Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 23 5. júní til 11. júní 2023

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur 

Á Reykjanesskaga mældust rúmlega 190 jarðskjálftar sem er talsvert færri en í fyrri viku þegar 240 skjálftar mældust. Þéttasta virknin var í Borgarhrauni sunnan Fagradalsfjalls, í Móhálsadal austan Núpshlíðarháls, milli Stóra Hrúts og Keilis og í grennd við Krýsuvík. Nokkrir skjálftar mældust austan Kleifarvatns og við Reykjanestá. Fjórir skjálftar mældust austan í Brennisteinsfjöllum. Stærsti skjálftinn í vikunni mældist 2,5 að stærð þann 11. júní í Móhálsadal.

Á Reykjaneshrygg mældust rúmlega 30 skjálftar langflestir staðsettir við Reykjanestá en nokkrir úti á hrygg. Sá stærsti mældist 2,1 að stærð í lítilli hrinu við Eldey laugardaginn 10. júní.

Vesturgosbeltið

Þrír skjálftar mældust á vesturgosbeltinu. Einn í Þórisjökli og tveir sunnan Langjökuls. Einn skjálfti mældist í Hofsjökli. Á Hengilsvæðinu mældust rúmlega 20 skjálftar, felstir á þekktum skjálftasvæðum í grennd við Ölkelduháls og Húsmúla, sá stærsti 1,5 að stærð norðan Hveragerðis.

Suðurlandsbrotabeltið  

Á suðurlandsbrotabeltinu mældust tæplega 40 jarðskjálftar, örlítið færri en í fyrr viku. Virknin er dreifð en raðast að mestu á þekkt sprungusvæði, en þéttasta virknin var í Kaldárholtsmýri rétt austan Þjórsár í Holtum Þar mældist stærsti skjálftinn rúmlega 2 að stærð. Einnig var nokkur virkni austan Ölfusár rétt við ósa hennar en þar mældust tæplega 10 skjálftar. Fjórir skjálftar mældust í og við Heklu og nokkrir í Vatnafjöllum.

Austurgosbeltið 

Mýrdalsjökull
Um 80 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í vikunni sem er umtalsvert meira en í fyrri viku þegar einungis 12 skjálftar mældust. Voru langflestir þeirra staðsettir innan Kötluöskjunar, stærsti var 2,5 að stærð kl. 15:40 þann 10. júní. Einnig mældust um 20 skjálftar vestan Merkurjökuls í lítilli hrinu þann 8. júní og mældist stærsti þeirra 1,7 að stærð. Þarna hafa mældst skjálftar áður, t.d. í lok mars síðastliðnum.

Eyjafjallajökull

Þrír smáskjálftar mældust í Eyjafjallajökli í vikunni.

Vestmannaeyjar

Þrír skjálftar mældust vestan við Surtsey þann 6. júní og mældist sá stærri 3 að stærð. Skjálftar hafa mældst þarna áður en staðsetning skjálftamæla gæti haft áhrif á staðsetningu skjálftanna og erfitt að taka mark á dýpi.

Bárðarbunga
9 skjálftar mældust í Bárðarbungu í vikunni, allir nema einn voru innan öskjunnar, stærsti var 3,4 að stærð kl. 00:04 þann 5. júní. Var það jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Annar skjálfti yfir 3 að stærð mældist á svipuðum slóðum aðfaranótt 9. júní.

Einn skjálfti mældist norður af Grímsvötnum þann 7. júní af stærð 2,3 og fjórir skjálftar við Grímsfjall. Þrír skjálftar mældust í Öræfajökli.

Níu skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, mun færri en í fyrri viku og flestir skjálftarnir voru fremur litlir, en sá stærsti mældist tæplega 2 að stærð þann 10. júní. Skjálftarnir dreifðust víða um svæðið.

Norðurgosbeltið  

Tæplega 70 skjálftar mældust á Norðurgosbeltinu, mesta virknin var við Herðubreið en rúmlega 20 skjálftar mældiust við Öskju. Tiltölulega fáir skjálftar mældust annarsstaðar á gosbeltinu, tveir í Kröflu, þrír við Bæjarfjall og einn í Öxarfirði.

Tjörnesbrotabeltið 

Nokkur virkni var á Tjörnesbrotabeltinu en rúmlega 70 skjálftar mældust þar sem er mun færra en í fyrri viku þegar um 142 skjálftar mældust. Skjálftarnir dreifðust nokkuð jafnt um brotabeltið en mesta virknin var um 10 km austan við Grímsey þar sem tæplega 30 skjálftar mældust, stærsti skjálftinn var að stærð 2.8. Einnig var þétt virkni í Öxarfirði og á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu og í Eyjafjarðarál þar sem stærsti skjálfti vikunnar mældist 2,4 að stærð.

Önnur svæði

Einn skjálfti að stærð 1,6 mældist í Giljamúla fremst í Skagafirði, inn af Vesturdal. Annar skjálfti mældist úti á Reykjanesgrunni af stærð 2,4 þann 7. júní. 

  Skjálftalisti viku 23







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica