnúk helst stöðug á milli daga. Lítil sem engin skjálftavirkni er í kvikugagninum eða í nágrenni hans. Aflögun í formi landriss á svæðinu við Svartsengi hefur verið afar væg síðan kvikuhlaupið átti sér stað og gos hófst þann 16. mars.  Það bendir einkum til þess að kvikan safnist síður fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi en flæði frekar beint út um gosopin. Þó gætu verið vísbendingar um að landris í Svartsengi hafi aukist síðan þá, en ekki er hægt að fullyrða um það að svo stöddu. Mælingar næstu daga munu þó leiða slíkt betur í ljós.

Veðurspáin í dag (föstudag) er norðan- og norðnorðvestanstæðir vindar upp á um 8-15 m/s og norðaustlægari átt undir kvöld með heldur hægari norðaustanátt á morgun. Gasmengunin verður undan þeim áttum því mest til suðurs af gosstöðvunum eða í og við Grindavík. Gasdreifingarspá má finna hér.

Aukin hætta vegna gasmengunar

Hættumat hefur verið uppfært og gildir það frá kl. 15 í dag föstudaginn 22. mars til kl. 15 mánudaginn 25. mars haldist staðan óbreytt. Hætta af völdum gasmengunar er metin meiri á öllum svæðum m.v. síðastliðna daga. Það er vegna veðurspár næstu daga og hærri mældra gilda á flæði brennisteinsdíoxíð (SO2) frá gígunum og hraunbreiðunni nú en áður. Á svæðum 1 og 5 (norðvestan gosstöðvanna) er hætta vegna hraunflæðis minni en síðastliðna þrjá daga vegna stöðugleika hraunbreiðunnar norðan gosstöðvanna og núverandi hraunflæðis sem leitar einkum til suðurs. Hraunbreiðan er þó enn hættuleg sökum þess hve stutt er síðan hún myndaðist.

Haettusvaedi_VI_22mars_2024

(Smellið á kortið til sjá það stærra)

Uppfært 21. mars kl. 13:50

  • Meðalhraunflæði frá gígunum 17. - 20. mars um 14.5 m3/s

  • Flatarmál hraunsins er orðið 5.58 km2 og rúmmál þess um 20.9 milljón rúmmetrar.

  • Kvika sem áður safnaðist undir Svartsengi og olli landrisi er nú að mestu leyti að flæða beint til yfirborðs og fæðir eldgosið

  • Lítil aflögun mælist á Svartsengissvæðinu og umhverfis kvikuganginn.

  • Gasmengun berst til austurs og suðausturs og gæti hennar orðið vart á Suðurlandi. Gasdreifingarspá er hér.

Virkni í eldgosinu hefur verið nokkuð stöðug síðasta sólarhringinn. Áfram virðast sömu gosop vera virk og gígar halda áfram að byggjast upp í kringum þau. Hraun flæðir suður af gígunum í virkri hrauná á yfirborði og undir storknuðu yfirborði hraunsins.

Kort21022024

Mynd sem tekin er úr loftmyndaflugi sem Náttúrufræðistofnun Íslands tók í gær 20. mars um kl. 9 um morgun. Þessi gagnasöfnun er samstarfsverkefni Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Veðurstofu Íslands.

Meðalhraunflæði frá gígunum 17. - 20. mars um 14.5 m3/s

Í gærmorgun fóru sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands í mælingaflug yfir gosstöðvarnar. Út frá gögnum sem safnað var í því flugi er áætlað að meðalhraunflæði frá gígunum á tímabilinu frá 17. til 20. mars hafi verið um 14,5 m3/s. Það er svipað hraunflæði og mældist í eldgosunum við Fagradalsfjall  2021 – 2023. Mun meira hraunflæði var þó frá gígunum fyrsta sólarhring gossins sem hófst að kvöldi 16. mars. Flatarmál hraunsins er orðið 5.58 km2 og rúmmál þess um 20.9 milljón rúmmetrar. Meðfylgjandi kort sýnir útbreiðslu og þykkt hraunsins eins og það var kortlagt í gærmorgun 20. Mars. Þar sést að hraunið er yfir 16 m þykkt þar sem það er þykkast næst gígunum.

Hraun21032024

Myndatexti: Kort sem sýnir útbreiðslu þess hrauns myndast hefur í eldgosinu sem nú stendur yfir. Fjólubláar þekjur sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

Lítil aflögun mælist á Svartsengissvæðinu og umhverfis kvikuganginn. Hreyfingar eru það litlar að ekki sjást martækar breytingar milli daga. Það þarf þvi nokkra daga til viku af mælingum til að meta hvort landris er enn í gangi við Svartsengi. Þó er ljóst strax að kvika sem áður safnaðist undir Svartsengi og olli landrisi er nú að mestu leyti að flæða beint til yfirborðs og fæðir eldgosið. 

Veðurspáin í dag er norðvestan og vestan 8-15 m/s, gasmengun berst til austurs og suðausturs og gæti hennar orðið vart á Suðurlandi, eins í Þorlakshöfn og í Vestmannaeyjum. Norðlægari vindur á morgun (föstudag) og þá berst gasmengun til suðurs og suðausturs og gæti hennar orðið vart í og við Gríndavík. Gasdreifingarspá er hér.

Gasdreifing21032024


Uppfært 20. mars kl. 13:00

  • Virkni eldgossins stöðug og áfram virk gosop
  • GPS mælingar frá 18. mars sýna að mögulega dragi úr landrisi.
  • Uppfært hættumat.
  • Gasmengun gæti orðið vart í Reykjanesbæ, nálægum byggðarlögum, Grindavík og í Svartsengi. Gasdreifingarspá má finna hér.

Virkni eldgossins virðist nokkuð stöðug og áfram eru virk gosop á sömu stöðum og í gær. Hraun rennur frá gígunum í suður ofan á hrauni sem rann á fyrstu dögum gossins. Lítil sem engin hreyfing hefur mælst á hraunjöðrum nærri Suðurstrandarvegi og Svartsengi.  Jarðskjálftavirkni síðan eldgosið hófst á laugardagskvöld hefur verið minniháttar.

Veðurspá er vaxandi suðaustanátt í dag, 13-20 m/s síðdegis. Gasmengun berst til norðvesturs, og gæti hennar orðið vart í Reykjanesbæ, nálægum byggðarlögum og líka í Svartsengi. Lægir í kvöld og þá gæti orðið vart við gasmengunnar nálægt gosstöðvum eins og Svartsengi og Grindavík. Svo snýst í norðlæga átt seint í kvöld og þá berst gasmengun til suðurs til Grindavíkur. Á morgun (fimmtudag) er norðvestan og vestan 8-15 m/s og berst gasmengun til austurs og suðausturs og gæti hennar orðið vart á Suðurlandi eins og í Þorlakshöfn eða í Vestmannaeyjum. Þann 17. mars var útstreymi SO2 frá eldgosinu mælt allt að 50 kg/s, en frumniðurstöður nýrri mælinga benda til þess að dregið hafi verulega úr gasútstreyminu síðan þá. Gasdreifingarspá má finna hér.

Á bylgjuvíxlmynd sem birt var í gær, sáust skýr merki um landris í Svartsengi frá 17. til 18. mars. GPS mælingar frá 18. mars sýna að mögulega dragi úr landrisinu. Það gæti verið vegna þess að nú streymir kvika uppá yfirborð í Sundhnúksgígaröðinni og safnast því ekki saman undir Svartsengi. Þróun eldgossins og aflögunarmælingar næstu daga munu leiða það í ljós hvort jafnvægi komist á innstreymi kviku undir Svartsengi og hraunflæði á yfirborði í Sundhnúksgígaröðinni.

Í morgun fóru sérfræðingar Landmælinga Íslands og Náttúrufræðistofnunar í loftmyndaflug yfir gosstöðvarnar. Út frá þeim myndum er hægt að áætla stærð hraunbreiðunnar og meðal hraunflæði  frá eldgosinu. Þær niðurstöður verða birtar um leið og unnið hefur verið úr gögnunum.

Eldgos20032024

Yfirlitsmynd yfir gosstöðvarnar tekin í flugi í morgun. Þar sjást öll virku gosopin og hraunstraumur frá þeim til suðurs. Í bakgrunni til vinstri má sjá Grindavíkurbæ og til hægri sést í Svartsengi (Ljósmynd: Birgir V. Óskarsson - Náttúrufræðistofnun)

Uppfært hættumat

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat í ljósi nýjustu gagna. Nýtt hættumat tekur gildi í dag, miðvikudaginn 20. mars og gildir til 22. mars að öllu óbreyttu. Svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin), þar sem eldgos er enn í gangi, er óbreytt og hættan talin mjög mikil. Hætta á svæði 1 (Svartsengi) er nú metin töluverð en var áður metin mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) er áfram metin mikil þar sem hætta vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga og hraunflæðis er talin mikil. Á svæði 3 (Sundhnúksgígaröðinni) er hætta vegna gasmengunar talin mjög mikil en á öllum öðrum svæðum er nú metin töluverð hætta á gasmengun en var áður mikil. Þessi breyting er vegna minna gasútstreymis frá eldgosinu en í upphafi. Hætta vegna gasmengunar og gjósku er einnig metin út frá veður- og dreifingarspá næstu daga sem hefur áhrif á útbreiðslu þeirra. 

Haettusvaedi_VI_20mars_2024

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Uppfært 19. mars kl. 11:50

  • Eldgosið heldur áfram og hefur staðið síðan 16. mars kl. 20:23
  • Gosórói mælist og hefur verið nokkuð stöðugur undanfarna tvo sólahringa sem er vísbending um að ekki hafi dregið úr krafti gossins.
  • Landris heldur áfram í Svartsengi sem bendir til þess að enn streymi kvika af dýpi inn í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi ásamt því að fæða eldgosið.
  • Hættumatskort sem uppfært var í gær er óbreytt

Eldgosið heldur áfram og hefur nú staðið í rúman tvo og hálfan sólarhring og er orðið lengra en þau þrjú gos sem hafa orðið á svæðinu síðan í desember 2023. Áfram gýs á sömu stöðum og seinnipartinn í gær sem eru sunnarlega á gosprungunni. Gígbarmar halda áfram að byggjast upp og kvikustrókavirkni enn nokkur. Hraunjaðarinn sem var um 300 m frá Suðurstrandarveginum í gær virðist ekki hafa færst áfram síðan í gær. Hraunrennsli frá gígunum er áfram mest til suðurs, en virkir hraunjaðrar renna ofan á því sem rann í upphafi gossins. Engin skjálftavirkni hefur verið í og við kvikuganginn síðan eldgos hófst en gosórói mælist og hefur verið nokkuð stöðugur undanfarna tvo sólahringa sem er vísbending um að ekki hafi dregið úr krafti gossins.

Þegar kvika hljóp frá Svartsengi yfir Sundhnúksgígaröðina að kvöldi 16. mars þá seig land í Svartsengi líkt og þegar fyrri kvikugangar mynduðust. GPS mælingar og gervitunglamyndir eftir það sýna að landris heldur áfram í Svartsengi sem bendir til þess að enn streymi kvika af dýpi inn í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi ásamt því að fæða eldgosið. Hafa ber í huga að enn hafa fengist tiltölulega fáir mælipunktar á þeim skamma tíma sem liðið hefur síðan eldgosið hófst og mælingunum fylgir ávallt óvissa. Aflögunarmælingar sem verða aðgengilegar næstu daga munu gera sérfræðingum mögulegt að áætla nánar með líkanreikningum það magn kviku sem streymir inn undir Svartsengi.

Bylgjuvixlmynd19032024

Bylgjuvíxlmynd sem sýnir mælt landris (rauð svæði) á milli 17. og 18. mars eftir að eldgosið hófst. Myndin byggir á gögnum úr Iceye gervitungli.

Samkvæmt mælingum sem framkvæmdar voru í gærkvöldi hefur dregið úr gasútstreymi frá eldgosinu miða við það sem var í upphafi. Áfram eru þó líkur á að gasmengunar verði vart og veðurspá bendir til vaxandi suðvestanáttar, verði um 13-20 m/s á gosstöðvunum í dag en dregur úr vindi í kvöld. Gasmengun berst því til norðausturs. Sjá gasdreifingarspá hér.

Hættumatskort sem uppfært var í gær er áfram í gildi til kl. 15:00 á morgun 20. mars að öllu óbreyttu.


Uppfært 18. mars kl. 16:30

  • Uppfært hættumat tekur gildi í dag. Gildir til 20. mars, að öllu óbreyttu.
  • Virkni eldgossins nokkuð stöðug síðan seinnipartinn í gær.
  • Hæg hreyfing á hrauntungunni sem stefnir í átt að Suðurstrandarvegi.

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat í ljósi nýjustu gagna. Nýtt hættumat tekur gildi í dag, mánudaginn 18. mars og gildir til 20. mars, að öllu óbreyttu. Svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin), þar sem eldgos er enn í gangi, er óbreytt og hættan talin mjög mikil. Hættan er enn metin mikil á svæði 1 (Svartsengi) vegna gasmengunar og hraunflæðis. Sama á við um svæði 4 (Grindavík) þar sem hætta vegna jarðfalls ofan í sprungur, sprunguhreyfinga, hraunflæðis og gasmengunar er talin mikil. Svæði 5 hefur verið fært niður í töluverða hættu (appelsínugult) og svæði 7 niður í nokkur hætta.

Það sem ræður því að hættan er metin meiri á svæði 1 heldur en svæði 5 er fjarlægð frá virka enda gossprungunnar. Veðurspá og gasdreifingarspá næstu daga hefur áhrif á mat á gasmengun og gjósku í hættumatinu.


Haettumat18032024

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Uppfært 18. mars, kl. 11:45

  • Virkni eldgossins nokkuð stöðug síðan seinnipartinn í gær
  • Hæg hreyfing á hrauntungunni sem stefnir í átt að Suðurstrandarvegi.
  • Í morgun voru um 330 m frá hraunjaðrinum að veginum. Jaðarinn færst lítið áfram m.v. í gærkvöldi.

Virkni í eldgosinu hefur verið nokkuð stöðug síðan seinnipartinn í gær. Það gýs á tveimur svæðum á gossprungunni í nokkrum gosopum, en svo virðist sem slökknað hafi í nyrstu gosopunum. Virkustu gígarnir eru sunnarlega á gossprungunni sem opnaðist á laugardagskvöld og frá þeim er hraunrennsli til suðurs í átt að Suðurstrandarvegi. Í morgun voru um 330 m frá hraunjaðrinum að veginum og hafði jaðarinn færst lítið áfram m.v. í gærkvöldi. Við athuganir á svæðinu í gærkvöldi virtist ekki vera mikil virkni eða hreyfing í hrauntungunni sem fór yfir Grindavíkurveg á aðfararnótt sunnudags.

Flatarmál hraunsins hefur verið metið 5,85 ferkílómetrar út frá gervitunglamynd sem var tekin kl. 14:56 í gær, 17. mars. Sjá á meðfylgjandi korti. Í þessu mati á flatarmáli er meiri óvissa en mælingum sem byggðar eru á ljósmyndum úr flugi. Ef veðuraðstæður leyfa verður farið í mælingaflug yfir gosstöðvarnar síðar í dag sem gæfi nákvæmari tölur um flatarmál en einnig rúmmál hraunsins.

Grindavik_Svartsengi_lavas_overview_20240318

Útlínur hraunsins teiknaðar eftir tveimur gervitunglamyndum frá Iceye. Fyrri myndin var tekin 17. mars kl: 01:55 (appelsínugulur litur), sem er um fimm og hálfri klukkustund eftir að eldgosið hófst. Seinni myndin var tekin kl: 14:56 17. mars og útlínur hraunsins, eins og það var þá, sýnt með rauðum lit. Fjólubláir litir sýna hraunbreiður frá fyrri gosum. 

Husafell_PTZ_2024_03_18_08_48_29

Gossprungan eins og hún var um kl. 8:45 í dag. Til hægri á myndinni sést í Stóra-Skógfell en vinstra megin í Sýlingarfell. Virkustu gosopin eru austan við Sýlingarfell, sunnarlega á gossprungunni sem opnaðist á laugardagskvöld. Í fréttauppfærslu í gær var birt mynd frá sama sjónarhorni, en þá sást virkni í nyrstu gosopunum sem ekki sést lengur.

Veðurspá fram eftir degi er suðaustan- og austan 8-13 m/s á gosstöðvunum en síðan hægari sunnan og suðvestanátt. Gasmengun berst þá til norðvesturs og vesturs, en norðurs seinnipartinn. Talsverð óvissa er í styrk gasmengunar. Suðvestan 10-18 á morgun og mun gasmengunin þá fara til norðausturs. Ólíklegt er að gasmengun berist til Höfuðborgarsvæðisins vegna hvassviðris. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Gasdreifing-18032024

Lítil skjálftavirkni er í kvikuganginum á umbrotasvæðinu og reyndar á Reykjanesskaganum öllum. Aðeins örfáir litlir skjálftar. Hættumat verður uppfært seinna í dag.


Uppfært 17. mars, kl. 18:28

  • Lítil skjálftavirkni hefur mælst á svæðinu það sem af er degi. 
  • Mikil strókavirkni var fram að miðnætti, en virknin dróst hægt saman þegar leið á nóttina. 
  • Nokkuð stöðug virkni var með deginum, en virðist hafa dregist örlítið saman núna seinnipartinn.

Hér fyrir neðan er kort sem sýnir áhrifasvæði ef til þess kæmi að hraun næði til sjávar. Sú sviðsmynd og viðbragðsáætlanir henni tengdri hafa verið ræddar á stöðufundum Veðurstofunnar og Almannavarna í gær og í dag.

Hraunjaðarinn í suðri er í innan við 250 m fjarlægð frá Suðurstrandarvegi. Nú síðdegis hefur framrás jaðarsins verið um 12 m/klst., sem er talsvert minni hraði en mældist fyrr í dag. Ef hraðinn helst óbreyttur mun hraun ná Suðurstrandarvegi eftir um 20 klukkustundir. Hraunið þyrfti svo að ferðast um 350 m til viðbótar til að ná alla leið til sjávar.

Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýra (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar. Eftir því sem fjær dregur minnkar hættan og er hverfandi í meira en 3 km fjarlægð.

Ef horft er til þróunar í virkni gossins í dag, er það talið ólíklegt að hraun nái til sjávar. Miðað við hraðan á framrás hraunjaðarsins nú síðdegis (12 m/klst.), tæki það um tvo daga. Á meðan að eldgos heldur áfram er engu að síður mikilvægt að vera undirbúin fyrir þessa sviðsmynd þar sem þær aðstæður sem þá gætu myndast eru lífshættulegar þeim sem eru innan áhrifasvæðisins.

Grindavik_hraun_ut_i_sjo_upplysingar


Uppfært 17. mars, kl. 16:25

Lítil skjálftavirkni hefur mælst á svæðinu það sem af er degi. Mikil strókavirkni var fram að miðnætti, en virknin dróst hægt saman þegar leið á nóttina. Nokkuð stöðug virkni var með deginum, en virðist hafa dregist örlítið saman núna seinnipartinn. 

Sunnan við Hagafell hefur hraun runnið við hlið varnargarðs og stöðvaðist þar um tíma og myndaði tjörn. Hrauntunga sem rann til vesturs virðist hafa stoppað í um 200 m fjarlægð frá Njarðvíkuræðinni.

Ljósmyndin hér að neðan er tekin á Húsafelli austan við Grindavík í dag þegar sérfræðingur Veðurstofunnar voru að huga að mælitækjum á staðnum. Á myndinni sést staðsetning hraunjaðarsins kl. 13 í dag, þar sem hann rennur meðfram varnargarðinum. Fjarlægð frá Suðurstrandarvegi til sjávar er um 350 m.

Hraunjadar_Sudurstrond_17032023_1300

Grannt er fylgst með framrás hraunsins á þessum slóðum vegna þess möguleika að hraun renni yfir Suðurstrandarveg og jafnvel til sjávar.

Framrás hraunsins í átt að Suðurstrandarvegi hefur þó verið hæg í morgun, um 20 m/klst. Framhaldið ræðst af því hvernig kraftur gossins þróast. Samkvæmt upplýsingum frá vettvangi var hraunjaðarinn í um 250 m fjarlægð frá Suðurstrandarvegi kl. 14:40.



Uppfært 17. mars, kl 11:50


Eldgosið sem hófst kl. 20:23 í gærkvöldi heldur áfram en eftir því sem leið á nóttina dró úr virkninni á gossprungunni og nú gýs á þremur stöðum. Einnig dró verulega úr skjálftavirkninni í nótt og nánast engin skjálftavirkni mældist eftir kl. 3 til morguns, en þá dró einnig úr gosóróa. Þessi þróun svipar mjög til fyrri gosa á Sundhnúksgígaröðinni.

Skömmu eftir miðnætti fór hraun yfir Grindavíkurveg og stefndi í átt að heitavatnslögninni frá Svartsengi. Lítil hreyfing hefur verið á þeirri hrauntungu síðan í nótt og er það nú um 200 m frá lögninni. Önnur hrauntunga rennur meðfram varnargörðum austan við Grindavík og í átt að Suðurstrandarvegi. Viðbragðsaðilar á svæðinu fylgjast með framrásarhraða hraunsins þar en það hefur færst hægt og rólega áfram.

Eldgos17032024

Gossprungan eins og hún var um kl. 11 í dag. Til hægri á myndinni sést í Stóra-Skógfell en vinstra megin í Sýlingarfell. Virkasti hluti sprungunnar er austan við Sýlingarfell, en minni gosop norðar.

Veðurspá 

Veðurspá í dag er norðaustan 8-13 m/s og rigning með köflum, en dregur heldur úr vindi er líður á daginn. Gasmengun mun þá einkum berast til suðvesturs frá gosstöðvunum. Suðaustan 8-13 m/s og skúrir á morgun og mun mengun þá helst liggja til norðvesturs. Hiti yfirleitt á bilinu 1 til 5 stig við gosstöðvarnar. Talsverð óvissa er um styrk gasmengunar. Sjá gasdreifingarspá hér .

Gasdreifing17032024

Uppfært 17. mars, kl. 00:50

Eldgosið hefur nú staðið yfir í rúmar fjórar klukkustundir. Út frá sjónrænu mati í eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar virðist lítið hafa dregið úr krafti gossins. Syðsti og nyrsti hluti sprungunnar virðist aðeins hafa dofnað. Annars gýs nokkuð samfellt á allri sprungunni.

Hraunbreiðan sem nú rennur yfir Grindavíkurveg er umtalsvert breiðari en í febrúar.

Samkvæmt upplýsingum úr eftirlitsfluginu hefur hægst á framrás hrauntungunnar sem rennur í suður. Hraðinn er metinn nú vera í kringum 300 m/klst.

LHG_1703_0048

(Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)


Uppfært 17. mars, kl. 00:15

Mynd úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar, en þyrlan er farin í loftið aftur. Hrauntungan sést hér nálgast Grindavíkurveg. Myndin er tekin kl. 00:12

LHG_1703_0013

(Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)


Uppfært 16. mars, kl. 23:40

Veðurstofan hefur uppfært hættumat í ljósi eldgossins og þróun hraunflæðis frá gossprungunni. Hraun rennur áfram í suður og suðaustur. Hraði hrauntungunnar eins og hann var metinn úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar er um 1 km á klst.

Haldist kraftur gossins óbreyttur er sú sviðsmynd möguleg að hraun nái til sjávar rétt austan Þórkötlustaðahverfisins í Grindavík.

Haettusvaedi_VI_17mars_2024_kl_0000

Kortið hefur verið uppfært. Hættustig hefur verið hækkað á svæði 5 frá fyrri útgáfu.


Uppfært 16. mars, kl. 22:05

Hraun virðist renna hratt í suður í átt að varnargörðum norðan Grindavíkur. Eins rennur hraun í vestur í átt að Grindavíkurvegi, líkt og gerðist í eldgosinu 8. febrúar.

Gossprunga16032024_Varnargardar

Uppfært 16. mars, kl. 21:55

Búið er að setja af stað gasdreifingarspá sem hægt er að nálgast hér.

Skjamynd-2024-03-16-215120_Gasdreifing

Uppfært 16. mars, kl. 21:50

Nýtt kort sem sýnir áætlaða legu gossprungunnar. Heildarlengd gossprungunnar er áætluð vera 2,9 km.

Aaetlud-gossprunga-16032024_2


Uppfært 16. mars, kl. 21:40

Myndir úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar. Gosmökkurinn berst yfir Svartsengi. Megin hraunstraumurinn virðist renna til suðurs og austurs.

LHG_BO_2140

LHG_BO_2140_2

(Ljósmyndir: Almannavarnir/Björn Oddsson)


Uppfært 16. mars, kl. 21:15

Samkvæmt fyrsta mati virðist sem að sama magn af kviku sé að koma upp og mældist í eldgosinu 8. febrúar.

Eftirlitsflug á vegum Landhelgisgæslunnar er að fara í loftið. Nánari upplýsingar og myndir af umfangi gossins munu berast síðar.


Uppfært 16. mars, kl. 20:50

Gosmökkurinn berst til norðvesturs.

Fyrsta staðsetning gossprungunnar er byggð á radargögnum (sjá miðju gossprungunnar sem rauðan punkt á kortinu hér að neðan). Unnið er að nákvæmari staðsetningu.

Gossprunga_Fyrstamat_16032024



Uppfært 14. mars kl. 17:00

Athugið:
  • Þegar veður versnar dregur úr skilvirkni eftirlitskerfis Veðurstofunnar. Í kvöld og nótt bætir í vind með ofankomu á Reykjanesi og á morgun má búast við allhvassri suðaustanátt með hvössum vindhviðum. Því má gera ráð fyrir að bæði næmni jarðskjálfta- og rauntíma GPS vöktunar Veðurstofunnar skerðist. Einnig mun veðrið hafa áhrif á óróamælingar og sjónrænt eftirlit með vefmyndavélum. Veðrið gengur hratt niður um miðnætti annað kvöld, 15. mars.

Meiri óvissa er nú en áður um mögulega tímasetningu á næsta eldgosi

Samkvæmt nýjustu aflögunarmælingum og gervitunglagögnum heldur kvikusöfnun undir Svartsengi áfram með sambærilegum hraða og fyrir kvikuhlaupið 2. mars. Líkanreikningar byggðir á þeim gögnum staðfesta að kvikusöfnunin undir Svartsengi er á sama stað og dýpi og áður.

Í tengslum við eldgosin 14. janúar og 8. febrúar og kvikuhlaupið 2. mars, hefur það sýnt sig í öllum tilfellum að heildarmagn í kvikuhólfinu undir Svartsengi hafi þurft að ná um 10 milljón rúmmetrum áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina.  Möguleg tímasetning á næsta eldgosi hefur verið byggð á því að reikna út magn kviku sem hleypur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina í hvert sinn og síðan hversu marga daga það mun taka að safna aftur upp í sambærilegu magni kviku undir Svartsengi.

Graph_mogi_is_14032024

Í kvikuhlaupinu 2. mars er áætlað að um 1,3 milljón m3 af kviku hafi farið frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, sem er mun minna en í fyrri kvikuhlaupum síðustu mánuði. Síðan þá er áætlað að um 4 milljón m3 af kviku hafi bæst við undir Svartsengi, en ekki hefur komið til kvikuhlaups eða eldgoss.

Það bendir til þess að mögulega hafi átt sér stað einhver breyting á þeim farvegi sem kvikan hefur leitað í yfir í Sundhnúksgígaröðina. Í ljósi þess er því meiri óvissa nú en áður um hversu mikið magn kviku þarf að safnast fyrir undir Svartsengi til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.

Meiri óvissa er því nú en áður um tímasetningu á næsta kvikuhlaupi og mögulegu eldgosi. Það skal hins vegar tekið fram að áfram eru mestar líkur á því að kvikan hlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og þá mögulega eldgosi á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

Skjálftavirkni norðvestur af Grindavík ekki merki um að kvika sé þar á ferðinni

Ef kvika færi að leita annað en þá leið sem hún hefur farið yfir í Sundhnúksgígaröðinni, t.d. í vestur í átt að Eldvörpum eða suður af Þorbirni, væri undanfari mögulegs eldgoss á því svæði mjög ákafar skjálftahrinur og aflögun sem kæmi skýrt fram á mælitækjum og gervitunglamyndum. Engin merki eru um slíkt á þessum tímapunkti.

Allnokkrir smáskjálftar (minni en 1.5 að stærð) hafa mælst norðvestur af Grindavík síðustu daga. (Sjá yfirlitsmynd hér að neðan.) Virknin er að megninu til staðsett innan sigdalsins sem myndaðist 10. nóvember og er vegna áhrifa frá landrisinu í Svartsengi sem veldur spennubreytingum innan sigdalsins. Skjálftavirknin er ekki merki um að kvika sé á ferðinni á þessu svæði.

Skjalftar_0203_1403_2024_Graben

Myndin sýnir skjálftavirkni á tímabilinu 3. mars til dagsins í dag, 14. mars. Svörtu línurnar tákna ytri mörk sigdalanna sem mynduðust í tengslum við kvikuhlaupið mikla 10. nóvember 2023 og eldgosið 14. janúar í ár.


Uppfært 12. mars kl. 14:55

Líkanreikningar sýna að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram á sama hraða og áður. Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið þegar heildarmagn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi er á bilinu 8 til 13 milljónir rúmmetra. Heildarmagn kviku undir Svartsengi er komið yfir þau mörk. Þrýstingur í kvikuhólfinu heldur því áfram að byggjast upp og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og jafnvel eldgosi á næstu dögum.

Graph_mogi_is_12032024

Frá því á föstudag hafa um 140 skjálftar mælst nærri Sundhnúksgígaröðinni og Grindavík. Langflestir skjálftanna eru smáskjálftar undir 1,0 að stærð en stærsti skjálftinn var 2,8 að stærð á föstudagskvöldið á um 5 km dýpi skammt SA við Þorbjörn. Síðustu tvo til þrjá daga hefur verið væg fjölgun í fjölda jarðskjálfta svæðinu m.v. áður, en mögulega hefur þar áhrif að rólegheita veður hefur verið síðustu daga og mælitæki því næmari á smáskjálfta.

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat í ljósi nýjustu gagna. Hættumatið er óbreytt frá síðustu útgáfu. Nýtt hættumat tekur gildi í dag, þriðjudaginn 12. mars kl. 15 og gildir fram á þriðjudaginn 19. mars, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_12mars_2024

Óvenju takföst röð atburða hingað til

Eins og við sögðum frá í frétt í síðustu viku þá hegðaði kvikuhlaupið 2. mars sér sumpartinn á annan hátt en fyrri kvikuhlaup. Vísindamenn munu halda áfram að afla frekari gagna til að skoða hvort að atburðarrásin 2. mars séu merki þess að virknin í tengslum við kvikusöfnunina undir Svartsengi og sú óvenju takfasta röð atburða með endurteknum kvikuhlaupum og eldgosum í kjölfarið sé að breytast.

Áður hefur atburðarrásinni á Sundhnúksgígaröðinni líkt við atburðarrásina sem varð í Kröflueldum sem hófust 1975. Á 10 ára tímabili urðu þar 20 kvikuhlaup og enduðu 9 þeirra með eldgosi (Sjá skýringarmynd hér fyrir neðan). Í Kröflueldum fóru kvikuhlaupin öll inn í sama kvikugang en voru mismikil að umfangi. Eldgosin urðu hins vegar ekki með því reglulega millibilli sem við höfum séð hingað til á Sundhnúksgígaröðinni og í raun er það mjög óvenjulegt hversu takföst virknin hefur verið hingað til.

Kroflueldar_Umbrotahrinur

Myndin sýnir samspil milli myndun kvikuganga og landhæðar í miðri Kröfluöskjunni. Neðri myndin sýnir landhæð mælipunkts innan Kröfluöskjunnar, en sú efri hvar umbrotasvæði voru í hverri hrinu. Á efri myndinni táknar rauði liturinn eldgos.(Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir, 2021)

Uppfært 7. mars kl. 15:40

Skjálftavirkni við kvikuganginn hefur farið minnkandi síðan á laugardag 2. mars, einkum síðustu daga þar sem fáir skjálftar hafa mælst. Veður hefur hins vegar deyft eða truflað skjálftamælana, svo líklega eru fleiri skjálftar, en allt smáskjálftar.

Veðrið næstu sólarhringa er líklegt til að hafa áhrif á eftirlitskerfi Veðurstofunnar. Næsta sólarhringinn verður suðaustan strekkingur eða allhvass vindur með rigningu og takmörkuðu skyggni, einkum til fjalla. Í fyrramálið dregur úr úrkomu en á morgun og næstu daga er útlit fyrir stöku skúri og líklegt að skyggni verði lítið meðan þetta ganga yfir. Heldur dregur úr vindi um helgina, suðaustan stinningsgola eða kaldi á sunnudag.

Þensla heldur áfram undir Svartsengi og líkanreikningar byggðir á GPS gögnum frá 3.-6. mars sýna að um 1,2 milljón rúmmetrar af kviku hafa bæst við í kvikuhólfið þessa daga. Þannig að í heildina hafa rúmlega 10 milljón rúmmetrar af kviku safnast í kvikuhólfið. Staðan er því svipuð eins og hún var fyrir kvikuhlaupið 2. mars.

Uppfært hættumat

Veðurstofan hefur uppfært hættumat. Hættustig er óbreytt frá síðast korti. Ein breyting hefur verið gerð á skiptingu svæða. Svæði 2 og 3 hafa verið sameinuð í eitt svæði. Í ljósi þess hvernig virknin hefur þróast er ekki talin lengur ástæða til að meta hættu á þessum svæðum í tvennu lagi. Nýtt hættumat tók gildi kl. 15 í dag, fimmtudaginn 7. mars. Hættumatið gildir til 12. mars að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_7mars_2024
(Smellið á kortið til að stækka)

Uppfært 5. mars kl. 11:20

Líkleg atburðarrás næstu daga:

  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells

Skjálftavirkni yfir kvikuganginum hefur verið með minnsta móti síðan kvikuhlaupinu lauk á laugardag. Heldur meiri virkni er við Fagradalsfjall en þar hafa mælst um 20 skjálftar síðasta sólarhringinn.

Líkanreikningar sýna að um 1,3 milljón rúmmetrar fóru úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í kvikuganginn á laugardaginn 2. mars. Kvikugangurinn sem myndaðist í kjölfarið var um 3 km langur og náði frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli. Rúmmál kviku sem fór inn í kvikuganginn í þessum atburði var því mun minni heldur en í fyrri atburðum þar sem að um 10 milljón rúmmetrar af kviku hlupu yfir í Sundhnúksgígaröðina. 

Áframhaldandi landris mælist á GPS mælum eftir kvikuinnskotið á laugardaginn. Kvikuflæði undir Svartsengi heldur því áfram og líkanreikningar sýna að um hálf milljón rúmmetra af kviku safnast á sólarhring. Í heildina hafa um 9,5 milljón rúmmetrar af kviku safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi síðan í eldgosinu 8. febrúar.

Þrýstingur í kvikuhólfinu heldur því áfram að byggjast upp og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og jafnvel eldgosi á næstu dögum.

Graph_mogi_is_05032024

Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Staða kvikusöfnunar 4. mars er merkt með rauðu. Þar sést einnig hvaða áhrif kvikuhlaupið laugardaginn 2. mars hafði á söfnunarferlið. Þá fór um 1.3 milljónir rúmmetra af kviku yfir í Sundhnjúksgígaröðina án þess að eldgos var. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu

Veður getur haft áhrif á eftirlitskerfi

Veðurstofan hefur uppfært hættumat og er það óbreytt frá fyrra hættumati. Nýtt hættumat gildir til fimmtudags 7. mars, að öllu óbreyttu.

Veðrið næstu sólarhringa er líklegt til að hafa áhrif á eftirlitskerfi Veðurstofunnar. Spáin fyrir vikuna er suðaustan og austanátt, um 10-15 m/s. Rigningarskil flesta daga og lægir og hvessir á víxl samfara þeim.  

Haettusvaedi_VI_5mars_2024

Aðstæður á hættusvæðum geta breyst mjög hratt og án fyrirvara. Þau sem eiga erindi inn á hættusvæðin þurfa að vera meðvituð um slíkt. Í því hættumati sem Veðurstofan gefur út er ekki gert ráð fyrir veðurskilyrðum eða öðrum þáttum sem geta haft áhrif á þá áhættu sem felst í að vera innan hættusvæða.


Uppfært 4. mars kl. 13:30

Líkleg atburðarrás næstu daga:

  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells

Líkanreikningar sýna að það magn kviku sem hljóp á laugardaginn úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðinni var um 1.3 milljónir rúmmetra.

Áður var búið að reikna út að um hálf milljón rúmmetra af kviku safnist fyrir undir Svartsengi á sólarhring. Að öllu óbreyttu verður heildarmagn kviku undir Svartsengi orðið um 9 milljónir rúmmetra í lok dags á morgun, þriðjudag.

Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið þegar heildarmagn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi er á bilinu 8 til 13 milljónir rúmmetra. Því eru auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og eldgosi þegar því magni hefur verið náð.

Það má hins vegar benda á að eftir endurtekin gos í Fagradalsfjalli þá voru dæmi um að kvika læddist upp á yfirborðið án mikillar skjálftavirkni. Reikna þarf með að það gæti orðið þróunin með virknina á Sundhnúksgígaröðinni.


Uppfært 3. mars kl. 11:55


Líkleg atburðarrás næstu daga:

  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Í ljósi þróunar á virkninni frá því í gær hefur hættustig verið lækkað á tveimur svæðum – svæði 2 og 3. Hættustig er óbreytt á öðrum svæðum og er hættumatið nú það sama og var í gildi fyrir atburðarás gærdagsins.

Hættumatið gildi frá því kl.13:00 í dag, 3. mars, til þriðjudagsins 5. mars kl. 15:00, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_3mars_2024


Uppfært 3. mars kl. 10:20

Skjálftavirkni við Sýlingarfell vegna kvikuhlaups sem hófst um kl.16 í gær hjaðnaði jafnt og þétt eftir kl.18 og var að mestu lokið eftir kl 20.

Gögn benda til þess að kvikuhlaupið í gær hafi stöðvast við Hagafell. Líkur á því að kvika komi upp í tengslum við þetta kvikuhlaup hafa minnkað, en áfram verður náið fylgst með svæðinu hvað þann möguleika varðar.

Líkanreikningar sýna að magn kviku sem hljóp frá Svartsengi í gær hafi verið óverulegt miðað við fyrri kvikuhlaup sem enduðu með eldgosi. Því er hægt að líta svo á að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi líkt og áður.

Reikna þarf með að annað kvikuhlaup geti átt sér stað næstu daga og áfram eru auknar líkur á eldgosi líkt og fyrir atburðarrás gærdagsins. Hversu langt er í næsta kvikuhlaup veltur á því hversu hratt þrýstingur vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi byggst upp til að setja það af stað. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður áköf smáskjálftahrina á svæðinu.

Í ljósi þessa vinnur Veðurstofan að nýju hættumati sem verður uppfært á næstu klukkustundum.

Líkleg atburðarrás næstu daga:

  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells
Graph_mogi_is_03032024
Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Staða kvikusöfnunar 2. mars eftir kvikuhlaupið er merkt með rauðu. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu

Uppfært 2. mars kl. 18:45

Á þessum tímapunkti hefur smáskjálftavirknin sem hófst rétt fyrir klukkan fjögur í dag hætt. Líkur eru því á að kvikuhlaupið hafi stöðvast í bili.

Áfram mælist aflögun á svæðinu. Því er of snemmt að fullyrða að kvikuhlaupinu sé lokið og að ekki komi til eldgoss að þessu sinni. Þegar um kvikuhlaup er að ræða mælist aflögun í nokkrar klukkustundir eftir að skjálftavirknin hættir.

Veðurstofan heldur því áfram að vakta svæðið til að fylgjast með hvort að virknin taki sig upp aftur næstu klukkustundirnar eða hvort kvikuhlaupinu sé lokið. Sá möguleiki er fyrir hendi að kvika læðist upp til yfirborðs líkt og dæmi eru um í eldgosum við Fagradalsfjall.


Uppfært 2. mars kl. 16:30

Fréttin uppfærð kl 17:30

  • Dregið hefur úr skjálftavirkninni. Óvissa er um hvert framhald virkninnar verður.Skjálftahrinan hófst klukkan 15:55 á suður enda gossprungunnar þar sem gaus 18. desember 2023.
  • Skjálftavirknin færðist suðaustur eftir kvikuganginum og stöðvaðist við Hagafell.
  • Aflögunin sem nú mælist er mun minni en hefur áður mælst í aðdraganda eldgosa. Það gæti bent til þess að minni kvika sé á ferðinni nú en í fyrri eldgosum.
  • Dýpi skjálftavirkninnar bendir ekki til þess að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs eins og staðan er núna. Það eru því minni líkur á að kvikuinnskotið leiði til eldgoss en það er þó alls ekki útilokað.
  • Ein þeirra sviðsmynda sem nefnd hefur verið er að kvikuhlaup verði án þess að til eldgoss komi.

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat sem gildir í sólarhring að öllu óbreyttu.Haettusvaedi_VI_2mars_1700

Uppfært 29. febrúar kl. 10:50 
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells
  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast og hraði landriss helst nokkuð jafn
  • Í hættumati er ekki gert ráð fyrir veðurskilyrðum eða öðrum þáttum sem geta haft áhrif á áhættuna sem felst í því að vera innan hættusvæða
  • Mögulegt er að kvikuhlaup verði án þess að til eldgoss komi

Líkanreikningar sýna að í dag hafa um 8,5-9 milljónir rúmmetra af kviku safnast fyrir undir Svartsengi. Hraðinn á landrisinu hefur haldist nokkurn veginn sá sami síðust daga. Að öllu jöfnu hefur dregið úr hraða landriss þegar nálgast hefur eldgos.

Samkvæmt líkanreikningum safnast um hálf milljón rúmmetrar af kviku undir Svartsengi á sólarhring. Ef horft er til aðdraganda fyrri eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkur á eldgosi þegar magnið hefur náð 8 – 13 milljón rúmmetrum. Ef kvikusöfnun heldur áfram með sama hraða nást efri mörk í næstu viku.

Áfram eru auknar líkur á eldgosi næstu daga. Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og gæti það hafist með mjög stuttum fyrirvara.

Graph_mogi_is_29022024

Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Staða kvikusöfnunar 28. febrúar er merkt með rauðu. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu. Mismiklar breytingar geta einnig sést á milli daga. Fjólubláa línan sýnir magn kviku sem safnaðist áður en kvikugangurinn mikli sem liggur undir Grindavík myndaðist 10. nóvember.

Nýtt hættumat Veðurstofu Íslands sem gefið var út í dag helst óbreytt frá því síðast. Hættumatið gildir fram á þriðjudaginn 5. mars að öllu óbreyttu. Líklegar sviðsmyndir haldast einnig óbreyttar frá því sem var birt fyrr í vikunni. (Sjá í færslunni frá 26. febrúar hér að neðan).

Haettusvaedi_VI_29feb

Það skal tekið fram að þó svo að Veðurstofan hafi á þessu stigi ekki aukið hættustig á umbrotasvæðunum þá geta aðstæður þar breyst mjög hratt og án fyrirvara. Þau sem eiga erindi inn á hættusvæðin þurfa að vera meðvituð um slíkt. Í því hættumati sem Veðurstofan gefur út er ekki gert ráð fyrir veðurskilyrðum eða öðrum þáttum sem geta haft áhrif á þá áhættu sem felst í að vera innan hættusvæða.


Uppfært 26. febrúar kl. 16:10
  • Kvikumagn undir Svartsengi nálgast sömu mörk og í aðdraganda fyrri gosa
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Aukið hættustig í uppfærðu hættumati vegna yfirvofandi eldgoss.
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells
  • Í hættumati er ekki gert ráð fyrir veðurskilyrðum eða öðrum þáttum sem geta haft áhrif á áhættuna sem felst í því að vera innan hættusvæða
  • Mögulegt að kvikuhlaup fari af stað án þess að til eldgoss komi

Líkanreikningar sýna að um 7.6 milljónir rúmmetra af kviku hafa nú safnast fyrir undir Svartsengi. Ef horft er til aðdraganda fyrri eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkur á eldgosi þegar magnið hefur náð 8 – 13 milljón rúmmetrum. Ef kvikusöfnun heldur áfram með sama hætti nást neðri mörk á morgun.

Graph_mogi_20240226_is--002-


Skjálftavirkni hefur aukist örlítið um helgina og hefur mesta virknin verið rétt austan við Sýlingarfell. Staðsetning skjálftavirkninnar er á þeim slóðum þar sem talið er að austur endi kvikuinnskotsins undir Svartsengi liggi. Þetta er sambærilegt þeirri skjálftavirkni sem sést hefur dagana fyrir eldgos.

Kort-26022024

Myndin sýnir yfirfarna skjálfta frá föstudeginum 23. febrúar til dagsins í dag. Rauð lína sýnir gossprungu frá 8. febrúar og dökkrauðar línur sýnar gossprungur frá Janúar 2024 og Desember 2023.

Uppfært hættumat

Í ljósi þessa hefur Veðurstofan uppfært hættumat fyrir umbrotasvæðin. Auknar líkur á eldgosi og þar með eldgosavá því tengdu hefur áhrif á hættumatið. Hættustig hefur verið aukið á nokkrum svæðum. Svæði 3 – Sundhnjúkagígaröð hefur verið fært upp í mikil hætta (rautt) vegna gosopnunar án fyrirvara. Svæði 1 - Svartsengi hefur hækkað í töluvert (appelsínugult) vegna mögulegs hraunflæðis. Svæði 4 - Grindavík er áfram appelsínugult en hins vegar er aukin hætta innan þess svæðis vegna mögulegs hraunflæðis.

Haettumat26022024

Hættumatið gildir til 29. febrúar að öllu óbreyttu. (Smellið á kortið til að stækka)

Engar verulegar landbreytingar sjást innan Grindavíkur á GPS eða gervihnattagögnum.  En líklegt er að nýjar sprungur komi í ljós á yfirborði þegar snjór bráðnar eða þegar jarðvegur hreyfist vegna úrkomu og fellur ofan í sprungur sem þegar hafa myndast.

Líklegar sviðsmyndir 

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp  til yfirborðs, koma  fram í skyndilegri, staðbundinni og ákafri smáskjálftavirkni. Ef horft er til fyrri eldgosa á svæðinu gæti eldgos hafist með litlum fyrirvara, innan við 30 mínútur, allt eftir því hvar á Sundhnúksgígaröðinni kvika kemur upp.

Á íbúafundi með Grindvíkingum sem haldinn var í dag kynnti Veðurstofan niðurstöður hraunflæðilíkana í tengslum við líklegar sviðsmyndir sem birtar voru fyrir helgi. Niðurstöður sem voru kynntar sýndu áætlað hraunflæði út frá tveimur mismunandi staðsetningum á gosopnun á Sundhnúksgígaröðinni.

Hraunflæðilíkönin eru ekki spá um hegðun næsta eldgoss. Líkönin eru eingöngu til að kanna mögulegt hraunflæði út frá ólíkum staðsetningum á gossprungum.

Það er margt sem hefur áhrif á hvert hraun flæðir og hvernig: s.s. staðsetning og lengd gossprungu, kvikuútstreymi, landslag og það hvort virkni einangrast á gíga og hvort hrauntungur myndist.

Í þessum sviðsmyndum er hraunflæði skoðað ef um væri að ræða 800 m langa gossprungu með stöðugu kvikuútstreymi upp á 600m3/s. Sprungur eru merktar með svörtu striki.

Niðurstöður sem sýndar eru hér fyrir neðan eru því aðeins tvö dæmi um hraunflæði frá Sundhnúksgígaröðinni, en hegðun hraunbreiðunnar í næsta gosi getur verið mjög ólík og ræðst af því hvar nákvæmlega sprunga opnast í landslaginu og hversu löng hún er. Lítil tilfærsla á gossprungum getur breitt hraunflæði mikið.


Eldgos milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells – Líkt og 18. desember 2023 og 8. febrúar 2024 

  • Aðdragandi: Skyndileg, staðbundin og áköf smáskjálftavirkni. Aflögun yfir kvikuganginum. 
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur) þar sem kvika á auðvelda leið til yfirborðs vegna fyrri umbrota. 
  • Hraun nær að Grindavíkurvegi á um 2 til 4 klst.. Sá tími gæti verið styttri.
Fissure1_6hrs
Dæmi um mögulegt hraunflæði ef sprunga opnast rétt sunnan við Stóra-Skógfell. Hraunflæðilíkönin eru ekki spá um hegðun næsta eldgoss. Líkönin eru eingöngu til að kanna mögulegt hraunflæði út frá ólíkum staðsetningum á gossprungum. Hraði á hraunflæði getur verið annar en líkönin segja til um.

Eldgos við Hagafell – Líkt og 14. janúar 2024

  • Aðdragandi: Smáskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður. Aflögun yfir kvikuganginum. Líklegur fyrirvari um 1 – 3 klst. frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst. 
  • Hraun nær að varnargörðum við Grindavík á um 1 klst. Sá tími gæti verið styttri.
  • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík.
Fissure7_6hrs

Dæmi um mögulegt hraunflæði ef sprunga opnast austan við Hagafell. Hraunflæðilíkönin eru ekki spá um hegðun næsta eldgoss. Líkönin eru eingöngu til að kanna mögulegt hraunflæði út frá ólíkum staðsetningum á gossprungum. Hraði á hraunflæði getur verið annar en líkönin segja til um.

Eldgos innan varnargarða við Grindavík 

  • Aðdragandi: Smáskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður. Aflögun yfir kvikuganginum. 
  • Líklegur fyrirvari um 1 – 5  klst. frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst. 
  • Sá möguleiki er fyrir hendi að gossprunga opnist innan varnargarða án þess að gos sé hafið við Hagafell, eins og gerðist 14. janúar þegar ný gossprunga opnaðist rétt við bæjarmörkin um 4 klukkustundum eftir að gos hófst við Hagafell. 
  • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík.

Veðurstofan og Háskóli Íslands hafa tekið saman efni sem lýsir eðli umbrotanna sem hafa átt sér stað á Reykjanesskaganum síðan 2019. Sjá hér .



Uppfært 23. febrúar kl. 14:40

Líkanreikningar sýna að um 5 milljónir rúmmetra af kviku hafa nú safnast fyrir undir Svartsengi. Ef horft er til aðdraganda fyrri eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkur á eldgosi þegar magnið hefur náð 8 – 13 milljón rúmmetrum. Miðað við niðurstöðu líkanreikninga mun það nást í næstu viku ef kvikusöfnunin heldur áfram með sama hraða.

Það skal tekið fram að gera þarf ráð fyrir óvissu í þessari túlkun og ekki hægt að fullyrða að þróunin verði eins og fyrir síðustu gos. Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að kvika hlaupi frá Svartsengi og yfir í Sundhnúksgígaröðina án þess að til eldgoss komi.

Kvikusofnun_Svartsengi_Samanburdur_21022024

Grafið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu. Mismiklar breytingar geta einnig sést á milli daga. Staða kvikusöfnunar 21. febrúar er merkt með rauðu. Fjólubláa línan sýnir magn kviku sem safnaðist áður en kvikugangurinn mikli sem liggur undir Grindavík myndaðist 10. nóvember.

Fyrirvari vegna eldgoss gæti orðið mjög stuttur

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið kæmu fram í skyndilegri, staðbundinni og ákafri smáskjálftavirkni. Ef horft er til fyrri eldgosa á svæðinu gæti nýtt eldgos hafist með mjög litlum fyrirvara, innan við 30 mínútur, allt eftir því hvar á Sundhnúksgígaröðinni kvika kemur upp.

Líklegar sviðsmyndir

Eldgos milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells – Líkt og 18. desember 2023 og 8. febrúar 2024 

  • Aðdragandi: Skyndileg, staðbundin og áköf smáskjálftavirkni. Aflögun yfir kvikuganginum. 
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur) þar sem kvika á auðvelda leið til yfirborðs vegna fyrri umbrota. 
  • Hraun nær að Grindavíkurvegi innan við 4 klst. 

Eldgos við Hagafell – Líkt og 14. janúar 2024 

  • Aðdragandi: Smáskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður. Aflögun yfir kvikuganginum. 
  • Líklegur fyrirvari um 1 – 3 klst. frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst. 
  • Hraun nær að varnargörðum við Grindavík á 1 klst. 
  • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 

Eldgos innan varnargarða við Grindavík 

  • Aðdragandi: Smáskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður. Aflögun yfir kvikuganginum. 
  • Líklegur fyrirvari um 1 – 5  klst. frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst. 
  • Sá möguleiki er fyrir hendi að gossprunga opnist innan varnargarða án þess að gos sé hafið við Hagafell, eins og gerðist 14. janúar þegar ný gossprunga opnaðist rétt við bæjarmörkin um 4 klukkustundum eftir að gos hófst við Hagafell. 
  • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík.

Það að nú sjáist skýr merki um landris í Svartsengi þýðir ekki að þar sé líklegasti staðurinn fyrir upptök eldgoss. Það er metið m.a. út frá því að jarðskorpan yfir kvikuganginum við Sundhnúksgígaröðina er miklu veikari heldur en jarðskorpan yfir landrisinu í Svartsengi. Ef sú sviðsmynd verður að veruleika að kvika leiti beint upp í Svartsengi, er áætlað að það taki kvikuna í minnsta lagi 4 – 7 klst. að ná yfirborðinu frá því fyrstu merki um slíkt fari að mælast. 

Það skal tekið fram að sviðsmyndirnar eru byggðar á túlkun nýjustu gagna og þeirri atburðarás sem skráð hefur verið í fyrri eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni. Gera þarf ráð fyrir óvissu í þessari túlkun þar sem einungis er um fáa atburða að ræða. 

Veðuraðstæður geta haft áhrif á vöktun og rýmingar

Skilvirkni vöktunar Veðurstofunnar veltur á góðri næmni jarðskjálfta- og rauntíma GPS mælinga en næmnin er mjög háð veðuraðstæðum. Mikill vindur og brim hefur áhrif á lágu tíðnina í óróamælingunum þar sem öldur koma fram sem órói. Þoka og dimm él hafa síðan áhrif á sjónræna staðfestingu á gosi með myndavélum.

Í því hættumati sem Veðurstofan gefur út er ekki gert ráð fyrir veðurskilyrðum eða öðrum þáttum sem geta haft áhrif á þá áhættu sem felst í að vera innan hættusvæða. Þau sem eiga erindi inn á hættusvæðin þurfa að vera meðvituð um að aðstæður innan þeirra geta breyst mjög hratt og án fyrirvara.



Uppfært 22. febrúar kl. 15:10

Skjálftavirkni á umbrotasvæðinu norðan Grindavíkur heldur áfram að vera væg. Um 20 smáskjálftar hafa verið að mælast á hverjum sólarhring síðustu daga.

Kvikusöfnun við Svartsengi heldur áfram og hefur hraðinn verið nokkuð stöðugur sem svipar mjög til þess sem sást í aðdraganda síðustu eldgosa.

Atburðarrásin sem hófst í lok október 2023 með landrisi við Svartsengi heldur því áfram. Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram má búast við nýju eldgosi á sömu slóðum og áður.

Haldi kvikusöfnun áfram með sama hraða og nú mun magn kviku ná þeim þröskuldi í næstu viku sem talið er að þurfi til að koma af stað næsta kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Magn kviku sem safnast hafði við Svartsengi áður en fyrri gos hófust hefur verið á bilinu 8 til 13 milljón m3. Verið er að vinna ný reiknilíkön til að fá nánari mynd af því magni sem safnast hefur.

Ekki er talin ástæða til að auka hættustig á svæðinu að svo stöddu og er hættumat Veðurstofunnar því óbreytt frá því síðast.

Hættumatið verður uppfært á mánudaginn 26. febrúar og að öllu óbreyttu verður hættustig á nokkrum svæðum hækkað samhliða auknu kvikumagni undir Svartsengi og þar með auknum líkum á eldgosi.


Smelltu á myndina til að sjá hana stærri


Uppfært 19. febrúar kl. 17:00

Veðurstofa Íslands hefur gefið út uppfært hættumatskort í kjölfar þess að ríkislögreglustjóri hefur fallið frá tilmælum um brottflutning úr Grindavík frá og með 19. febrúar og vegna ákvörðunar lögreglustjórans um breyttar heimildir íbúa og fyrirtækja hvað varðar aðgengi að bænum.

Uppfært hættumatskort tekur gildi á morgun, 20. febrúar kl. 7, á sama tíma og nýjar reglur lögreglustjórans á Suðurnesjum um aðgengi að Grindavík taka gildi.

Í nýjustu útgáfu af hættumatskorti Veðurstofunnar hefur svæði 7 verið bætt við í samráði við almannavarnir. Innan svæðis 7 er Nesvegur, en aukinni umferð er nú beint um veginn vegna aðgengis að svæðinu við Svartsengi og Grindavík. Á svæðinu eru hættur vegna sprunguhreyfinga og jarðfalls ofan í sprungur. Litakóði annarra svæða er óbreyttur frá síðasta korti.

Hér má sjá tilkynningu lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Eins og áður sýnir kortið mat á hættu sem er til staðar og hættu sem gæti skapast með litlum fyrirvara. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hætta getur leynst utan þeirra.

Haettusvaedi_VI_19feb


Uppfært 15. febrúar kl. 14:00

Landris á Svartsengisvæðinu heldur áfram og er mynstur og hraði þess mjög svipað því sem það var eftir síðustu kvikuhlaup þaðan.

Líkanreikningar byggðar á GPS gögnum frá goslokum 9. febrúar sýna að kvikusöfnun þar til í gær 14. febrúar sé um 2-3 milljón rúmmetrar. Áætlað var að þegar eldgos hófst 8. febrúar hafi um 10 milljón rúmmetrar hlaupið undan Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina. Haldi kvikusöfnun áfram með sama hraða mun magn kviku ná 10 milljón rúmmetrum í lok febrúar eða byrjun mars, en þá má gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og eldgosi aukist verulega. Þessir líkanreikningar eru byggðir á GPS gögnum en verða uppfærðir þegar ný gervitunglagögn berast.    

Skjálftavirkni á svæðinu norðan Grindavíkur er áfram væg en frá því á mánudaginn 12. febrúar hafa eingöngu smá skjálftar um eða undir 1,0 að stærð mælst þar.

Skjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli heldur áfram en þar hafa um 80 smáskjálftar, um eða undir 1,5 að stærð mælst síðan 12. febrúar. Dýpi skjálftanna undir vestanverðu Fagradalsfjalli er stöðugt um 6-8 km dýpi. Áfram verður fylgst náið með þessu svæði en að svo stöddu sýna aflögunarmælingar ekki vísbendingar um kvikusöfnun.

Uppfært hættumatskort hefur verið gefið út. Það gildir til 22. febrúar, að öllu óbreyttu. Helstu breytingar eru að líkur á gosopnun hafa verið lækkaðar á öllum svæðum. Líkur á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum eru ennþá taldar miklar á svæði 4 (Grindavík). Athygli er vakin á að hættusvæðin eru virk og breytingar geta orðið með skömmum fyrirvara. Einnig geta leynst hættur utan skilgreindra hættusvæða, til að mynda eru sprungur sem opnuðust 10. nóvember vestan Grindavíkur (sjá sprungur á korti).

Haettusvaedi_VI_15feb

(Smellið á kortið til að stækka)


Uppfært 12. febrúar kl. 15:15

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumatskort vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.

Eins og áður sýnir kortið mat á hættum sem eru til staðar og nýjum hættum sem gætu skapast með litlum fyrirvara innan tilgreindra svæða. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hættur geta leynst utan þeirra.

Heildarhættumat fyrir svæðin er óbreytt frá síðasta korti. Enn er talin hætta á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum á svæði 4 (Grindavík). Kortið gildir, að öllu óbreyttu, til 15. febrúar næstkomandi.

Haettusvaedi_VI_12feb

(Smellið á myndina til að stækka)

Uppfært 12. febrúar kl. 11:15

Landris heldur áfram á svæðinu við Svartsengi. Land rís um 0,5 – 1,0 cm á dag sem er svipaður hraði og eftir síðustu eldgos. Kvika heldur því áfram að safnast í kvikuhólfið undir Svartsengi. Það eru því miklar líkur á að atburðarrásin endurtaki sig eftir nokkrar vikur með nýju kvikuhlaupi og eldgosi.

SENG-12022024

Færslur á GPS stöðinni SENG í Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (11. febrúar) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á síðustu þremur eldgosum (18. desember 2023, 14. janúar og 8. febrúar 2024).

Frá því á hádegi 8. febrúar hefur jarðskjálftavirkni verið á svæðinu norðan Grindavíkur minniháttar, en um 50 smáskjálftar hafa mælst, allir um eða undir 1,0 að stærð. Einnig hefur verið smáskjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli, en þar mældust rúmlega 100 skjálftar, flestir um eða undir 1,0 að stærð. Þar hefur smáskjálftavirkni verið viðvarandi síðustu vikur en dýpi skjálftanna er um 6 – 8 km. 

Uppfært hættumatskort verður birt seinna í dag.


Uppfært 9. febrúar kl. 15:20

Engin gosvirkni sást í drónaflugi á vegum sérsveitarinnar sem flaug yfir gossvæðið fyrir skömmu. Það bendir til að gosinu sé að ljúka. Ekki er lengur vart við gosóróa á skjálftamælum.

Veðurstofan hefur uppfært hættumat með tilliti til þróunar í virkni gossins. Breytingar hafa orðið á hættumati fyrir einstaka hættu innan svæða. Dregið hefur úr hættu á gosopnun en hætta vegna gasmengunar er enn til staðar við hraunjaðarinn. Enn er talin hætta á hraunflæði, sú hætta tengist því að ennþá er möguleiki á að hrauntungur brjótist út úr hraunjaðrinum. Hætta á jarðfjalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingar er enn talið hátt á svæði 4 (Grindavík).

Haettusvaedi_VI_09feb

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Hættumatið gildir, að öllu óbreyttu, til kl. 15:00 á mánudag, 12. febrúar.


Uppfært 9. febrúar kl. 11:30

Dregið hefur verulega úr gosóróa síðan í gær en það byrjaði að draga úr honum upp úr hádegi í gær þegar virkni á gossprungunni minnkaði einnig. Tímabundnar hækkanir sáust á gosóróa í gærkvöldi en samhliða því jókst virkni í gígunum. Í nótt dró enn frekar úr virkni gossins en milli kl. 7 og 8 í morgun voru tvo gosop virk. Undanfarnar klukkustundir hefur ekki sést kvikustrókavirkni á vefmyndavélum en ekki er útilokað að enn sé virkni í gígunum.

Bylgjuvíxlmynd frá kl. 14:56 í gær sýnir að land í Svartsengi, NV við Þorbjörn, seig mest um 10 cm þegar kvika hljóp þaðan í Sundhnúksgígaröðina. Líkanreikningar byggðir á þessum gögnum sýna að þetta samsvarar því að um 10 milljón rúmmetrar hafi streymt frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi þegar kvika hljóp þaðan og gaus í Sundhnúksgígjaröðina.    

Bylgjuvixlmynd-09022024

Undanfarin sólarhring hefur verið minniháttar skjálftavirkni á gossvæðinu. Um 40 skjálftar hafa mælst þar, allir um eða undir 1,0 að stærð.

Mat á rúmmáli hraunsins sem rann frá því gos hófst, klukkan 6:02 þangað til 13:00 í gær (8. febrúar) er um 15 milljón rúmmetrar sem þýðir að meðal kvikuflæði fyrstu sjö klukkutímana í gosinu var um 600 rúmmetrar á sekúndu (gögnin unnin af Náttúrustofnun Íslands og Landmælingar Íslands).

Þótt gosið hafi minnkað verulega er enn of snemmt að fullyrða að því sé að ljúka. Sólahringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið mjög náið. Uppfært hættumat verður gefið út seinna í dag.


Uppfært 8. febrúar kl. 17:00

Áfram hefur dregið úr krafti gossins en nú gýs á tveimur til þremur stöðum á gossprungunni. Sprengivirkni sem hófst á milli kl. 13 og 14 í dag er að mestu lokið, en ennþá sjást minniháttar gufustrókar stíga upp á stöku stað á sprungunni.

Samhliða því að dró úr ákafa gossins þá minnkaði aflögunarmerki í kvikuganginum. Það bendir til þess að kvika sé ekki lengur að koma upp undir jafnmiklum þrýstingi og í upphafi. Fljótlega eftir að gosið hófst minnkaði skjálftavirkni verulega og hefur verið minniháttar í dag, en um 20 smáskjálftar hafa mælst yfir kvikuganginum síðan kl. 8 í morgun.

Á fyrra kortinu sést hraunbreiðan eins og hún var á gervitunglamynd sem tekin var kl. 12:31 í dag. Þar sést að hraunið flæddi lengst um 4,5 km í vestur frá gosstöðvunum. Til samanburðar er hraunbreiðan sem myndaðist í eldgosinu í desember 2023 einnig sýnd á kortinu. Hraunið sem hefur myndast í dag rennur að hluta til yfir hraunbreiðuna sem myndaðist í desember.

20240208_1231_iceye_hraunkort

(Smelltu á kortið til að sjá það stærra).

Veðurstofan hefur uppfært hættumat með tilliti til þróunar í virkni gossins. Breytingar hafa orðið á hættumati fyrir einstaka hættu innan svæða. Þær breytingar hafa þó ekki áhrif á heildarhættumat svæðanna. Nýja hraunbreiðan hefur einnig verið sett inn á kortið. Hættumatið gildir, að öllu óbreyttu, til kl. 19 á morgun, föstudaginn 9. febrúar.

Haettusvaedi_VI_08feb_KL16

(Smelltu á kortið til að sjá það stærra).

Uppfært 8. febrúar kl. 14:00

Dregið hefur úr krafti gossins. Nú gýs aðallega á þremur stöðum á gossprungunni sem opnaðist í morgun. Þetta er ekki ólíkt því sem sást í gosinu 18. desember, þegar virknin færðist á staka gíga nokkrum klukkustundum eftir að gos hefst.

Athygli vekur að dökkur mökkur stígur upp frá sprungunni á einum stað. Þar er líklegt að kvika sé að komast í snertingu við grunnvatn. Úr verður þá lítilsháttar sprengivirkni þar sem hvítur gufumökkur blandast við dökkan öskumökk.

Svo virðist sem askan sé ekki að ná langt frá gossprungunni eins og staðan er núna. Mökkurinn berst í suðvestur.

Gosmokkur_Sersveitin_1352

Mynd tekin í norðvestur átt. (Mynd: Sérsveit Ríkislögreglustjóra)


Uppfært 8. febrúar kl. 11:00

Verulega hefur hægt á aflögun umhverfis kvikuganginn. Líkur á því að gossprungan lengist frekar hafa því minnkað.

Hraunbreiðan hefur nú náð yfir Grindavíkurveg.

Veðurstofan hefur fengið tilkynningar um gjall (gjósku) sem hefur fallið til jarðar í Grindavík. 

Gjall_Sersveitin_Grindavik_08020224Gjallið sem um ræðir er frauðkennd og blöðrurík, eins og sést hér á myndinni, og myndast þegar kvikuslettur snöggkólna í kvikustrókum. Þetta ferli átti sér stað þegar gossprungan opnaðist í morgun (8. febrúar 2024). Gjallið er mjög blöðrótt og létt og getur því flust töluverðar vegalengdir undan vindi með gosmekki. Ástæða þess að gjóska fellur nú til jarðar í Grindavík, 3-5 km frá gossprungunni er samspil af hæð kvikustrókanna, vindaáttar, hitauppstreymis frá hraunbreiðunni og lágum lofthita.

Gjóska er samheiti yfir öll laus gosefni sem koma upp í eldgosi, óháð stærð og gerð, flytjast upp í andrúmsloftið og falla svo til jarðar. Hér á Íslandi þekkjum við gjósku vel úr sprengigosum eins og Grímsvatnagosum 2011 og 2004 og Eyjafjallajökli árið 2010. Í sprengigosum sundrast kvikan meira og myndar fínni gjósku en gjóska myndast líka í hraungosum eins og nú eiga sér stað á Reykjanesskaga. Í hraungosum fellur gjóskan mest niður nærri gígum og sést því ekki vel utan við hraunbreiðuna en í maí 2021 þegar kvikustrókavirkni var sem mest í gosinu í Fagradalsfjalli féllu stórir gjóskumolar allt að 10 cm í a.m.k. 1 km fjarlægð frá gosupptökum.

Fara þarf varlega að handleika gjall sem getur verið beitt eins og gler. Ekki nota rúðuþurrkur á bílum til að losna við gjallið, heldur frekar blása eða skola því burtu.

Spá veðurvaktar um gasdreifingu frá eldgosinu er norðaustan 4-8 m/s í dag (fimmtudag) og berst gasmengun til suðvesturs. Hægari í nótt og getur gasmengun þá safnast saman við upptökin. Austan og suðaustan 5-10 eftir hádegi á morgun (föstudag) og berst gasmengun til vesturs og norðvesturs, mengun getur því borist yfir Reykjanesbæ.

Gasdreifing-08022024

Uppfært 8. febrúar kl. 10:00

Hraunbreiðan nálgast nú Grindavíkurveg rétt norðan við varnargarðinn sem liggur að Sýlingarfelli. 

Hér fyrir neðan má sjá samanburð á staðsetningu á hraunjaðrinum eins og hann sést úr vefmyndavél RÚV kl. 9:27 og svo kl. 9:53.

Hraunbreida_0930

Hraunbreida_0953

Uppfært 8. febrúar kl. 6:50

Klukkan 5:30 í morgun hófst áköf smáskjálftavirkni norðaustan við Sýlingarfell. Um 30 mínútum síðar hófst eldgos á sömu slóðum.

Fyrstu mínúturnar lengdist sprungan bæði til norðurs og suðurs.

Út frá fyrstu fréttum úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar er gosið á sömu slóðum og gaus 18. desember. Sprungan er um 3 km löng, liggur frá Sundhnúk í suðri til austurenda Stóra-Skógfells. Hraun rennur  mestmegnis til vesturs á þessu stigi. Hraunflæði virðist aðeins minna en í byrjun gossins 18. desember.

Gosstrókarnir ná um 50-80 m hæð og gosmökkurinn stígur upp í um 3 km hæð.

Midill--2-

Ljósmynd úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar. Stóra-Skógfell í forgrunni og ljósin í orkuverinu í Svartsengi hægra megin.(Ljósmynd: Björn Oddsson)

Haettusvaedi_VI_08feb
Uppfært hættumat sem gildir til kl. 19, 9. febrúar.

Uppfært 5. febrúar kl. 16:00

Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram þótt aðeins hafi hægst á landrisinu þar síðustu daga. Svipað ferli átti sér stað fyrir kvikuhlaupin og eldgosin sem urðu í janúar 2024 og desember 2023. Samkvæmt nýuppfærðum líkönum sem byggja á gervitungla- og GPS gögnum sem ná yfir tímabilið frá 16. janúar til 5. febrúar er magn kviku undir Svartsengi nú metið um 9 milljón rúmmetrar. Áætlað er að um 9 – 13 milljón rúmmetrar hafi streymt frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi þegar kvika hljóp þaðan og gaus nærri Hagafelli þann 14. Janúar. Því hefur áætlað magn kviku undir Svartsengi nú náð neðri mörkum af því magni sem talið er að hafi safnast þar fyrir síðasta eldgos. Áfram eru því taldar auknar líkur á kvikuhlaupi og eldgosi á næstu dögum eða vikum.

Frá því á föstudaginn hafa hátt í 200 jarðskjálftar mælst á svæðinu norðan Grindavíkur, flestir um eða undir 1 að stærð á 3-4 km dýpi. Stærsti skjálftinn varð að morgni sunnudagsins 4. febrúar við Sundhnúk og mældist 2,2 að stærð á tæplega 6 km dýpi.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar vaktar svæðið áfram mjög náið og núverandi hættumatskort er áfram í gildi til kl. 15:00 þann 8. febrúar að öllu óbreyttu.

05022024-insar-

Bylgjuvíxlmynd sem sýnir landris á tímabilinu frá 23. Janúar til 4. febrúar 2024. Rauður litur sýnir svæði þar sem land hefur mest risið og grá svæði á myndinni sýna svæði þar sem ekki var hægt að mæla landbreytingar vegna breytinga í snjóþekju á tímabilinu. 


Uppfært 1. febrúar kl. 16:00

Líkön sem byggja á GPS gögnum sem farið var yfir á fundi í morgun (1. febrúar) með vísindafólki frá Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands sýna að nú hafa um það bil 6,5 milljón rúmmetrar flætt inn í kvikuhólfið kennt við Svartsengi. Miða við þetta mat er líklegt að kvikumagnið nái svipuðu rúmmáli og fyrir eldgosið 14. janúar á næstu tveimur vikum og jafnvel dögum. Þetta þýðir að líkurnar á kvikuhlaupi og eldgosi hafi aukist.

Ekki er víst að fyrirvarinn verði eins langur og í síðasta eldgosi (14. janúar), en þá var um fimm klukkustunda fyrirvari frá því jarðskjálftahrina byrjaði þangað til að eldgos hófst rétt sunnan Hagafells. Fyrirvarinn fyrir eldgosið milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks þann 18. desember síðastliðinn var um 90 mínútur, en það gos kom upp um það bil við miðjan kvikuganginn. Við endurtekin kvikuhlaup er líklegt að leiðin fyrir kvikuna verði greiðari og því fylgir minni jarðskjálftavirkni. Kvikuhlaupum fylgir þó alltaf aukinn smáskjálftavirkni og er líklegast að fyrirvari verði í það minnsta ein klukkustund í aðdraganda eldgoss sem lang líklegast mun rata í farveg kvikugangsins sem myndaðist 10. nóvember síðastliðinn.

Jarðskjálftavirkni hefur verið svipuð síðustu viku. Síðustu sjö daga hafa tæplega 200 jarðskjálftar mælst yfir kvikuganginum. Flestir skjálftanna voru smáskjálftar, undir 1,0 að stærð, á 2 til 5 km dýpi á svæðinu frá Stóra-Skógfelli í norðri og skammt suður fyrir Hagafell. Stærsti jarðskjálftinn mældist 1,8 að stærð staðsettur tæpan kílómeter sunnan við Hagafell.  

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumatskort. Helstu breytingar eru þær að svæði 3 (Sýlingarfell – Hagafell) fer upp í rautt (mikil hætta), svæði 2 og 6 fara upp í appelsínugult (töluverð hætta). Grindavík helst óbreytt (svæði 4).

Haettusvaedi_VI_1feb_2024

Heildarhættumat fyrir hvert svæði er byggt á samanlögðu mati á sjö tegundum af hættu sem er til staðar eða gæti skapast innan svæðanna. Litur svæða endurspeglar þannig heildarhættu innan svæðanna. Í listanum á kortinu sem sýnir hættur innan svæða, er eingöngu talin upp hætta sem metin er „töluverð“, „mikil“ eða „mjög mikil“ innan hvers svæðis. Sú hætta sem metin er „mikil“ eða „mjög mikil“ er feitletruð.

Skjamynd-2024-02-01-153224

Það skal tekið fram að þó svo að heildarhættumat fyrir Grindavík sé það sama og fyrir viku hefur hætta vegna hraunflæðis verið færð upp í mikil hætta. En hætta vegna jarðfalls ofan í sprungur er áfram metin mjög mikil.

Uppfært 25. janúar kl. 15:00

Landris heldur áfram vegna kvikusöfnunar undir svæðinu við Svartsengi. Síðustu daga hefur land risið um allt að 8 mm á dag sem er örlítið hraðara landris en mældist fyrir gosið 14. janúar.

Á þessum tímapunkti er erfitt að fullyrða um hversu mikið magn kviku hefur safnast fyrir frá því að gosi lauk 16. janúar. Líklegt er að sá tími sem það tekur að ná sama kvikumagni og fyrir síðasta gos sé mældur í vikum frekar en dögum. Verið er að vinna reiknilíkön til að fá skýrari mynd af stöðu kvikusöfnunar.

Skjálftavirknin á svæðinu er áfram væg og er mestmegnis í kringum Hagafell. Það má segja að skjálftavirknin sem mælist nú sé í takti við þá virkni sem sést hefur á svæðinu í kjölfar eldgosa.

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat. Helstu breytingar eru þær að heildarhættumat fyrir Grindavík hefur verið fært niður í appelsínugult (töluverð hætta).

Það skal tekið fram að þó svo að heildarhættumat fyrir Grindavík hafi verið fært niður um eitt stig, er hætta í tengslum við sprungur áfram metin mjög mikil. Það er hættan sem nú er kölluð „jarðfall ofan í sprungu“ og lýsir hættu sem gæti verið til staðar þar sem sprungur leynast undir ótraustu yfirborði sem gæti gefið sig.

Hættumat í tengslum við „sprunguhreyfingar“ innan Grindavíkur hefur hinsvegar verið lækkað. Þar er verið að meta hvort hætta sé til staðar að sprungur sem þegar hafi myndast stækki eða að nýjar sprungur myndist. GPS gögn sýna að mjög lítil hreyfing hefur mælst innan Grindavíkur síðustu daga og því er sú hætta metin minni en áður. Hætta vegna sprunguhreyfinga er nú metin töluverð.

Haettusvaedi_VI_25jan_2024

(Smelltu á kortið til að sjá það stærra). Heildarhættumat fyrir hvert svæði er byggt á samanlögðu mati á 7 tegundum af hættu sem er til staðar eða gæti skapast innan svæðanna. Litur svæða endurspeglar þannig heildarhættu innan svæðanna. Í listanum á kortinu sem sýnir hættur innan svæða, er eingöngu talin upp hætta sem metin er „töluverð“, „mikil“ eða „mjög mikil“ innan hvers svæðis. Sú hætta sem metin er „mikil“ eða „mjög mikil“ er feitletruð.

Svaedi4_Smamynd_25012024

Það skal tekið fram að þó svo að heildarhættumat fyrir Grindavík hafi verið fært niður um eitt stig, er hætta í tengslum við sprungur áfram metin „mjög mikil“. Það er hættan sem nú er kölluð „jarðfall ofan í sprungu“ og lýsir hættu sem gæti verið til staðar þar sem sprungur leynast undir ótraustu yfirborði sem gæti gefið sig.


Uppfært 19. janúar kl. 15:00

Áfram sjást skýr merki um landris við Svartsengi. Of snemmt er að fullyrða um hvort að hraðinn á landrisinu nú sé meiri en hann var fyrir gosið 14. janúar. Allra fyrstu mælingar benda til þess að svo sé, en eins og áður hefur komið fram getur verið dagamunur á milli mælinga sem ekki endilega segja til um þróun á landrisinu til langs tíma.

Áfram dregur úr skjálftavirkni yfir kvikuganginum og hægt hefur verulega á þeim breytingum sem áður sáust á GPS mælum. Því eru allar líkur til þess að kvika flæði ekki lengur inn í kvikuganginn sem myndaðist 14. janúar og eldgosinu sé lokið.

GPS mælingar sýna einnig litla breytingar innan Grindavíkur. Áfram er þó metin mikil hætta á því að jarðvegur hrynji ofan í sprungur sem eru innan bæjarmarkanna og mikilvægt að nýjar sprungur verði kortlagðar og breytingar á þekktum sprungum metnar.

Veðurstofan hefur uppfært hættumat vegna jarðhræringa á svæðinu. Hættustig hefur verið fært niður á öllum svæðum.

Heildarhættumat fyrir svæði 1, Svartsengi, er komið á gult (nokkur hætta).

Heildarhættumat fyrir svæði 4, Grindavík, er komið niður á rautt (mikil hætta). Það skal tekið fram að litur svæða endurspeglar heildarhættu innan þeirra. Sú hætta sem metin er hærri en önnur innan svæða, er feitletruð í hættulistanum á kortinu (sjá dæmi hér að neðan). Í tilfelli Grindavíkur á þetta við hættu sem stafar af sprungum, sprunguhreyfingum og hraunflæði.


Hættumatið tekur gildi kl. 15 í dag, föstudaginn 19. janúar og gildir fram á fimmtudaginn 25. janúar kl. 15, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_19jan_2024_NEW2

Smelltu á kortið til að sjá það stærra


Uppfært 18. janúar kl. 13:00

Eins og greint var frá í fréttum í gær þá eru áfram skýr merki um landris undir Svartsengi og enn er of snemmt að fullyrða um hraðann á landrisinu þar sem svo stutt er síðan gaus á svæðinu. Verið er að meta gögn frá GPS mælum til að fá heildarmat á stöðuna. Aflögun virðist þó vera svipuð og eftir eldgosið 18. desember.

Um 200 jarðskjálftar hafa mælst við kvikuganginn síðan í gær, sá stærsti 1,4 að stærð. Tæplega 70 smáskjálftar frá miðnætti. Þetta eru færri skjálftar en mældust deginum áður. Veðrið hefur haft áhrif síðustu daga en samt er búið að draga úr fjölda skjálfta.

Áfram er hætta mjög mikil innan Grindavíkur í tengslum við sprungur og að jarðvegur hrynji ofan í þær.

Uppfært 17. janúar kl. 14:30

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi. Of snemmt er að fullyrða um hraðann á landrisinu þetta skömmu eftir eldgos. Sérfræðingar munu halda áfram að meta gögn frá GPS mælum á svæðinu til að fá heildarmat á stöðuna. Einn af mælunum sem var staðsettur norður af Grindavík fór undir hraun, en rúmlega 20 GPS mælar eru á svæðinu sem notast er við.

Skjálftavirkni hefur verið væg yfir kvikuganginum síðasta sólarhringinn. Samkvæmt reiknilíkönum liggur kvika grunnt í suðurenda kvikugangsins, þar virðist landið vera mikið sprungið og kvikan eigi því auðvelt með að komast upp á yfirborðið. Áfram eru því líkur á að nýjar gossprungur opnist án fyrirvara.

Áfram er hætta innan Grindavíkur í tengslum við sprungur og að jarðvegur hrynji ofan í þær. Miklar hreyfingar hafa átt sér stað í tengslum við sigdalinn í austurhluta bæjarins. Hreyfingarnar urðu að mestu leyti á þeim sprungum sem mynduðust 10. nóvember og þegar höfðu verið kortlagðar.

Gasmengun mældist við vinnu ofan í brunnum tengdum veitukerfi innan Grindavíkur í gær. Veðurstofan vaktar ekki staðbundna gasmengun innan Grindavíkur. Skoða þarf betur hvort gasmengunin er tengd því að kvika liggur mjög grunnt á svæðinu. Það skal tekið fram að hættuleg gasmengun er meðal þeirra atriða sem nefnd eru í hættumatinu sem nú gildir fyrir Grindavík.

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumatskort. Engar breytingar eru á heildarhættumati á svæðunum frá því sem áður var. Kortið tekur gildi kl. 15 í dag og gildir fram á föstudaginn 19. janúar kl. 15 að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_17jan_2024

Uppfært 16. janúar kl. 17:00

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi með svipuðum hraða og fyrir tvö síðustu gos. Þetta er niðurstaða samráðsfundar vísindamanna sem haldinn var í morgun. Líkt og í gosinu 18. desember hljóp kvika frá söfnunarstaðnum undir Svartsengi, til austurs og myndaði kvikugang sem teygir sig frá Stóra Skógsfelli og suður undir Grindavík. Þetta staðfesta reiknilíkön. Þau sýna jafnframt að líklega var upptakastaður kvikunnar aðeins vestar nú en áður og því voru GPS mælingar að sumu leiti frábrugðnar því sem sást 18. desember.

Þegar kvikugangur myndast nálægt yfirborði, tognar á jarðskorpunni og land sígur yfir miðju kvikugangsins. Ennfremur þrýstist jarðskorpan upp sitt hvoru megin við hann. Reiknilíkön sem farið var yfir á samráðsfundinum sýna að GPS mælirinn í Svartsengi er staðsettur á þeim stað í jaðri kvikugangsins þar sem land rís rétt á meðan gangurinn er að myndast. Nú tveimur sólarhringum eftir að kvikugangurinn myndaðist ætti mælirinn í Svartsengi að byrja að sýna landsig ef kvikusöfnun væri hætt. Svo er ekki og því er ljóst að kvika er safnast fyrir líkt og áður.

Kvikugangurinn sem myndaðist í gosinu sem hófst á sunnudaginn liggur heldur austar en kvikugangurinn sem fór undir Grindavík 10. nóvember. Út frá gögnum sem safnað var og unnin á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landmælinga Íslands kemur í ljós að nýr sigdalur hefur myndast austan við sigdalinn sem myndaðist 10. nóvember. Sigdalurinn er um 800-1000 m breiður eins og sést á kortinu hér að neðan. Mesta sig í honum er um 30 cm, en vert er að geta að svæðið er enn að síga og dalurinn að víkka. Til samanburðar þá var sigdalurinn sem myndaðist 10. nóvember í gegnum Grindavík um 2 km breiður. Sigið innan hans var mest um 1,3 m.

Innan þessa nýja sigdals var áður búið að kortleggja sprungur sem höfðu myndast og voru sýnilegar á yfirborði. Þær sprungur hafa stækkað og nýjar myndast. Hætta í tengslum við sprungur og að jarðvegur hrynji ofan í þær hefur því aukist í austurhluta Grindavíkur frá því sem áður var.

NyrSigdalur

Kort sem sýnir staðsetningu og breidd sigdalsins sem myndaðist 10. nóvember og sigdalsins sem nú hefur myndast austar.


Uppfært 16. janúar kl. 11:15

Engin virkni er sjáanleg í gossprungunum. Síðast sáust hraunspýjur koma upp úr nyrðri sprungunni rétt upp úr kl. 1 í nótt. Áfram dregur úr jarðskjálftavirkni og hafa um 200 smáskjálftar mælst í kvikuganginum frá miðnætti sem benda til þess að kvika sé þar á hreyfingu og svæðið að jafna sig. Mesta skjálftavirknin er við Hagafell í nágrenni við fyrri gossprunguna sem opnaðist á sunnudagsmorgun. Of snemmt er að lýsa yfir goslokum.

GPS mælar nema áfram hreyfingar í og við Grindavík. Kvikugangurinn sem liggur undir Grindavík heldur því áfram að valda þenslu á svæðinu. Hitamyndir úr dróna í nótt sýna að sprungur sem áður höfðu verið kortlagðar suðvestanvert við Grindavík hafa stækkað talsvert. Áfram er mikil hætta á svæðinu.


Eldgosið séð úr eftirlitsflugi með Landhelgisgæslunni rétt fyrir hádegi 14. janúar. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Uppfært 15. janúar kl. 15:00

Út frá vefmyndavélum sést að dregið hefur úr hraunflæði upp úr gossprungunum sem opnuðust í gær. Flæðið úr syðri sprungunni sem opnaðist á hádegi í gær rétt við bæjarmörkin virðist hafa stöðvast. Megnið af hraunflæðinu er í suðvestur eftir leiðigarðinum sem reistur var og virðist hafa sannað gildi sitt.

Erfitt er að leggja mat á hversu lengi þetta gos mun standa. Dregið hefur úr skjálftavirkninni og samkvæmt GPS mælingum dregur úr hreyfingum á svæðinu. Áfram mælast þó hreyfingar syðst í kvikuganginum undir Grindavík.

Út frá mælingum hefur gliðnun innan bæjarmarkanna verið allt að 1,4 m síðasta sólarhringinn sem dreifist yfir margar sprungur, nýjar hafa myndast og eldri opnast meira. Nýjar sprungur geta verið að koma í ljós á yfirborði næstu daga.

Eins og áður hefur komið fram þá eru gosstöðvarnar mikið hættusvæði og ekki er hægt að útiloka að nýjar gossprungur opnist án fyrirvara. Það var tilfellið þegar sprungan opnaðist við bæjarmörk Grindavíkur í gær. Engin merki sáust á mælitækjum í tengslum við þá gosopnun sérstaklega.

Fremur hæg norðaustanátt á gosstöðvunum í dag, en fer að bæta í vind síðdegis. Gasmengun berst því til suðvesturs út á haf. Norðan 10-18 m/s á svæðinu á morgun og gas berst þá til suðurs. Sjá spá veðurvaktar um gasdreifingu frá gosstöðvunum.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og er í beinu sambandi við almannavarnir og viðbragðsaðila á svæðinu um framvindu atburðarins.

Vísindafólk hittist á samráðsfundi á vegum Veðurstofunnar nú í morgun. Farið var yfir þau gögn sem hafa safnast í tengslum við eldgosið.

Næstu dagar fara áfram í mælingar og öflun frekari gagna ásamt greiningu þeirra. Úr þeim gögnum er m.a. verið að vinna reiknilíkön til að átta sig betur á aðdraganda atburðarins og leggja mat á líklega framvindu eldgossins. Eins er verið að bera saman atburðarrásina 18. desember við eldgosið sem hófst í gær til að auka skilning á umbrotunum á svæðinu og leggja mat á hvaða sviðsmyndir eru líklegastar í framhaldinu.

Veðurstofan hefur uppfært hættumatskort. Kortið er óbreytt frá því síðast og gildir til miðvikudagsins 17. janúar, kl. 17 að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_15jan_2024

Kort_Hraundreifin_Maelingar140120224

Kort sem sýnir útbreiðslu hrauns út frá mælingum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Jarðfræðistofnunar Háskólans sem framkvæmdar voru tvisvar í gær.

ThykktHrauns_15012024

Kort sem sýnir þykkt hraunbreiðunnar út frá mælingum kl. 13.50 í gær.



Uppfært 14. janúar kl. 18:45

Enn gýs úr tveimur gossprungum rétt norðan Grindavíkur, sú stærri er við Hagafell en sú minni er rétt við bæjarmörkin. Hraun rennur úr báðum sprungum.

Minni sprungan, um 100 metra löng, sem opnaðist um kl.12 í dag er rétt um 200 metra frá hverfinu Efrahópi í Grindavík. Hraun rennur úr henni inn fyrir bæjarmörkin og veldur þar töluverðu tjóni.

Nyrðri og stærri sprungan sem opnaðist kl 7:57 í morgun er um 900 metra löng og rennur hraun úr henni aðallega til vesturs. Hún er að langmestu leyti norðan þeirra varnargarða sem undanfarið hafa verið í byggingu. Þeir beina megin hraunstraumnum til vesturs og hefur hrauntungan náð vel yfir Grindavíkurveg og þaðan áfram til suðvesturs. Lítill hluti gossprungunnar er innan varnargarðsins og hefur sú hraunbreiða stækkað hægt síðan í morgun. Hraði hraunflæðis er ekki mikill, en er mestur í miðjum hrauntungum. Magn kviku sem streymir út úr gossprungunum, hraði hraunflæðis og stærð hraunsins verður metið betur á morgun.

Samfara myndun kvikugangsins til suðvesturs í morgun í átt að og líklega undir Grindavík varð mikil aflögun á svæðinu við gosstöðvarnar á nýjum sprungum og á eldri sprungum sem mynduðust 10. nóvember. Þegar kvikugangurinn myndaðist í nótt varð afar hröð aflögun. Eftir að seinni gossprungan opnaðist dróg verulega úr aflögun og nánast stöðvaðist eftir því sem líða fór á daginn, einkum við Hagafell og norðan þess. Enn mælist þó aflögun innan Grindavíkur en hún fer minnkandi. Minnkandi aflögun er talið vera merki þess að kvikuþrýstingur sé að ná jafnvægi. Ekki er þó útilokað að fleiri gossprungur myndist.


Almannavarnir hafa boðað til upplýsingafundar í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í kvöld klukkan 19:00. Á fundinum sem Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna stýrir, verður farið yfir atburði dagsins. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Benedikt Halldórsson fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands verða einnig á fundinum.

Uppfært 14. janúar kl. 14:00

Spá veðurvaktar Veðurstofunnar um gasdreifingu frá eldgosinu við Hagafell er að það er norðan og norðaustan átt, 3-8 m/s og þurrt og bjart í dag. Það verður skýjað með köflum og lítilsháttar snjókoma seint í nótt og í fyrramálið. Léttir til síðdegis á morgun. Mengun frá eldgosinu berst til suðurs og suðvesturs.GrindavikGas14Jan--002-

Uppfært 14. janúar kl. 12:40

Eldgosið við Hagafell hefur haldið sama styrk síðustu klukkustundina eða svo.

Jarðskjálftamælingar sýna að í upphafi umbrotanna leitaði kvikan til suðvesturs frá svæðinu norðan Sundhnúks og náði suður fyrir Hagafell.

Síðustu klukkutímana hefur jarðskjálftavirknin hins vegar verið stöðug sem bendir til þess að framrás kvikugangsins hafi stöðvast, en að hann hafi náð að bæjarmörkum Grindavíkur og jafnvel undir bæinn.

Nú rétt í þessu opnaðist ný gossprunga sunnan við fyrstu sprunguna frá því í morgun. Nýja sprungan er rétt utan bæjarmarkanna.

Aflögunarmælingar benda eindregið til þess að sprungur innan bæjarmarkanna í Grindavík hafi gliðnað af völdum umbrotanna í morgun. Því má reikna með að fleiri sprungur hafi opnast og ef til vill nýjar myndast.

Ny-sprunga
Kort sem sýnir staðsetning nýju sprungunnar sem opnaðist við bæjarmörkin. Sprungurnar tvær er merktar með rauðum strikum.

Uppfært 14. janúar kl. 08:47

Eldgos hófst 7:57.

Fyrsta mat á staðsetningu er suðsuðaustan við Hagafell.

Af fyrstu myndum úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar hefur sprunga opnast beggja vegna varnargarðanna sem byrjað vara að reisa norðan Grindavíkur.

Sprungan sem myndast hefur er 900-1.000 m löng.

Af myndum að dæma rennur hraun nú í átt að Grindavík. Út frá mælingum úr þyrlu Landhelgisgæslunnar er jaðarinn nú um 450 m frá nyrstu húsum í bænum.

Media

LH_Mynd_Grindavikafstada

Ljósmyndir: Veðurstofa Íslands/Halldór Björnsson

Kort_StadsetningGoss3

Kort sem sýnir áætlaða staðsetningu gossprungunnar. Rauð lína. Kortið hefur verið uppfært.


Uppfært 14. janúar kl. 07:50

Veðurstofan hefur uppfært hættumatskort í ljósi túlkunar nýjustu gagna.

Hætta hefur aukist á öllum svæðum.

Hættumatskortið gildir til kl. 19, mánudaginn 15. janúar að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_14jan_2024

Uppfært 14. janúar kl. 06:10

Skjálftavirknin heldur áfram að færast suður og fleiri skjálftar hafa mælst undir miðri byggðinni í Grindavík á síðustu klukkustund.

Skjálftavirknin og þær breytingar sem sjást á GPS stöðvum eru sambærilegar við það sem sást í aðdraganda eldgossins 18. desember. Helsti munurinn nú og þá er sá að skjálftavirknin er talsvert sunnar.

Miðað við þróun skjálftavirkninnar er ekki hægt að útiloka þá sviðsmynd að kvika komi upp innan bæjarmarkanna í Grindavík.

Skjalftar_14_0230-0630

Kort sem sýnir skjálftavirkni frá kl. 02:30 til kl. 06:30. Nýjustu skjálftarnir eru rauðir.

Uppfært 14. janúar, kl. 05:00

Rétt fyrir kl. 3 í nótt hófst áköf smáskjálftahrina við Sunhnúksgíga. Hátt í 200 jarðskjálftar hafa verið mældir á svæðinu og hefur virknin færst í átt að Grindavík.

Stærsti skjálftinn sem hefur mælst er  um 3,5 að stærð. Mæld­ist hann klukk­an 04:07 við Hagafell.

Bæði borholuþrýstingsmælingar (frá HS Orku) og rauntíma GPS stöðvar á svæðinu sýna einnig breytingar og því er líklegt að kvikuhlaup sé að eiga sér stað. 

Túlkun á þessum gögnum bendir til þess að eldgos sé yfirvofandi. Hraungos er líklegasta sviðsmyndin.

Skjalftar_1401_Midn
Kort sem sýnir staðsetningu skjálfta í hrinunni. Svartir hringir tákna skjálfta sem hafa verið yfirfarnir kl. 5:00.

Uppfært 12. janúar, kl. 16:45

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumatskort vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.

Eins og áður sýnir kortið mat á hættum sem eru til staðar og nýjum hættum sem gætu skapast með litlum fyrirvara innan tilgreindra svæða. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hættur geta leynst utan þeirra.

Heildarhættumat fyrir svæðin er óbreytt frá síðasta korti. Þó er breyting á mati á hættu í tengslum við sprungur innan svæðis 4, þ.e. Grindavík.

Hætta í tengslum við skyndilega opnun á sprungum sem hafa verið kortlagðar innan bæjarmarka Grindavíkur hefur verið metin hærri. Sú breyting hefur hins vegar ekki áhrif á heildarhættumat fyrir Grindavík. Það skal tekið fram að hætta í tengslum við sprungur er bundin við þekkt og afmörkuð svæði innan bæjarmarkanna.

Kortið gildir til þriðjudagsins 16. janúar að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_12jan_2024_DRAFT

Smelltu á kortið til að sjá það stærra.

Uppfært 12. janúar kl. 13.30

Áfram mælist landris við Svartsengi vegna kvikusöfnunar sem getur leitt til eldgoss.

Það er mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells, eða á svipuðum slóðum og gaus 18. desember.

Eldgos gæti hafist með litlum fyrirvara. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið kæmu fram í skyndilegri, staðbundinni og ákafri smáskjálftavirkni. Í aðdraganda gossins 18. desember liðu um 90 mínútur frá því að fyrstu merki sáust þangað til að kvika var komin upp og eldgos hafið.

Undanfarna daga hefur skjálftavirkni á svæðinu verið afar væg. Ef kvika færi að leita til yfirborðs, má búast við að skjálftavirknin samfara því væri svipuð og sást í aðdraganda gossins 18. desember, bæði hvað varðar stærð skjálfta og fjölda þeirra. Áhrif þeirrar skjálftavirkni mun gæta bæði í Svartsengi og í Grindavík. Miðað við stöðuna núna, er afar ólíklegt að við fáum aftur jafn öfluga skjálftavirkni og varð þegar kvikugangurinn stóri myndaðist 10. nóvember.

Nýtt hættumatskort byggt á túlkun nýjustu gagna og þróun atburðarásarinnar síðustu daga er í vinnslu og  verður gefið út síðar í dag. 


Kort sem sýnir staðsetningu yfirfarinna skjálfta frá miðnætti 8. janúar til kl. 9.30 í dag, 12. janúar.


Uppfært 9. janúar kl. 11:30

Jarðskjálftavirkni helst nokkuð svipuð og hefur verið undanfarna daga. Enn mælist frekar lítil skjálftavirkni en hún er að mestu bundin við svæðið á milli Hagafells og Stóra Skógfells þar sem miðja kvikugangsins er staðsett. Áfram er einnig nokkur skjálftavirkni í Fagradalsfjalli og hefur hún verið viðvarandi frá 18. desember.

Landris mælist enn á svæðinu í Svartsengi sem hefur á heildina litið verið nokkuð stöðugt frá gosinu 18. desember, sbr. rauðu punktana á meðfylgjandi mynd, sem sýnir mælingu GPS stöðvarinnar SENG í Svartsengi. Land hefur risið u.þ.b. 5 mm á dag undanfarið og er hæð nú um 5 cm hærra en mældist fyrir kvikuhlaupin 10. nóvember og 18. desember síðastliðinn.

Líkanreikningar sem byggjast á aflögunarmælingum (GPS og gervihnattamyndum) benda til þess að rúmmál þeirrar kviku sem hefur safnast í lárétta kvikuinnskotið undir Svartsengi síðan 18. desember er nú orðið svipað og það magn sem hljóp þaðan og myndaði kvikuganginn sem gaus úr 18. desember síðastliðinn. Þetta þýðir að það er aukin hætta á kvikuhlaupi næstu daga. Það er mikilvægt að árétta að kvikuhlaup geta leitt til eldgoss og síðasta gos hófst með mjög skömmum fyrirvara.

Veðurstofan gaf út uppfært hættumatskort 5. janúar síðastliðinn og verður það endurmetið 12. janúar næstkomandi að öllu óbreyttu.

SENG-9-jan-

Afstæðar mælingar GPS stöðvarinnar SENG í Svartsengi frá byrjun október 2023 í norður, austur og lóðréttar stefnur (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og er mælingin í dag sýnd með grænum punkti.

Uppfært 5. janúar kl. 17:30

Nýtt hættumat hefur verið gefið út af Veðurstofu Íslands. Kortið endurspeglar hættur á Grindavík – Svartsengi svæðinu eins og þær eru metnar þann 5. janúar 2024. Hættumatið byggir á nýjustu gögnum, þar á meðal jarðskjálfta og aflögunargögnum, auk líkanreikninga. Einnig eru metnar líkur á eldgosavá í  öllum sex svæðunum sem skilgreind eru á hættumatskortinu.

Aðalbreytingin er á Svartsengi svæðinu (svæði 1), þar sem nú er talin vera „nokkur hætta“, en það er lækkun frá síðustu útgáfu kortsins. Ástæðan fyrir þessari breytingu er að hætta vegna myndunnar á stórum sprungum á yfirborði er talinn minni þar sem engar nýjar slíkar sprungur hafa myndast að undanförnu. Auk þess sem samtúlkun vísindafólks á vöktunargögnum á samráðsfundi Veðurstofunnar, bendir til þess að Sundhnúksgígaröðin, milli Stóra-Skógfells og Hagafells, sé lang líklegasta upptakasvæði eldgoss.

Það er mikilvægt að árétta að síðasta gos hófst með mjög skömmum fyrirvara. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið gaumgæfilega allan sólarhringinn og er í beinu sambandi við almannavarnir um stöðu mála.

Haettusvaedi_VI_5jan_2024

Smellið á kortið til að stækka það.

Uppfært 5. janúar kl. 13:30

Enn mælist landris við Svartsengi með svipuðum hraða og undanfarna daga. Þetta var staðfest með GPS gögnum sem voru til umræðu á samráðsfundi vísindafólks á vegum Veðurstofu Íslands í morgun. Eins og greint hefur verið frá þá er þetta vísbending um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukast líkur á nýju kvikhlaupi og einnig eldgosi. Ekki er þó útilokað að þetta sé vísbending um að það dragi úr kvikuinnflæði.

Tæplega 490 skjálftar áttu sér stað við kvikuganginn frá því á þriðjudaginn 2. janúar. Þar af eru 14 yfir M 1,0 að stærð, sá stærsti var 1,8 að stærð norður af Hagafelli. Miðvikudaginn 3. janúar varð skjálfti 4,3 að stærð og 3,5 að stærð nærri Trölladyngju, fjölmargir eftirskjálftar fylgdu og hafa um 900 skjálftar mælst á svæðinu.

Jarðskjálftarnir við Trölladyngju 3. janúar síðastliðinn urðu á þekktri jarðskjálftasprungu þar sem stærri skjálftar hafa orðið nokkrum sinnum áður. Engin merki eru um að þeir tengist kvikuhreyfingum beint. En, þær miklu landbreytingar sem hafa orðið á Reykjanesi í tengslum við kvikugangana í Fagradalsfjalli, landrisi við Svartsengi, kvikuganginn við Sundhnúk 10. nóvember og eldgosið 18. desember hafa mælst á öllu vestanverðu Reykjanesinu og hafa áhrif á skjálftavirkni á svæðinu öllu.  

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast er að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Það er hins vegar mikilvægt að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum.

Uppfært hættumatskort verður birt seinna í dag.


Uppfært 3. janúar kl. 11.20

Jarðskjálfti að stærð 4,5 mældist nærri Trölladyngju kl. 10:50. Annar skjálfti að stærð 3,9 mældist skömmu síðar kl.10:54, og fjöldi eftirskjálfta hafa mælst. Skjálftarnir urðu á um 5 km dýpi og er líklegast um að ræða svokallaða „gikkskjálfta“ sem eru viðbrögð við spennulosun vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Skjálftarnir fundust víða á Suður- og Vesturlandi.

Staðsetning skjálftanna er um 20 km NNA við Svartsengi, þar sem landris vegna kvikusöfnunar er í gangi.

Meðfylgjandi mynd sýnir staðsetningu skjálftans sem varð kl. 10:50 og áhrifasvæði hans.

Gikkskjalftar-trolladyngja-3-jan

Uppfært 2. janúar kl. 11:45

Dregið hefur úr hraðanum á landrisinu við Svartsengi. Þetta var staðfest með GPS gögnum sem voru til umræðu á samráðsfundi vísindafólks á vegum Veðurstofunnar í morgun.

Það að dragi úr hraða landriss er vísbending um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukast líkur á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Þetta er sambærileg breyting á landrisi og fór að sjást í lok dags 15. desember, en þá hófst gos um þremur dögum síðar. Erfitt er þó að fullyrða um hvort að það munstur endurtaki sig.

Fyrstu merki um að kvikuhlaup sé hafið er skyndilega aukning í skjálftavirkni, en slík merki sáust rétt áður en eldgosið hófst 18. desember.

Undanfarna daga hefur skjálftavirkni á svæðinu verið nokkuð stöðug, en í kringum 200 skjálftar hafa mælst á dag. Flestir skjálftanna mælast undir 1,0 að stærð en um 30 skjálftar yfir 1,0 hafa mælst frá 29. desember og sá stærsti var 2,1 að stærð og átti upptök í nyrsta hluta Grindavíkur.

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast er að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Það er hins vegar mikilvægt að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum.

Hættumatskort sem Veðurstofan gaf út 29. desember er óbreytt og gildir til 5. janúar að öllu óbreyttu.

Áfram mælist skjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli en þar hafa rúmlega 100 smáskjálftar mælst frá 29. desember. Rýnt verður nánar í aflögunargögn á næstunni til að fá skýrari mynd á stöðuna við Fagradalsfjall.


Uppfært 29. desember kl. 14:30

Land heldur áfram að rísa við Svartsengi. Við GPS stöðina í Svartsengi (SENG) hefur land nú náð sambærilegri hæð og mældist rétt fyrir eldgosið 18. desember. Hraði landrissins síðan 18. desember hefur haldist nokkuð stöðugur sem er frábrugðið stöðunni fyrir síðasta gos, en þá hægðist á landrisi vikurnar fyrir gosið. Erfitt er þó að fullyrða um að landris hægi á sér í aðdraganda næsta goss, en það hefur þó verið tilfellið í gosum sem hafa orðið á Reykjanesskaga síðustu ár og var einnig notað til viðmiðunar í Kröflueldum. Óvissa er hins vegar um hversu mikill kvikuþrýstingur þarf að byggjast upp áður en kvika fer að leita upp á yfirborðið.

Landrisinu nú fylgir ekki eins mikil skjálftavirkni og áður. Ástæða þess er að í atburðunum 10. nóvember og 18. desember losnaði um mikla spennu á svæðinu þegar kvika braut sér leið í jarðskorpunni.  Í aðdraganda síðasta goss urðu allnokkrir skjálftar yfir 3 og einn yfir 4 að stærð. Samfara áframhaldandi landrisi er líklegt að skjálftavirkni aukist aftur.

Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og að það leiði til eldgoss. Líkurnar aukast með hverjum deginum sem líður. Líklegast er að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Mikilvægt er að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum.

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumatskort byggt á samtúlkun gagna á samráðsfundi vísindafólks sem haldinn var nú í morgun. Mat á hættustigi innan svæðanna er óbreytt frá því síðast. Breyting hefur þó verið gerð á þeim hættum sem eru mögulegar innan svæðis 4, Grindavík. Þar hafa bæst við hættur vegna hugsanlegs hraunflæðis og gasmengunar. Ástæða breytinganna eru auknar líkur á eldgosi norðan Grindavíkur. Þær breytingar hafa þó ekki áhrif á heildarmat á hættustigi svæðisins. Þetta hættumatskort gildir til 5. janúar að öllu óbreyttu.

Það er mikilvægt að árétta að síðasta gos hófst með mjög skömmum fyrirvara. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið gaumgæfilega allan sólarhringinn og er í beinu sambandi við almannavarnir um stöðu mála.

Haettumat_290122023

Smelltu á kortið til að sjá stærri útgáfu


Uppfært 27. desember kl. 12:40

Um 730 jarðskjálftar hafa mælst umhverfis kvikuganginn frá því á föstudaginn 22. desember, þar af mældust tæplega 40 jarðskjálftar stærri en 1,0. Stærsti skjálftin á tímabilinu mældist 2,1 að stærð þann 26. desember, norðan við Hagafell. Ef dýpi skjálfta er skoðað fyrir tímabilið eru þeir á um 4,0 km dýpi að jafnaði. Á sama tímabili (22. des þar til kl. 09:30 í dag) mældust um 140 jarðskjálftar í vestanverðu Fagradalsfjalli þar af fimm jarðskjálftar 1,0 og stærri, þeir voru að jafnaði dýpri en við kvikuganginn, eða á um 7,0 km dýpi.

Land heldur áfram að rísa við Svartsengi og er hraðinn mjög svipaður og var fyrir eldgosið 18. desember. Þetta þýðir að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi, og eru líkur á að það leiði til annars kvikuhlaups og einnig eldgoss. Líkanreikningar benda til þess að um 11 milljónir rúmmetra af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu undir Svartsengi og inn í kvikuganginn sem myndaðist þann 18. desember og endaði í eldgosi. Miðað við núverandi hraða á landrisinu mun taka um tvær vikur fyrir sama rúmmál að safnast í kvikuhólfið. Mikil óvissa er þó um hvenær þrýstingur í kvikuhólfinu verður nógu hár til að koma af stað nýju kvikuinnskoti.

Rétt er að benda á að kvikugangurinn sem myndaðist 10. nóvember náði um 15 km leið, frá Kálfafellsheiði í norðri og út í sjó suðvestan við Grindavík. Þetta þýðir að kvika hafi náð undir allt svæðið. Líklegasta upptakasvæði fyrir næsta eldgos er þó á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Áfram eru líkur á eldgosi sem aukast með hverjum deginum sem líður.

Hættumatskort sem gefið var út 22. desember er enn í gildi. Nýtt hættumatskort verður gefið út næsta föstudag, 29. desember.

SENG-27-des-2023

Tímaröð fyrir GPS stöðina Svartsengi (SENG). Myndin sýnir breytingar í norður, austur og upp síðustu 90 daga. Bláa línan sýnir innskotið 10. nóvember og rauða línan sýnir eldgosið 18. desember. Hver punktur er 24 klst meðaltal og lóðrétti þátturinn sýnir vel landrisið við Svartsengi.

Uppfært 22. desember kl. 15:50

Eins og tilkynnt var í gær er gosvirkni í Sundhnúksgígjum lokið. Tæplega 90 jarðskjálftar mældust yfir ganginum sem er örlítið meira en í gær. Stærsti skjálftinn var 1,6 vestan við Hagafell rúmlega 16:00 í gær (21. desember).

Land fór strax aftur að rísa við Svartsengi eftir að gos hófst mánudagskvöldið 18. desember. Hraðinn á landrisinu er meiri en fyrir gos. Þetta þýðir að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi, og líklegt er að það leiði til annars kvikuhlaups og mögulega eldgoss. Líklegasta upptakasvæði fyrir eldgos er á milli Stóra-Skógsfells og Hagafells. Landriskúrfan eins og hún mældist frá kvikuhlaupinu 10. nóvember þar til gos hófst 18. desember einkenndist af hægt minnkandi landrismerki þar sem gos hófst þegar verulega hafði dregið úr landrishraðanum. Þetta ferli á mjög líklega eftir að endurtaka sig og búast má við að næsta kvikuhlaup geti hafist með litlum fyrirvara þegar draga fer aftur úr landrishraða. Líkur á eldgosi aukast því með hverjum deginum sem líður.

Veðurstofan hefur gefið út nýtt hættumatskort byggt á að gosvirkni er lokið. Hættumatskortið tekur gildi klukkan 16:00 í dag (22. desember) og gildir til 29. desember klukkan 18:00. Breytingin felst í að svæði 2 og 3 hefur verið fært af mjög mikilli hættu (fjólubláu) í mikla hættu (rautt). Hættumat á öðrum svæðum er óbreytt. Sér í lagi er vakin er athygli á því að hættumat fyrir Grindavík er óbreytt frá fyrra hættumatskorti og er enn í töluverðri hættu. Veðurstofan bendir á að aðstæður geta breyst hratt og veðuraðstæður hverju sinni geta haft veruleg áhrif á næmni jarðskjálfta- og GPS-kerfa Veðurstofunnar. Við þær aðstæður getur viðbragstími lengst töluvert. Við þessar aðstæður getur viðbragðstími styst. 

Veðurspá fyrir Grindavík á morgun, Þorláksmessu (23. desember) er norðaustan 10-15 m/s, snjókoma með köflum og mögulega skafrenningur. Frost verður 3 til 5 stig. Á Aðfangadag (24. desember) er norðan 13-18 m/s og stöku él, en 10-15 m/s síðdegis og líkur á éljum minnka. Áfram má búast við skafrenningi öðru hvoru. Frost 0 til 2 stig.

Haettumatskort-22-desember-2023

Hættumatskort sem tekur gildi 22. desember kl: 16:00 og gildir til 29. desember klukkan 18:00. Eingöngu er lagt mat á hættu innan lituðu svæðanna, en hættur geta leynst utan þeirra. Aðstæður innan og utan svæðanna geta breyst með litlum fyrirvara.


Uppfært 21. desember kl. 12:20

Eins og kom fram í uppfærslu í morgun virðist vera slokknað í gígum gossprungunnar á Sundhnúksgígum en þó er ekki útilokað að hraunrennsli sé enn og þá í lokuðum rásum. Áfram hefur dregið úr jarðskjálftavirkni og síðasta sólarhringinn hafa um 70 smáskjálftar mælst yfir kvikugangingum. Stærsti skjálftinn mældist 1,4 að stærð klukkan 14:27  í gær og stærsti skjálftinn frá miðnætti er 1,9 að stærð. Aflögunarmælingar í Svartsengi sýna litla hreyfingu en mælingar sem fást næstu daga munu skýra betur stöðuna þar.

Gasdreifing og þá aðallega vegna afgösunar hraunbreiðunnar mun fara til suðausturs og út á haf í dag. Á morgun verður hægari norðaustanátt og fer þá gasið til suðvesturs.

Að svo stöddu er erfitt að segja til um framhaldið en vísindamenn Veðurstofunnar eru sífellt að meta nýjustu gögn og áfram er fylgst náið með svæðinu.

Uppfært 21. desember kl. 9:45

Vísindamenn sem eru í flugi yfir gosstöðvunum staðfesta að engin gosvirkni er sjáanleg og virðist vera slokknað í gígum en glóð er enn sjáanleg í hraunbreiðu. Þetta staðfesti einnig starfsmaður Eflu sem er á Sýlingarfelli. Virknin virðist hafa dottið niður seint í nótt eða mjög snemma í morgun. Þó er enn mögulegt að hraunrennsli sé í lokuðum rásum og því ótímabært að lýsa yfir goslokum.

Uppfært 20. desember kl. 18:00

Gosið sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni 18. desember byrjaði af miklum krafti og fyrirvarinn á því var mjög skammur. Það liðu um 90 mínútur frá því að fyrstu merki sáust og þangað til að gos hófst. Gosið er á kvikuganginum sem myndaðist 10. nóvember og kvikan kemur líklega undan Svartsengi þar sem land hefur risið ítrekað frá 2020.

Síðasta sólarhringinn hefur mesta virknin í eldgosinu haldist um miðbik sprungunnar sem opnaðist 18. desember. Skjálftavirkni hefur haldist nokkuð stöðug og litlar breytingar hafa verið á aflögun frá því að eldgos hófst. Í ljósi þessa, er það mat Veðurstofunnar að líkurnar á að nýtt gosop myndist án fyrirvara innan Grindavíkur hafi minnkað.

Veðurstofan hefur því gefið út nýtt hættumatskort sem tekur gildi á morgun, fimmtudaginn 21. desember, kl. 7.00. Hættumatskortið gildir til 28. desember.

Það skal tekið fram að þrátt fyrir að líkur á gosopnun innan svæðis 4 hafi minnkað, er hættan á því svæði engu að síður metin töluverð.

Þó svo að dregið hafi úr virkninni frá því að gos hófst, er kraftur gossins núna engu að síður mikill og er sambærilegur við gosin sem urðu við Fagradalsfjall. Það hefur einnig sýnt sig að kvikan getur komist hratt upp á yfirborðið sem gefur ekki mikið ráðrúm til þess að senda út viðvaranir. Taka þarf tillit til þessa þegur kemur að endurskoðun á hættumati. Eins þurfa nokkrir dagar að líða frá því að hraunflæði hættir við gosstöðvarnar og þangað til hægt væri að lýsa yfir goslokum.

Haettusvaedi_VI_20des_DRAFT-4--1-

Uppfært 20. desember kl. 13:00

Áfram dregur úr krafti gossins. Á nýjum yfirlitsmyndum af svæðinu sést að nú gýs úr tveimur gígum. Mest virkni er í gígnum sem er beint austur af Sýlingarfelli og er syðsti gígurinn af þessum þremur sem voru virkir í gær.

Hraun heldur áfram að flæða í austur út frá eldstöðvunum, en einnig hefur hrauntunga runnið í vestur fyrir norðan Stóra-Skógsfell. Engin breyting er sjáanleg á hraunjaðrinum sem er lengst í suður. Á gervitunglamyndum sem teknar voru í gærkvöldi sést að hraunbreiðan sem hefur myndast er um 3,7 km2 að flatarmáli.

Í dag verður vestlæg átt og möguleiki að gasmengun berist yfir höfuðborgarsvæðið um tíma. Vindur verður norðvestlægari í kvöld og á morgun og þá fer mengunin til suðausturs og út á haf. Veðurstofan gefur reglulega út gasmengunarspá.

Verulega hefur dregið úr jarðskjálftavirkni og síðasta sólarhringinn hafa um 80 smáskjálftar mælst yfir kvikugangingum. Stærsti skjálftinn mældist 2,2 að stærð klukkan 10:55 í gærmorgun og stærsti skjálftinn frá miðnætti er 1,2 að stærð.

Hraunflaedi-20-des

Hér sjáum við kort sem sýnir útlínur hraunsins kl. 19:35 í gær 19. desember. Byggt á gervitunglamyndum. Þá var hraunið um 3,7 km². Gossprungurnar miðast við virkni um miðjan dag í gær.

  • Hér má fylgjast með gasmengunarspá í rauntíma.

Uppfært 19. desember, kl. 18:20

Veðurstofan hefur gefið út nýtt hættumatskort byggt á túlkun nýjustu gagna og út frá stöðu virkninnar í eldgosinu við Sundhnúksgíga.

Hætta hefur aukist umtalsvert á öllum svæðum sem skilgreind voru á eldra hættumatskorti, svæði 1 – 4. Tvö ný svæði hafa bæst við kortið, svæði 5 – 6. Að öllu óbreyttu gildir þetta kort til fimmtudagsins 28. desember.

Haettusvaedi_VI_19des

Smellið á kortið til að sjá það stærra. 

Kortið sýnir mat á hættum sem eru til staðar og nýjum hættum sem gætu skapast með litlum fyrirvara innan tilgreindra svæða. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hættur geta leynst utan þeirra. Aðstæður innan og utan svæðanna geta breyst með litlum fyrirvara.

Áfram líkur á frekari gosopnunum

Áfram dregur úr krafti gossins. Á nýjum yfirlitsmyndum af svæðinu sést að nú gýs úr þremur gosopum suðaustur af Stóra-Skógfelli, en gosopin voru áður fimm. Hraun hefur að mestu flætt í austur út frá eldstöðvunum, en einnig er hrauntunga að teygja sig í vestur fyrir norðan Stóra-Skógfell.

Frá því að gos hófst hafa um 320 skjálftar mælst yfir kvikugangingum. Stærsti skjálftinn mældist 4.1 að stærð klukkan 23:25. Eftir miðnætti hefur dregið töluvert úr skjálftavirkni og frá því klukkan 12 í dag hafa aðeins 10 skjálftar mælst.

Í kjölfar eldgossins við Sundhnúksgíga hefur land sigið um 7 cm í Svartsengi. Áður hafði land risið þar um 35 cm frá því að kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Of snemmt er að segja til um hvort kvika haldi svo áfram að safnast undir Svartsengi og land taki að rísa að nýju.

Á meðan að áfram gýs við Sundhnúksgíga eru auknar líkur á frekari gosopnunum, á upphaflegu sprungunni sem og lengra til norðurs eða suðurs. Ef horft er til aðdraganda gossins, þá liðu um 90 mínútur frá því að fyrstu merki sáust og þangað til að gos hófst. Miðað við upphaf gossins við Sundhnúk getur fyrirvari á nýjum opnunum því verið mjög stuttur.


Uppfært 19. desember, kl 12:30 - Fréttin hefur verið uppfærð

Mælingaflug sem var áætlað kl. 13:00 í dag var aflýst vegna veðurs.

Áfram dregur úr krafti eldgossins við Sundhnúksgíga. Hraunflæði er gróflega áætlað um ¼ af því sem það var í byrjun og er þriðjungur upphaflegu sprungunnar virkur. Kvikustrókar eru einnig lægri en í byrjun goss, um það bil 30 metrar þar sem þeir ná hæst. Þessar tölur eru sjónrænt mat úr könnunarflugi, annað mælingaflug er á áætlun kl. 13 í dag þar sem skýrari mynd fæst af þróun virkninnar.

Þróun gossins svipar til eldgosa við Fagradalsfjall þar sem gossprungurnar eru byrjaðar að draga sig saman og mynda stök gosop. Á þessum tímapunkti eru um fimm gosop sem eru dreifð eftir upphaflegu sprungunni. 

Samkvæmt upplýsingum vísindafólks sem fór í seinna þyrluflug Landhelgisgæslunnar um kl. 4:00 í nótt hafði heildarlengd gossprungusvæðisins ekki breyst mikið frá því í upphafi. Lítil virkni var við suðurenda sprungunnar við Hagafell og mesta hraunrennslið leitar í austur í átt að Fagradalsfjalli. Tveir taumar ná í vestur, báðir norðan við Stóra-Skógfell.

Í dag berst gosmökkurinn undan vestan og norðvestan átt. Gasmengunar gæti orðið vart í Vestmannaeyjum í dag, en ekki annars staðar í byggð. Samkvæmt veðurspá gæti gasmengunar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu seint í nótt eða í fyrramálið.

Verið er að vinna nýtt hættumatskort og verður það gefið út síðar í dag.

Iceye-19-des-nytt

Bylgjuútslags mynd frá ICEYE frá klukkan 03:11 í morgun (19. desember 2023). Fyrstu greiningar á þessari mynd sýna gosop (gul lína) og hraunflæði (lituð svæði). Athugaðu að varnargarðar sem byggðir voru um Svartsengi eru ljósnir og vel sjáanlegir á myndinni.

Uppfært 19. desember, kl. 02:50

Heldur virðist vera að draga úr krafti eldgossins sem hófst fyrir um fjórum klukkustundum. Það sést bæði á skjálftamælum og GPS mælum. Það að þegar sé að draga úr virkninni er ekki vísbending um hversu lengi eldgosið mun vara, heldur frekar að gosið sé að ná jafnvægi. Þessi þróun hefur sést í upphafi allra gosanna á Reykjanesskaganum síðustu ár.

Áfram gýs á allri gossprungunni, mestur er krafturinn um miðja sprunguna á því svæði sem er merkt „Svæði 3“ og er appelsínugult á hættumatskorti sem gefið var út fyrir viku.

Sprungan er alls um 4 km löng og er norðurendi sprungunnar rétt austan við Stóra-Skógfell og syðri endinn rétt austan við Sundhnúk.  Fjarlægðin frá syðri endanum að jaðri Grindavíkur er tæpir 3 km.

Veðurstofan mun halda áfram að vakta þróun virkninnar og er í beinu sambandi við almannavarnir og viðbragðsaðila á svæðinu. Vaktin mun birta upplýsingar um þróun atburðarásarinnar undir „Athugasemdir sérfræðings“ eftir því sem þurfa þykir. Samráðsfundur vísindamanna verður haldinn í fyrramálið.

Þessi frétt verður næst uppfærð um kl. 9, 19. desember.

Eldgos_19des_stadsetning_0300_IS
Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.

Uppfært 19. desember kl. 00:30

Samkvæmt nýjustu mælingum er skjálftavirknin að færast í suður í átt til Grindavíkur. Virknin sem mælist er aðeins austan við kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember. Þessi þróun skjálftavirkninnar ásamt mælingum úr GPS tækjum er vísbendingu um að kvikan sé að færast í suðvestur og gossprungan gæti lengst í áttina að Grindavík.


Uppfært kl. 23:19 - Fréttin hefur verið uppfærð

Fyrsta staðsetning gosopsins og áætluð lengd sprungu miðað við allra fyrstu upplýsingar má sjá hér að neðan.

Eldgosið hófst kl. 22.17 í kjölfar skjálftahrinu sem hófst um kl. 21.

Von er á frekari upplýsingum úr flugi með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Áætluð lengd sprungunnar er um 3,5 og hefur lengst nokkuð hratt. Til samanburðar var lengd sprungunnar í eldgosinu við Litla-Hrút um 8-900 m.

Áætlað hraunflæði í eldgosinu eri um 100 til 200 rúmmetrar á sekúndu sem er margfalt meira en í fyrri gosum á Reykjanesskaga síðustu ár.

Grindavik-i-fjarska

Mynd tekin beint í suður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Grindavík í fjarska. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands)

Kort_1812_2300

Uppfært 18. desember kl. 22:50

Eldgos er hafið norðan við Grindavík. Það sést á vefmyndavéĺum og virðast vera staðsett nærri Hagafelli. Eldgosið hófst kl. 22.17 í kjölfar skjálftahrinu sem hófst um kl. 21.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fer í loftið innan skamms til þess að staðfesta nákvæma staðsetningu og stærð eldgossins. Nánari upplýsingar verðar aðgengilegar fljótlega.


Uppfært 16. desember kl. 13:30

Of snemmt er að fullyrða að kvikusöfnun við Svartsengi hafi stöðvast og landrisi sé lokið. Vísbendingar eru um að hægt hafi á landrisinu síðustu daga, en nauðsynlegt er að bíða eftir frekari gögnum til að túlka mögulega þróun atburðarásarinnar.

Vísindafólk mun funda um stöðuna strax eftir helgi.

Nýtt hættumatskort verður gefið út miðvikudaginn 20. desember sem mun endurspegla túlkun nýjustu gagna.


Uppfært 15. desember kl. 12:45

Skjálftavirkni er áfram væg og heldur sig mest við Hagafell, en þó mælast skjálftar á öllu svæðinu sem afmarkast af kvikuganginum. Um 460 skjálftar hafa mælst síðan á þriðjudag (12. desember), þar af 30 yfir 1,0 og stærsti skjálftinn 2,8 að stærð á þriðjudagsmorgun nærri Hagafelli. GPS mælingar og gervitunglagögn sýna að landris vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi heldur áfram. Á meðan að kvika heldur áfram að safnast fyrir við Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og einnig eldgosi.

Hættumat sem birt var 6. desember er óbreytt og enn í gildi til 20. desember. Aðstæður innan og utan svæðanna geta breyst með litlum fyrirvara.

Haettusvaedi-13des-png

Uppfært 13. desember kl. 12:40

Vegna umræðu í tengslum við íbúafundi með Grindvíkingum í gær, virðist vera uppi sá misskilningur að Veðurstofan sé ekki með náttúruvársérfræðing á vakt á kvöldin og að næturlagi.

Því er mikilvægt að árétta að á sólarhringsvakt Veðurstofunnar er að öllu jafna tveir náttúrvársérfræðingar á vakt að degi til og einn náttúruvársérfræðingur á kvöldin og næturna sem vaktar allt landið, auk bakvaktar. Það fyrirkomulag hefur verið til staðar um árabil á Veðurstofunni. Í stórum atburðum fjölgar Veðurstofan sérfræðingum á sólarhringsvakt tímabundið svo að eftirlit væri fullnægjandi hvað varðar viðbragðstíma.

Ráðuneyti Veðurstofunnar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Guðlaugur Þór Þórðarsson ráðherra, samþykkti 15. nóvember síðastliðinn ráðningu í 8 ný stöðugildi sérfræðinga til að takast á við þær áskoranir sem birtast okkur á Reykjanesskaga og fyrirséð að munu halda áfram næstu árin.  Stöðurnar voru auglýstar 20. nóvember og verið er að vinna úr umsóknum. Stöðugildin munu sérstaklega nýtast í vöktun og samtúlkun gagna í jarðskjálfta- og eldgosavá.

Unnið er hratt að því að skipuleggja vöktun og innleiða nauðsynlegar breytingar í eftirlitskerfum Veðurstofunnar til að fullnægja kröfum hvað varðar viðbragðstíma. Eins og áður hefur komið gerbreytti atburðarrásin og umfang umbrotanna 10. nóvember forsendum Veðurstofunnar fyrir umfangi vöktunar Grindavíkur og Svartsengis gagnvart eldgosavá.  

Viðbragðsaðilar þurfa svo að skoða og meta fjölmarga þætti sem hafa áhrif á þá ákvörðun um hvenær og með hvaða hætti Grindvíkingar geta snúið heim.


Uppfært 12. desember kl. 21:10

Veðurstofan tók þátt í vel sóttum íbúafundi með Grindvíkingum sem haldinn var nú síðdegis í Reykjavík. Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár, fór yfir stöðu mála í jarðhræringunum. Þar endurtók hann það fram hefur komið í fréttum að á meðan land heldur áfram að rísa við Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Einnig fór Benedikt yfir þá vinnu sem hefur farið fram á Veðurstofunni í kjölfar umbrotanna sem áttu sér stað 10. nóvember.

Atburðarrásin og umfang umbrotanna, þegar kvika hljóp frá Svartsengi og myndaði kvikugang sem liggur nú undir Grindavík, hafa gerbreytt forsendum Veðurstofunnar þegar kemur að vöktun Grindavíkur og Svartsengis. Veðurstofan vaktar alhliða náttúrvá allan sólarhringinn alla daga ársins og hefur gert um árabil. Þessi nýjasta atburðarrás á Reykjanesskaga kallar hins vegar á mun umfangsmeiri vöktun þegar kemur að eldgosavá.

„Veðurstofan hefur átt í stöðugu samtali við okkar ráðuneyti, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Guðlaugur Þór Þórðarsson ráðherra, sem hefur síðustu misseri heimsótt Veðurstofuna nokkrum sinnum, til að meta stöðuna og hvernig við mögulega getum brugðist við auknum áskorunum vegna vöktunar á margskonar náttúruvá“, segir Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. „Nú þegar hefur verið ákveðið að fjölga sérfræðingum á Veðurstofunni til að svara auknum kröfum um vöktun á Reykjanesskaganum. Eins hefur það komið skýrt fram í samtali við ráðherra að í ráðuneyti hans og hjá stjórnvöldum er fullur stuðningur við nauðsynlegar aðgerðir til að mæta auknum kröfum um vöktun jarðhræringanna á Reykjanesskaga, en við erum líklega að fara inn í langvarandi virkt tímabil“, segir Árni.

Árni segir að á Veðurstofunni sé verið að skipuleggja vöktun í ljósi nýrra aðstæðna. Unnið er hratt til að ljúka þeirri vinnu og segir Árni að starfsfólk Veðurstofunnar hafi staðið sig gríðarlega vel undir miklu álagi í langan tíma. „Þetta snýst um það að eiga gott samtal og samvinnu við almannavarnir, lögregluembættið og aðra viðbragðsaðila á svæðinu þannig að áherslur séu réttar og að það ríki traust á milli í samtalinu. Hlutverk Veðurstofunnar með vöktun og hættumati er að skapa forsendur fyrir viðbragðsaðila til að taka ákvarðanir um aðgerðir. Það eru fjölmargir aðrir þættir sem viðbragðsaðilar þurfa að skoða og meta þegar tekin er ákvörðun um hvenær og með hvaða hætti Grindvíkingar geta snúið heim“, segir Árni.

IMG_7200

Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands á íbúafundinum nú síðdegis.


Uppfært 12. desember kl. 13:40

Land heldur áfram að rísa við Svartsengi. Hægt hefur aðeins á landrisinu frá því á föstudag, en hraðinn á landrisinu er engu að síður meiri en mældist fyrir 10. nóvember þegar að kvikugangurinn sem liggur undir Grindavík myndaðist.

Á meðan að kvika heldur áfram að safnast fyrir við Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og einnig eldgosi.

Ef til kvikuhlaups kemur er líklegast að kvikan hlaupi aftur inn í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember. Líklegasti upptakastaður eldgoss er norður af Grindavík í átt að Hagafelli og svæðinu við Sundhúksgíga.

Skjálftavirkni hefur haldist nokkuð svipuð síðustu daga. Skjálftavirknin er áfram væg og er mest á svæðinu við Hagafell.


Uppfært 8. desember, kl. 16:30

Umbrotahrinunni sem hófst með landrisi við Svartsengi í október er ekki lokið. Land heldur áfram að rísa á sama hraða og síðustu daga. Á meðan að kvika heldur áfram að safnast fyrir við Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi sem gæti endað með eldgosi.

Ef til kvikuhlaups kemur er líklegast að kvikan hlaupi aftur inn í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember. Líklegasti upptakastaður eldgoss er norður af Grindavík í átt að Hagafelli og svæðinu við Sundhjúksgíga.

Ekki er hægt að fullyrða neitt um hvenær næsta kvikuhlaup verður og gæti það hafist með skömmum fyrirvara. Óvissan um tímasetningu er mjög mikil og kvikuhlaup gæti orðið á næstu dögum eða mögulega eftir marga mánuði.

Skjálftavirkni hefur haldist nokkuð jöfn síðustu daga. Stærsti skjálftinn sem mælst hefur síðustu 3 daga er 2,3 að stærð, en flestir skjálftanna eru í kringum 1 að stærð, alls 30 skjálftar.

Nýtt hættumatskort hefur verið gefið út. Kortið sýnir mat á hættum sem eru til staðar og nýjum hættum sem gætu skapast með litlum fyrirvara innan tilgreindra svæða. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hættur geta leynst utan þeirra. Aðstæður innan og utan svæðanna geta breyst með litlum fyrirvara.

Kortið verður uppfært reglulega og ræðst af því hver þróun virkninnar verður.


Smellið á kortið til að sjá stærri útgáfu


Uppfært 6. desember, kl. 14:30

Nýjustu gögn benda til að innflæði inn í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember og liggur undir Grindavík hafi líklega stöðvast. Líkur á eldgosi yfir kvikuganginum í þessari lotu atburðanna á Reykjanesskaga hafa því minnkað verulega. Kvikusöfnun heldur hins vegar áfram undir Svartsengi.

Þessari umbrotahrinu við Svartsengi sem hófst í október er því ekki lokið, en segja má að nýr kafli sé að hefjast með auknum líkum á nýju kvikuhlaupi.

Eins og áður hefur komið fram þá myndaðist kvikugangurinn sem liggur undir Grindavík þegar kvika hljóp úr kvikuinnskotinu við Svartsengi. Líklegt er að sú atburðarrás endurtaki sig. Þegar horft er almennt til umbrotahrina með endurteknum kvikuhlaupum, þá má þó reikna með að næsta kvikuhlaup frá Svartsengi verði minna að umfangi en það sem varð 10. nóvember. Hætta getur þó myndast á umbrotasvæðinu í tengslum við næsta kvikuhlaup. Reikna þarf með að kvikuhlaup geti staðið yfir í nokkrar klukkustundir eða daga með aukinni hættu vegna skjálftavirkni og aflögunar á því tímabili.

Upphafsmerki nýs kvikuhlaups eru skyndileg aukning í skjálftavirkni og skörp breyting í aflögun. Þau merki koma til með að sjást á mælitækjum nokkrum klukkustundum áður en kvikuhlaupið er líklegt til að skapa hættu í  Svartsengi eða Grindavík. Ef til kvikuhlaups kemur gerir Veðurstofan almannavörnum strax viðvart sem virkja um leið sínar viðbragðsáætlanir. Komi til kvikuhlaups eykst aftur hættan á eldgosi. Eins og kemur fram hér að ofan er líklegast að kvika hlaupi aftur frá Svartsengi og yfir í kvikuganginn sem myndaðist í gegnum Sundhnjúksgíga 10. nóvember og því er það líklegasti upptakastaður eldgoss.

Ekki er hægt að fullyrða neitt um hvenær næsta kvikuhlaup verður. Óvissan um tímasetningu er mjög mikil og kvikuhlaup gæti orðið á næstu dögum eða mögulega eftir marga mánuði.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og fylgist grannt með merkjum um mögulegt kvikuhlaup sem og öðrum breytingum sem gætu valdið frekari hættu á umbrotasvæðinu við Svartsengi og í og við Grindavík.

Hliðstæða milli umbrotanna við Svartsengi og í Kröflueldum

Síðustu tvo sólarhringi hafa um það bil 200-300 jarðskjálftar mælst nærri kvikuganginum. Það sem af er degi í dag hafa um 100 jarðskjálftar, sá stærsti 2,0 að stærð, mælst á svæðinu. Meirihluti skjálftavirkninnar er áfram um miðbik kvikugangsins á um 3-4 km dýpi. Mikið sig við Svartsengi veldur því að spenna í jarðskorpunni þar hefur breyst. Þar til fyrra spennustigi verður náð má búast við óverulegri skjálftavirkni á svæðinu.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr skjálftavirkni síðustu vikur má búast við frekari umbrotahrinum á Reykjanesskaganum. Dæmi um slíkar umbrotahrinur má sjá í Kröflueldum sem hófust 1975. Á 10 ára tímabili urðu þar 20 kvikuhlaup og enduðu 9 þeirra með eldgosi (Sjá skýringarmynd hér fyrir neðan). Í Kröflueldum fóru kvikuhlaupin öll inn í sama kvikugang og voru mismikil að umfangi. Sambærilega endurtekningu má einnig sjá í virkninni í kringum Fagradalsfjall.

Líkanreikningar út frá nýjustu gögnum benda til þess að rúmmál kviku sem nú hefur safnast fyrir undir Svartsengi sé talsvert minna en rúmmálið var rétt fyrir kvikuhlaupið 10. nóvember. Ef horft er til kvikusöfnunar og kvikuhlaupa í Kröflueldum sést að magn kviku sem safnaðist í Kröfluöskjuna var mest fyrir fyrsta kvikuhlaupið. Minna magn hafði svo safnast fyrir í öskjunni áður en næstu kvikuhlaup fóru af stað. Reikna má með að svipuð þróun verði í tengslum við kvikusöfnun undir Svartsengi og að minna magn kviku þurfi að safnast fyrir til að koma af stað næsta kvikuhlaupi inn í kvikuganginn sem liggur undir Grindavík. Líkur eru á að það mælist hægt vaxandi skjálftavirkni áður en nýtt kvikuhlaup fer af stað, sem eru þá merki um aukinn þrýsting undir Svartsengi.

Kroflueldar_Umbrotahrinur

Myndin sýnir samspil milli myndun kvikuganga og landhæðar í miðri Kröfluöskjunni. Neðri myndin sýnir landhæð mælipunkts innan Kröfluöskjunnar, en sú efri hvar umbrotasvæði voru í hverri hrinu. (Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir, 2021)

Uppfært 1. desember kl. 16.45

Áfram dregur úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga og mælast nú mun færri og smærri skjálftar heldur en síðustu vikur. Flestir skjálftar eru að mælast undir einum að stærð. Virknin er mest milli Sýlingarfells og Hagafells þar sem að kvikugangurinn liggur. Að öllum líkindum er kvikan sem er að safnast undir Svartsengi að fóðra þann kvikugang. Ennþá mælist aflögunum á stöðvum nálægt kvikuganginum en talið er að það sé vegna landriss sem er að eiga sé stað við Svartsengi.

Þrátt fyrir minni virkni við kvikuganginn og næsta nágrenni þá er landris áfram stöðugt við Svartsengi. 

Atburðurinn sem hófst þann 25. október með mikilli skjálftavirkni sem náði toppi að kvöldi 10. nóvember þegar 15 km kvikugangurinn myndaðist er ekki lokið. En segja má með nokkurri vissu að nýr kafli sé hafinn þar sem að sama atburðarrás getur endurtekið sig.

Á þessu stigi er erfitt að segja til um hvenær næsta kvikuinnskot mun eiga sér stað og hvort það komi á svipuðum slóðum. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið gaumgæfilega.


Uppfært 29. nóvember kl. 11:00

Jarðskjálftavirkni hefur áfram farið hægt minnkandi síðustu tvo sólarhringa. Í gær mældust um 340 skjálftar nærri kvikuganginum og frá miðnætti í dag hafa um 150 skjálftar mælst. Flestir skjálftanna eru smáskjálftar undir M1,0 að stærð á svæðinu austan við Sýlingarfell.

Dregið hefur úr hraða landriss við Svartsengi síðustu daga en hraði þess er áfram þó nokkur, eða allt að 1 cm á sólarhring.

Aflögunargögn og niðurstöður líkanreikninga benda til að megnið af aflöguninni komi til vegna innflæðis undir Svartsengi frekar en innflæðis í kvikuganginn. Með öðrum orðum, þenslan við Svartsengi yfirgnæfir nú merkin við kvikuganginn en hægt dregur þó úr öllum færslum. Innflæði í kvikuganginn einskorðast við svæðið austan við Sýlingarfell. Þótt áfram dragi úr aflögun og skjálftavirkni, eru ennþá taldar líkur á eldgosi og ef til þess kemur er líklegasti staðurinn austan Sýlingarfells.

Seng-29-nov

Hérna sést tímaröð fyrir GPS stöðina Svartsengi (SENG). Hún sýnir færslur síðustu 90 daga í norður, austur og lóðrétt. Bláa línan markar kvikuhlaupið 10. nóvember síðastliðinn til dagsins í dag. 

SENG-29-nov-fra-10-nov

Þessi mynd sýnir færslurnar frá stöðinni síðan 10. nóvember til dagsins í dag.

Uppfært 27. nóvember kl. 15:40

Jarðskjálftavirkni var nokkuð stöðug síðustu daga og mældust um 500 skjálftar á sólarhring nærri kvikuganginum. Áfram er mest virkni nærri Sýlingarfelli og Hagafelli. Um miðnætti í dag hófst jarðskjálftahviða nærri Sýlingarfelli og virkni jókst tímabundið í rúma klukkustund. Um 170 jarðskjálftar mældust í hviðunni og voru þetta mest smáskjálftar en einn skjálfti mældist 3,0 að stærð. Skjálftavirknin var mest á um 3 – 5 km dýpi.

Út frá aflögunargögnum frá GPS mælum og gervitunglum sést að þensla heldur áfram við Svartsengi og aflögun mælist enn nærri kvikuganginum. Þó mældust engar breytingar á GPS mælingum í tengslum við jarðskjálftahrinuna í nótt. Bæði skjálfta- og aflögunargögn benda til þess að innflæði kviku haldi áfram bæði undir Svartsengi og í miðju kvikugangsins. Skjálftahrinan í nótt gæti verið vísbending um aukinn þrýsting í ganginum.

Í ljósi þessa og samtúlkun nýjustu gagna eru áfram taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum á meðan innflæði kviku heldur áfram. Mesta hættan á að kvika komi upp er áfram á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells. Hættumatskort sem Veðurstofan gaf út 22. nóvember er enn í gildi.

Frekari líkanreikningar hafa verið gerðir til að áætla umfang kvikugangsins sem myndaðist 10. nóvember. Þeir líkanreikningar benda til þess að hluti kvikugangsins gæti verið breiðari en áætlað var í fyrstu. Gróft áætlað gæti storknun breiðasta hluta gangsins því tekið nokkra mánuði.

Yfirfarnir-skjalftar-27-nov

Myndin sýnir yfirfarna skjálfta frá 25. nóvember.

Uppfært 24. nóvember kl. 11:00

Í gær mældust um 650 jarðskjálftar nærri kvikuganginum og frá miðnætti í dag hafa tæplega 300 skjálftar mælst. Langflestir skjálftanna eru undir 1,0 að stærð en stærsti skjálftinn síðustu tvo daga mældist 2,7 að stærð nærri Hagafelli. Áfram dregur úr skjálftavirkni.

Aflögunargögn frá GPS mælum sýna að þensla heldur áfram við Svartsengi og aflögun mælist enn nærri kvikuganginum. Þó eru vísbendingar um að dragi úr aflögunarhraða sé horft á gögn síðustu viku. Hinsvegar er túlkun aflögunargagna flókin á þessu stigi. Það er vegna þess að önnur ferli eins og sprunguhreyfingar tengdar jarðskjálftum og seigfjaðrandi svörun jarðskorpunnar vegna umbrota á svæðinu hafa áhrif á aflögunarmerkin.

Miða við nýjustu samtúlkun allra gagna eru áfram taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum. Líklegast er að kvika komi upp á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells. Á meðan að áfram dregur úr aflögun, skjálftavirkni og innflæði í kvikuganginn minnka líkurnar á eldgosi með tímanum.

Graf-25.-november

Hér er yfirlit yfir skjálftavirkni frá föstudeginum, 17. nóvember. Efra grafið sýnir fjölda skjálfta á klukkustund og neðra grafið fjölda skjálfta á dag. Áhrif hvassviðris og öldugangs á Reykjanesskaga 21. og 22. nóvember koma fram í færri mældum skjálftum vegna skertrar næmni mælinga á þeim tíma.

Uppfært 22. nóvember kl. 18:15

Um 300 skjálftar mældust í gær og 100 jarðskjálftar hafa mælst frá miðnætti, sem eru mun færri en síðustu daga. Einnig hefur dregið úr skjálftum yfir 2,0 að stærð. Fram eftir degi er áfram gert fyrir að veður og öldugangur hafi áhrif á næmni kerfisins til að nema minnstu jarðskjálftana.

Aflögun og innflæði tengd kvikuganginum heldur áfram að minnka. Landris við Svartsengi heldur áfram á svipuðum hraða. Líkanreikningar, byggðir á gögnum frá 21. nóvember benda til þess að innflæði í kvikuganginn sé mest við Sundhnúksgíga, um 4 km norð-norðaustan við Grindavík. Litlar hreyfingar hafa mælst innan sigdalsins í og við Grindavík síðustu daga.

Áfram eru taldar líkur á eldgosi á svæðinu yfir kvikuganginum. Líklegasta er að kvika komi upp á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells. Á meðan að áfram dregur úr aflögun, skjálftavirkni og innflæði í kvikuganginn minnka líkurnar á eldgosi með tímanum.

Út frá nýjustu gögnum og að teknu tilliti til þróunar virkninnar síðan 10. nóvember, hafa líkur á skyndilegri gosopnun innan bæjarmarka Grindavíkur farið minnkandi með hverjum degi og eru í dag taldar litlar. Reikna má með að kvikan í ganginum undir Grindavík sé að hluta til storknuð, sem einnig dregur úr líkum að sú kvika nái skyndilega að brjóta sér leið til yfirborðs innan bæjarmarkanna. Það skal hinsvegar tekið fram að áfram eru taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum og er líklegasta svæðið fyrir upptök eldgoss milli Hagafells og Sýlingarfells.

Mikilvægt er að taka fram að sterkar vísbendingar eru um tengsl milli kvikusöfnunar í Svartsengi og myndun kvikugangsins 10. nóvember. Líkön benda til þess að kvikan í innskotinu sem myndaði sylluna undir Svartsengi hafi hlaupið í austur að Sundhnúksgígum og í kjölfarið myndað kvikuganginn með þeim miklu umbrotum sem þá urðu. Á meðan að landris í Svartsengi heldur áfram má búast við að kvikan sem er að safnast þar geti hlaupið aftur. Við það gæti hún flætt inn í kvikuganginn sem nú liggur undir Grindavík. Einnig má reikna með að nýr kvikugangur geti myndast t.d. vestur af landrisinu við Svartsengi. Fyrirboðar um slíka atburðarás væri hægt að greina á skjálfta- og GPS mælum.

22-nov-ragnar-haettumatskort

Hættumatskort frá Veðurstofu Íslands hefur verið uppfært í dag 22. nóvember. Kortið er endurskoðað í takti við þróun virkninnar.

Uppfært 21. nóvember kl. 13:50

Frá miðnætti í dag hafa 165 jarðskjálftar, allir undir 2,0 að stærð, mælst við kvikuganginn, en það er nokkuð færri en síðustu daga en þá hafa mælst um 1500-1800 skjálftar á sólarhring. Gera má ráð fyrir að hvassviðri sem nú gengur yfir landið hefur áhrif á næmni kerfisins til að finna minnstu skjálftana, því er erfitt að meta hvort dragi úr skjálftavirkni að stöddu.

Áfram hægir á aflögun í og við kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember en land heldur áfram að rísa við Svartsengi. Hefur hraðinn á risinu í Svartsengi haldist nánast óbreyttur síðasta sólarhringinn.

Veðurstofan, í góðu samstarfi við sérfræðinga Háskóla Íslands, mun halda áfram vakta svæðið eins vel og hægt er og stöðugt endurmeta og túlka þau gögn sem berast. 

Eins og áður hefur komið fram þá hefur Veðurstofan aukið á vöktun í og við Grindavík, sem og á svæðinu umhverfis Hagafell á meðan íbúar nálgast eigur sínar og verðmæti og verktakar vinna við varnargarða. Skilvirkni þessarar vöktunar veltur á góðri næmni jarðskjálfta- og rauntíma GPS mælinga en næmnin er mjög háð veðuraðstæðum. Í ljósi þess að veðurspá næstu tveggja daga bendir til úrkomu og talsverðs vinds má gera ráð fyrir að bæði næmni jarðskjálfta- og  rauntíma GPS vöktunar Veðurstofunnar skerðist. Brim hefur áhrif á lágu tíðnina í óróamælingunum þar sem öldur koma fram sem órói. Þoka og dimm él hafa síðan áhrif á sjónræna staðfestingu á gosi með myndavélum.


Uppfært 20. nóvember kl. 16:30

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumatskort fyrir svæðið í kringum Grindavík og Svartsengi. Út frá nýjum gervitunglamyndum af Svartsengi og kvikuganginum ásamt gögnum sem voru til umræðu í morgun með almannavörnum, sérfræðingum frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands hefur hættusvæðið verið stækkað frá því áður.

Hættusvæðin eru þrjú eins og sjá má á kortinu. Almannavarnir og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafa kortið til hliðsjónar í skipulagninu fyrir svæðið. 

Haettusvaedi_VI_20nov_med_texta

Smellið á myndina til að stækka.

Uppfært 20. nóvember kl. 11:50

Frá miðnætti í dag hafa um 700 jarðskjálftar mælst nærri kvikuganginum, sá stærsti 2,7 að stærð nærri Hagafelli. Frá því á föstudag (17. nóvember) hafa um 1500-1800 jarðskjálftar mælst á dag við kvikuganginn og stærsti skjálftinn M3,0 að stærð á föstudagsmorgun.

Nýjar gervitunglamyndir af Svartsengi og kvikuganginum ásamt öðrum gögnum voru til umræðu á samráðsfundi sérfræðinga Veðurstofunnar, Háskóla Íslands og almannavarna í morgun.

Á gervitunglamyndum sem sýna breytingar sem orðið hafa frá 18. – 19. nóvember má sjá skýr merki um landris í Svartsengi á sömu slóðum og landris hafði mælst áður en kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Þetta er í samræmi við það sem hefur sést á GPS stöðvum umhverfis Svartsengi og er ferli sem hófst strax í kjölfarið á kvikuhlaupinu 10. nóvember. Líkön sem reiknuð hafa verið út frá gervitunglamyndunum sýna að landrisið í Svartsengi er talsvert hraðara en áður en kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Almennt þegar kvikugangur myndast sígur land í miðju gangsins eins og við sjáum í Grindavík, en rís sitt hvoru megin við hann. Merki um landris í Svartsengi vegna kvikusöfnunar hefur sést í nokkurn tíma, en svo blandast inn í þær mælingar áhrif frá myndun kvikugangsins.

Það að nú sjáist skýr merki um landris í Svartsengi breytir hinsvegar ekki líkunum á því að það gjósi á kvikuganginum. Það er metið m.a. út frá því að jarðskorpan yfir kvikuganginum er miklu veikari heldur en jarðskorpan yfir landrisinu í Svartsengi. Þannig að á meðan að ekki mælist mikil skjálftavirkni á svæðinu í Svartsengi eru ekki taldar miklar líkur á að gos komi upp þar, heldur miklu frekar yfir kvikuganginum þar sem kvikan á auðveldast með að komast upp á yfirborð.

Áframhaldandi landris við Þorbjörn í kjölfar myndunnar kvikugangsins, sýnir að við erum ennþá í miðri atburðarrás. Áfram þarf að gera ráð fyrir að þessi atburðarrás á svæðinu geti breyst með litlum fyrirvara. Veðurstofan, í góðu samstarfi við sérfræðinga Háskóla Íslands, mun halda áfram vakta svæðið eins vel og hægt er og stöðugt endurmeta og túlka þau gögn sem berast.  

20-nov-vincent

COSMO-Skymed bylgjuvíxlmynd sem spannar 24 klukkustundir milli 18. og 19. nóvember kl. 06:41. Merki um landris sést í appelsínugulu/rauðu litunum í kringum Svartsengi sem gefur til kynna djúpa þenslu (>5 km).

Uppfært 18. nóvember kl. 14:40

Virknin við kvikuganginn er nánast óbreytt frá því í gær. Síðasta sólarhring hafa mælst um 1700 skjálftar og síðan um miðnætti um 1000 skjálftar. Stærsti skjálftinn síðan á miðnætti mældist 2,8 að stærð í Hagafelli 3.5 km NNA af Grindavík.

Upplýsingafundur almannavarna var haldinn í dag kl. 13 þar sem farið var yfir stöðu mála.

Uppfært 17. nóvember kl. 12:00

Skjálftavirkni tengd kvikuganginum sem myndaðist fyrir um viku síðan helst nokkuð stöðug frá því í gær. Alls hafa um 2000 skjálftar mælst síðusta  sólarhringinn og er mesta virknin á svæðinu norður af Hagafelli að Sundhnúksgígum. Mest er um smáskjálfta undir 1,0 að stærð, en í morgun kl. 6.35 mældist skjálfti við Hagafell sem var 3,0 að stærð.

Samkvæmt GPS mælum heldur aflögun áfram en með minnkandi hraða. Nýjustu líkön sem reiknuð hafa verið út frá GPS mælingum og gervitunglagögnum benda ennþá til þess að mesta gliðnunin á kvikuganginum sé norður af Grindavík nálægt Hagafelli. Ef kvika nær að brjóta sér leið til yfirborðs, er því ennþá líklegast að það verði á því svæði.

Sigdalurinn yfir kvikuganginum er ennþá virkur þó svo að mælingar sýni að það hafi hægst örlítið á siginu á milli daga. Nú sýna GPS mælar sem staðsettir í og við Grindavík nærri miðju sigdalsins sýna um það bil 3-4 cm sig á milli daga.

Út frá samtúlkun á nýjustu gögnum og útreikningum með líkönum eru áfram eru taldar miklar líkur á eldgosi og mestar líkur eru á að það eigi upptök norðan Grindavíkur nálægt Hagafelli.


Uppfært 16. nóvember kl. 17:50

Skjálftavirknin við kvikuganginn hefur haldist nokkuð stöðug milli daga. Klukkan 17 í dag hafa um 1400 jarðskjálftar mælst frá miðnætti, sá stærsti 2,9 að stærð og mældist hann við Hagafell laust eftir kl. 13 í dag. Flestir skjálftanna voru undir tveimur að stærð og þéttasta virknin er við Hagafell.

Aflögun tengd kvikuganginum mælist áfram þó hún hafi hægt örlítið á sér frá því í gær. Nýjustu líkönin sem reiknuð hafa verið út frá GPS mælingum og gervitunglagögnum benda ennþá til þess að mesta gliðnunin á kvikuganginum sé norður af Grindavík nálægt Hagafelli. Ef kvika nær að brjóta sér leið til yfirborðs, er ennþá líklegast að það verði á því svæði.

Í dag mældist kvikugas, brennisteinsdíoxíð (SO2), upp úr borholu í Svartsengi sem staðsett er rétt norðan Þorbjarnar. Borholan er skáboruð í austur undir Grindavíkurveg og nær inn í jarðskorpuna í átt að Sundhnúksgígum. Endi borholunnar teygir sig því nálægt þeim stað í jarðskorpunni þar sem kvikugangurinn er talinn vera. Frekari mælingar verða gerðar á morgun en það að kvikugas mælist úr borholunni er staðfesting á að kvika sé til staðar norðan Hagafells, líkt og líkön hafa gefið til kynna.

Líkur á eldgosi eru ennþá taldar miklar. Áfram er fylgst með merkjum um grynnkandi smáskjálftavirkni og skyndilega gliðnun sem geta verið fyrirboðar þess að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs. Engin merki eru um slíkt.

Grindavik_situation_map_20231116

Kort sem sýnir umfang sigdalsins sem myndaðist í tengslum við kvikuganginn. Grænu punktarnir tákna GPS mælistöðvar.

Frá myndun kvikugangsins föstudaginn 10. nóvember hefur land sigið um allt að 25 cm innan sigdalsins sem þá tók að myndast. Á færslum á GPS mæli sem staðsettur er í miðjum kvikuganginum rétt norðar Grindavíkur mælist ennþá um 5 cm sig á dag. Samkvæmt nýjustu mælingum er sigdalurinn því ennþá virkur.

Gric-eldc_up_frett

Línurit sem sýnir landsigið í miðju sigdalsins rétt norðan við Grindavík og hvernig það hefur þróast frá 11. nóvember eftir að kvikugangurinn myndaðist.


Uppfært 15. nóvember kl. 11:00

Frá miðnætti hafa mælst um 800 smáskjálftar, langflestir um miðbik kvikugangsins við Sundhnúk á um 3-5 km dýpi. Skjálftavirknin hefur haldist stöðug frá 11. nóvember. Megin áhersla á vöktun skjálftavirkni er áfram á svæði gangsins og Grindavíkur.

Aflögunarmælingar sýna áframhaldandi aflögun á svæðinu. Þær eru í samræmi við að kvika flæði enn inn í ganginn. Hluti kvikugangs virðist vera að storkna, einkum til jaðra en ekki við uppstreymissvæði kviku sem talið er vera við Sundhnúk.

Mælingar á brennisteinsdíoxíð (SO2) virðast sýna hviðukennda afgösun vegna kvikugangsins, en frekari mælinga er þörf því til staðfestingar. Greining þessara gagna er nú í gangi í samstarfi við Chalmers háskólann í Svíþjóð.             

Ljósleiðari HS Orku sem liggur frá Svartsengi vestur fyrir Þorbjörn og þaðan til Arfadalsvíkur er nú nýttur sem samfelld jarðskjálftamælilína með mikilli næmni. Þetta er ný tækni sem hefur þróast á síðustu árum og er nú nýtt sem viðbótarmælingar í samstarfi við HS Orku og ETH í Sviss.

Á heildina litið virðist staðan vera óbreytt frá því í gær. Líkur á eldgosi eru enn taldar miklar. Komi til goss er líklegust staðsetning við kvikuganginn.

Uppfært 14. nóvember kl. 18:00

Sérfræðingar hjá Veðurstofu Íslands settu upp á dögunum DOAS mælitæki upp á Húsafell sem mæla (SO2) í andrúmslofti. Einn af þessum mælum sýndi merki um að brennisteinsdíoxíð (SO2) væri til staðar í andrúmsloftinu yfir sigdalnum frá Sundhnúksgígum suður til Grindavíkur, bæði í dag og í gær.

Nokkurn tíma tók að túlka gögnin, sérstaklega þar sem mælitækið þarf dagsljós og virkar því ekki sem skildi í skammdeginu á Íslandi. Austlægar áttir hafa verið undanfarna daga og ekki er hægt að útiloka að skjálftavirkni síðustu daga hafi náð að losa um SO2 í einhverjum hluta kvikugangsins undir Fagradalsfjalli sem ekki er ennþá storknaður síðan í gosinu í júlí.  

Erfitt er að segja nákvæmlega til um á hvaða dýpi SO2 losnar úr kvikunni því þetta ferli er háð kvikuþrýstingi en almennt er talið að kvika þurfi að vera í efstu nokkur hundruð metrum jarðsskorpunnar. Það sem mælist í DOAS er ekki mælikvarði á loftgæði. Einungis mælar sem mæla staðbundinn styrk SO2 geta nýst í slíkt mat.     

DOAS (DIfferential Optical Absorption Spectrometer) eða litrófsgreinir er mælitæki sem getur numið styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) í andrúmslofti. Aðferðin byggir á að sýnilegt ljós, sem berst í gegnum andrúmloftið, lendir á nema í mælitækinu er greint með tilliti til þess að ákveðna liti (bylgjulengdir) vanti í mælt litrófið sem lendir á nemanum. Brennisteinsdíoxíð gleypir ákveðnar bylgjulengdir ljóss sem veldur því að þær lenda ekki á ljósnema mælitækisins í sama magni og aðrar bylgjulengdir. Neminn skannar ákveðinn geira af himninum og gefur því upplýsingar um styrk brennisteinsdíoxíðs innan svæðisins sem mælirinn skannar. DOAS mælingar þurfa dagsljós til að virka og eru því mjög erfiðar að eiga við á veturna á íslandi þegar birtustig jafnvel um hábjartan dag er lágt.

Uppfært 14. nóvember kl. 15:30

Nýir mælar sem Veðurstofan setti upp á dögunum nærri Grindavík numu gas eða (SO2) nú síðdegis. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvað í kjölfarið að rýma Grindavíkurbæ, en þetta er ekki neyðarrýming. Engar aðrar vísbendingar eru um að gos sé að hefjast, en það er ekki hægt að útiloka það þar sem SO2 gas kemur ekki fram nema að kvika sé komin ofarlega í jarðskorpuna. Sérfræðingar hjá Veðurstofunni eru að yfirfæra þessar mælingar.

Uppfært 14. nóvember kl. 11:30

Frá miðnætti hafa mælst 700 skjálftar yfir kvikuganginum, sá stærsti  M3,1 við Hagafell. Í gærkvöldi voru gikkskjálftar við Kleifarvatn, stærsti var M3,8 kl. 21:09. Langflestir skjálftar eru við kvikuganginn, flestir litlir og á 3-5 km dýpi.

Aflögunarmælingar sýna áframhaldandi aflögun á svæðinu. Þær eru í samræmi við áframhaldandi kvikuflæði inn í ganginn, en einnig sýna þær sprunguhreyfingar á yfirborði.

Flæðið 12-13. nóvember var metið 75 rúmmetrar á sekúndu og er dýpið niður á kvikuganginn ennþá metið á um 800 m. Þessar tölur eru út frá líkanreikningum og háðar óvissu.

Megin áhersla á vöktun skjálftavirkni og aflögunar er á svæði gangsins og Grindavíkur. Nýjar GPS stöðvar hafa verið settar upp í Grindavík og nágrenni. Þær sýna að sigdalurinn sem myndast hefur er ennþá virkur. Einnig hafa verið settir upp mælar til að nema SO2 í andrúmslofti, með það að markmiði að nema S02 sem losnar úr kvikunni þegar hún nálgast yfirborð.

Líkur á eldgosi eru því enn miklar. Komi til goss er líklegust staðsetning við kvikuganginn. Ekki er að sjá vísbendingar í gögnum um annað.

Uppfært 13. nóvember kl. 16:10

Út frá greiningu á gervitunglagögnum sem Veðurstofan vann 12. nóvember kemur í ljós að nokkurs konar sigdalur hefur myndast sem liggur í gegnum hluta Grindavíkurbæjar. Gögnin sýna að í tengslum við myndun kvikugangsins hefur land í vesturhluta byggðarinnar sigið um allt að 1,0 m.

Gervitunglamynd (COSMO-SkyMed), svokallað bylgjuvíxlrit, sem nær yfir tímabilið 3.-11. nóvember. Myndin sýnir umfangsmikið aflögunarsvið sem tengist kvikuinnskotinu sem hófst síðdegis 10. nóvember hjá Svartsengi. Þetta bylgjuvíxlrit gerði vísindamönnum kleift að reikna líkan til að áætla umfang kvikugangsins. Niðurstaðan var að kvikugangurinn er um 15 km langur og að kvikan lægi á um 800 m dýpi þar sem hún væri grynnst. Út frá líkaninu var rúmmálsbreytingin í tengslum við myndun gangsins væri um 70 milljónir rúmmetra.

Bylgjuvixlm-13-nov-michelle

Þessi mynd var hluti af þeim gögnum sem voru samtúlkuð af vísindafólk Veðurstofunnar og Háskóla Íslands og var sú niðurstaða notuð til grundvallar þeirri ákvörðun almannavarna að rýma Grindavíkurbæ föstudagskvöldið 10. nóvember.

Verið er að vinna ný líkön byggð á nýrri ICEYE gervitunglamynd og einnig nýjum GPS mælingum sem ná yfir síðasta þróun virkninnar síðasta sólarhringinn. Þau líkön koma til með að gefa betri mynd af þróun kvikugangsins og magn kviku sem flæðir inn í ganginn.

Blar-litur-VI-13-nov-isl-Vincent

Þessi mynd sem byggð er á breytingum milli 10. og 11. nóvember, sýna breytingu sem varð á yfirborði við myndun kvikugangsins. Bláir litir tákna landsig og á myndinni má greinilega sjá legu kvikugangsins og sigdalinn sem myndast hefur við suðurenda hans.


Uppfært 13. nóvember kl. 11:40

Skjálftavirkni á umbrotasvæðinu hefur verið stöðug síðan 11. nóvember. Um 900 skjálftar hafa mælst frá miðnætti í dag 13. nóvember. Skjálftavirknin er dreifð um suðurhluta gangsins á milli Sundhnúks og Grindavíkur á um 2-5 km dýpi. ​

Enn mælist hæg minnkandi aflögun við Grindavík. ​Gliðnun er mest við miðju gangsins við Sundhnúk þar sem megin uppstreymissvæði kviku er talið vera.​

Það er mat Veðurstofunnar að virknin í og við Grindavík sé nánast óbreytt frá því í gær. Fylgst er gaumgæfilega með öllum mælakerfum í rauntíma, sér í lagi við Grindavík, sem gætu bent til breytinga á stöðunni. ​

Vakt Veðurstofunnar einbeitir sér sérstaklega að svæðinu í og við Grindavík og heldur úti sérstakri vöktun fyrir viðbragðsaðila sem sinna aðgerðum á staðnum.


Uppfært 12. nóvember kl. 11:30

Stöðufundi Veðurstofunnar, Almannavarna og sérfræringa Háskóla Íslands lauk kl. 11.

Frá morgni 11. nóvember hefur skjálftavirknin við kvikuganginn haldist nokkuð stöðug. Frá miðnætti 12. nóvember hafa um 1000 skjálftar mælst og hafa þeir allir verið undir 3,0 að stærð. Mesta skjálftavirknin hefur verið frá miðju gangsins norðan við og suður undir Grindavík. Flestir skjálftanna eru á 3-5 km dýpi við neðri hluta kvikugangsins.

GPS mælingar sem ná yfir síðasta sólarhring sýna að hægt hefur á aflögun tengt kvikuganginum sem myndaðist á föstudag, 10. nóvember. Það bendir til þess að kvika sé að færa sig nær yfirborði, engin líkön hafa verið keyrð til að ákvarða dýpi hennar að svo stöddu.

Fundurinn skilaði sameiginlegu mati til almannavarna og lögreglustjórans á Suðurnesjum um hvort svigrúm væri til aðgerða til að sækja nauðsynjar fyrir íbúa og sinna brýnum erindum í Grindavík og nágrenni. Á meðan að á slíkum aðgerðum stæði yrði nauðsynlegt að auka vakt svæðisins og fylgjast náið með merkjum um hvort að kvika komi upp. Það var mat vísindamanna að ef til aðgerða kæmi væri ráðlegt að hefja þessar aðgerðir strax þar sem óvissa um framvindu atburðarins vex eftir því sem líður á daginn.

Í framhaldi af þessu mati vísindamanna hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum tekið ákvörðun um að hleypa íbúum inn á skilgreint svæði í Þórkötlustaðahverfi og það er eingöngu gert til þess til að sækja gæludýr og ómissandi eigur.  Þetta verður skipulögð og stýrð aðgerð undir stjórn lögreglunnar. Þessi heimild nær eingöngu til þessa tiltekna hverfis, og ekki annarra hverfa eða svæða í Grindavik. Athugið að sérstök aðgerð er í gangi til þess að sækja alla hesta í hestahverfinu norðan við Austurver.

(Fréttin hefur verið uppfærð eftir nýjar upplýsingar frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum)


Uppfært 11. nóvember kl: 18:20

Klukkan 18:00 lauk stöðufundi vísindamanna á Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands og Almannavarna þar sem farið var yfir túlkun á nýjustu gögnum sem borist hafa frá því á hádegi í dag. Unnin voru líkön út frá gervitunglamyndum og GPS mælingum. Líkön sýna að umfang kvikugangsins er verulegt og kvika er að nálgast yfirborð. Gangurinn nær frá Kálffellsheiði í norðri og liggur rétt vestan Grindavíkur og í sjó fram í suðvestur stefnu. Kvikugangurinn er um 15 km langur og kvikan liggur á um 800 m dýpi þar sem hún er grynnst. Það skal tekið fram að líkönin byggja á gervitunglagögnum sem eru um 12 klukkustunda gömul og því þarf að gera ráð fyrir að kvikan hafi færst nær yfirborði en 800 m. Út frá þessu má álykta að verulegar líkur eru á að kvika nái að brjóta sér leið til yfirborðs. Auknar líkur eru einnig á að kvika geti komið upp á hafsbotni.

Dregið hefur mikið úr jarðskjálftavirkni eftir hádegi í dag. Talið er að megin ástæða þess sé mikil spennulosun á svæðinu vegna jarðskjálfta gærdagsins og aflögunar vegna kvikugangsins. Vegna spennulosunarinnar er líklegt að kvikan eigi greiða leið til yfirborðs og því er ekki hægt að gera ráð fyrir því að gosórói sjáist á mælum áður en eldgos hefst.

Byggt á túlkun nýjustu gagna hefur Veðurstofan sent tilmæli til almannavarna að líkur á eldgosi hafi aukist frá því í morgun og að eldgos geti hafist hvenær sem er á næstu dögum. Líkön benda einnig til þess að kvika geti komið upp á syðri enda kvikugangsins rétt utan Grindavíkur. Líkur á eldgosi á hafsbotni hafa því aukist og búa þarf sig undir möguleika á sprengigosi. Hættusvæði hefur verið skilgreint út frá legu kvikugangsins.

Kort-ragnar-11-nov

Kort sem sýnir áætlaða legu kvikugangs við Grindavík.

Uppfært 11. nóvember kl: 11:15

Um 800 skjálftar hafa mælst á umbrotasvæðinu frá því á miðnætti. Aðeins hefur dregið úr skjálftavirkninni síðustu klukkutímana, sem mælist þó ennþá mikil. Mesta skjálftavirknin síðustu klukkustundirnar hefur verið við suðvestur enda gangsins nærri Grindavík.

Verið er að vinna úr þeim gögnum sem borist hafa í gærkvöldi og nótt. Markmiðið er að átta sig betur á umfangi kvikuhreyfinganna sem mælst hafa. Gögnin benda til þess að kvikugangurinn nái frá Stóra-Skógsfelli í norðri og suður fyrir Grindavíkurbæ út í sjó. Samkvæmt allra fyrstu líkanreikningum, byggt á gervitunglagögnum síðan í gærkvöldi, var dýpi niður á topp kvikugangsins norður af Grindavík áætlað um 1,5 km. Út frá nýjustu GPS gögnum er hraði aflögunarinnar margfaldur á við það sem mælst hefur í umbrotunum á Reykjanesskaga. Út frá þeim mælingum og gervitunglamyndum virðist stærð kvikugangsins og kvikuflæðið honum tengdum vera margfalt á við það sem áður hefur mælst í umbrotunum á Reykjanesskaga síðustu ár. Þótt líkön bendi til þess að kvikugangurinn teygi sig út í sjó suður af Grindavík, þá er ólíklegt að kvika komi upp á hafsbotni, ef horft er til gossögunnar á þessu svæði auk þess sem gliðnun þar er mun minni en við miðbik sprungunnar við Sundhnjúkagíga.

Vísindamenn funda reglulega til að túlka þau gögn sem aflað er. Búist er við nýjum aflögunargögnum síðar í dag sem gefur skýrari mynd af þróun atburðarásarinnar. Blaðamannafundur verður haldinn í húsnæði almannavarna kl. 12 í dag þar sem farið verður betur yfir stöðu mála og mögulegar sviðsmyndir.

Líkur á eldgosi á næstunni verða að teljast verulegar

Skjalftavirkni_1011_1111

Yfirfarnir jarðskjálftar frá 21:00 í gærkvöldi.

Uppfært 10. nóvember kl: 23:00

Miklar breytingar hafa orðið á skjálftavirkninni sem mælst hefur við Sundhnjúkagíga í dag og síðdegis. Skjálftavirknin hefur færst suður í átt að Grindavíkurbæ. Byggt á því hvernig skjálftavirknin hefur þróast síðan kl. 18 í dag, ásamt niðurstöðum úr GPS mælingum eru líkur á því að kvikugangur hafi teygt sig undir Grindavíkurbæ. Í ljósi þessarar niðurstöðu hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýst yfir neyðarstigi Almannavarna. Hafin er rýming Gríndavíkurbæjar.

Á þessu stigi er ekki hægt að segja til um hvort og hvar kvika geti náð til yfirborðs. Vísbendingar eru um að talsvert magn kviku sé á hreyfingu á svæði sem liggur frá Sundhnjúkagígum í norðri í átt að Grindavík. Magn kviku sem um ræðir er umtalsvert meira en sést hefur í stærstu kvikuinnskotunum sem urðu í tengslum við eldgosin við Fagradalsfjall.  Verið er að afla frekari gagna til að reikna líkön sem gefa nákvæmari mynd af kvikuganginum. Á þessar stundu er ekki hægt að segja til um hvenær þeirri vinnu lýkur.


Uppfært 10. nóvember kl: 19:00

Skjálftavirknin sem mælist nú við Sundhnjúkagíga einskorðast við svæði sem er um 3 km norðaustur af Grindavík. Grynnstu skjálftarnir sem nú mælast eru á um 3 – 3.5 km dýpi.

Þau merki sem sjást núna við Sundhnjúkagíga eru sambærileg þeim sem sáust í aðdraganda fyrsta gossins við Fagradalsfjall 2021 og svipar mjög til skjálftavirkninnar sem mældist um mánuði fyrir gos. Ef sú atburðarrás er skoðuð sem endaði í eldgosinu sem hófst 19. mars og á meðan að skjálftavirknin grynnkar ekki verulega úr því sem komið er, þá er líklegasta sviðsmyndin sú að nokkrir dagar líði frekar en klukkustundir áður en kvika nær til yfirborðs. Ef sprunga kæmi upp þar sem skjálftavirknin er hvað mest núna, myndi hraun renna til suðausturs og til vesturs en ekki í átt til Grindavíkur. 

Samsett-mynd-10-nov

Jarðskjálftar 10. nóv. (til kl. 18:48). Skjálftamælistöðvar Veðurstofu Íslands eru sýndar með þríhyrndum táknum. Órói á fjórum stöðvum umhverfis skjálftavirnina sýnir mikla aukningu síðan kl. 15:00

Uppfært 10. nóvember kl: 17:45

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýsir yfir hættustigi Almannavarna vegna ákafrar jarðskjálftahrinu síðan kl 15:00 í dag við Sundhjúkagíga, norðan Grindavíkur. Skjálftar geta orðið stærri en þeir sem hafa átt sér stað hingað til og gæti þessi atburðarrás leitt til eldgoss. Búið er að færa fluglitakóðann upp á appelsínugulan. Veðurstofa Íslands fylgist vel með framvinduninni.

Eins og áður eru íbúar hvattir til þess að fylgjast með upplýsingagjöf á heimasíðu Almannavarna. Hættustig Almannavarna þýðir að hætta fer vaxandi og gripið er til ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa/dvelja.

Uppfært 10. nóvember kl: 13:00

Nú rétt í þessu, kl 12:44 varð skjálfti af stærð M4,1 rétt við Sýlingarfell sem er vestan við Sundhnjúkagíga. Gígarnir eru um 2-3 km norðaustan við Grindavík. Nokkuð þétt jarðskjálftahviða hófst um klukkan 7 í morgun á þessum slóðum og hafa tæplega 800 skjálftar mælst þar frá miðnætti, þar af níu af stærð 3 eða stærri. Dýpi skjálftanna er um 5 km. Slíkar skjálftahviður hafa áður mælst á þessu svæði. Ekki er hægt að útiloka að skjálftavirknin við Sundhnjúkagíga sé vegna kviku á talsverðu dýpi.

Kvikusöfnun heldur áfram við Þorbjörn á sama dýpi og svipuðum hraða og áður. Henni fylgir hviðukennd skjálftavirkni líkt og varð vart við í gær og í morgun. Á meðan kvikusöfnun heldur áfram má búast við áframhaldandi skjálftavirkni sem verður vegna spennulosunar á svæðinu. Reikna má með skjálftum allt að M5,5 að stærð í slíkum hviðum. Á þessu stigi eru engar vísbendingar um að kvika sé a brjóta sér leið til yfirborðs.

Yfirfarnir-skjalftar-10-nov

Yfirfarnir skjálftar frá miðnætti

Uppfært 9. nóvember kl: 12:10

Það hafa mælst í kringum 1400 jarðskjálftar á síðasta sólahring. Virkni jókst upp úr miðnætti og hafa sjö skjálftar mælst yfir 4,0 að stærð síðan þá. Stærsti skjálftinn mældist M4,8 að stærð kl: 00:46 rétt vestan við Þorbjörn og er það stærsti skjálfti síðan jarðskjálftahrinan hófst 25. október. Skjáfltar yfir 4,0 að stærð mældust á svæðinu frá Eldvörpum að svæðinu austan Sýlingarfells. Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram má gera ráð fyrir skjálftavirkni á Reykjanesskaga vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu.

Samkvæmt GPS gögnum á miðnætti mældist enn landris á svæðinu. Verið er að yfirfara GPS gögnin í tengslum við skjálftavirknina í nótt. Ef miðað er við 27. október sem upphafsdag þenslunnar til dagsins í dag hefur land risið nokkuð jafnt þó svo að hröðun á ferlinu hafi mælst ólík á milli daga. Skjálftavirknin í nótt og í morgun er dæmi um þessa hviðukenndu skjálftavirkni sem má búast við á meðan að kvikusöfnun er í gangi. Það að nú mælist stærri skjálftar en áður á svæðinu, þarf ekki að þýða aukinn hraða á kvikusöfnun.

9-nov-mynd

Yfirfarnir skjálftar frá miðnætti.

Uppfært 8. nóvember kl: 13:40

Um það bil 1200 jarðskjálftar hafa mælst síðasta sólahring, flestir á svæðinu milli Þorbjörns og Sýlingarfells svipað og daginn áður. Stærsti skjálftinn var M3,4 að stærð klukkan 00:31 í nótt skammt sunnan við Þorbjörn. Skjálftavirknin heldur áfram á sama dýpi og áður. Áfram má búast við hviðukenndri skjálftavirkni á meðan að kvikusöfnun er í gangi. 

Landris heldur áfram á svipuðum hraða og hefur verið skv. Gervitungla- og GPS gögnum. Bylgjuvíxlmynd fyrir tímabilið 28. október til 6. nóvember sem sýnir nær lóðrétta hreyfingu staðfestir það, en einnig sýnir hún hliðrun vegna sprunguhreyfinga tengt jarðskjálftavirkninni. Uppfærð líkön byggð sömu gögnum áætla að kvikusöfnun í lárétta syllu á um 5 km dýpi heldur áfram og frá upphafi þenslumerkisins (27. október) er meðal innflæði áætlað um 5m3/s (óvissa er ±2m3/s).

Bylgjuvixlm-8-nov-uppfaerd

Bylgjuvíxlmynd (InSAR) fyrir tímabilið 28. okt til 6. nóv sýnir að aflögun á þessu tímabili er um 7 cm þar sem hún er mest.  Skarð í aflögunarmynstrinu sést einnig á myndinni SV við Þorbjörn sem kemur til vegna sprunguhreyfinga í jarðskjálftum.


Uppfært 7. nóvember kl: 13:30

Síðasta sólahring hafa mælst um 900 jarðskjálftar, flestir á svæðinu milli Þorbjörns og Sýlingafells. Stærsti skjálftinn var M2,9 að stærð upp úr klukkan 7 í morgun. Jarðskjálftavirknin er áfram á sama dýpi og áður.

Samkvæmt gervihnattagögnum sem unnið var úr um klukkan 17:00 í gær og ná yfir tímabilið milli 4. – 6. nóvember, staðfesta áframhaldandi landris við Þorbjörn. Sömu gögn sýna engin merki um kvikusöfnun í Eldvörpum eða við Sýlingrafell, austan Grindavíkurvegar, þar sem skjálftavirkni hefur mælst síðustu daga.

Kvikusöfnun heldur áfram á um 5 km dýpi á svæðinu NV við Þorbjörn. Ef miðað er við 27. október sem upphafsdag atburðarrásarinnar til dagsins í dag hefur land risið nokkuð jafnt þó svo að hröðun á ferlinu hafi mælst á milli daga. Áfram má búast við hviðukenndri skjálftavirkni á meðan að kvikusöfnun er í gangi.

Yfirfarnir-skjalftar-7-nov

Yfirfarnir jarðskjálftar frá 6. nóvember og það sem af er degi í dag, 7. nóvember.

Uppfært 6. nóvember kl: 12:40

Síðasta sólarhring hafa um 1300 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga, þar af þrír skjálftar yfir 3 að stærð. Stærsti skjálftinn varð um 3 km NA við Þorbjörn og mældist 3,6 að stærð  um kl. 7 í morgun.

Aflögunarmælingar sýna að landris heldur áfram á svæðinu NV við Þorbjörn og eru vísbendingar um aukinn hraða á þenslu frá því á föstudaginn 3. nóvember. Frá 27. október hefur land risið um 7 cm skv. GPS mælistöð á Þorbirni.  Aflögunin verður vegna kvikusöfnunar í syllu á um 5 km dýpi. Samkvæmt uppfærðum líkanreikningum, sem byggja á gögnum frá 27. október til 3. nóvember, er syllan orðin tvöfalt stærri en þær fjórar syllur sem hafa myndast við Þorbjörn frá árinu 2020. Innflæði inní sylluna er metið um 7 m3/s sem er fjórfalt hraðar en fyrri innskot við Þorbjörn.

Á meðan að kvikusöfnunin heldur áfram má gera ráð fyrir skjálftavirkni á Reykjanesskaga vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu.

6-nov-2023

Gögn frá GPS mælastöð á Þorbirni. Neðsta myndin sýnir að landris er nú um 7 cm.

Uppfært 5. nóvember kl. 11:00

Upp úr kl. 5 í nótt hófst skjálftavirkni vestan við Eldvörp, sem er í um 6 km fjárlægð frá Þorbirni. Stærsti skjálftinn var um 4,2 að stærð og fannst hann í byggð. Áfram er talsverð skjálftavirkni á þessu svæði þó svo að dregið hafi aðeins úr virkninni frá því nótt. Þarna er um að ræða svokallað „gikkskjálfta“ sem eru viðbrögð við spennulosun vegna kvikuinnskotsins við Þorbjörn og eru ekki merki um kvikuhreyfingar á svæðinu við Eldvörp.

Af nýjustu aflögunargögnum að dæma heldur landris við Þorbjörn áfram á sama hraða og engin skýr merki eru um að kvika sé að færast nær yfirborði.  Búið er að keyra ný líkön til að áætla staðsetningu kvikuinnskotsins. Þau líkön benda ekki til neinna breytinga á staðsetningu kvikunnar sem liggur á um 4-5 km dýpi NV af Þorbirni. Á meðan að kvikusöfnunin heldur áfram má gera ráð fyrir skjálftavirkni á Reykjanesskaga vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu.

Mikilvægt er að benda á það sem áður hefur komið fram að atburðarrásin á svæðinu við Þorbjörn er hluti af margþættu ferli kvikuhreyfinga í jarðskorpunni á Reykjanesskaga. Þessi ferli hafa áhrif á stóru svæði, þar á meðal Fagradalsfjall þar sem þensla heldur áfram frá því í ágúst.

Virkni_framidnaetti05112023

Mynd sem sýnir skjálftavirknina á Reykjanesskaga frá miðnætti 5. nóvember.


Uppfært 4. nóvember kl. 11:20

Eftir klukkan 17:30 í gær dróg töluvert úr skjálftavirkninni. Síðustu 12 klst. hafa um 900 skjálftar mælst og eru þeir allir undir þremur að stærð. Virknin eftir miðnætti hefur aðallega verið við Sundhnúkagígaröðina – NA af Þorbirni og einnig vestan Eldvarpa.

Skjálftavirknin hefur því minnkað talsvert frá því í gærmorgun, en þróun virkninnar bæði hvað varðar stærð, fjölda og staðsetningu jarðskjálfta er sambærileg þeirri þróun sem sést hefur áður í tengslum við kvikusöfnun í nágrenni Þorbjarnar.

Af nýjustu aflögunargögnum að dæma heldur landris á svæðinu áfram. Talið er að landrisið sé vegna kvikusöfnunar á um 4-5 km dýpi NV af Þorbirni. Á meðan að sú kvikusöfnum heldur áfram má gera ráð fyrir skjálftavirkni vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Grjóthrun getur orðið í kjölfar skjálfta, því skal fara með varúð við brattar hlíðar.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og funda með Almannavörnum um stöðu mála. Eins og áður hefur komið fram þá er horft sérstaklega til þess hvort að skjálftavirkni fari grynnkandi sem væri merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Samhliða því ætti að mælast skyndileg þensla á yfirborði á GPS mælum ásamt vaxandi óróa sem eru afar tíðir og litlir skjálftar. Engir skýr merki sjást um slíkt en atburðarrásin getur breyst með litlum fyrirvara.

Virkni_04112023

Jarðskjálftar (hringir) yfir stærð M1,5 frá miðnætti þann 3. nóvember til kl. 10:45 þann 4. nóvember. Litakvarðinn til vinstri sýnir hvenær á tímabilinu skjálftarnir urðu og stærð hringjanna sýnir afstæðan mun á skjálftastærð. Staðsetningar skjálftamælistöðva (þríhyrningar) og aflögunarmælistöðva (GPS, kassar) eru einnig sýndar.

Skjálftar í gær viðbrögð við spennu sem kvikusöfnun veldur

„Á svæðinu við Þorbjörn, vestan og austan hans og í raun meðfram flekaskilunum öllum, liggja sprungur sem stefna í suður-norður og tengjast flekaskilunum. Þær geta síðan hrokkið vegna álags frá kvikuvirkni og slíkt höfum við séð allt frá upphafi atburðarrásarinnar í Fagradalsfjalli 2021. Stærri skjálftarnir í gær við Þorbjörn urðu á slíkum sprungum og við þá spennulosun getur álagið færst yfir á aðrar nærliggjandi sprungur“, segir Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands. „Það er sú þróun sem við virðumst vera að sjá núna varðandi skjálftavirknina í gær og í nótt. Skjálftarnir austan og vestan við kvikuinnskotið hjá Þorbirni er það sem við höfum kallað gikkskjálfta og eru viðbrögð við þeirri spennu sem kvikusöfnunin veldur“, segir Benedikt.


Uppfært 3. nóvembere kl: 20:00

Um 450 skjálftar hafa mælst á svæðinu í kringum Þorbjörn frá kl. 15 í dag. Virknin er ennþá þónokkur, en skjálftarnir eru heldur minni en fyrr í dag.

Nýjustu GPS gögn sýna enga hröðun á landrisi í kjölfar skjálftavirkninnar fyrr í dag. Gervihnattagögn sýna heldur engar skýrar breytingar sem benda til þess að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs. Bæði GPS gögn og gervitunglamyndir staðfesta þó að kvika haldi áfram að flæða í innskotið sem myndast hefur undir svæðinu norðvestur af Þorbirni á um 4 km dýpi. Engin merki sjást heldur um gosóróa.

Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið kæmu fram í grynnkandi skjálftavirkni og vaxandi óróa sem eru afar tíðir og litlir skjálftar. Samhliða því ætti að mælast skyndileg aflögun (gliðnun) á yfirborði á GPS mælum.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið en farið var yfir stöðuna á fundi með Almannavörnum fyrr í kvöld. Minnt er á að gera má ráð fyrir að jarðskjálftavirkni haldi áfram norðvestan við Þorbjörn og skjálftar yfir 4 að stærð gætu fundist í byggð. Einnig má gera ráð fyrir gikkskjálftavirkni á næstu dögum vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Grjóthrun getur orðið í kjölfar öflugra skjálfta, því skal fara með varúð við brattar hlíðar.


Uppfært 3. nóvember kl: 15:00

Jarðskjálfti af stærð M4,3 varð á milli Þorbjarnar og Sýlingafells kl. 13:14 í dag og annar jarðskjálfti af stærð M3,5 varð kl. 14:01 í Þorbirni. Þessir jarðskjálftar eru taldir vera áframhaldandi viðbrögð jarðskorpunnar við spennu vegna kvikusöfnunar undir Þorbirni. Engar vísbendingar eru um gosóróa og enn er vel fylgst með svæðinu.

Uppfært 3. nóvember kl: 13:50

Samkvæmt þeim gögnum sem voru tekin saman klukkan 11:00 í morgun sést að landrisið með miðju norðvestan við Þorbjörn heldur áfram. Þenslan er af völdum kvikuinnskots á um 4 km dýpi. Skjálftavirkni heldur áfram á svæðinu af völdum spennubreytinga í skorpunni sem innskotið veldur. Skjálftahrinan var ákafari eftir miðnætti og til morguns en frá miðnætti hafa um 1000 jarðskjálftar mælst á svæðinu, þar af tólf yfir M3,0 að stærð og tveir yfir M4,0 að stærð. Stærsti skjálftinn mældist kl. 08:06 og var M4,3 að stærð. Stærstu skjálftarnir í nótt virðast raða sér í norður-suður stefnu vestan Þorbjarnar. Slíkar sprungur eru þekktar á svæðinu en þær safna spennu sem tengist landreki og geta hrokkið vegna spennu frá innskotum.

Engin skýr merki eru að svo stöddu um að kvika sé að færast nær yfirborði. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið kæmu fram í grynnkandi skjálftavirkni og vaxandi óróa sem eru afar tíðir og litlir skjálftar. Samhliða því ætti að mælast skyndileg aflögun (gliðnun) á yfirborði á GPS mælum. Vel er fylgst með þróun mála þar sem atburðarrásin getur breyst með litlum fyrirvara.

Líkanreikningar sýna að innskotið er staðsett norðvestan Þorbjarnar eins og myndin sýnir og er landris af og skjálftavirkni af völdum þess fremur víðfemt eins og sést hefur á gervihnattamyndum. Mesta skjálftavirknin undanfarið hefur þó verið yfir innskotinu sjálfu. Skjálftarnir sem mælast við Eldvörp og austan Grindavíkurvegar eru merki um spennulosun vegna kvikuinnskotsins en eru ekki skýr merki um kvikuhreyfingar á þeim svæðum.

Ragnar-heidar-3-nov

Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.

Á myndinni er áætluð miðja kvikuinnskots skv. líkanreikningum út frá GPS og gervihnattamyndum ásamt skjálftavirkni frá 2. nóvember kl. 20 til 3. nóvember kl. 12 stærri en M1,0 að stærð. Líkanið gerir ráð fyrir kassalaga innskoti og er lengd og breidd þess háð mestri óvissu. Líkanið er sífellt uppfært með nýjum og fleiri gögnum og stærð innskotsins og lögum getur tekið talsverðum breytingum og er það til mælikvarði um óvissu. 


Uppfært 2. nóvember kl. 13:00

GPS gögn frá síðasta sólarhring benda til þess að landris haldi áfram á svipuðum hraða á svæðinu norðvestan við Þorbjörn. Jarðskjálftavirkni hefur verið nokkuð stöðug en í gær mældust um 800 jarðskjálftar á svæðinu í kringum Þorbjörn og var stærsti skjálftinn M3,7 að stærð kl. 00:56. Frá miðnætti í dag hafa um 400 jarðskjálftar mælst á svæðinu, sá stærsti 2,8 að stærð kl. 9:51.

Ítarlegri greining á nýlegum gervitungla- og GPS-gögnum staðfesta að kvikuinnskot er að myndast á 4-5 km dýpi undir svæðinu norðvestan við Þorbjörn.

Minnt er á að gera má ráð fyrir að jarðskjálftavirkni haldi áfram norðvestan við Þorbjörn og skjálftar yfir 4 að stærð gætu fundist í byggð. Einnig má gera ráð fyrir gikkskjálftavirkni á næstu dögum vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Grjóthrun getur orðið í kjölfar öflugra skjálfta, því skal fara með varúð við brattar hlíðar.

2-nov

Yfirfarnir jarðskjálftar frá miðnætti 1. nóvember til hádegis 2. nóvember.

Uppfært 1. nóvember kl. 12:20

Nýjasta gervitunglamynd síðan í gærkvöldi (31. október), sýnir 5-6 cm aflögun á 12 daga tímabili með miðju norðvestan við Þorbjörn. Sama aflögunarmerki sést á GPS mælingum á svæðinu og nýjustu GPS-mælingar frá því í morgun sýna að hraði aflögunarinnar er svipaður síðustu daga. 

Þegar jarðskjálfta-, aflögunar- og gervitunglagögn eru túlkuð saman er ályktað að kvikuinnskot sé til staðar á um 4 km dýpi norðvestan við Þorbjörn. Staðsetning kvikunnar er óbreytt frá því í gær þegar vart var við kvikuhreyfingar á svæðinu. Þá um morguninn hófst ör skjálftavirkni sem var merki um kvikuhlaup og stóð það yfir í um 2 klukkustundir. Nýjustu gögn gefa ekki til kynna að kvika sé að brjóta sér leið grynnra í jarðskorpunni en staðan getur hinsvegar breyst hratt.


Nýjasta gervitunglamynd síðan í gærkvöldi (31. október), sýnir 5-6 sm aflögun á 12 daga tímabili með miðju norðvestan við Þorbjörn.

Áframhaldandi skjálftavirkni á Reykjanesskaga

Frá því á miðnætti hafa hátt í 500 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga, flestir þeirra nærri Eldvörpum um 3 km vestan við Þorbjörn. Stærsti skjálftinn var M3,7 að stærð kl. 00:56. Gera má ráð fyrir að jarðskjálftavirkni haldi áfram norðvestan við Þorbjörn og skjálftar yfir M4,0 að stærð gætu fundist í byggð. Einnig má gera ráð fyrir gikkskjálftavirkni á næstu dögum vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Það er líkleg útskýring á jarðskjálftavirkni nærri Eldvörpum í dag, 1. nóvember.

Mikilvægt er að benda á það sem áður hefur komið fram að atburðarrásin á svæðinu við Þorbjörn er hluti af margþættu ferli kvikuhreyfinga í jarðskorpunni á Reykjanesskaga. Þessi ferli hafa áhrif á stóru svæði, þar á meðal Fagradalsfjall (þar sem þensla heldur áfram - síðan í ágúst 2023) og getur sú kvikusöfnun einnig valdið gikkskjálftum.


Uppfært 31. október kl. 13:30

Í morgun um kl. 8.40 hófst jarðskjálftahrina við Þorbjörn sem stóð yfir í tæpa 2 klukkutíma og sýndi öra virkni. Stærsti skjálftinn í hrinunni mældist M3,7.  Miðja hrinunnar var rétt austan við miðju landrissins sem mælst hefur. Dýpt skjálftanna var á bilinu 5 til 1.5 km. Engar vísbendingar eru um gosóróa en hrinan er skýrt merki um kvikuhlaup, þ.e.a.s. að kvika sé á hreyfingu á þessu dýpi. GPS mælingar styðja þá túlkun að um kvikuhlaup hafi verið að ræða, en þó hefur hægt á landrisinu sem hófst fyrir um fjórum dögum síðan. Fundur var með Almannavörnum og hagsmunaaðilum á Reykjanesskaga í morgun þar sem farið var fyrir nýjustu mælingar og mögulegar sviðsmyndir og viðbrögð við þeirri atburðarás sem nú er í gangi.

Náið fylgst með þróun virkninnar

Veðurstofan fylgist grannt með þróun mála og er horft til þess hvort að smáskjálftavirkni aukist nær yfirborði sem væru skýr merki um að kvika sé að brjóta sér leið í gegnum jarðskorpuna. Miðað við mælingar á hádegi eru engin skýr merki um slíkt. Staðan getur hinsvegar breyst hratt og ekki hægt að útiloka þá sviðsmynd að kvika nái að brjóta sér leið upp í jarðskorpuna á svæðinu norðvestur af Þorbirni. Það er mikilvægt að benda á að algengast er að kvikuhreyfingar sambærilegar þeim sem sjást nú fjari út og endi ekki með eldgosi. En áður hefur verið bent á að sprunguhreyfingar vegna gikkskjálfta nærri og austan Svartsengis gætu mögulega gert kvikunni auðveldara að færast grynnra í skorpunni.

THob_Skjalftavirkni_31102023

Yfirfarnir jarðskjálftar frá miðnætti í dag

Uppfært 30. október kl: 11:30

Gögn úr Sentinel gervitungli hafa ekki borist ennþá, en samfelldar GPS mælingar sýna áframhaldandi merki um landris á svæðinu norðvestan við Þorbjörn. Hraði þenslunnar hefur þó minnkað örlítið miðað við í upphafi. Fyrstu niðurstöður líkanreikninga benda til að kvika sé að safnast fyrir á um 4 km dýpi.   

Síðasta sólahringinn hafa mælst um 1300 jarðskjálftar á Reykjanesskaga. Meirihluti skjálftavirkninnar er á um 2-4 km dýpi. Stærsti skjálfti síðasta sólarhring var M2,7 að stærð kl. 11:40 í gær, 29. október.

Vísindamenn Veðurstofunnar munu fara á svæðið nærri Svartsengi og Þorbirni í dag til að framkvæma gasmælingar. Regluleg samskipti eru á milli Veðurstofunnar, HS-Orku og Almannavarna á meðan þessari virkni stendur.


THOB_8hrap-30-okt

Hér má sjá 8 klst lausnir fyrir cGNSS stöðina THOB - Þorbjörn. Nýjasti mælipunktur er síðan kl. 8:00 í morgun.

Uppfært 29. október kl: 14:00

Nýjustu gögn frá  GPS mælaneti Veðurstofunnar umhverfis Þorbjörn og Svartsengi, staðfesta að landris sem hófst 27. oktober heldur áfram. Eins og kom fram í uppfærslu fréttar í gærdag, er þenslan hraðari en í fyrri atburðum á svipuðu svæði 2020 og 2022. Heldur hefur dregið úr jarðskjálftavirkni norðan Grindavíkur á síðastliðnum sólarhring og ekki eru sjáanlegar breytingar á dýpi skjálfta. Rétt er að vara við því að á meðan  að landrisi stendur yfir, getur jarðskjálftavirkni tekið sig upp aftur, með jarðskjálftum sem fólk finnur vel fyrir.

Búist er við nýjum gervihnattagögnum seinna í dag og þá verður reynt að vinna úr þeim gögnum eins fljótt og auðið er. Gagnaúrvinnsla bylgjuvíxlmynda mun hjálpa til við að greina betur umfang virkninnar undanfarna 12 daga. Á morgun er búist við að niðurstaða þeirrar greiningar liggi fyrir.

Margþætt ferli kvikuhreyfinga stendur yfir á Reykjanesskaga, túlkun á aflögunar- og skjálftagögnum benda til þess að kvikusöfnun á dýpi sé á nokkrum afmörkuðum svæðunum sem hafa viðtæk áhrif á skaganum öllum.

THOB_8hrap-29-okt

Hér má sjá 8 klst lausnir fyrir cGNSS stöðina THOB - Þorbjörn. Nýjasti mælipunktur er síðan kl. 8:00 í morgun, 29. október.

Uppfært 28. október kl: 13:30

Nýjustu GPS gögn og InSAR mynd unnin úr gervitunglagögnum frá því síðdegis í gær sýna skýr merki um landris nærri Svartsengi. Landris virðist hafa hafist í gær, 27. október og bendir til aukins þrýstings, líklegast vegna kvikuinnskots á dýpi. Miðja landrissins er um 1,5 km norðvestan við Þorbjörn, nærri Bláa lóninu. Árin 2020 og 2022, mældist einnig landris á sama svæði. Þetta er í fimmta sinn síðan 2020 sem landris mælist þar. Fyrsta mat á hraða landrissins sem er í gangi núna er að það sé hraðara en áður. Að svo stöddu er ekki merki um að kvika færist nær yfirborði, aðstæður geta hins vegar breyst á skömmum tíma. Sprunguhreyfingar vegna gikkskjálfta nærri og austan Svartsengis gætu mögulega gert kvikunni kleift að færast grynnra í skorpunni.

Síðustu aflögunargögn frá Reykjanesskaga sýna að margþætt ferli kvikuhreyfinga stendur yfir í jarðskorpunni. Þessi ferli hafa áhrif á stóru svæði, þar á meðal Fagradalsfjall (þar sem þensla heldur áfram - síðan í ágúst 2023), svæði austan Festarfjalls (þar sem aflögun virðist hafa stöðvast) og á síðasta sólarhring sýna gögn landris nærri Svartsengi.

Yfir 7000 jarðskjálftar hafa mælst í jarðskjálftahrinu sem hófst 25. október norðan við Grindavík. Hrinan stendur enn yfir þótt aðeins hafi dregið úr virkninni. Þrátt fyrir það eru enn líkur á að jarðskjálftar finnist á svæðinu.

Líkanareikningar verða gerðir í dag til að reyna að áætla dýpi og stærð innskotsins norðvestan við Þorbjörn. Ný gervitunglagögn verða aðgengileg annað kvöld og túlkun á þeim á fyrripart mánudags (30. október). Þau gögn ættu að gefa aukna innsýn í kvikuhreyfingar og aflögun á Reykjanesskaga.

Insar-28-okt-nr-2

Aflögun frá 26.okt kl 05:21 UTC til 28.okt kl 05:21 UTC. Gervitunglagögn fengin í samstarfi við ICEYE (https://www.iceye.com/).

Uppfært 27. október kl 14:00

Jarðskjálftahrinan norðan við Grindavík heldur áfram og hafa um 1000 jarðskjálftar mælst frá miðnætti. Frá því að hrinan hófst þann 24. október hafa um 5800 skjálftar mælst. Skjálfti af stærð M4,0 varð kl. 04:02 í nótt um 2 km norðan við Grindavík. Skjálftavirknin er talin vera afleiðing spennubreytinga vegna aflögunar á Reykjanesskaga síðustu ár. 

Nýjustu cGPS gögnin staðfesta aflögun sem mældist í gær austan Festarfjalls. Samtals lárétt hreyfing sem  mælst hefur á FEFC stöðinni nær núna 2 cm. Í dag mælist þenslan líka á annarri stöð, Selatöngum, austan við FEFC stöðina. InSAR mynd unnin úr gervitunglagögnum frá 26-27 okt. sýnir engin merki um aflögun á þessu svæði, þó hreyfing á cGPS stöðvum á sama tímabili var um 1 cm, sem er líklega of litil til að sjást á gervitunglamynd. cGPS stöðvar í kringum og norðan við Gindavík sýna ekki markverðar breytingar.

Gps-stod-27-okt

Færslur á GPS stöðinni FEFC austan Festarfjalls. Bláa lóðrétta línan markar upphaf kvikuinnskots í júlí 2023 og rauða línan upphaf eldgoss 10. júlí 2023. Nýjustu gagnapunktar sýna færslur upp og í suðaustur.

Kort-27-okt

GPS stöðvar á Reykjanesskaga. Stöðvarnar Festarfjall (FEFC) og Selatangar (STAN), austan Festarfjalls hafa sýnt færslur

Uppfært: 26. október kl 15:00

Jarðskjálftahrinan sem hófst 24. október heldur áfram. Tæplega 4000 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaganum og þar af 14 yfir M3,0 að stærð. Mesta virknin hefur verið frá Stóra-Skógsfelli í norðaustri að Eldvörpum. Skjálftarnir eru á 2-6 km dýpi. Stærsti skjálftinn mældist 25. október kl 8:18 og var M4,5 að stærð. Vísindafólk Veðurstofunnar telur að skjálftarnir séu gikkskjálftar vegna áframhaldandi þenslu á töluverðu dýpi undir Fagradalsfjalli sem er í gangi síðan goslok sumarið 2023. Það er að segja afleiðing spennubreytinga vegna þenslu við Fagradalsfjall. Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni næstu daga. Til lengri tíma gæti áframhaldandi söfnun kviku undir Fagradalsfjalli valdið frekari skjálftavirkni á Reykjanesskaga.

Aflögunarmælingar við Svartsengi og Grindavík sýna engar breytingar í tengslum við jarðskjálftahrinuna norðan við Grindavík. GPS mælingar á stöðinni FEFC, austan við Festarfjall, sýna færslu til suðausturs. Þessar mælingar gætu bent til þess að kvika sé til staðar á dýpi suðvestur af kvikuinnskotum sem myndast hafa í norðaustur-suðvestur stefnu undir Fagradalsfjalli síðan 2021. Starfsfólk Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið mjög náið og túlka nýjustu gögn þegar þau berast. Beðið er eftir InSAR gervitunglagögnum sem ættu að gefa heildstæðari mynd af aflögun á svæðinu.

Nytt-kort-26102023

Yfirfarnir gikkskálftar frá 20.-26. október.

Skrifað: 25. október 

Öflug jarðskjálftahrina hófst í nótt skammt norðan við Grindavík. Yfir eitt þúsund jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu frá miðnætti og heldur virknin enn áfram. Tveir stærstu skjálftarnir voru 3,9 að stærð kl. 5:35 og 4,5 að stærð kl. 8:18. Báðir skjálftarnir urðu á um 5 km dýpi. Nýjustu aflögunargögn frá nokkrum mælistöðvum nærri Grindavík sýna ekki markverðar breytingar tengdar þessarri skjálftahrinu. Miðað við aðgengileg gögn er líklegast að  skjálftavirknin sé afleiðing spennubreytinga vegna aflögunar á Reykjanesskaga síðustu ár.  Óvíst er að um sé að ræða kvikuinnskot undir svæðinu við Þorbjörn nærri Grindavík, en staðan getur breyst hvenær sem er og virknin þróast með skömmum fyrirvara, frá klukkustundum til daga. En eins og áður hefur verið fjallað um er landris í gangi á svæðinu í kringum Fagradalsfjall, sjá nýlega frétt.

Starfsfólk Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið mjög náið og túlka nýjustu gögn þegar þau berast. 

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar

Gps-mynd-fyrir-frett
Hér má sjá 8 klst lausnir fyrir cGNSS stöðina THOB - Þorbjörn. Nýjasti mælipunktur er síðan kl. 8:00 í morgun.Mynd-3

Yfirfarnir jarðskjálftar frá miðnætti til hádegis 25. október.

Sjalfvirkt

Sjálfvirkar staðsetningar jarðskjálfta frá miðnætti til hádegis 25. október.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica