Greinar
vegur, húsaþyrping, fjörður og fjöll í bakgrunni
Gjögur í skammdeginu.

Á Grænhóli á Ströndum 1929

Af gömlum blöðum

Trausti Jónsson 21.8.2009

Árið 1929 var eitt mesta gæðaár tuttugustu aldarinnar hvað veðurfar á Íslandi varðar. Hér má sjá hvernig það blasti við augum Níelsar Jónssonar en hann var veðurathugunarmaður á Grænhóli við Gjögur á Ströndum á árunum 1921 til 1934. Veðurskýrslur hans eru sérlega ítarlegar, bæði þau yfirlit sem hann skrifaði sem eftirmæli hvers mánaðar og auk þess lýsingar á veðri hvers dags. Rithönd Níelsar er óvenjusmágerð, en jafnframt læsileg.

Hér að neðan birtast mánaðayfirlit hans frá árinu 1929, auk bréfs sem hann skrifaði í lok ársins. Þetta ár verður að teljast einn af hápunktum hlýindaskeiðsins mikla sem stóð hér á landi frá því upp úr 1920 og fram á sjöunda áratuginn. Textinn hér að neðan er með sáralitlum breytingum frá handriti Níelsar nema hvað greinarmerkjasetningu er nokkuð hnikað til. Stafsetningu er haldið en örfáar greinilegar ritvillur leiðréttar. Eins er leyst úr skammstöfunum.

Brátt varð um Níels snemma árs 1934, en þá var hann ekki orðinn 65 ára gamall og gekk með honum einn minnisstæðasti athugunarmaður Veðurstofunnar.

Janúar

Óvenjugóð tíð yfirleitt. Rosi nokkur 1. til 4. og 11. Fannleysur óvenjulegar. Blíðuveður og fagurt mjög oft. Seinni hluta mánaðarins lítilsháttar snjóföl og hjelur. Síðustu sex dagana hrýðarveður af og til og töluverð snjókoma frá 27. og frost þá töluvert, sjerstaklega 28. og 29., annars mjög frostalaus fyrri partinn og frostvægur síðari partinn.

Á stöku bæjum aldrey hýst enn roskið fje og hestar, en rekið saman að beitarhúsum til tilhleypingar og er fje þetta í ágætum holdum. Hýst fé snertir varla hey nema töðu og albezta úthey. Sjómenn ólmir að komast vestur og suður. Þó er fiskur hjer allmikill, frá þúsund til 3 þúsund pund í sjóferð af flöttum fiski á 12 til 15 lóðir, lóðin venjulega með 100 til 120 önglum hver. Viðburður að farið sje á sjó. Útlendir togarar hjer oft.

Febrúar

Óminnilega góð tíð yfirleitt. Elstu menn muna ekki eftir jafn góðum vetri og þessum sem af er. Frost lítil og engin mjög oft. Snjókomur litlar, oftast þunnur hjúpur sem fljótt hvarf á láglendi. Seinni hluta þessa mánaðar hefur láglendi verið autt að mestu í miðjar hlíðar, hærra hrafl og hvít ofan fjöll og snjógrunt mjög.

Nú um mánaðamótin febrúar og mars er enn ekki farið að gefa rosknu fje á nokkrum bæjum hjer í hrepp, helst á norðanbæjum. Fje víða við beitarhús, en þar sem það er haft heima er því oftast stráð lítilsháttar, að undanteknum fáum dögum í jan., en aldrei í febr. Stillur og blíðuveður oft. Vel um fisk í allan vetur og enn hjer úti í flóanum, djúpálshöllunum. Og - hrognkelsi rauðamagi farinn að veiðast hjer lítils háttar, 7 til 12 á dag í 20 til 30 faðma langa netstúfa.

Mars

Óminnilega góð tíð. Tveir elstu búhöldar hjer á áttræðisaldri muna engan vetur þessum líkan. Þeir Kristinn Magnússon, Kambi, og Guðm. Pjetursson, Ófeigsfirði, og enginn hjer ungur eða gamall. Tíunda mars kannaði jeg mjög víða klaka eða þýðu í jörð með mjóum stáltein 90 cm löngum. Var þá mjög óvíða að finna klaka í túnum og móum, aðeins lítils háttar þar sem mýrlent var og þó lítilsháttar smáblettir, flestir svo þunnir að teinninn gekk í gegnum þá. Í móum fann jeg klaka tölur í stöku lágum og loðnum börðum. Klakalaus er nú talin jörð öll á láglendi í mánaðarlokin.

Gróður í túnum mikill til að sjá 18. mars og nál lítils háttar í úthaga en þó gráblettótt tún enn í mánaðarlokin en tínir mikið grænt í úthaga. Lambagras sje mikið og víða útsprungið á bersvæði 30. mars og sóleyjahnappar í túnum á stöku stöðum. Öll vinna möguleg til jarðræktar. Frekar ókyrð af og til til sjóar en fiskur talsvert vandhittur, er í ræmum víða í dýpishöllum og svo hnöppum. Fiskreyta 2-300 á 6-8 lóðir fæst hér á firðinum.

Íshús víst flest hjer klaka eða snjólaus og illnáandi í snjó nú, fyrir skip, sagt norður allar strandir. Bagalegur fleyrum en Grænlenskum skrælingjum blíðuveturinn þessi.

Farfuglar. Heiðlóur hjer 28. mars. Tjaldar hjer 8. mars. Svanir á vötnum 10. mars og síðan. Lómar fyr. Af fönnum mínum er nú Skarðagilsskaflinn einn eftir en þó lítill.

Apríl

Blíðviðri fyrri part mánaðarins til 15. Snjókast 16. lítils háttar og svo talsvert 17. og 18. og þá innistaða á fje hjá sumum. Eftir það góðviðri og allir að sleppa fje og hætta að hýsa 28. Gróður í úthaga, talsverður svo fje snerti varla beztu töðu. Skepnuhöld góð. Fje mjög misjafnt að holdum. Hestar alstaðar góðir að holdum, víða sama sem ekkert hýstir. Tún ekki fullgræn. Ávinsla mjög lítil enn.

Farfuglar og fuglar sem ekki halda til hjer á vetrum. Lómar sjeðir fyrst 11. febrúar, Tjaldar 8. mars, Svanir 10. mars, Heiðlóur 28. mars, Þrestir 30. apríl. Nú, 21. maí, eru allir venjul. farfuglar komnir nema Kría og Kjói. Afli altaf óvenju góður. Flestir sjómenn fjarstaddir.

Maí

Jelja og kalsa veður þrjá fyrstu daga mánaðarins. Hrýðibylur 4. og 5. Jeljaveður 6., hrýð fyrri hl. dags 7. og jeljaveður svo til 9. Góðviðri og blíðviðri svo mánuðinn út. Snjór dýpstur mun hafa orðið um 2 metrar í brekkum, en rann fljótt niður af sólbráð og hlýindum. Innistaða á fje allvíða 4. og 5. og hýst til 14. Kýr látnar út allvíða 20. maí og alstaðar 27. Tún algræn 28. Sóleyjar allmiklar í túnum og löngu fyr, en nú fíflar og lyfjagrös mjög víða að springa út.

Farfuglar í maí. Steindeplar 1. maí, Máríötlur 8., Gaukar 9. Helsingjaflokkar á norðurflugi 16. maí og síðar. Kríur 18. maí, sjeðar af öðrum, Kjóar 20. maí og talsvert mikið. Afli altaf góður á árabáta þegar gefur. Þokur baga því vand hitt er á það besta. Síld í lagnet hjer á firðinum síðan 25. maí. Stór hafsíld.

Níels á Grænhól
Níels Jónsson
Níels Jónsson á Grænhól 26 ára (um 1895).

Júní

Fyrsta júní hlýtt gott veður svo úrkomulítið, svalt til 10. Kuldi, hregg og regn 12. til 25. Blíða og fegurð svo mánuðinn út. Ókyrrð til sjóar meiripart mánaðarins. Grasvöxtur stóð að mestu í stað þar til hlýnaði, þá þaut það upp á túnum. Garðar með lakasta útliti. Snjór. Fjöll grá ofan af snjóhrími 4. júní til 9. og hvít niður í miðjar hlíðar 22. og hvít og grá efst mánuðinn út.

Síld lítil og dreif. Fiskur mest á hágrunnum og upp við lönd fullur af hrognkelsahrognum, krabba og rusli með mórusvarta lifur af hor.

Kría öll hvarf um 15. júní gjörsaml. úr varpstöðvum sínum og alstaðar hjer. Ungar hennar drápust í hrönnum í fyrrasumar í varplöndunum máskje af fæðisskorti. Kría sást aldrei bera síli aðeins smárusl sem Kjói leit valla við. Bar venjul. sílakippur öll undanfarin ár mín hjer. Svartfugl sjest valla, aðeins örfáir lundar. Svartfugl fanst dauður í hrönnum hjer í vetur. Máskje af sílis- eða fæðisskorti.

Júlí

Mánuðurinn hlýr og hægviðri yfirleitt. Þokur alloft til hafs og flóans og útnesja en hiti og sólskin innfjarða. Úrkomur mjög litlar, jörð öll, einkum mýrar óvenjuþurrar. Grasspretta með albesta móti, tún óvenju vel sprottin og engjar víðast eins. Mýrar urðu hlýjar í hitunum og þaut þá grasið upp. Þurkur á heyjum hefur gengið fljótt og ómakalítið. Túnsláttur byrjaði almennast um 13. júlí og eru margir búnir að alhirða töður. Sumir hugsa til að slá aftur eitthvað af túnum. Nóg er grasið og góð er tíðin en fólkið fátt að nota þetta.

Gæftir til sjóar góðar af hægviðrum, en þoka og ís bagaði talsvert því vandhitt er á bestu miðin. Fiskur mest í álhöllum og brúnum og á grunnum. Síld óð mest í þunnum torfum ofan sjáfar og hjelt sig á grunnum.

Farfuglar. Heiðlóur byrjuðu að æfa flug um 20. Þá hurfu gaukar. Heiðlóur eru enn en fátt um spóa orðið og fleira. Hafíshroði allmikil oft hjer í flóanum síðan 7. júlí.

Ágúst

Hægviðri allan mánuðinn undantekningalítið og þurviðri mikil, jörð óvenju þur fyrri hluta mánaðarins. Regn sex sinnum teljandi, allmikið þrisvar, 13., 23., 24. Þokur oft til hafs, flóans og útnesja en bjart innfjarða, oft. Hafís allmikill úti hjer meiripart mánaðarins. Heyskapartíð ágæt, en liðfátt við vinnu. Gæftir til sjávar góðar að undanskildum þokum og ís. Afli afar tregur, helst á grunnum fæst fiskur, krabbar og rusl í maga hans. Síli, átu, fiska og fugla, varð ekki vart við og mjög lítið um fugla sem lifa á því. Svartfugl og Kría sérstaklega. Gras í úthaga og á engjum fjell fljótt máske af þurkum fyrri hluta sumars og lágum hita seinni part ágúst. Í görðum spratt afar illa. Snjór nýr á fjöllum altaf eftir 23. ágúst og þá hvítt í sjó í fyrsta sinn. Borgarísjaki kom hjer 23. ágúst og stendur grunnt út í flóa síðan.

Farfuglar: Gaukar hurfu snemma í ágúst og fleira um miðjan mánuðinn. Kríur síðast hjer 22. Spóar síðast 24. Heiðlóur, þúfutitlingar, steindeplar eru hjer enn. Helsingja flokkar sáust hjer fyrst í suðurflugi 21. ágúst. Súlur eru sjaldsjeðar hér, en hafa sjest hjer nú lítils háttar síðan 26. þessa mánaðar.

September

Mánuðurinn er óvenjulega hægviðrasamur yfirleitt, sjerstaklega fyrri hluti hans og úrkoma þá lítil. Þotuvindar síðari part mánaðarins stöku sinnum og úrkoma allmikil. Heyskapartíð ill. Jörð víða mjög vot. Snjór nýr altaf á fjöllum og síðari part mánaðar oftast grátt í miðjar hlíðar og síðast víða í sjó. Hafíshroði lítils háttar stöku sinnum sást. Borgarísjakinn hvarf fyrst í sept.

Afli altaf að minka. Smokkfiskur mikill hjer síðan 20. ágúst og er enn í torfum ofan sjóar oft.

Farfuglar: Helsingjaflokkar á suðurflugi hafa sjest af og til síðan 21. ágúst til 20. sept. Heiðlóur sá jeg síðast 20. sept og steindepla 23. Þrestir eru hjer enn.

Október

Heyjað var 12. til 17. okt og sýndist grasið vel grænt nema ¼ stráanna ofan af útengi mýrlendu.

Nóvember

Mjög vindasamt, sjerstaklega seinni hluta mánaðarins og alda talsverð nær altaf. Ógæfir miklar til sjósóknar í flóann, og óþægileg veðrátta til flestrar útivinnu á landi. Regn og snjókomur flesta daga. Sortahrýð, byljir stöku daga og parta úr dögum. 10. til 16. fannkoma mikil, og hrýð af skafkafaldi á milli. Komu þá víða fannir í skjól, bakka, gil og skurði, mátti þá finna 6 álna djúpa skafla á stöku stöðum. Fenti þá kindur á mörgum bæjum en hvergi margt. Mynduðust þessar fannir af skafkafaldshrýðum, annars var oftast víðast snjógrunnt. Fje hjelt sig víða við beitar húsin sem eru á mörgum býlum hjer en nokkrir hýstu og stráðu fje og höfðu inni í verstu veðrum. Hestar mjög óvíða hýstir.

Desember

Aftakaveðrið 1. og 2. des.: Í Naustavík brotnuðu nær til ónýtis tveir bátar, átti bóndinn þar báða. Stór, útlend julla þúng hvolfdi þar í skafli, fauk hún á annan bát bundinn í nausti, braut hann og fór á loftköstum í sjóinn og rak flakið inn í Reykjarfirði. Bóndinn Guðmundur Árnason, hraustur og harðfenginn maður, treysti sér ekki slisalaust að fara að jullunni til að kafmoka hana í snjó, enda hafði hann aðra áhyggju. Járnþak á fjárhúshlöðu hans gekk út og inn í bylgjum, en það hjekk. Stórflæði og öldurót tók bát bóndans í Ingólfsfirði og braut, var hann í venjul. vetrar stað. Veðrið tók hann svo af briminu og feykti honum og braut hann í spón. Ingólfsfjarðareyrar voru þá langt fram eftir eitt sjávarflóð (grasi grænar grundir með síkjum!) með lágöldu en stórbrot utar. Símastaurarnir sýndust þá standa upp úr firðinum, all langt frá botni hans.

Fylgiblað með desember veðurskýrslu 1929

Fyrsta og annan desember var hjer aftakaveður rok, úr landsteinum alda mikil og flóð. Var veðrið fyrst austnorðaustan og almest austan. Í rúm 20 ár hefur ekki komið hjer jafnmikið veður og hlífði sköðum á ýmsu að alt var freðið. Jeg man annað stórviðri um líkt leyti árs, en minna sjóflóð þá og sjórót var þá, mikil fönn og alt freðið. Það var austanveður og ekki stætt úti nema í sköflum og með staf. Jeg fauk þá; var jeg þá milli 30 og 40 ára, hafði stóran sterkann staf, var á heimleið lausgangandi, ætlaði að standa af mjer eitthvað alharðast veður á Reykjanesrimum, sneri baki í veðrið og pældi stafnum útundan mjer og stífaði mig sem gat en ekki dugði það, jeg hrintist úr þessum skorðum, fjell og fauk á flugrennsli yfir mel og fram á mýri um 20 faðma og taldi mig hólpinn að halda limum óbrotnum.

Jeg man eftir miklu meira ölduróti fyrir rúmum 30 árum, um haust í norðrænu byl og aftaka veðri NNV1. Þá öldu kalla jeg 9 og gamalt fólk mundi annað stórbrim eins fyrir tugum ára þá. Aldan nú 2. des. var það, að jeg taldi hana 7 (sjá fróðleik um sjólag). Mikil var hún hjer og flóðið en fráleytt var hún meira en 7 móti hinni 9. Það var stór hrikaleg sjón að sjá þá hryggi koma, hefja sig hærra og hærra, mynda þykkan ægilega háan öldufald, og steypa honum svo í dimmsvartri holskeflu niður, sem knúsaði loftið innan í sjer í froðu kúfa svo ógurlega og fylti upp víkur og voga og manni fanst titringur greinlega inni í húsum og aldan átti hjer beint á móti veðuraftökunum að sækja.

Í veðrinu nú fyrsta og annan des. lágu tveir litlir mótorbátar, 4 og 5 tonn, á Reykjarfirði Kúvíkum og varð ekkert að þeim. Eins lágu þeir í síðara austanveðrinu 21. des og varð ekkert að þeim.
Trylla stór sem Einar Sigvaldason á Sundnesi á Selströnd við Steingrímsfjörð átti hvarf þá um nóttina, af legu, sökk þar, eða sleit upp og hefur þá sokkið á firðinum. Lauslegt rak úr henni hinsvegar fjarðarins.

Mælar og annað sem Veðurstofan á hjá mjer er í góðu lagi nema Minimum, sem stendur of lágt. Samanburð í snjó og vatni skal jeg senda, sem fyrst af mælunum. Mjer virðast þeir hár rjettir þegar þeir eru settir og slegnir niður.


Jeg veit nú ekki hvað jeg endist lengi til að athuga, því jeg er nú sextugur 23. maí í vor, og er mikið farinn að slappast; verð að hálfþvinga mig til að fara út í verstu bylji og stórviðri seint og snemma að athuga og er þá oft lengi að sjá það rjetta, athuga snjódýpi og skipta um snjómæla. Það lakasta við að hætta að athuga hjer er, - að þessi ár sem jeg hef athugað hér eru engin meðalár hjer, - heldur þau albestu sem elstu menn muna að flestu og mestu yfirleytt.

Grænhól 1. jan. 1930 Níels Jónsson

Efni um Níels

Lesa má um Níels í bókinni:

Bræður af Ströndum: dagbækur, ástarbréf, almenn bréf, sjálfsævisaga, minnisbækur og samtíningur frá 19. öld / Sigurður Gylfi Magnússon tók saman. Reykjavík : Háskólaútgáfan, 1997. 323 s.

Þar má finna leið að frekari heimildum.

1 Veðrið sem Níels á hér við er trúlega það sem gekk yfir fyrstu dagana í október 1895. Þá varð mikið tjón á Ströndum og víðar í aftakasjávargangi. Þessu veðri er stundum ruglað saman við fjárskaðaveðrið mikla á Austurlandi sömu daga ári síðar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica