Jarðskjálftayfirlit - nóvember 2025
Samantekt
Í nóvembermánuði mældust um 1900 skjálftar á landinu. Það er nokkuð undir meðalfjölda skjálfta síðustu 6 mánuðina, um 3400 skjálftar á mánuði. Helsta virkni sem ber að nefna er skjálftahrina úti fyrir Reykjanestá sem hófst að kvöldi 18. nóvember og stóð í um hálfan sólarhring. Sú hrina taldi alls um 230 skjálfta. Enn hefur ekki náðst að fara yfir alla skjálfta í þeirri hrinu. Virkni í mánuðinum var að mestu leiti með hefðbundnum hætti, dæmigerð skjálftavirkni við Grjótárvatn og einnig nokkuð hefðbundin virkni í Mýrdalsjökli - sem hefur þó verið í yfir meðallagi síðustu 4 mánuði. Nokkuð meiri virkni er vanalega var við Esjufjöll þegar 23 skjálftar mældust á 5 dögum. Þá mældist skjálfti úti á Stokknesgrunni 6. nóvember. Um 10 skjálftar á 12-15km dýpi mældust við Nesjavallaleið. Einnig mældust nokkrir skjálftar á 18-20km dýpi í Mýrdalsjökli í mánuðinum.
Stærsti skjálfti vikunnar var við Öskju, 3,5 að stærð 9. nóvember. Aðrir skjálftar yfir 3 að stærð í þessum mánuði voru 3,0 og 3,2 í Bárðarbungu og 3,3 á Reykjaneshrygg um 30km VSV af Eldey. Að auki mældust 3 skjálftar af stærð 3,1 til 3,6 á SPAR þverbrotabeltinu, á Kolbeinseyjarhrygg.
Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálftalísu
Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur.
Hrina jarðskjálfta hófst að kvöldi 18. nóvember og stóð yfir fram á morgun 19. nóvember. Alls voru það um 230 skjálftar en enn á eftir að klára að yfirfara um 30 skjálfta úr þeirri hrinu. Stærsti skjálftinn í þeirri hrinu mældist 2,7 að stærð. Önnur virkni á hryggnum var nokkuð hefðbundin, ein einn skjálfti yfir 3 að stærð, M3,3, varð að kvöldi 28. nóvember. Alls telja skjálftar á Reykjaneshrygg um 340 í þessum mánuði.
Á Reykjanesskaga mældust um 400 skjálftar, þar af um 300 við Kleifarvatn, Krýsuvík og Trölladyngju. Það er ekki nema um helmingur þess sem mælst hefur mánaðarlega á því svæði síðustu 4 mánuði. Á gosstöðvunum við Grindavík og Svartsengi mældust 20 skjálftar. Í Fagradalsfjalli og nágrenni var almennt nokkuð dreifð virkni og svipuð og síðustu 2 mánuði. Í Bláfjöllum mældust um 40 skjálftar í lítilli aðaskjálfta - eftirskjálftavirkni 26. og 27. nóvember með stærsta skjálfta af stærð 2,7.
Vatnajökull
Öræfajökull
Í Öræfajökli mældust tæplega 30 skjálftar sem er í meira lagi m.v. virkni síðustu 5 ára. Þetta er fjórði mánuðurinn á síðan í júní 2021 þar sem fleiri en 20 skjálftar mælast. Skjálftarnir voru þó ekki mjög stórir og var sá stærsti 1,1 að stærð.
Esjufjöll
Óvenjumikil skjálftavirkni var í Esjufjöllum þennan mánuðinn, en þar mældust um 40 skjálftar, þar af 23 á 5 dögum. Þetta er mesta mánaðarlega skjálftavirkni sme mælst hefur síðan í nóvember 2010. Stærsti skjálftinn sem mældist nú var 2,1 að stærð.
Hamarinn
Við Hamarinn, rétt vestan við Vestari-Skaftárketil mældust um 35 skjálftar. Þar af flestir 16.-18. nóvember og voru 4 skjálftar þar af stærð 2,3-2,6.
Bárðarbunga
Nóvember var fremur rólegur mánuður í Bárðarbungu m.v. síðustu 5 ár, en aðeins mældust 30 skjálftar við öskjuna auk tæplega 10 skjálfta á djúpa svæðinu. Stærsti skjálftinn í öskjunni var 3,17.
Grjótárvatn
Nokkuð hefðbundin virkni við Grjótárvatn, um 180 skjálftar, sem er minnstur fjöldi skjálfta sem mælst hefur síðan í apríl á þessu ári.
Vesturgosbeltið
Hengill
Á Mosfellsheiði varð örhrina með 17 skjálftum 25.-27. nóvember við Háamel. Einnig mældust um 10 skjálftar 12-16. nóvember á heiðinni á 12-15km dýpi. Skjálftar hafa verið að koma nokkuð reglulega á þessum stað á 12-18 km síðan í júní 2022, en þetta er mesta virknin á því tímabili fyrir utan ágúst 2024. Annars var nokkuð vanaleg virkni víða, t.d. í Húsmúla, í Þrengslum nærri Raufarhólshelli, á Ölkelduhálsi, Nesjavöllum og víðar.
Langjökull
Um 15 skjálftar mældust í og við Langjökul, fletir í Hagafelli eða við Geitlandsjökul.
Austurgosbeltið
Mýrdalsjökull
Í Mýrdalsjökli mældust um 115 skjálftar. Það er aðeins minna en mælst hefur síðustu 4 mánuði, en á pari við vanalega virkni síðustu 5 ára. Flestir skjálftarnir mældust í öskjunni sunnanverðri, nærri sigkatli MY-24.
Torfajökull
Um 25 skjálftar voru í Torfajökulsöskjunni, meirihlutinn í vestur barminum. Það er nokkuð vanalegur mánaðarlegur fjöldi skjálfta m.v. síðustu ár.
Hekla
Í Heklu mældist skjálfti af stærð 1,8, sem er þriðji stærst skjálftinn á síðustu 5 árum. Annars mældust 14 skjálftar í Heklu og á nærliggjandi svæði.
Norðurgosbeltið
Askja
Stærsti skjálfti mánaðarins mældist í norðanverðri Öskjuöskju, M3.5 9. nóvember. Þessum skjálfta fylgdi varla nokkur eftirskjálftavirkni og alls mældust um 25 skjálftar í Öskju, sem telst rólegur mánuður m.v. síðustu 5 ár, þar af um 20 í austanverðri öskjunni.
Herðubreið
Tæplega 70 skjálftar mældust við Herðubreið, þar af flestir í smáhrinu 11.-12. nóvember rétt vestan við töglin.
Suðurlandsbrotabeltið
Nokkuð vanaleg og jafndreifð virkni á Suðurlandsbrotabeltinu.
Tjörnesbrotabeltið
Ósköp venjuleg virkni á Tjörnesbrotabeltinu eða um 140 skjálftar. Þar af um 60 í Öxarfirði og 20 úti fyrir Flateyjarskaga.




