Fréttir

Tíðarfar í júní

Stutt yfirlit

2.7.2025


Kalt var um allt land í mánuðinum og loftþrýstingur lágur. Víða var meðalhiti júnímánaðar lægri en í maí, sem var óvenjulega hlýr. Það var mjög úrkomusamt á Norður- og Norðausturlandi og sólskinsstundir voru fáar miðað við árstíma á Akureyri. Aftur á móti var tiltölulega þurrt á vestanverðu landinu. Norðanhret gekk yfir landið 3. og 4. dag mánaðarins og ollu þá vindur og sér í lagi úrkoma töluverðum vandræðum.

Hiti

Að tiltölu var kalt um allt land í júní. Mánaðarmeðalhitinn var 8,8 stig í Reykjavík. Það er 1,0 stigi undir meðallagi júnímánaða árin 1991 til 2020 og 0,8 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar. Á Akureyri var meðalhitinn 8,1 stig, eða 1,5 stigi undir meðallagi 1991 til 2020 og 2,0 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn mældist 8,5 stig í Stykkishólmi og 8,7 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sá í eftirfarandi töflu.

Tafla 1: Meðalhiti og vik (°C) í júní 2025.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2015-2024 °C
Reykjavík 8,8 -1,0 112 155 -0,8
Stykkishólmur 8,5 -0,4 79 180 -0,5
Bolungarvík 7,1 -1,1 96 128 -1,2
Grímsey 6,1 -0,5 73 til 76 152 -0,9
Akureyri 8,1 -1,5 113 145 -2,0
Egilsstaðir 7,8 -1,1 56 71 -1,7
Dalatangi 6,4 -0,4 48 87 -0,8
Teigarhorn 7,5 -0,3 62 153 -0,8
Höfn í Hornaf. 8,7


-0,6
Stórhöfði 8,4 -0,3 79 149 0,0
Hveravellir 5,0 -1,2 39 61 -1,1
Árnes 9,2 -0,8 79 til 80 146 -0,6

Hiti var undir meðallagi júnímánaðar á nánast öllum veðurstöðvum landsins (sjá mynd 1). Að tiltölu var kaldast inn til landsins á Norðausturlandi, en hlýjast við suðurströndina. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,1 stig á Vatnsskarðshólum en neikvætt hitavik var mest -2,2 stig á Möðrudal.

Víða var meðalhiti júnímánaðar lægri en í maí, sem var óvenjulega hlýr. Munurinn var mestur á milli mánaða á veðurstöðvum inn til landsins á Norðaustur- og Austurlandi þar sem hlýindin voru einna mest í maí. Þar var meðalhiti júnímánaðar allt að þremur stigum lægri en í maí. Júní náði að vera hlýrri en maí allra syðst á landinu og á sunnanverðum Vestfjörðum.



Mynd 1: Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í júní miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Meðalhiti júnímánaðar mældist hæstur 10,2 stig við Skarðsfjöruvita en lægstur 1,4 stig á Gagnheiði. Lægsti meðalhiti mánaðarins á láglendi mældist 5,1 stig á Fonti á Langanesi.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 21,7 stig á Hjarðarlandi þ. 14. Lægstur mældist hitinn -6,4 stig á Þverfjalli þ. 2. Í byggð mældist lægsti hiti mánaðarins -4,8 stig á Þingvöllum þ. 10.

Á mynd 2 má sjá landsmeðalhita hvers dags það sem af er ári 2025, sem vik frá meðalhita undanfarinna tíu ára. Þar má sjá að hiti var talsvert undir meðallagi fyrri hluta og í lok mánaðar, en nær meðallagi þess á milli.



Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers dags það sem af er ári 2025, miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Úrkoma

Júní var mjög úrkomusamur á norðan- og  norðaustanverðu landinu.  Úrkoman á veðurstöðvum á þessu svæði var langt yfir því sem vanalegt er í júnímánuði. Stór hluti mánaðarúrkomunnar féll dagana 3. og 4. í norðanhvassviðri sem gekk yfir landið. Þá var sérlega úrkomusamt á Tröllaskaga og Flateyjarskaga, þar sem úrkoman fór vel yfir 100 mm þessa daga, mest á Ólafsfirði. Töluverðir vatnavextir fylgdu þessu veðri og eitthvað var um skriður og minniháttar snjóflóð.

Mánuðurinn var aftur á móti tiltölulega þurr um vestanvert landið.

Úrkoma í Reykjavík mældist 37,8 mm sem er 87% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Júní var mjög úrkomusamur á Akureyri. Þar mældist úrkoman 65,3 mm sem er meira en þreföld meðalúrkoma áranna 1991 til 2020.  Júníúrkoman hefur aðeins tvisvar sinnum mælst meiri á Akureyri, en það var árin 1972 (112,3 mm) og í 1962 (72,5 mm).  Í Stykkishólmi mældist úrkoman aðeins 12,6 mm sem er um 40% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 10 sem er 1 fleiri en venjulega. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 11 daga sem er 7 fleiri en í meðalári. 

Snjór

Talsvert snjóaði til fjalla í byrjun mánaðar í norðanhvassviðrinu sem gekk yfir landið.  Úrkoman var að mestu í formi rigningar á láglendi, en það varð þó alhvítt um tíma á nokkrum stöðvum eins á Vöglum í Vaglaskógi þar sem snjódýptin mældist 25 cm að morgni þess 3., Þverá í Dalsmynni (7 cm) og Sökku í Svarfaðardal (7 cm). Snjór og bylur ollu þónokkrum vandræðum fyrir bændur og ferðafólk, það þurfti t.a.m. að koma sauðfé til bjargar sem fennt hafði í kaf. Þetta hret var þó ekki nærri því eins slæmt og júníhretið í fyrra. 

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 203,1 sem er 13,6 stundum yfir meðallagi. Á Akureyri mældust 131,6 sólskinsstundir. Það er 58,3 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,2 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Hvassast var dagana 3. og 4. (norðanátt). Nokkuð var um foktjón í hretinu og á nokkrum sjálfvirkum veðurstöðvum á Vestfjörðum, Suður- og Suðvesturlandi mældist mesta vindhviða sem mælst hefur í júnímánuði á þeim stöðvum.

Loftþrýstingur

Loftþrýstingur var lágur um allt land í mánuðinum. Meðalloftþrýstingur mánaðarins mældist 1003,6 hPa í Reykjavík, eða 9,0 hPa undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020. Aðeins níu sinnum hefur meðalloftþrýstingur mælst lægri í júní í Reykjavík á 205 árum. Það gerðist síðast árið 1994.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1020,5 hPa á Fonti á Langanesi þ. 13. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 975,2 hPa í Fagurhólsmýri þ. 3.

Fyrstu sex mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sex mánuði ársins mældist 4,9 stig sem er 1,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti mánaðanna sex raðast í 5. hlýjasta sæti á lista 155 ára. Á Akureyri var meðalhiti janúar til júní 4,0 stig sem er einnig 1,1 stigi yfir meðallagi. Þar raðast meðalhiti fyrstu sex mánaða ársins í 6. hlýjasta sæti á lista 145 ára.

Heildarúrkoma í Reykjavík mældist 470,8 mm frá janúar til júní, eða um 14% umfram  meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 322,8 mm sem er um 40% umfram meðallag.

Skjöl fyrir júní

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júní 2025 (textaskjal).

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica