Vísindanefnd um loftslagsbreytingar

Administrator 25.4.2018

Um nefndina

Vísindanefnd um loftslagsbreytingar var skipuð af umhverfisráðherra haustið 2007. Henni var falið að skila skýrslu um líkleg áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi á næstu áratugum.

Næsta vetur vann nefndin að samantekt á þeim rannsóknum sem farið höfðu fram á loftslagsbreytingum á Íslandi og áhrifum þeirra, og tók saman niðurstöður útreikninga loftslagslíkana fyrir Íslandi og nærliggjandi hafsvæði. Nefndin kallaði á sinn fund marga íslenska vísindamenn sem voru til ráðgjafar um sín fræðasvið.

Skýrsla nefndarinnar Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi var gefin út af umhverfisráðuneytinu í júlí 2008.

Skýrsla nefndarinnar

Skýrslan geymir samantekt um hnattrænar loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra. Kynntar eru helstu niðurstöður fjórðu úttektar milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC). Á Íslandi hefur hlýnað verulega á liðnum áratugum og er þessi hlýnun rædd með hliðsjón af veðurfarssögu Íslands. Ítarlega er rætt um merkjanleg áhrif þessarar hlýnunar á náttúrufar, bæði á landi og í sjó. Yfirgnæfandi líkur eru á því að áfram muni hlýna á Íslandi á 21. öldinni. Fjallað er um líklegt umfang loftslagsbreytinga á Íslandi og byggir sú umfjöllun að mestu á niðurstöðum sömu reiknilíkana og notuð voru í fjórðu úttekt IPCC. Loks er rætt um líklegar afleiðingar hlýnunar á náttúrufar og innviði þjóðfélagsins.

Skýrslan er aðgengileg á vefsvæði Veðurstofu Íslands í tveimur mismunandi útgáfum. Í prentútgáfunni (pdf 25 Mb) eru allar myndir í sömu upplausn og í útprentuðu eintaki skýrslunnar. Einnig má finna útgáfu með myndum í lægri upplausn (pdf 11 Mb).

 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica