Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 20, 13. maí – 19. maí 2024

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Rúmlega 750 skjálftar mældust á Reykjanesskaganum í vikunni, sem er aukning frá síðustu viku, þegar um 600 skjálftar mældust. Virknin var nokkuð dreifð um skagann en mest var virknin milli Grindavíkur og Þorbjarnar, við Sundhnúksgígaröðina og við Reykjanestá. Einnig mældist nokkur virkni við Fagradalsfjall og milli Trölladyngju og Kleifarvatns. Stærsti skjálftinn mældist 2,8 að stærð úti fyrir Reykjanestá þann 19. maí kl. 19:32.

Úti á Reykjaneshrygg mældust tæplega 20 skjálftar, stærsti skjálftinn mældist 3,5 að stærð úti á Atlantshafshrygg en þar hófst smá hrina þann 16. maí.

Suðurlandsbrotabeltið og Hengilssvæðið

Tæplega 30 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu, nokkuð dreift um svæðið, sá stæsti 2,0 að stærð í smáhrinu við Húsmúla. Aðrir skjálftar mældust um og undir einum að stærð.

Þá mældust rúmlega 20 skjálftar á Suðurlandsbrotabeltinu og voru nokkuð jafndreifðir um svæðið.

Einn skjálfti mældist við Heklu í vikunni.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Fjórir skjálftar mældust á vestra gosbeltinu allir í Hofsjökli, sá stærsti 2,4 að stærð. Einnig mældust þrír skjálftar við Grjótárvatn í Borgarfirði, en þar hafa litlar hrinur komið áður.

Austurgosbeltið

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæði
Um 6 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, allir innan öskjunnar en svipaður fjöldi mældust þar í fyrri viku. Stærsti skjálftinn var 1,4 að stærð. Í Eyjafjallajökli mældust þrír skjálftar og á Torfajökulssvæðinu mældust 5 smáskjálftar, stæsti 2,0 að stærð rétt norða við Hrafntinnusker.

Vatnajökull
Rúmlega 25 skjálftar mældust í Vatnajökli þessa viku, sem eru færri en í vikunni á undan, þegar 30 skjálftar mældust. Einn skjálfti mældist í Bárðarbungu (1,3 að stærð) og tveir mældust á djúpa svæðinu suðaustur af Bárðarbungu. Ellefu skjálftar mældust í Grímsvötnum í vikunni sem er svipaður fjöldi og í síðustu viku, sá stærsti 1,2 að stærð þann 18. maí. Nokkrir skjálftar við austanverðan Skeiðarárjökul en önnur virkni var dreifð. Einn skjálfti mældist í Öræfajökli og einn í Kverkfjöllum.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Við Öskju mældust rúmlega 20 smáskjálftar, sem er svipaður fjöldi og í síðustu viku. Flestir þeirra eru austan megin við Öskjuvatn en einnig nokkrir í Öskjuvatni og eru þeir allir undir 1,5 að stærð. Um 30 skjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl, flestir undir einni af stærð en stæsti 2,14 að stærð í austurhlíðum Herðubreiðar.

Krafla og Þeistareykir

Átján skjálftar mældust við Bæjarfjall í vikunni og einn í Kröflu og annar við Reykjahlíð.

Tjörnesbrotabeltið

Tæplega 70 skjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu, nokkuð fleiri en í fyrri viku þegar um 50 skjálftar mældust. Flestir mældust í hrinu í Eyjafjarðarál og austan Grímseyjar. Mældist stærsti skjálftinn 2,0 að stærð þann 17. maí.
Einungis 3 skjálftar mældust á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu og einn skjálfti mældist í Flateyjardal.


Skjálftalisti viku 20








Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica