Loftslagsrannsóknir á Veðurstofu Íslands
Á Veðurstofu Íslands hafa verið stundaðar rannsóknir á veðurfari, og breytingum á því, um áratuga skeið. Á Vatnamælingum Orkustofnunar átti sér einnig stað þróttmikið rannsóknarstarf á sviði loftslagsbreytinga og á áhrifum þeirra á vatnafar og jökla. Við sameiningu þessara tveggja stofnanna í nýja Veðurstofu Íslands fluttust því umfangsmiklar rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra í eina stofnun.
Síðustu ár hafa verkefni og rannsóknir á sviði loftslagsbreytinga orðið meira aðkallandi og umfangsmeiri.
Vöktun og rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra skapar mikilvægar forsendur við gerð sviðsmynda og aðgerða stjórnvalda og atvinnulífs til að bregðast við loftslagsbreytingum.
Myndband um loftslagsrannsóknir á Veðurstofu Íslands
Meðal rannsóknaverkefna, tengdum loftslagsbreytingum, sem unnið er að á Veðurstofunni eru eftirfarandi:
SVALI, samnorrænt jöklarannsóknarverkefni, sjá hér til hliðar.
Samnorrænt verkefni til að skoða áhrif loftslagsbreytinga á veðurfar og orkukerfi. Markmið verkefnisins er að meta áhrif loftslagsbreytinga á raforkukerfi á Norðurlöndum á næstu tveimur áratugum. Að verkefninu stendur fjölþjóðlegur hópur vísindamanna. Það er styrkt af Norræna orkusjóðnum.
LOKS - Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á orkukerfi og samgöngur
Íslenskt verkefni sem tengist CES. Beinist að áhrifum loftslagsbreytinga á næstu áratugum. Samstarfsverkefni nokkurra innlendra stofnanna og fyrirtækja. Styrkt af Orkustofnun, Landsvirkjun og Vegagerðinni.
Nordklim
Samstarfsverkefni veðurstofa á Norðurlöndum. Verkefnið hefur einkum beinst að gerð hágæða gagnagrunns sem nota má til að skoða loftslagsbreytingar á Norðurlöndum, og tölfræðilegri úrvinnslu gagnanna.
Ensembles er stórt evrópskt rannsóknarverkefni sem miðar að því að bæta þau líkön sem notuð eru til að spá fyrir um loftslagsbreytingar. Verkefnið er kostað af evrópska vísindasjóðnum. Starfsmenn Veðurstofu Íslands taka þátt í úrvinnslu á líkanspám og sannreyningu þeirra.
Rannsóknarverkefni sem beinist að loftslagsbreytingum á norðurslóðum og áhrifum þeirra á vatnafar. Verkefnið er fjölþjóðlegt og eru þáttakendur m.a. frá Norðurlöndunum, Bandaríkjunum, Kanada, Rússlandi og Japan. Verkefnið er unnið á vegum Heimskautaráðsins en þáttaka Norðurlandaþjóða er kostuð af Norrænu ráðherranefndinni.
SVALI sjá hér til hliðar.
Af eldri verkefnum má nefna:
Climate and Energy
Rannsóknarverkefni sem var fjármagnað af Norræna orkusjóðnum og fyrirtækjum innan norræna orkugeirans. Verkefnið var unnið á árunum 2003-2006, og beindist að áhrifum loftslagsbreytinga á endurnýjanlega orkugjafa á Norðurlöndum.
Veður og Orka
Þetta verkefni var systurverkefni Climate and Energy. Rannsökuð voru veður- og vatnafarsgögn sem safnað hefur verið hér á landi á liðnum áratugum og kannað hvort í þeim gætti veðurfarsbreytinga af mannavöldum. Sett voru upp ný líkön af úrkomu- og vatnafari landsins, útbúin sviðsmynd af veðurfarsbreytingum hér á landi til loka 21. aldar og reiknaðar breytingar á jöklum og rennsli fallvatna á grundvelli sviðsmyndarinnar. Í lokaskýrslu VO verkefnisins er gerð ítarleg grein fyrir niðurstöðum (sjá heimild [11]). Verkefnið var kostað af Orkusjóðnum.
Auk þessara verkefna eru á Veðurstofu Íslands stundaðar loftslagsrannsóknir sem eru fjármagnaðar með beinu ríkisframlagi. Þessar rannsóknir ná til kortlagningar á veðurfari, úrvinnslu á spám loftslagslíkana auk rannsókna á veðurfarssögu. Vísindamenn á Veðurstofunni leiddu einnig starf Vísindanefndar um loftslagsbreytingar og hafa einnig tekið þátt í starfi Vísindanefndar SÞ (IPCC) - en þessar nefndir eru betur kynntar hér á vefnum.