Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit 38. viku, 18.-24. september

Um 1260 skjálftar mældust í vikunni, þar af hafa um 1000 verið yfirfarnir. Sex skjálftar mældust um og yfir stærð M3. Mikil skjálfavirkni mældist víða á Reykjanesskaganum. Á sunnudag hófst hrina við Geitafell, sunnan Bláfjalla, og urðu þar þrír skjálftar sem mældust M3-M3,3 og bárust tilkynningar um að þeirra hafi orðið vart á höfuðborgarsvæðinu. Enn mældist skjálftavirkni við Skjaldbreið, þar varð skjálfti af stærð M3,0 18. september. Þá mældust tveir skjálftar úti á Kolbeinseyjarhrygg með stærðir M3,1-M3,2.

Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálfta-Lísu .

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Hátt á níunda hundrað jarðskjálfta mældust úti á Reykjaneshrygg og vestur eftir Reykjanesskaganum og var virkni nær samfellt að Kleifarvatni Helsu svæðin voru: Úti fyrir Eldey (nokkrir skjálftar); á Reykjanesi og rétt út af nesinu; norðan Grindavíkur; í Fagradalsfjalli; við Keili; suðaustan Trölladyngju og að Kleifarvatni. Á sunnudag (24. sept.) hófst hrina við Geitafell (sunnan Bláfjalla) og það kvöld urðu þar þrír skjálftar sem fundust a.m.k. af höfuðborgarsvæðinu og víðar. Skjálftarnir urðu kl. 20:50 (Mw3,3), 20:51 (M3,2) og kl. 23:35 (M3,0). Skjálftarnir raðast á sprungu með stefnu N-S og mælast smáskjálftar þar enn þegar þetta er ritað.

Vesturgosbeltið og Hofsjökull

Skjálftar mældust á Hengilssvæðinu við Húsmúla (rúmur tugur skjálfta) og dreifð virkni frá Reykjadal norðan Hveragerðis og norður að Nesjavöllum. Við Skriðuhnúk, SA Skjalbreiðar, mældust um 140 skjálftar þessa vikuna, stærsti skjálftinn M3,0 varð þar að kvöldi 18. september. Nær samfelld virkni hefur verið við Skjaldbreið síðan í byrjun júlímánaðar. Sex skjálftar mældust við Langjökul, þar af fimm norðan Þórisjökuls og við Geitlandsjökul og einn um 10 km ANA af Geitlandsjökli. Tveir skjálftar mældust undir vestanverðum Hofsjökli (upp af Blöndujökli).

Suðurlandsbrotabeltið

Fáir skjálftar mældust í Suðurlandsbrotabeltinu, um tugur skjálfta á stærðarbilinu M-0,16-M1,7

Austurgosbeltið

Á Törfajökulssvæði mældust 13 skjálftar, stærstur þeirra M2,5 varð við Reykjafjöll 22. sept. Tugur skjálfta mældist í Mýrdalsjökli, þrír þeirra við Tungnakvíslarjökul, hinir sjö í/við Kötluöskju; sá stærsti M2,3 varð við Austmannsbungu.

Vatnajökull

Í Grímsvötnum mældust níu skjálftar (stærstur M1,7) . Tveir skjálftar mældust við Hamarinn og tíu í Bárðarbungu (þar stærstur M2,8). Þá mældist einn skjálfti í Kverkfjöllum og tveir litlir undir Dyngjujökli, í bergganginum sem myndaðist í Holuhraunsgosinu. Fimm skjálftar mældust við Öræfajökul, fjórir þeirra við öskjujaðarinn, sá stærsti M2,2.

Norðurgosbeltið

Fáir skjálftar mældust við Öskju, fimm skjálftar, þar hefur dregið úr landrisi. Á fimmta tug skjálfta mældust við Herðubreiðartögl (stærstur M2,5). Sex skjálfar mældust við Kröflu og tveir við Bæjarfjall, við Þeistareyki. Þá mældist einn skjálfti á Keldunesheiði.

Tjörnesbrotabeltið

Flestir skjálftarnir, á sjötta tug, mældust á Grímseyjarbeltinu, frá Öxarfirði og norður að Grímsey, flestir þeirra um 20 km ASA af eynni. Stærstur skjálfta þar mældist M2,6. Aðeins einn skjálfti mældist úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Tveir skjálftar mældust úti á Kolbeinseyjarhrygg, M3,1 þann 19. sept. Og M3,2 þann 24. sept.

Skjálftalisti viku 38
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica