Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit

Jarðskjálftavirkni - október 2025


Í október mældust um 2600 jarðskjálftar víðsvegar á landinu, flestir skjálftarnir mælast áfram milli Kleifarvatns og Trölladyngju á Reykjanesskaga eða um 950 talsins. Í Bárðarbungu varð stærsti skjálfti mánaðarins, M5.4 þann 29. október, og þar mældust alls um 200 skjálftar. Við Grjótárvatn hélt virkni áfram með um 250 skjálftum, þar af stærsti M3.5 sem fannst í nágrenninu. Einnig fannst skjálfti af stærð M2.3 vel á Selfossi sem varð í austanverðu Ingólfsfjalli þann 14. október. Í Mýrdalsjökli urðu um 200 skjálftar og öflug hrina þann 20. október með skjálfta upp í M4.2. Á öðrum svæðum, svo sem í Hengli, við Langjökul, Torfajökul og á Norðurgos- og Tjörnesbrotabeltinu, var virkni nokkuð í samræmi við fyrri mánuði.


Sjá frekar: Skjálftalísa

Reykjanesskagi 

Um 1100 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í október mánuði og svipar sá fjöldi til september mánuðs. Flestir skjálftanna, eða um 950 talsins, voru staðsettir í grennd við Kleifarvatn og þar urðu einnig stærstu skjálftar mánaðarins á skaganum. Áfram er jarðskjálftavirkni við Grindavík og Sundhnúksgígaröðina frekar lítil og mælast þar stöku smáskjálftar um eða rétt yfir M1.0 að stærð. Í Október mældust rúmlega 40 jarðskjálftar á eldsumbrotasvæðinu. Skammvinn smáskjálftahrina varð á Sundhnúksgígaröðinni þann 11. október þegar rúmlega 20 jarðskjálftar mældust. Þann 30. október mældust sex grunnir smáskjálftar við Bláa Lónið, síðar komst í ljós að skjálftarnir urðu vegna manngerðra sprenginga. Aðrir skjálftar á svæðinu voru staðsettir milli Hagafells og Grindavíkur. Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram og hafa um 15 milljónir rúmmetrar af kviku safnast frá síðasta eldgosi. 
Skjálftavirkni milli Kleifarvatns og Trölladyngju hélt áfram og mælist þar fjöldi smáskjálfta á hverjum degi. Þann 22. október urðu tveir skjálftar yfir M3 að stærð vestur af Kleifarvatni og fundust þeir í byggð, þeir voru M3,1 og M3,6 að stærð og mældust yfir 120 jarðskjálftar þann sólahring. Landsig heldur einnig áfram á svæðinu sem mælst hefur frá því í sumar og nemur nú um 55 mm á GPS stöðinni í Móhálsadal, vestan Kleifarvatns, síðan í byrjun júní. Þó hefur dregið úr hraða landsigsins síðustu vikur. Í Brennisteinsfjöllum urðu 35 jarðskjálftar og voru stærstu skjálftarnir M2.2 að stærð 23. og 27. október. Um hádegisbil þann 25. október varð skammvinn jarðskjálftahrina við Hrossahrygg suðaustur af Bláfjöllum þar sem að um 30 smáskjálftar mældust. Við Lambafellsháls mældust um 30 smáskjálftar 6. og 7. október. Önnur smáskjálftavirkni var dreifð víðsvegar um skagann. 

Bárðarbunga 

Töluverð virkni var í Bárðarbungu í október en þar mældust um 200 jarðskjálftar og jafnframt stærsti skjálfti á landinu, M5.4 að stærð kl. 16:46 þann 29. október. Að auki mældust þrír skjálftar yfir þremur að stærð. Flestir skjálftanna voru staðsettir í suðausturhluta öskjunnar. Lítil virkni var á djúpa svæðinu austan öskjunnar en þar mældust tíu smáskjálftar. 


Grjótárvatn 

Við Grjótárvatn heldur jarðskjálftavirkni áfram og varð fjöldi jarðskjálfta örlítið hærri en mánuðinn á undan eða um 250 talsins, miðað við um 200 í september. Þann 2. október um kl. 04 hófst jarðskjálftahrina á svæðinu og mældust um 60 jarðskjálftar, þar af fjórir yfir þremur að stærð og sá stærsti var M3,5. Í kjölfarið barst Veðurstofunni tilkynning frá Ketilstöðum í Hörðudal um að „stórt grjót hefði hreyfst til sem hafði legið lengi“ en einnig fannst stærsti skjálftinn víða á Mýrum og í Borgarfirði. Alls mældust um 100 skjálftar yfir M1,0 að stærð í október, sem er svipað og mánaðarmeðaltal frá ágúst 2024. Jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn hófst árið 2021 en jókst verulega haustið 2024. Niðurstöður mælinga benda til að kvika sé að safnast fyrir djúpt í jarðskorpunni en aukin vöktun með GPS-mælum og gervitunglagögnum hefur ekki sýnt merki um aflögun á yfirborði.

Suðurlandsbrotabeltið 

Nokkuð rólegt var í skjálftavirkni fyrri hluta októbermánuðs á Suðurlandsbrotabeltinu en þann 14. október varð skjálfti af stærð M2.3 í austurbrún Ingólfsfjalls sem að fannst vel á Selfossi, rúmlega tuttugu minni eftirskjálftar fylgdu. 

Hengill 

Í Henglinum var nokkuð hefbundin virkni, um hundrað smáskjálftar staðsettir í fimm þyrpingum við Hrómundartind, Hveradali, Húsmúla, Dyraveg og Ytri-Hóla. Langjökull Í og við Langjökul mældust rúmlega tuttugu jarðskjálftar og var virkni nokkuð í samræmi við fyrri mánuði. 

Katla 

Tæplega 200 jarðskjálftar mældust í Mýrdalsjökli í október, örlítið fleiri en í september þegar að þeir voru um 170 talsins. Þann 20. október varð nokkuð öflug jarðskjálftahrina í Mýrdalsjökli, um 60 skjálftar mældust milli kl. 10-12, þar af voru fimm yfir þremur að stærð. Sá stærsti mældist M4.2 kl. 10:51 og var sá öflugasti á svæðinu frá því í maí 2023, þegar skjálfti af stærð M4,8 mældist. Svipaðar hrinur urðu á sama stað í Mýrdalsjökli í maí og júní 2023. Vísbendingar voru um jarðhitaleka í Múlakvísl í lok mánaðarins þar sem að aukning í H2S mældust á gasmæli við Láguhvola frá 23. til 29. október ásamt vatnshæðaraukningu á mæli í Múlakvísl.

Torfajökull 

Á Torfajökulssvæðinu mældust rúmlega 30 jarðskjálftar og voru þeir um eða undir tveir að stærð. Flestir voru staðsettir vestan megin í öskjunni eða rétt vestur af öskjunni. 

Norðurgosbeltið 

Nokkuð hefðbundin skjálftavirkni var í mánuðinum á helstu stöðum á Norðurgosbeltinu eins og Öskju, við Herðubreið, Kröflu og Þeistareyki.


Tjörnesbrotabeltið 

Nokkuð hefðbundin skjálftavirkni var á Tjörnesbrotabeltinu í síðasta mánuði.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica