vík með hafís, snjór í fjöllum handan víkurinnar
Frá Hólum í Dýrafirði 27. janúar 2007.

Hafís við Ísland

Þór Jakobsson 20.12.2006

Á hafinu flýtur tvenns konar ís, hafís sem er frosinn sjór, og borgarís sem myndast þegar brotnar úr jöklum sem skríða í sjó fram eða liggja meðfram strönd, eða á henni.

Hafís getur myndast í fjörðum hér við land á köldum vetri. Hann kallast lagnaðarís og er orðið dregið af því að sagt er að fjörðinn leggi.

Aldrei er svo kalt á sumrum að lagnaðarísinn haldist þegar sól hækkar á lofti með vorinu. Hann bráðnar og sömu sögu er reyndar að segja af ís sem leggur að vetrarlagi á stöðuvötnum. Þegar hlýnar með vorinu hverfur lagnaðarísinn.

En hafís við strendur Íslands er að langmestu leyti kominn langt að. Hann berst hingað vestan úr Grænlandssundi. Einnig kemur fyrir að hann komi beint úr norðri að norðausturhorni landsins, en allur er ísinn úr Austur-Grænlandsstraumi.

Það er ískaldur hafstraumur í orðsins fyllstu merkingu. Hann liggur úr Norður-Íshafi suður með endilöngu Austur-Grænlandi.

Þessi mikli og kaldi straumur í grennd við Ísland flytur mikinn ís suður á bóginn, bæði hafís, sem myndast á sjónum og borgarís úr jöklum Grænlands.

Síðla vetrar þekur ísinn fiskimið norðvestur af landinu og oft berst ís austur á bóginn, inn á siglingaleiðir meðfram Íslandi og stundum inn á firði og flóa. Tignarlegur borgarís berst einnig til landsins og er einkum áberandi á haustin.

Hafískoma við Ísland fer í fyrsta lagi eftir ísmagni í Grænlandssundi; í öðru lagi eftir ástandi sjávar í Íslandshafi, hita, seltu og lagskiptingu efst í sjónum; í þriðja lagi eftir almennri lofthringrás yfir norðurhveli, þ.e.a.s. þrýstifari, lægðagangi, veldi Grænlandshæðar eða myndun kyrrstöðuhæðar yfir Atlantshafi. Tiltekin skilyrði í þessum þremur flokkum meginorsaka verða að vera uppfyllt svo að hafís verði við strendur Íslands.

Hafís á Íslandsmiðum er hins vegar býsna algengur, einkum á hafsvæðinu norðvestur af landinu, enda skiptir þá ísmagnið í Grænlandssundi nær eingöngu máli.

Til baka
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica