Jarðskjálftayfirlit - september 2025
Í september mældust um 2400 jarðskjálftar á landinu sem telst hefðbundinn virkni. Stærsti skjálftinn varð þann 12. september á Reykjaneshrygg um 45 km SV af Reykjanestá og var M4,0 að stærð. Alls mældust 13 skjálftar yfir M3,0 að stærð í mánuðinu, þrír á Reykjaneshrygg, tveir á Suðurlandsbrotabeltinu, tveir í Mýrdalsjökli, tveir í Bárðarbungu, tveir á Lokahrygg í Vatnajökli og einn við Kleifarvatn.
Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálftalísu
Reykjanesskagi
Eins og síðustu mánuði mældust flestir jarðskjálftar á Reykjanesskaga, eða rúmlega 1000. Langflestir skjálftanna mældust á svæðinu milli Kleifarvatns og Trölladyngju eða rúmlega 900. Stærsti skjálftinn á því svæði mældist M3,6 þann 5. september og bárust Veðurstofunni nokkrar tilkynningar um að sá skjálfti hafi fundist í byggð á Reykjanesskaga. Flesta daga í mánuðinum mældust nokkrir tugir skjálfta á svæðinu en rúmlega 90 skjálftar mældust 5. og 13. september. Síðan í júní á þessu ári hefur mælst landsig á GPS stöð í Móhálsadal sem er nærri miðju jarðskjálftavirkninnar. Sigið er nú um 50 mm frá því í júní og samtímis því hefur jarðskjálftavirknin aukist.
Af öðrum svæðum á Reykjanesskaga má nefna að rúmlega 20 smáskjálftar, allir undir M1,5 að stærð, mældust nærri Sundhnúksgígaröðinni og Grindavík. Skjálfti af stærði M2,9 mældist í Brennisteinsfjöllum þann 5. september og örfáir smáskjálftar í kjölfarið. Hefðbundin virkni var í Fagradalsfjalli og við Reykjanestá.
Rúmlega 200 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg í mánuðinum, þar af stærsti skjálfti mánaðarins um 45 km SV af Reykjanestá sem var M4,0 að stærð. Sá skjálfti var hluti af hrinu um 50 skjálfta sem stóð yfir dagana 12. - 13. september. Þann 16. september var hrina rúmlega 40 skjálfta staðsett um 5 km SV af Reykjanestá þar sem stærsti skjálftinn var M2,9 að stærð.
Suðurlandsbrotabeltið
Um 150 jarðskjálftar mældust á Suðurlandsbrotabeltinu í september sem er nokkuð hefðbundinn fjöldi á svæðinu. Þó mældust tveir skjálftar yfir M3 að stærð, sá fyrri varð í Vatnafjöllum austast á svæðinu þann 8. september og mældist M3,3 að stærð. Veðurstofunni bárust tilkynningar um að þessir skjálftar hafi fundist í byggð á Suðurlandi. Skjálftinn varð á sama svæði og talsverð hrina gekk yfir í nóvember 2021 þegar fjöldi skjálfta mældist, þar af 10 yfir M3 að stærð og sá stærsti M4,4. Sá seinni varð í Holtum þann 11. september og mældist M3,7 að stærð. Einnig mældist skjálfti yfir M3 að stærð á brotabeltinu í júlí á þessu ári, en þar áður var það í janúar 2022.
Grjótárvatn
Jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn á Vesturlandi heldur áfram og mældust um 200 jarðskjálftar á svæðinu í síðasta mánuði. Virkni hefur verið á svæðinu síðan sumarið 2021 en hún jókst töluvert í ágúst 2024 og hefur verið nokkuð stöðug síðan þá. Sé eingöngu horft til skjálfta yfir M1,0 að stærð hafa flesta mánuði mælst milli 70 og 100 skjálftar síðan í ágúst 2024 og í síðasta mánuði voru þeir tæplega 70. Stærsti skjálftinn í september varð þann 26. september og mældist 2,6 að stærð. Talsverð hrina varð á svæðinu þann 2. október þegar um 50 skjálftar mældust, þar af fjórir á bilinu M3,2 - 3,5. Veðurstofunni bárust tilkynningar um að stærstu skjálftarnir hefðu fundist í byggð á svæðinu.
Skjálftavirknin er áfram á miklu dýpi, um 15-20 km, og áfram er talið að líklegast orsök virkninnar séu kvikuhreyfingar í jarðskorpunni. Ekki hefur mælst markverð aflögun á GPS stöðvum á svæðinu eða gervitunglagögnum á meðan skjálftavirknin hefur staðið yfir.
Austurgosbeltið
Bárðarbunga
Líkt og undanfarna mánuði mældist nokkur skjálftavirkni í Bárðarbungu í mánuðinum. Alls mældust um 60 skjálftar sem er nærri meðaltali síðustu fimm ára fyrir svæðið, þótt nokkuð meiri virkni hafi verið á fyrri helmingi ársins þegar fleiri en 100 skjálftar mældust í hverjum mánuði. Tveir jarðskjálftar mældust yfir þremur að stærð, sá fyrri M3,7 að stærð þann 4. september og sá seinni M3,9 þann 19. september. Hefðbundin virkni var á djúpa svæðinu austan Bárðarbungu en þar mældust tæplega 20 smáskjálftar.
Katla
Tæplega 170 jarðskjálftar mældust í Mýrdalsjökli í síðastliðnum mánuði. Það er svipað og tvo mánuði þar á undan. Algengt er að jarðskjálftavirkni aukist yfir sumartímann í Mýrdalsjökli og hefur það gerst undanfarin ár. Stærsti skjálftinn mældist M3,2 að stærð þann 25. september en einnig mældust tveir skjálftar sem voru M3,0 að stærð þann 6. september. Tímabundið aukin leiðni mældist í Skálm í upphafi mánaðarins. Einnig var um tíma aukin leiðni í Múlakvísl og hækkuð gildi á H2S við Láguhvola nærri Múlakvísl um miðjan mánuðinn. Tilkynningar bárust einnig frá vegfarendum um að hlaupvatn væri í Innri- og Fremri-Emstruám, en Veðurstofan rekur ekki vatnamælingastöðvar þar.
Eyjafjallajökull
Tveir skjálftar mældust í Eyjafjallajökli, sá stærri M2,2 að stærð en hinn um M1,0 að stærð. Báðir skjálftarnir urðu á 3-4 km dýpi en frá því í mars á þessu ári hafa nokkrum sinnum mælst hviður af djúpum skjálftum á 20 - 30 km dýpi, síðast í júlí.
Grímsvötn
Ellefu skjálftar mældust í Grímsvötnum í mánuðinum, allir undir M2,0. Það telst til hefðbundinnar bakgrunnsvirkni á því svæði, en skjálftavirkni undanfarna mánuði hefur verið innan við bakgrunnsvirkni í Grímsvötnum. Síðustu vikuna í september mældist aukin leiðni í Gígjukvísl og í kjölfarið aukinn órói á jarðskjálftastöðinni á Grímsfjalli. Það bendir til þess að lítið jökulhlaup hafi orðið úr Grímsvötnum á þeim tíma. Í janúar á þessu ári varð jökulhlaup úr Grímsvötnum, en þá hafði eitt ár liðið frá síðasta hlaupi. Í kjölfarið hafa orðið tvö minni hlaup á þessu ári, það fyrra í lok maí en það seinna nú í lok september.
Nærri Skaftárkötlum í Vatnajökli mældust tveir skjálftar yfir M3 að stærð, þeir voru M3,1 og M3,6 þann 11. og 18. september.
Norðurgosbeltið
Hefðbundin skjálftavirkni var í mánuðinum á helstu stöðum á Norðurgosbeltinu eins og Öskju, við Herðubreið, Kröflu og Þeistareyki.
Vesturgosbeltið
Hefðbundin virkni var á helstu svæðum á Vesturgosbeltinu eins og Hengilssvæðinu og við Langjökul.
Hofsjökull
Um miðjan ágúst setti Veðurstofan upp nýja jarðskjálfta- og GPS mæla á Bleikáluhálsi norðan við Hofsjökul. Lítilsháttar aukning hefur verið í skjálftavirkni í Hofsjökli frá byrjun ársins 2024 og mældust flestir skjálftar í desember það ár, þegar yfir 30 skjálftar mældust og sá stærsti M3,3 að stærð. Í síðasta mánuði mældust rúmlega 20 skjálftar, en með tilkomu nýja jarðskjálftamælisins hefur næmni vöktunarkerfisins aukist og aukin fjöldi smáskjálfta mælist vegna þess.
Tjörnesbrotabeltið
Hefðbundin skjálftavirkni var á Tjörnesbrotabeltinu í síðasta mánuði.