Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit

Jarðskjálftayfirlit - Júní 2025

Sjálfvirka jarðskjálftamælikerfi VÍ mældi um 2600 jarðskjálftar voru mældir í júní 2025 og þar af hafa rúmlega 2500 skjálftar verið yfirfarnir. Stærsti jarðskjálfti mánaðarins mældist M3.7 að stærð við Grjótárvatn þann 16. júní. Þá mældist skjálfti af stærð M3.4 í Trölladyngju þann 19. júní og barst Veðurstofunni tilkynningar að skjálftarnir hefðu fundist í byggð.

Reykjanesskagi

Á Reykjanesskaga mældust um 1000 jarðskjálftar í júní og svipar það til fjölda jarðskjálfta í maí.

Mesta virknin var í Krýsuvíkurkerfinu en þar mældust tæplega 500 jarðskjálftar í mánuðinum. kl. 22:26 aðfaranótt 19. júní varð skjálfti af stærð M3,4 í Móhálsadal í Trölladyngju og fylgdu honum nokkuð margir eftirskjálftar, sá stærsti um 2 að stærð. Fannst skjálftinn nokkuð víða, einkum á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesskaganum.

Jarðskjálftavirkni í kvikuganginum sem myndaðist 1. apríl 2025 fór minnkandi í maí og hefur verið nokkuð jöfn í júní mánuði, með u.þ.b tíu skjálfta á dag og eru hafa þeir allir verið undir 1,5 að stærð.

Önnur virkni var víða dreifð austarlega á hryggnum um Brennisteinsfjöll og Bláfjallarsvæðið, um 20 skjálftar mældust að morgni 28. júní í lítilli hrinu á Hvalhnúkssprungunni við Bláfjöll, stærstu M2,7 og M2,3.

Á Reykjaneshrygg mældust um 120 jarðskjálftar í mánuðinum og voru þeir nokkuð jafnt dreifðir yfir hrygginn og um eða rétt yfir 3 að stærð.

Vesturgosbeltið

Hengill

Rólegt var í Henglinum í júní þar sem um 25 smáskjálftar mældust á víð og dreif um svæðið, töluvert færri en í maí þegar rúmlega 140 skjálftar mældust í nokkrum hrinum.

Langjökull

Um 25 jarðskjálftar voru mældir í Langjökli í júní og var virknin aðallega í tveimur hrinum, annars vegar í Geitlandsjökli þann 10. júní og rétt norðvestan af Geitlandsjökli þann 8. júní

Grjótárvatn

Rúmlega 450 skjálftar mældust við Grjótarvatn í júní mánuði og þar af hafa rúmlega 420 verið yfirfarnir. Þetta er töluverð aukning frá maí þegar að um 300 skjálftar mældust og aðra mánuði þar á undan. Stærsti skjálftinn á svæðinu í júní var M3.7 að stærð þann 16. júní og barst Veðurstofunni tilkynningu um að skjálftinn hefði fundist í Borgarnesi. Þessu fylgdi nokkur smáskjálftavirkni. Að kvöldi 9 júní hófst skjálftahrina á svæðinu og mældust þá um 80 smáskjálftar næsta sólahringinn.

Í byrjun maí setti Veðurstofan upp nýjan jarðskjálftamæli um 10 km sunnan við miðju jarðskjálftavirkninnar. Með fjölgun jarðskjálftamæla á svæðinu eykst fjöldi smáskjálfta sem mælist en endurspeglar ekki endilega breytingu í virkni á svæðinu. Sé einungis horft á jarðskjálfta yfir M1.0 að stærð sést að virkni á milli mánaða helst stöðug og um 100 jarðskjálftar mælast í mánuði undanfarið. Líklegasta skýringin á þessarri langvarandi jarðskjálftavirkni er talin vera kvikusöfnun á miklu dýpi, ca 16-18 km, og er fjölgun mælitækja liður í aukinni vöktun og rannsóknum á svæðinu.

Suðurlandsbrotabeltið

Tæplega 150 jarðskjálftar mældust á víð og dreif um Suðurlandsbrotabeltið, um helmingi færri en í maí. Flestir mældust í Þrengslunum og rétt SA af Skálafelli og voru þeir allir undir tveimur að stærð.

Austurgosbeltið

Katla

Um 65 skjálftar mældust í Kötlu í júní, svipar það til apríl mánaðar og er talin nokkuð hefbundin virkni miðað við árstíma.

Eyjafjallajökull

Í Eyjafjallajökli mældust 14 skjálftar í mánuðinum og voru þeir flestir djúpir eða á um 25 km dýpi líkt og hefur mælst undanfarna mánuði.

Torfajökull

Tæplega þrjátíu skjálftar voru staðsettir innan Torfajökulssöskjunar og svipar það til maí mánaðar, sá stærsti mældist M2.2 þann 4. júní.

Hekla

Fimm smáskjálftar mældust í og við Heklurætur í júní.

Vatnajökull

Bárðarbunga

Rúmlega áttatíu skjálfar mældust í Bárðarbungu í Júní, stærsti skjálftinn var M3,1 að stærð þann 26. júní. Á djúpa svæðinu austan Bárðarbungu mældust sjö smáskjálftar. Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu hefur verið þó nokkur undanfarin misseri og reglulega mælst skjálftar um og rétt yfir M5.0 að stærð. Skjálftavirknin er talin vera afleiðing áframhaldandi kvikusöfnunar undir Bárðarbungu.

Grímsvötn

Tuttuguogfimm smáskjálftar mældust í Grímsvötnum í júní

Norðurgosbeltið

Askja

Um fimmtíu jarðskjálftar voru staðsettir við Öskju í júní og var virknin frekar hefbundin. Það sama má segja um Herðubreið og Herðurbreiðartögl þar sem virknin var nokkuð hefbundin .

Tjörnesbrotabeltið

Rúmlega 140 jarðskjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu í júní. Flestir þeirra voru staðsettir á Grímseyjarbeltinu þar sem að um 110 jarðskjálftar voru staðsettir í þremur þyrpingum á beltinu og voru þeir allir undir 3 að stærð. Á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu mældust rúmlega tuttugu smáskjálftar. Við Þeistareyki mældust tuttuguogfimm smáskjálftar og þrettán við Kröflu.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica