Ráðstefnur og fundir

Norðurslóðadagurinn 2013

Hvernig eflum við þátttöku íslensks vísindasamfélags í alþjóðlegri samvinnu og stefnumótun um norðurslóðir?

Boðið er til opins Norðurslóðadags, fimmtudaginn 14. nóvember 2013 kl. 09:00 - 17:30 í húsnæði Hafrannsóknastofnunar, Sjávarútvegshúsinu, Skúlagötu 4, ráðstefnusal 1. hæð. Að þessu sinni verður rætt um:

  • hvernig íslenskt vísindasamfélag er í stakk búið til að mæta þeim áskorunum sem hraðfara breytingar á norðurslóðum hafa í för með sér og
  • hvernig vísindasamfélagið er undirbúið til að taka þátt í vaxandi alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði.

Aukið vægi alþjóðasamstarfs

Norðurslóðir hafa fengið aukið vægi í alþjóðlegri umræðu undanfarin ár og tengist það ekki síst hraðfara hnattrænum umhverfisbreytingum og samfélagslegum áhrifum þeirra á svæðinu.

Á síðari árum hefur þátttaka íslenskra vísindamanna í alþjóðlegum rannsóknum á norðurslóðum aukist verulega. Ýmsar merkar rannsóknir eru unnar á mörgum sviðum norðurslóðavísinda, t.d. rannsóknir í veðurfræði og haffræði, rannsóknir á jöklum og vatnafari, rannsóknir í sjávarlíffræði og á sjófuglum, og rannsóknir á gróðurfari og gróðurbreytingum. Þá hafa íslenskir mannfræðingar og aðrir félagsvísindamenn tekið þátt í margvíslegum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem aukið hafa skilning á mannlífi og samfélags- og hagþróun á norðurslóðum.

Þær hnattrænu breytingar sem núlifandi kynslóðir eru vitni að hafa svæðisbundnar afleiðingar og aðlögun í för með sér sem ekkert eitt samfélag rís undir. Þessar áskoranir eru þess eðlis að við þær verður aðeins fengist með víðtækri samvinnu vísindamanna, almennings og stjórnvalda.

Fjallað verður á þverfaglegan hátt um framlag og verkefni íslenskra aðila sem koma að alþjóðlegri samvinnu í vöktun, rannsóknum og menntun á norðurslóðum, sjá dagskrá. Kynnt verða viðfangsefni sem tengjast háskólamenntun, mannauði og stoðkerfi rannsókna, þ.m.t. umgjörð stofnana til samvinnu. Jafnframt verður fjallað um valin dæmi um samstarf fyrirtækja, háskóla og opinberra stofnana.

Skipuleggjandi Norðurslóðadagsins er Samvinnunefnd umhverfisráðuneytisins um málefni norðurslóða en þar á Veðurstofan sæti. Framkvæmdin er í höndum Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, Rannís, Hafrannsóknastofnunar og Norðurslóðanets Íslands.

Norðurslóðanet Íslands

Hér er ekki úr vegi að kynna Norðurslóðanetið. Norðurslóðanet Íslands - þjónustumiðstöð norðurslóðamála (Icelandic Arctic Cooperation Network) er sjálfseignarstofnun sem var sett á laggirnar árið 2012 en hóf opinberlega starfsemi í febrúar árið 2013. Norðurslóðanet Íslands er samstarfsvettvangur stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka á Íslandi sem vinna að málefnum norðurslóða. Hvatt er til fjölbreytilegrar þátttöku hagsmunaaðila frá öllum landshlutum.

Tilgangur Norðurslóðanetsins er að: 

  • Auka samskipti og samstarf milli aðila með það að markmiði að styrkja stöðu þeirra sem þekkingarklasa um norðurslóðamálefni á Íslandi.
  • Auka sýnileika stofnana og annarra aðila á Íslandi sem vinna að málefnum norðurslóða og þeirra málefna sem þær fjalla um.
  • Auka skilning á starfsemi meðlima stofnunarinnar; upplýsa fræðimenn, stjórn­mála­menn og almenning innanlands og erlendis um þá þekkingu og reynslu sem hér hefur skapast á undanförnum árum.
  • Gera aðgengilegar upplýsingar um norðurslóðir og þau málefni sem eru hvað brýnust á norðurslóðum.
  • Veita stuðning til aukinnar samvinnu milli aðila stofnunarinnar til að styrkja samkeppnishæfni þeirra á þeim sviðum sem þær starfa á.
  • Veita leiðbeiningar og ráðgjöf til þeirra sem til stofnunarinnar leita.


 


Á þessari síðu er að finna ýmsa viðburði sem tengjast viðfangsefnum Veðurstofunnar.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica