Textaspá - Yfirlit

Hugleiðingar veðurfræðings

Hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi eru 30,5°C á Teigarhorni í Berufirði 22. júní 1939. Hitametið á Íslandi átti semsagt 77 ára afmæli í fyrradag. Ef við rifjum upp nýlegar hitabylgjur, þá kemur 30. júlí 2008 upp í hugann, en þá mældust 29,7°C á Þingvöllum og þann dag mældist hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík eða 25.7 stig á túni Veðurstofunnar við Bústaðaveg.
Síðasta hitabylgja sem verulega kveður að var 9. ágúst 2012 þegar mældust 28.0 stig á Eskifirði. Síðustu sumur hafa verið rýr þegar kemur að uppskeru á háum hitatölum. Sumarið 2013 var hæsti hitinn 26,4 stig í Ásbyrgi 21. júlí. Mesti hiti sumarið 2014 mældist 23,3 stig á Húsavík þann 23. júlí og hæsti hiti ársins 2015 mældist 24,1 stig á Seyðisfirði 7. september. Það eru semsagt að verða 3 ár síðan síðast mældist 25 stig eða meira á landinu.
Ástæðan fyrir þessari upprifjun á háum hitatölum er sú að í dag er hámarkshita spáð 23-24 stigum á Norður- og Austurlandi og smá möguleiki er á að hitinn nái alla leið upp í 25 stigin. Ef nefna á einhvern ákveðinn stað, þá er veðurstöðin á Egilsstöðum líkleg til að eiga hæsta hita dagsins.
Í dag er semsagt spáð sunnanátt með björtu og hlýju veðri fyrir norðan og austan. Vestan- og sunnanlands verður allt annað uppá teningnum, því þar má búast við súld eða dálítilli rigningu og hita 8 til 13 stig.
Á morgun, kosningadaginn, verður áfram sunnanátt og vindur hægari en í dag og með rólegasta móti. Það verður lítið eftir af úrkomunni, þó áfram verði skýjað. Þegar kemur fram á kosningadagskvöld bætir aftur í vind á Suður- og Vesturlandi og fer að rigna.
Það er útlit fyrir að sunnudagurinn verði blautur víða um land. Nýjustu spár gera síðan ráð fyrir að hann leggist í norðanátt í næstu viku með tilheyrandi rigningu fyrir norðan og veitir kannski ekki af fyrir gróðurinn á þeim slóðum.
Spá gerð: 24.06.2016 07:19. Gildir til: 25.06.2016 00:00.

Veðuryfirlit

Um 500 km SV af Hvarfi er 1003 mb lægð sem fer NA og dýpkar, en suðaustur af landinu er 1020 mb hæðarhryggur sem þokast ANA.
Samantekt gerð: 25.06.2016 03:02.

Veðurlýsing


Samantekt gerð: 24.06.2016 21:58.

Veðurhorfur á landinu

Suðlæg átt, 3-10 m/s, hvassast með SA- og A-ströndinni. Skýjað og úrkomulítið S- og V-til, en skýjað með köflum á NA- og A-landi. Vaxandi suðaustanátt og fer að rigna SV-til seint í kvöld, 5-13 í nótt. S-læg átt, 3-8 og víða dálítil rigning á morgun, en norðaustlægari á Vestfjörðum. Hiti 10 til 22 stig í dag, hlýjast á Austurlandi, en 9 til 16 stig á morgun.
Spá gerð: 25.06.2016 04:09. Gildir til: 26.06.2016 00:00.

Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu

Suðlæg átt 3-8 m/s, skýjað og úrkomulítið. Vaxandi suðaustanátt með rigningu seint í kvöld, 5-13 í nótt. Suðlæg átt, 3-8 á morgun og úrkomulítið síðdegis. Hiti 8 til 13 stig.
Spá gerð: 25.06.2016 04:05. Gildir til: 26.06.2016 00:00.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:
Suðvestlæg átt 5-10 m/s og rigning, einkum V-til á landinu. Úrkomuminna undir kvöld. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast NA-lands.

Á mánudag:
Suðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og víða skúrir, en gengur í norðaustan 8-13 NV-til um kvöldið. Hiti 8 til 14 stig.

Á þriðjudag:
Norðan 8-15 með rigningu fyrir norðan, en hægari breytileg átt sunnanlands og sums staðar skúrir. Hiti 6 til 16 stig, hlýjast á S-landi.

Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag:
Norðaustlæg átt, skýjað og lengst af rigning með köflum fyrir norðan, en að mestu bjart syðra. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast um landið SV-vert.
Spá gerð: 24.06.2016 20:27. Gildir til: 01.07.2016 12:00.


Textaspár eru skrifaðar af vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands.


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica