Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit 35. viku 28. ágúst – 3. september 2023

Tæplega 500 skjálftar mældust á landinu í vikunni sem leið. Það er fremur rólegt m.v. virkni síðustu vikna, og má þar að einhverjum hluta um kenna fyrstu haustlægðinni sem gekk yfir aðfaranótt laugardags. Jarðskjálftavirknin var vel dreifð um virkustu svæðin og má þar m.a. nefna Reykjanes, Mýrdalsjökul, vestanverðan Vatnajökul og Grímseyjarbrotabeltið.

Í vikunni hljóp einnig úr eystri Skaftárkatli sem hafði áhrif á virkni vikunnar og sást m.a. á óróapúlsum sem mældust í vestanverðum Vatnajökli og má tengja suðu í katlinum.

4 sjálftar mældust yfir 3 að stærð í vikunni, tveir M3.1 þann 1. sept , annar á Kolbeinseyjarhrygg og hinn á Reykjanestá, einn M3.7 í Mýrdalsjökli 29. ágúst og einn M3.9 í Bárðarbungu 3. sept.

Nánar má skoða skjálftavirkni hér: Skjálfta Lísa

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur.

230 skjálftar mældust samanlagt á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg, þar af var helst áberandi smáskjálftavirkni við Sundhnjúkagíga og skjálftavirkni við Reykjanestá auk nokkrar virkni við gosstöðvarnar og vestan megin Kleifarvatns.

Vesturgosbeltið og Hofsjökull


Í Henglinum mældust 9 skjálftar, allir smáir að stærð og dreifðir. 5 skjálftar mældust á því svæði, SA af Skjaldbreið þar sem viðvarandi skjálftavirkni hefur verið síðan í júní. Virkni þar hefur dvínað töluvert frá því sem mest var í júlí og ágúst. Tveir skjálftar mældust rétt sunnan við Hagavatn og aðrir tveir í vestan verðum Langjökli, þ.e. einn í Geitlandsjökli annar við Flosajökul. Þrír skjálftar mældust í Hofsjökli, þar af tveir í NV-verðum Hofsjökli.

Suðurlandsbrotabeltið


25 skjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu, dreift um svæðið, en þéttasta þó við austan við ósa Ölfusár.

Austurgosbeltið

Hekla

4 smáskjálftar mældust í Heklu í vikunni.

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæði.

27 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni, þar af 22 innan Kötluöskju. Stærsti skjálftinn var M3.7 en auk hans mældust 3 skjálftar milli 2 og 3 að stærð. Í Torfajökli mældust tveir skjálftar.

Vatnajökull.

Í Vatnajökli mældust alls 37 skjálftar, einn í Öræfajökli, þrír í Dyngjujökli og Kverkfjöllum og rest í vestanverðum Vatnajökli. Í Bárðarbungu mældust 16 skjálftar og þar stærsti skjálfti vikunnar á öllu landinu sem var M3.9 3. september. Í og við Grímsvötn mældust 4 skjálftar. Við Skaftárkatla og Hamarinn mældust 13 skjálftar. Leiða má líkur að þeir skjálftar séu flestir tengdir hlaupi úr Eystri Skaftárkatli sem hófst 28. ágúst og nái hámarki 30. ágúst. Einnig mældust nokkrir óróapúlsar í V-Vatnajökli á meðan hlaupinu stóð sem tengja má við suðu í katlinum.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Við Öskju mældust 25 skjálftar sem er svipað þeirri virkni sem hefur verið síðastliðna mánuði þar sem virknin hefur oftast verið á bilinu 15-30 skjálftar á viku. Líkt og venjulega var virknin mest austanmegin í öskjunni. 10 skjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl.

Krafla og Þeistareykir

4 skjálftar mældust við Kröflu og tveir við Bæjarfjall

Tjörnesbrotabeltið

Alls mældust tæplega 100 skjálftar á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni, þar af flestir á norður hluta Grímseyjarbrotabeltisins eða þriðjungur. Virkni var þó nokkuð víða og má nefna 20 skjálfta í Öxarfirði, 4 skjálfta í mynni Eyjafjarðar og um 10 skjálfta 15 km úti fyrir Flateyjarskaga. 5 skjálftar mældust úti á Kolbeinseyjahrygg.

Skjálftalisti viku 35








Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica