Laus störf

Skriðusérfræðingur á Veðurstofu Íslands

Veðurstofa Íslands auglýsir eftir skriðusérfræðingi í fullt starf á Úrvinnslu-og rannsóknarsviði. Á sviðinu starfa um 50 manns við ýmis spennandi þróunar- og rannsóknarverkefni er tengjast veður- og loftslagsrannsóknum, ofanflóðahættumati, jökla-, vatna- og haffræði, jarðskorpuhreyfingum og eldgosum. Veðurstofa Íslands er sömuleiðis leiðandi stofnun í vinnu við áhættumat í tengslum við náttúruvá og er vinna við áhættumat tengd flóðum, ofanflóðum og eldgosum sífellt stærri hluti af verkefnum sviðsins.

Skriðuföll á síðustu misserum hafa undirstrikað hversu umfangsmikil og hættuleg þessi náttúruvá er á Íslandi. Umhverfisbreytingar tengdar hlýnandi loftslagi geta aukið skriðutíðni en einnig kallar breytt landnýting og aukinn fjöldi ferðamanna á fjölmennum ferðamannastöðum á stóraukna kortlagningu skriðuhættu og vöktun á óstöðugum hlíðum. Nýjar aðferðir í mælitækni og fjarkönnun hafa verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum á þessu sviði og eru mörg tækifæri til frekari þróunar.

Starf skriðusérfræðings fellur undir fagsvið ofanflóða en samtals koma um 15 einstaklingar að vinnu við ofanflóð á stofnuninni og eru flestir staðsettir á Snjóflóðasetri Veðurstofunnar á Ísafirði. Saman vinna þau að hættumati, vöktun og rannsóknar- og þróunarverkefnum tengdum ofanflóðum, þ.m.t. skriðumálum.

Helstu verkefni

Gagnasöfnun, úrvinnsla og kortlagning er tengist skriðuvá.

Sérfræðivinna við skriðuhættumat og miðlun afurða til eftirlits á skriðuvá.

Líkanreikningar og jarðtæknilegir útreikningar er tengjast skriðuföllum.

Þátttaka í skriðuvakt og miðlun upplýsinga er tengjast atburðum.

Mótun og þátttaka í rannsókna- og þróunarverkefnum tengdum skriðuvöktun og áhættumati.

Verkefnisstjórn tilgreindra verkefna eftir atvikum.

 
Menntunar- og hæfniskröfur

 • Háskólapróf og framhaldsmenntun á sviði raunvísinda og/eða verkfræði
 • Farsæl reynsla og þekking á skriðumálum og -rannsóknum
 • Þekking á jarðtækni
 • Farsæl reynsla í líkangerð
 • Góð kunnátta og reynsla í framsetningu gagna í landupplýsingakerfum (LUK)
 • Lipurð og hæfni í mannlegum samskiptum
 • Hæfni til að vinna sjálfstætt sem og í teymisvinnu
 • Færni og geta til að miðla niðurstöðum innan teymis og út á við
 • Skipulögð og fagleg vinnubrögð í starfi
 • Góð tölvukunnátta nauðsynleg, þ.á m. forritunarkunnátta
 • Góð tungumálafærni í íslensku og/eða ensku nauðsynleg
 • Farsæl reynsla í verkefnastjórnun er kostur

 

Gildi Veðurstofunnar eru þekking, áreiðanleiki, framsækni og samvinna. Ráðningar hjá stofnuninni taka mið af þessum gildum.

Nánari upplýsingar um starfið veita Jórunn Harðardóttir, framkvæmdastjóri (jorunn@vedur.is), Magni Hreinn Jónsson, hópstjóri ofanflóða (magni@vedur.is) og Borgar Ævar Axelsson, mannauðsstjóri (borgar@vedur.is), í síma 522 6000.

Um er að ræða fullt starf og taka laun mið af kjarasamningum ríkisins og viðeigandi stéttarfélags. Æskileg staðsetning skriðufræðingsins er á Snjóflóðasetri Veðurstofu Íslands á Ísafirði.

 

Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til og með 6. apríl nk. Umsækjendur eru vinsamlega beðnir um að sækja um starfið á www.starfatorg.is

 

Hlutverk Veðurstofu Íslands er að stuðla að bættu öryggi almennings, eigna og innviða gagnvart öflum náttúrunnar, jafnframt því að styðja sjálfbæra nýtingu náttúrunnar og samfélagslega hagkvæmni. Því hlutverki sinnir starfsfólk Veðurstofunnar með vöktun lofts, láðs og lagar, byggðri á öflun, varðveislu og greiningu gagna, rannsóknum, þróun og miðlun upplýsinga.

Veðurstofa Íslands er opinber stofnun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Á Veðurstofunni starfa um 140 manns með fjölbreytta menntun og starfsreynslu sem spannar mörg fræðasvið. Auk þess starfa um 75 manns við athugana-og eftirlitsstörf víðsvegar um landið.

Nánari upplýsingar um stofnunina má finna á heimasíðu hennar www.vedur.is

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica