Hraunflæði

Hraunflæði

mynd/photo

Hraunflæði í Holuhraunsgosinu 2014. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Hraunflæði er kvikustraumur frá gosopi sem rennur eftir yfirborði. Hraunflæði getur verið með ýmsu móti og fer það eftir efnasamsetningu kvikunnar, hitastigi og flutningsleið upp í gegnum jarðskorpuna. Landslag hefur einnig áhrif á hraunflæði. Kvikan kemur yfirleitt upp með hraungosi eða kvikustrókum. Hraði kvikunnar fer eftir ýmsum þáttum þar á meðal:

  • Tegund kvikunnar og seigju hennar.
  • Bratta/halla yfirborðsins sem kvikan rennur á.
  • Hvort kvikan rennur í einni breiðu, þröngum farvegi eða kvikugöngum.
  • Flæði kviku sem kemur út um gosopið.

Basaltkvika getur flætt tugi kílómetra frá gosopi og jaðar kvikunnar getur farið allt að 10 km á klukkustund í bratta. Yfirleitt er flutningstíminn þó styttri, en ef brattinn er mikill, eða kvikan flæðir um þröngan farveg eða í kvikugöngum, getur hraðinn náð yfir 30 km/klst. Súrari kvika, sem er seigari en basaltkvika, flyst ekki jafn hratt eða ekki nema nokkra metra á klukkutíma. Dæmi um það er kísilrík kvika (rhýolít, líparít).

Hraunrennsli er yfirleitt ekki mannskæður atburður því hraun rennur sjaldan svo hratt að ekki sé hægt að forða sér undan því. Af hraunflæði stafar fremur hætta á tjóni á mannvirkjum. Hraunrennsli getur einnig lokað flóttaleiðum. Það er ógn við vatnsból vegna mengandi áhrifa og getur breytt aðrennsli vatns vegna breyttra farvega. Gott dæmi um tjón og yfirvofandi tjón af völdum hraunflæðis er gosið í Heimaey 1973, en þá fór hluti bæjarins undir hraun og litlu munaði að innsiglingin í höfnina lokaðist.

Mestu flæðibasalthraun á Íslandi á sögulegum tíma
Nafn Ártal Hrauntegund Þykkt (m) Lengd (km) Flatarmál (km2) Rúmmál (km3)
Frambruni 900 Hellu- og Klumpahraun 15 33 250 4
Eldgjárhraun 934-940 Klumpa- og helluhraun 23 72 792 18
Hallmundarhraun 950 Helluhraun 33 55 255 8
Skaftáreldahraun 1783-1784 Klumpa – og helluhraun 25 65 599 14

 hraun/lava

Gjástykki, hraun sem rann í Kröflugosi 1980. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica