Greinar
maður stendur ofan á sleða við háa stöng, snjór allt í kring
Snjókjarnaborun á Hofsjökli.
1 2
næsta

Afkomumælingar á Hofsjökli vorið 2009

Vetrarákoma

Þorsteinn Þorsteinsson 18.5.2009

Þrír starfsmenn Veðurstofu Íslands mældu vetrarákomu á Hofsjökli (mynd 1) í árlegri vorferð dagana 30. apríl - 6. maí síðastliðinn.

Ekið var á sérbúnum jeppum upp að efstu Kvíslarveitustíflu og þaðan á vélsleðum yfir jökulinn að Ingólfsskála (mynd 2), fjórum kílómetrum norðan jökuls.

Þar var höfð bækistöð næstu 5 daga og farið á hverjum degi til mælinga á Sátujökli, Þjórsárjökli og Blágnípujökli.


Mælilínur á Hofsjökli
teikning af jökli - þéttar hæðalínur
Mynd 1. Hofsjökull er þriðji stærsti jökull landsins, um 860 km2 að flatarmáli. Vetrarákoma og sumarleysing er árlega mæld í 25-30 punktum á þrem mælilínum, sem sýndar eru á myndinni. Frá jöklinum fellur leysingarvatn til Þjórsár, til Jökulsánna í Skagafirði, til Blöndu og til Hvítár eystri.
Ingólfsskáli
lítið timburhús, allt er snævi þakið í kring
Mynd 2. Bækistöð leiðangursmanna er í Ingólfsskála við norðanverðan Hofsjökul. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Snjóalög reyndust í meðallagi á jöklinum þetta vorið, þegar miðað er við undanfarin ár. Borað er í gegnum vetrarlagið með snjókjarnabor (sjá flettimyndir efst í hægra horni greinarinnar). Síðan er lagskipting snævarins grandskoðuð eins og sést á myndum 3a og 3b.

Svokölluð hausthvörf marka skilin milli þess snævar, sem fallið hefur á liðnum vetri (2008-2009) og næsta vetrarlags á undan (2007-2008). Athuga þarf snjókjarnana vandlega til að greining hausthvarfa verði sem öruggust og er þá tekið mið af eftirfarandi atriðum:

  • Oftast marka hausthvörfin greinileg skil í grófleika snævarins; vetrarsnjórinn er fínkorna og einkennalítill en hið eldra árlag er orðið grófkorna eftir fyrstu stig ummyndunar í hjarn, sem síðan verður að jökulís á meira dýpi.
  • Síðastliðið sumar hefur leysingarvatn hripað frá yfirborði niður í hið eldra vetrarlag og myndað greinilegar íslinsur við frystingu. Slíkar linsur sjást sjaldan í nýju vetrarlagi að vori, en þó gætir stundum haustblota neðst í laginu.
  • Oft er greinilegt ryklag í hausthvörfunum, því að sumarlagi feykja vindar ryki frá snjólausu hálendinu yfir jöklana.

Lýsingin að ofan á aðeins við ofan jafnvægislínu á jöklinum; neðan hennar fellur vetrarsnjórinn á beran jökulís og þar er því engum vandkvæðum bundið að ákvarða neðra borð vetrarlagsins.


Snjókjarni - efst
aflangur snjókjarni, málband liggur samsíða honum
Mynd 3a. Borkjarninn sýnir fínkorna snjó efst í vetrarlaginu. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.
Snjókjarni - neðar
aflangur snjókjarni, málband liggur samsíða honum
Mynd 3b. Í borkjarnanum sjást hausthvörf við neðra borð vetrarlags. Í hausthvörfunum er ryklag og íshröngl og neðan þeirra (t.h. á mynd) er komið í grófkorna hjarn með íslinsum. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.


Eðlisþyngd snjókjarnanna er mæld svo reikna megi vatnsgildi vetrarákomunnar. Eðlisþyngd nýfallins snævar er oftast 0.3-0.4 g/cm3 en neðar í vetrarlaginu er hún yfirleitt á bilinu 0.4-0.55 g/cm3 og eykst svo smám saman í um 0.6 g/cm3 við ummyndun að sumarlagi. Hraði ummyndunar er háður hita sem að sjálfsögðu fer lækkandi með hæð á jöklinum og því fer meðal-eðlisþyngd vetrarlags oftast minnkandi er ofar dregur.

4. mynd sýnir mældan eðlisþyngdarferil á hábungu jökulsins í 1790 m hæð og reiknað vatnsgildi vetrarlagsins í samanburði við snjóþykktina. Til hliðar er einnig sýndur hitaferillinn mældur í sama kjarna. Sjá má svokallaða kuldabylgju vetrarins, sem kælt hefur vetrarlagið niður að 7 stiga frosti á rúmlega 2 m dýpi. Ofan jafnvægislínu nær vetrarfrostið niður á 10-15 m dýpi en við hlýnun að sumarlagi hitna efstu lögin smám saman upp að frostmarki. Neðan við 15 m dýpi er hjarn og jökulís í jöklum á Íslandi ávallt við frostmark og teljast þeir því til þíðjökla.

Eðliseiginleikar snævarins
súlur og línurit
4. mynd. Þykkt vetrarlagsins á hábungu Hofsjökuls mældist 7.38 m í vorferðinni 2009 en þar sem eðlisþyngd þess er að meðaltali 0.458 g/cm3 er vatnsgildi snjólagsins 3.38 m. Í vetrarlaginu er mest frost á dýptarbilinu 2.0-2.5 m en fer minnkandi þar fyrir neðan.

Í vorferðinni eru settar niður 6 m langar leysingarstikur í hverjum mælipunkti. Á ákomusvæðinu (ofan við 1200-1400 m) eru þær settar í holurnar, sem boraðar eru með snjókjarnabornum.

Á leysingarsvæðinu, sem sums staðar nær niður undir 600 m hæð yfir sjávarmáli, þarf hins vegar að gera ráð fyrir því að 2-6 m af jökulís bráðni um sumarið. Þar eru því boraðar allt að 10 m djúpar holur með gasknúnum gufubor og stikurnar settar niður þannig að stikutoppurinn er allt að 4 m neðan yfirborðs. Þær koma því smám saman upp úr jöklinum við leysinguna, sem lesin er af stikunum í haustferð um mánaðamótin september/október.

Að þeim mælingum loknum má reikna ársafkomu í hverjum punkti með því að leggja saman vetrarákomu og sumarleysingu. Út frá þeim tölum er metin ársafkoma þeirra ísasviða, sem mæld eru á jöklinum og hefur hún verið neikvæð á ári hverju frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar. Hofsjökull hopar ört og rýrnar um þessar mundir líkt og aðrir jöklar á Íslandi og eftir komandi haustferð verður ljóst hvort nokkur breyting hefur orðið á þeirri framvindu á jökulárinu 2008-2009.

Vatnamælingar Orkustofnunar sáu um rannsóknir á afkomu Hofsjökuls á árabilinu 1987-2008 en verkefni þetta færðist til Veðurstofunnar við nýlega sameiningu hennar og Vatnamælinga. Mælingarnar eru kostaðar af orkumálasviði Orkustofnunar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica