svarthvít mynd, tveir menn standa við húsvegg með hendur í vösum
Þórir Sigurðsson og Hafliði Guðmundsson á Búð í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu.

Um hafís fyrir Suðurlandi

- frá landnámi til þessa dags

Þór Jakobsson 9.5.2006

Á Oddastefnu í Þykkvabæ 20. maí 1995:

"Þess vegna eru þeir, sem Suðurland byggja, miklu hamingjusamari en Norðlendingar, því fyrir sunnan sést hafísinn aldrei." Svo segir í Íslandslýsingu Odds Einarssonar biskups, frá því um 1590.

Svo sjaldséður er hafís fyrir sunnan landið, að Oddur telur hann aldrei sjást og sjálfsagt mundu margir af yngstu kynslóðinni nú á dögum taka undir. Sagnir eru þó um hafís fyrir Suðurlandi fyrir daga Odds og fyrir rúmum aldarfjórðungi stefndi hafís vestur með suðausturhorni landsins, og náði að Ingólfshöfða áður en hann bráðnaði og hvarf.

Segja má með sanni að hafís úti fyrir ströndum Norðurlands sé sjaldgæf sjón þar sem hann er í raun afvegaleiddur ís úr Austur- Grænlandsstraumi, og er því hafís fyrir Suðurlandi vissulega enn óeðlilegra fyrirbæri. En hin ótíða koma hafíss til Íslandsstranda gefur því einmitt til kynna, hve mörk gerólíkra hafstrauma eru skammt undan ströndum landsins. Ískaldir straumar að norðan og hlýir að sunnan strjúkast við hvora aðra í grennd við Ísland. Sömuleiðis eru hér landamæri ólíkra veðurfarssvæða, annars vegar fimbulkulda í norðri og hins vegar hlýrra loftmassa sem streymt hafa langa leið úr suðvestri frá suðlægari breiddargráðum.

Aftur upp

Vöktun hafíss fyrr og síðar


Nú á dögum er fylgst með hafís í Grænlandssundi og við strendur Íslands árið um kring með ýmsum ráðum nútímatækni. Veðurstofu Íslands sem um þessar mundir heldur upp á 75 ára afmæli sitt, berast í sífellu hafísfregnir frá skipum, flugvélum, veðurathuganastöðvum við ströndina, jafnvel frá veðurtunglum sem svífa í 900 kílómetra hæð yfir jörðu og skynja endurvarp geisla frá höfum, löndum og hafísum. Hinum margvíslegu upplýsingum er haldið til haga og ársskýrslur um hafís við strendur Íslands eru gefnar út. Þar er útdráttur helstu frétta af hafís alla mánuði ársins.

Upplýsingar um hafís fyrr á tímum er fyrst og fremst að finna í bók Þorvalds Thoroddsen, "Árferði á Íslandi í þúsund ár". Þar er kafli um hafís frá landnámi til ársins 1915. Í "Veðráttunni", mánaðaryfirliti Veðurstofunnar um veðurfar á Íslandi, hefur allt frá og með árinu 1924 birst stutt yfirlit um hafís við strendur landsins. Jón Eyþórsson samdi skýrslur á tímabilinu 1953 - 1966 og birti jafnóðum í tímariti Jöklarannsóknafélagsins, Jökli. Þar bættust síðan við skýrslur veðurfræðinganna Hlyns Sigtryggssonar, um árið 1967, og Flosa Hrafns Sigurðssonar, um árið 1968.

Ársskýrslur eftir Eirík Sigurðsson veðurfræðing um hafís á tímabilinu 1968 - 1971 komu svo út í þremur heftum og voru það fyrstu skýrslurnar sem Veðurstofan gaf út með heitinu "Hafís við strendur Íslands." Síðan hefur verið stefnt að því að semja ársskýrslur, en sökum anna er þó stundum erfitt að standast ströngustu kröfur sem við á Veðurstofunni höfum sett um reglubundna útkomu heftanna.

Viðamesta samantekt um hafís við Ísland er 3. kafli í bók Þorvalds Thoroddsen, "Árferði á Íslandi í þúsund ár" sem Hið íslenska fræðafjelag í Kaupmannahöfn gaf út árin 1916 - 17. Kafli þessi heitir "Hafís við strendur Íslands" og er um 80 blaðsíður. Þorvaldur gerir grein fyrir hafís við Ísland frá landnámi til ársins 1915 með því að nýta allar tiltækar bókmenntir þar sem minnst er á hafís og árferði, fornsögurnar, annála, Íslandslýsingar og skýrslur seinni tíma. Erindi mitt hér á Oddastefnu verður mestmegnis fólgið í upplestri á þeim lýsingum Þorvalds þar sem minnst er á hafís við Suðurland. Vona ég að áheyrendum muni þykja fróðleg slík söguleg hraðferð, þar sem leiftur úr reynslu forfeðra okkar minnir okkur á að þeir áttu ekki alltaf sjö dagana sæla.

Aftur upp

Samantekt úr bók Þorvaldar Thoroddsen


Þorvaldur Thoroddsen skrifar að fátt nákvæmt sé vitað um hafís fyrstu aldir Íslandsbyggðar. Alkunnug er sagan um Hrafna- Flóka. Hann hafði vetrarsetu í Vatnsfirði við Barðaströnd um 865 og missti kvikfé sitt, af því hann hafði ekki "gáð að fá heyanna". "Vor var kalt, þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið". "Flóki hefir líklega gengið upp á Hornatær", segir Þorvaldur Thoroddsen, "það eru hæstu fjöll þar í nánd" og bætir við: "Þaðan hefur hann sjeð yfir Arnarfjörð og hefir líka sjeð fleiri Vestfirði og ef til vill Strandir og Húnaflóa. Hafi Arnarfjörður verið fullur af hafís, þá hefir verið mikið ísár."

Þorvaldur heldur áfram: Um harðindi er oft getið á 10. og 11. öld. Í Eyrbyggju er getið um harðan vetur, líklega á árunum 1010 - 1012. Þá kom norðanhríð mikil á góu, er stóð í viku, og segir síðan í Eyrbyggju: "en er af ljetti hríðinni, sá menn, að hafís var kominn allt hið ytra, en þá var ísinn eigi kominn inn í Bitruna; fóru menn þá að kanna fjörur sínar". Hafís hefir þá rekið inn á Húnaflóa og menn hafa þá sem síðar vonað að honum fylgdi hvalir og trjárekar.

Á 12. öld vantar líka beinar frásagnir um hafísa, en þá voru líka oft harðindi, t.d. 1106: "Þá gnúði á hallæri mikið og veðrátta köld", en Jón Ögmundsson helgi bætti árferði með áheitum sínum og í sömu viku voru í brottu ísar þeir allir, er þetta hallæri hafði af staðið". Hér er eflaust átt við hafís, segir Þorvaldur.

Á 13. öld fara annálar fyrst að nefna hafísa við og við og næstu aldir er þeirra getið, en alltaf sjaldnar en 10 sinnum á öld. Frá og með 17. öld fer ísfregnum að fjölga, en fullvissa um öll ísár fæst ekki fyrr en á 19. öld.

Í fyrrnefndum kafla Þorvalds Thoroddsen um hafís við strendur Íslands greinir hann frá annálum, dagbókum og öðrum upplýsingum sem hann studdist við og verður það ekki endurtekið hér. Þorvaldur hefur frásagnir um ísrekið með 13. öld. Þá er fyrst nokkuð samanhengi í þeim, segir hann, og minnir á framansagt:

"Á 4 fyrstu öldunum var ísára sjaldan getið og þó með óvissu, vjer höfum getið um ís á árunum 865, 1010-1012, 1015?, 1106, 1118?, 1145, en vafalaust hefir hafís komið miklu oftar á þessum öldum og mikil líkindi til, að hann hafi oftast komið þegar mikil harðindi voru."

Aftur upp

Hafísaannáll til 1800

Hér fer á eftir útdráttur þeirra hafísára í frásögnum Þorvalds jarðfræðings þar sem getið er um hafís við Suðurland. Á tímabilinu frá 13. til 16. aldar er um að ræða um það bil 10 ár, á 17. öld um 9 ár, á 18. öld 6 ár og á 19. öld um 12 sinn.

 • 1258. Veðrátta svo ill um vorið, að menn vissu eigi dæmi til, hafís var þá kringum landið og hver fjörður fullur.
 • 1261. Hafís umhverfis Ísland.
 • 1275. Veiddir á Íslandi hvítabirnir 27; kringdi hafís nær um alt Ísland.
 • 1279. Hannes biskup Finnsson getur þess eftir Austfjarðaannál, að þá hafi verið svo harður vetur með stórfrostum, að hafið hafi lagt svo mjög, að fara mátti með eykum margar vikur sjáfar á ísi, og hafi þeir ísar legið eftir um vorið kringum Ísland allvíða lengi sumars, svo enginn hafi vitað dæmi til slíks, og hafi menn hugað að landið mundi eyðast af þeim ísum, því í fáum veiðistöðum hafi orðið til fiskis róið.
 • 1319. Hafísar fyrir Austfjörðum og Síðu, dóu 13 hvalir í einni vík fyrir Litlahjeraði {nú Öræfum} og komu nær allir á land.
 • 1320. Ísa vor. Hafísar lágu umhverfis Ísland fram á mitt sumar; skiptjón í ísum fyrir Austfjörðum og komust allir menn á land heilir og lífs; tvö önnur skip braut í ísnum, annað við Eyjar, hitt fyrir norðan Langanes.
 • 1321. Óáran mikil á Íslandi og dóu menn víða af sulti. Ísar kringum Ísland, hvítabjörn kom á land í Heljarvík á Ströndum og drap 8 menn.
 • 1470. Vetur harður frá jólum, en hafís lá um land alt fram á sumar.
 • 1552. Fellivetur mikill. Á dögum Marteins biskups snemma, segir Jón prestur Egilsson, að komið hafi svo mikill hafís syðra, að hann lá út á sæ meira en viku sjóar og tók langt út fyrir Þorláks-hafnarnes og var mikil selveiði á honum, hann kom fyrir vertíðar-lok um sumarmál.
 • 1605. Ís kom mikill, hann kom fyrir austan land, rak alt um kring að austan og sunnan ofan fyrir Grindavík um vertíðarlok.
 • 1610. Vetur harður og langhríðarsamur. Þá kom hafís fyrir sunnan (líklega frá Austurlandi) og var mikill selfengur á; þá var björn unninn í Herdísarvík.

Aftur upp

 • 1615. Rak inn ís fyrir norðan land á þorra og kringdi um alt land, hann rak ofan fyrir Reykjanesröst og um Voga og fyrir öll Suðurnes, engir mundu ísrek skeð hafa sunnan fyrir röst; var þá seladráp á ísi um Suðurnes. Hafísinn var svo mikill fyrir sunnan, að ekki varð róið fyrir sunnan Skaga (þ. e. Garðskaga) og druk(k)nuðu á honum tveir menn er fóru að seladrápi. Þá brotnuðu hafskip víða í ísi. Bjarndýr gengu víða um land, en gerðu þó ei mein, mörg voru unnin fyrir sunnan og austan, eitt var drepið á Hólum í Hjaltadal. Fyrir norðan lá ísinn til fardaga.
 • 1617. Kaupfar, sem fara átti til Eyrarbakka, viltist í þokum, komst í hafís og varð fyrir miklum hrakningum, urðu hásetar að slá sel á ísnum sjer til matar.
 • 1639. Ís við land allan veturinn, kom hann austan fyrir landið og svo fyrir Suðurnes, stóðu af honum mikil harðindi og var hann gagnslaus að öllu, selatekja engin fyrir norðan land.
 • 1687. Þá kom hafís nyrðra og í Austfjörðu alt suður í Hornafjörð.
 • 1694. Hafísar miklir komu fyrir norðan og austan alt fyrir Eyrarbakka og Vestmannaeyjar, stóð af ísnum óáran nyrðra, og þaðan fór ísinn ekki fyrr en eftir alþing.
 • 1695. Óvanalega miklir hafísar. Ís rak um veturinn upp að Norðurlandi og lá hann fram um þing, norðanveður ráku ísinn austur fyrir og svo suður, var hann kominn fyrir Þorlákshöfn fyrir sumarmál og sunnudaginn fyrstan í sumri (14. apríl) rak hann fyrir Reyjanes og Garð og inn á fiskileitir Seltirninga og að lokum að Hvalseyjum og í Hítarós, fór hann inn á hverja vík. Hafði ís ei komið fyrir Suðurnes innan 80 ára, þótti því mörgum nýstárlegt og undrum gegna um komu hans. Þá mátti ganga á ísum af Akranesi í Hólmakaupstað (Reykjavík) og var ísinn á Faxaflóa fram um vertíðarlok rúmlega, braut hann skip undan 6 mönnum fyrir Garði, en þeir gengu allir til lands.
 • Litlu eftir vertíðarlok urðu frakkneskir hvalveiðimenn að ganga af skipi sínu í ísi fyrir Reykjanesi; 8 skotskum mönnum var bjargað af ísjaka í Vestmannaeyjum, höfðu franskir víkingar rænt þá, flett klæðum og látið þá svo út á ísinn allslausa. Að vestan kom ís fyrir Látrabjarg, en norðanlands mátti ríða og renna fyrir hvern fjörð um vorkrossmessu. Ísinn gekk sumstaðar upp á land og varð að setja báta lengra upp en vandi var til. Nyrðra sást eigi út yfir ísinn af hæstu fjöllum, syðra sást út fyrir hann og kaupskipin fyrir utan, sem hvergi komust að landi, og eigi varð heldur komist til þeirra, og komust menn í mikla þröng af siglingarleysinu, því flest vantaði, er á þurfti að halda, kornvöru, járn, timbur og veiðarfæri.
 • 1745.Hafís var þá fyrir öllu Norðurlandi og rak inn á hvern fjörð og nálega komu ísar kringum alt land; hafís rak þá einnig fyrir Suðurland. Undir jólin lagði lagnaðarís fram að hafísnum og fraus saman við hann. Þá komu 4 eða 5 bjarndýr á ísnum nyrðra og voru 2 eða 3 unnin, einnig voru 5 bjarndýr drepin um vorið í Skaftafellssýslu. Allur Eyjafjörður var farinn með klyfjaða hesta alt að Látrum og út í Ólafsfjörð. Fyrir Hjallasandi lagði ís á þorra, svo ei varð róið nokkra daga, og svo aftur í fyrstu viku góu.

Aftur upp

 

 • 1756. Þá rak inn hafísa á einmánuði fyrir öllu Norðurlandi, inn á hvern fjörð og fyrir alt Austurland og suður til Vestmannaeyja, hann hindraði allar skipagöngur og fór eigi frá landi fyrr en 25. ágúst. Voru þá oft á Norðurlandi hörkufrost og snjóar í júlí og ágúst mánuðum.
 • 1758. Þá sást alls enginn hafís við Ísland og hafði það varla komið fyrir í manna minnum, að því er Jón Marteinsson segir.
 • 1759. Mikill ís við Norðurland og hafís rak niður með Suðurlandi undir Vestmannaeyjar.
 • 1766. Vor og fyrri partur sumars var þá sárkalt með frostum og stórhretum, því hafísar miklir komu þá að Norðurlandi og rak þá kringum land alt frá Látrabjargi norður og austur fyrir land, og svo suður að Reykjanesi. Hafísinn rak inn nyrðra hinn 19. apríl og fylti alla firði, lá hann fram á sumar og voru enn á Jónsmessu hafþök fyrir öllu Norðurlandi.
 • 1791. Mjög harður vetur. Í febrúar komu hafþök af ísi nyrðra og lagðist ísinn kringum alt land frá Látrabjargi að Reykja-nesi á Suðurlandi og jakar hröktust jafnvel inn að Hjörsey á Mýrum.
 • 1792. Kom hafís í janúar að Norðulandi og lá til miðsumars, en firði alla lagði af frostum, svo þá mátti ganga og ríða fram á vor; lágu hafísar þá austur fyrir land, alt suður að Horni. Hvítabirnir komu þá á land og var einn skotinn á Látraströnd og annar í Fljótum. Þá var gengið milli þeyja hjá Seltjarnarnesi og frá Viðey að Hofi á Kjalarnesi og svo yfir Hvalfjörð frá Klafastaðagrund yfir á Kjalarnes, en frostbrestir urðu svo hvellir, sem úr fallbyssum væri skotið. Var í fardögum riðið fyrir framan Bitru, frá Skriðnesenni í Skálholtsvík og vertíðarlokahestar voru reknir á ísi yfir Hvítá í Árnesþingi.
Aftur upp

Annáll frá 1800

 • 1815. Þá kom íshroði í miðjum marzmánuði nyrðra og fór eftir mánuð. 11. marz kom hafísinn að Ólafsfirði, 17. s. m. sást í auðan sjó úti fyrir, en ísmul og brimsvolgur við landið; 15. apríl komu menn úr legu, en gátu ekki komist á Siglunes vegna íshroða og brims. 14. des. s. á. þóttu allar líkur til að ís væri í nánd eftir tíðarfari (Síra Ólafur Þorleifsson). Töluverður ís hefir þá líklega verið á reki fyrir Austurlandi, því sagt er að ísbirnir hafi gengið þar á land, og jafnvel á Suðurlandi.
 • 1817. Mikið ísaár. Þá rak hafís að Norðurlandi í miðjum janúarmánuði, og hjeldust hafþök fram eftir öllu vori, svo kaupskip komust ekki á Akureyri fyrr en undir miðjan júlímánuð og var þá enn töluverður ís á hrakningi. {Sleppt hér allítarlegri lýsingu á hafís á Ólafsfirði og Eyjafirði.} Þann vetur var einnig mikill ís fyrir austan og vestan, svo yfir Ísafjarðardjúp var farið með hesta fram eftir vori og eins sumstaðar um firði á Austur- og Norðurlandi. Hafíshroða rak þá að austan út fyrir Eyjafjöll og Vestmannaeyjar. Hvali rak víða á Norðurlandi og í Aðalvík kom á ísnum grúi vöðuselskópa og var hver bátur fyltur eftir annan. Fyrir Austurlandi var hafísinn á hrakningi frá nýári til bænadags.
 • 1820. Þá kom dálítill hafíshroði við Norðurland; ís rak inn á Hjeðinsfjörð 18. marz, en hann dreifðist fljótt aftur; á Siglufirði varð vart við bjarndýr. F. Faber getur þess {F. Fabers´s Dagbog}, að nokkur hafíshroði hafi komið að Grímsey 9. júní, en siglingamenn sögðu þá lítinn ís í Norðurhöfum, en miklar ísbreiður frá fyrri árum væru á flækingi suður um Atlantshaf, jafnvel suður á 40. mælistig n. br.
 • 1826 er ekki getið um neinn ís við Norðurland. En það ár var einkennilegt ísrek fyrir Suðurlandi, sem Abel sýslumaður í Vestmannaeyjum hefur lýst. Hinn 26. maí sáust frá Vestmannaeyjum í hægu og heiðskíru veðri hafþök af ís, sem rak með 3 - 4 mílna ferð frá Dyrhólaey vestur með landi til eyjanna. Þegar ísinn náði Elliðaey og Bjarney, stóðu nokkrir jakar grunn fyrir austan og suðaustan þær og stórir fjalljakar staðnæmdust fyrir sunnan Bjarney á 60 faðma dýpi. Ísinn þakti gjörsamlega sundið milli lands og eyja, en ekki var hægt að sjá út yfir þann ís, er rak fyrir sunnan Vest-mannaeyjar, svo langt náði hann til hafs. Þetta ísrek var 4 - 5 klukkustundir að fara fram hjá eyjunum. Dagana næstu eftir var kyrt veður og heiðskýrt, fjallajakarnir, sem strandað höfðu, brotnuðu smátt og smátt og breyttu lögun, en 8. og 9. júní kom kvika, sem eyddi þeim öllu og rak íshroðann í vesturátt. Meðan á ísrekinu stóð var svo kalt í Vestmannaeyjum, að varla var hægt að bræða hjelu af gluggum þó lagt væri í ofna, og segist Abel aldrei í þau 30 ár, sem hann var í eyjunum, hafa fundið annan eins kulda.
 • 1835. Um nýár fjellu á harðindi jafnt yfir alt land. Hinn 7. janúar rak ís að Norðurlandi, fylti þá Ólafsfjörð og lá fram í febrúar. 6. marz komu aftur hafþök af ísi, staðnæmdist hann fyrir öllu Norðurlandi, síðan fyrir Hornströndum og Austurlandi. Ísinn var ekki algjörlega farinn frá Norðurlandi 5. júlí, þó hann lónaði frá um stund í júní og jafnvel í maí, svo kaupskip komust inn á Skagaströnd og Hofsós. Hinn 3. júlí voru hákarlaskip frá Eyjafirði föst í ís við Slejettu og 27. júlí var ísinn að reka norður eftir af Húnaflóa. Ísinn komst snemma austur fyrir og rak í maímánuði suður með landi alt út í Grindavík, og á fjórðu viku fylti hann sundið milli Eyjafjalla og Vestmannaeyja, svo þar sá hvergi í auðan sjó. Vorið var á Suðurlandi mjög kalt og gróðurlaust fram undir messur; fyrri hluta júnímánaðar varð að gefa hestum ferðamanna undir Eyjafjöllum; syðra snjóaði í fjöll á Jónsmessu og frost voru svo mikil, að fatnaður ferðamanna stokkgaddaði á Hellisheiði 17. - 18. júnímánaðar. Hinn 6. maí lá ís á Ísafjarðardjúpi; hvalir nokkrir fundust í ís og bjarndýr gengu á land hjer og hvar nyrðra.
 • 1837. Þá kom ís með meira móti. {Lýsingu sleppt á hafís við Norðurland. Síðar segir:} Seint í maímánuði var ísinn kominn suður að Skaftárósi, en rak fljótt burt aftur.

Aftur upp

 

 • 1840. Seint í janúar var alt orðið fult af ísi í Ólafsfirði, en svo losnaði hann aftur frá og var íslaust til 26. marz, þá kom ísinn aftur (Ó. Þ.) og rak þá líka inn á Eyjafjörð í marzmánuði. E. Möller segir, að stöðugir vestanvindar hafi verið allan marzmánuð, en þó aldrie nema hægir, "og rak þá ísinn stöðugt austur með og hafði viðlíka ferð einsog siglandi bátur í hægum byr". Snemma í maí var orðið íslaust alt frá Hornströndum til Grímseyjar og Rauðanúps og hjelzt það sumarið út, að íslaust var fyrir öllu Norðurlandi; en alt frá Langanesi, fyrir öllu Austurlandi, alt suður á Ingólfshöfða, lágu hafþök alt sumarið, þar til seint í ágústmánuði. Um vorið kom ísinn upp að Suðurlandsundirlendi, alt suður að Reykjanesi, og lá þar rúman hálfan mánuð, en rak svo suðaustur í haf.

  Fyrsta skip, sem átti að fara til Húsavíkur, Akureyrar og Hofsóss, komst eftir mikla baráttu inn á Eskifjörð 4. júlí, en komst ekki þaðan fyrr en 28. s. m. og náði þó ekki höfnum sínum fyrr en í miðjum ágústmánuði. Skipstjóri Lorentzen, sem var á Eskifjarðar- skipi það ár, kvaðst hafa sjeð fyrstu ísjakana miðja vegu milli Færeyja og Íslands. Einstakir jakar sáust líka við Suðurland, alt til Vestmannaeyja. Hinn 19. júlí segir J. C. Schythe, að Berufjörður hafi verið fullur af ís og í honum aðeins fáar vakir, en 11. ágúst var ísinn tvær mílur undan landi á Vopnafirði og var þá að hverfa frá landinu. Þá var björn unninn á Berufirði og annar á Vopnafirði. Ísinn virðist þetta ár snemma hafa rekið austur fyrir og nokkuð af ísnum við Austfirði getur hafa komið beint úr austri, úr eystri pólstraumskvíslinni. C. Irminger admírall getur þess, að það ár hafi mjög mikill ís verið við Austfirði. {Lýsing lengri. Afgangi sleppt hér.}

Aftur upp

 

 • 1859. Eftir nýár rak hafís að Vestfjörðum og Norðurlandi, hann fór brátt aftur, en rak svo aftur að í febrúar og marz. Hinn 31. janúar frjettist til íss frá Eyjafirði og jakar komu inn á fjörðinn; 21. marz var fjörðurinn þakinn af hafís, sem var á reki á firðinum fram eftir vori og 13. júní var enn nógur hafís úti á firði og fyrir utan land. Ár þetta kom yfirleitt mikill ís til Íslands og í aprílmánuði var ís fyrir öllum Vestfjörðum suður undir Breiðafjörð og fyrir öllu Norður- og Austurlandi suður fyrir Papós; í ísnum urðu hvalir víða fastir, en fáir urðu að notum. Skip, sem fór til Austurlands um vorið, mætti hafís miðleiðis milli Færeyja og Íslands og íshroða rak fram hjá Dyrhólaey og suður með Reykjanesi; 17 mílur lá ísinn sem samfrosin hella, vakalaus á haf út í austur af Langanesi, en skör þessi mjókkaði eftir því sem suður eftir dró. Það var haldið, að frá Norðurlandi hefði í apríl verið gengt til Grænlands(!){upphrópun í ritgerð Þorvalds}. Hákarlaskip frá Eyjafirði 2 eða 3 fórust þá í ísum og kaupskip komust eigi til Eyjafjarðar fyrr en 6. júní. Hafíshroði var að flækjast fyrir utan Norðurland og Vestfirði fram í septembermánuð.
 • 1866. Mikið ísaár, hafþök fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. {Langri lýsingu sleppt. Hér einungis endurtekið til fróðleiks eftirfarandi:}. ........ Þá var gengið úr Reykjavík bæði til Engeyjar og Viðeyjar, enda lá ísinn langt fyrir utan allar eyjar og sker og allar götur upp undir Kjalarnes; Skerjafjörður og Hafnarfjörður voru lagðir og sjórinn suður og vestur fyrir Keilisnes var ísum þakinn, en stór ísspöng með allri hafsbrún, var sá ís að líkindum rekinn út frá Borgarfirði.
 • 1881: Mikill ísavetur og hinn mesti frostavetur. Þá lagði ísa norðan að öllu landinu á svæinu frá Látrabjargi, norður, austur og suður að Eyrarbakka. Hafísinn hafði komið upp undir Norðurland í lok nóvembermánaðar árinu áður, og varð um jólin landfstur við Vestfirði norðan til og við Strandir, rak þar inn á hvern fjörð og voru hafþök fyrir utan. Í fyrstu viku í janúarmánuði lónaði hafísinn frá fyrir norðan og rak út hroðann af Eyjafirði og öðrum fjörðum. Að kvöldi hins 9. janúar sneri við blaðinu og gerði ofsa-lega norðanhríð um alt Norðurland og Vestfjörðu, en minna varð af því syðra og eystra; illviðri með hörkufrostum hjeldust fram í miðjan febrúar. Með hríðum þessum rak hafísinn að landi og fylti firði og víkur og fraus víða saman við lagnaðarísa í eina hellu, því þá voru hin grimmustu frost. Í lok janúarmánaðar var Eyjafjörður allur lagður út undir Hrísey og mátti aka og ríða eftir honum endilöngum; ísinn var síðar mældur á Akureyrarhöfn og var nærri þriggja álna þykkur.
 • Þegar í miðjum janúar var ísinn kominn fyrir Múlasýslur, 17. janúar á Berufjörð; rak ísinn inn á alla firði eystra og fraus saman við lagnaðarísinn. Hafísinn rak líka fyrir Skaftafellssýslur og var kominn fyrir Hornafjörð 19. janúar. Fyrir Meðalland rak fyrst íshrafl um janúarlok, en síðan kom hella mikil, sem ekki sást út fyrir, náði ísbreiða þessi út á 30 - 40 faðma dýpi fyrir Meðallandi og stóð þar við í viku, fór burt 14. febrúar; af ís þessum gengu 3 bjarndýr á land í Vestur-Skaftafellssýslu, eitt í Núpsstaðaskóg, annað á Brunalandi og hið þriðja í Landbrot. Í góubyrjun var ísinn farinn frá Skaftafellssýslum, rekinn vestur með, fylti um tíma flóann fyrir Eyrarbakka og rak í marz vestur með Reykjanesi. Lagnaðarísar miklir voru kringum land alt. .............{Lýsing lengri. Sleppt hér}.
 • 1882. {Hafísár. Mikill hafís fyrir norðan og austan land. Hér einungis birt brot úr langri lýsingu}: ....... Þrjú bjarndýr voru skotin inni í botni á Berufirði, en annars urðu menn óvíða varir við bjarndýr þetta ár. Í maímánuði náði ísinn suður að Ingólfshöfða, en losnaði frá Austur-Skaftafellssýslu seint í júnímánuði og rak svo smátt og smátt vestur og suður.

Aftur upp

 

 • 1884. Þetta ár kom enginn hafís að Íslandi, nema fáeinir lausajakar flæktust um vorið upp undir Hornbjarg. Ísbrúnin lá í maí og júní miðja vegu í Grænlandshafi. (C. Ryder: Isforholdene i Nordhavet, bls. 13. Frjettir frá Íslandi 1884, bls. 15.))
 • 1887. Þá rak allmikinn hafís að norðausturströndum landsins um sumarmál og hjelzt hann á reki kringum landið fram yfir höfuðdag, varð ísinn sumstaðar landfstur við og við, en var oftast laus og á flækingi. .................. Seint í júlí var ísinn kominn fyrir Berufjörð og lá þar til ágústloka, en seinast í þeim mánuði var hann kominn vestur á móts við Kúðafljótsós. Úti fyrir Austfjörðum lá ísinn enn lengur og fjörðunum fyrir norðan Hjeraðsflóa lá hann langt fram í september. .................
 • 1888. {Úr alllangri lýsingu:} ...... Í júníbyrjun sást ísinn frá Loftsstöðum í Árnessýslu og fylti hann höfnina í Vestmannaeyjum, svo menn komust ekki til skipa nema yfir ís; lá þá hrannaís austur með söndum og íshella við Dyrhólaey. ..........
 • 1898. {Úr lýsingu:} ......... Hvalabátur, sem kom til Þorlákshafnar 5. ágúst, hitti töluverðan hafís 20 mílur útsuður af Reykjanesi, og veiddi þar um slóðir 9 hvali.
 • 1902. {Úr lýsingu:} ........ Við Austfirði var mikill ís; hann tók að reka þangað seint í janúar og urðu hafþök af honum í næsta mánuði, svo skip gátu þar hvergi komist inn á firði; við mynni Reyðarfjarðar var ísbeltið 4 mílur á breidd og við Hornafjörð 2 - 3 mílur. ....... Í marzmánuði máttu heita hafþök fyrir norðausturströndum og Austfjörðum, alt suður að Seyðisfirði; en þar fyrir sunnan var ísinn gisnari, svo gufuskip gátu stundum um miðjan mánuðinn komist inn í firði, en seinast í marz rak ísinn aftur saman og hindraði samgöngur. Íshroði var þá með Suðurlandi vestur að Ingólfshöfða. .................. Við Strandir, á Húnaflóa og Skagafirði var alt fult af ísi; fram með öllu Austurlandi lá ísinn frá Langanesi suður á Papós, svo hvergi var hægt að komast inn á firði, og íshroði nokkur var þá á reki suður og vestur með landi, alt til Vestmannaeyja. .........
 • Í lýsingu á tímabilinu 1903 - 1915 getur Þorvaldur Thoroddsen ekki um hafís við Suðurland, en 1915 er síðasta árið í ritgerð hans um hafís við strendur Íslands.
 • Frostaveturinn 1918 var allmikill lagnaðarís við landið, en annars var íslítið á árunum 1916 - 1920. Árið 1920 hefst langt, samfellt skeið með litlum hafís við Ísland, sem stendur fram að svonefndum hafísárum á síðari hluta sjöunda áratugsins, 1965 - 1970. Næst Suðurlandi rekur ísinn sem hér segir: árið 1968 sást frá Fagurhólsmýri ís fyrst þann 15. maí, og þann 19. maí við Svínafellsós. Ís sást frá Kvískerjum og Vagnsstöðum flesta daga til 8. júní, en þá hvarf hann. (Páll Bergþórsson: Hafís við Austfirði 1846 - 1987, Sjómannadagsblað Neskaupstaðar 1988).
  Segir síðan ekki af hafís við Suðurland, allt til þessa dags, þ.e.a.s. síðustu 27 árin. Er því einungis um 2 slík ár að ræða á þessari öld, 1902 og 1968, en samkvæmt framansögðu átti hafís leið hjá hér úti fyrir Suðurlandi mun oftar aldirnar þar á undan.
Aftur upp

Hér lýkur upptalningu úr bók hins mikla eljumanns og brautryðjanda Þorvalds Thoroddsen jarðfræðings, "Árferði á Íslandi í þúsund ár". Fáeinir aðrir fræðimenn hafa síðan bætt við sögu hafíss við Ísland með því að rýna í annála, skýrslur og skjöl fyrri tíða. Má þar nefna prófessorana Magnús Má Lárusson og Þórhall Vilmundarson, en helsti sérfræðingur um sögu hafíss við Ísland er þó enskur sagnfræðingur, dr. Astrid Ogilvie. Allmargir íslenskir veðurfræðingar hafa fjallað um sögu hafíss og veðurfarssveiflur á Íslandi, svo sem Jón Eyþórsson, Hlynur Sigtryggson, Páll Bergþórsson, Adda Bára Sigfúsdóttir, Markús Á. Einarsson og Trausti Jónsson.

Til baka
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica