Veðurfar á Íslandi 1800 - 2006

Hvannadalshnjúkur.
Hvannadalshnjúkur 3. júní 2006.

Sögulegt yfirlit um mælingar

Trausti Jónsson 23.1.2007

Hér á landi hafa talningar á hallærum og góðærum í aldanna rás verið notaðar til greiningar veðurfars á Íslandi á sögulegum tíma. Nefna má að Hannes Finnsson fjallaði um efnið fyrir meir en 200 árum, Þorvaldur Thoroddsen um aldamótin 1900, en síðar rituðu þeir Jón Eyþórsson, Sigurður Þórarinsson og Páll Bergþórsson ágætar greinar um viðfangsefnið (sjá heimildalista).

Páll gerði ákveðnustu atlöguna fyrir nærri 40 árum og notaði tengsl hitafars og hafíss til að magnfesta breytingarnar, þ.e. giska á 30-ára meðalhita aldir aftur í tímann.

Aðferðir við að meta veðurfar fyrri alda

Jöklar eru mjög næmir á tíðarfar og um hegðan þeirra er nokkur vitneskja og sömuleiðis eru koma fram mjög athyglisverðar niðurstöður úr setkjörnum af ýmsu tagi, bæði þeim sem teknir eru úr stöðuvötnum og þeim sem fengnir eru úr sjávarseti umhverfis landið.

Víst er að samantekt á þessum niðurstöðum mun bæta mjög hugmyndir okkar um veðurfar Íslandssögunnar, en koma ekki frekar við sögu hér, heldur er sjónum beint að síðustu 200 árunum eða svo.

Eldri heimildir

Fyrir 100 árum eða svo voru í gangi deilur um veðurfar fyrri alda. Sumir, þar á meðal Þorvaldur Thoroddsen, töldu að í grundvallaratriðum hefðu engar veðurfarsbreytingar orðið á Íslandi frá landnámi til hans daga. Að vísu hefðu komið stuttir harðindakaflar sem hefðu verið verri en meðaltalið en ekkert kerfi væri í komu þeirra og ekkert benti til sérstakrar þróunar í því sambandi.

Þorvaldur Thoroddsen
Þorvaldur Thoroddsen
Mynd 2. Þorvaldur Thoroddsen. (Mynd úr: Bogi Th. Melsted: Þorvaldur Thoroddsen: um ævi hans og störf. Kaupmannahöfn, 1923.)

Þorvaldur er sá maður sem best þekkti veðurfarssögu Íslands og hafði um áratugaskeið safnað upplýsingum um hana. Samantekt hans var gefin út í merkri bók „Árferði á Íslandi í þúsund ár” og er hún enn grundvallarrit íslenskrar veðurfarssögu.

Jón Eyþórsson (Skírnir, 1926) og Fridtjof Nansen skrifuðu á þriðja áratug síðustu aldar (eftir að Þorvaldur féll frá) ágætar ritgerðir um veðurfar á sögulegum tíma og eru báðir sammála Þorvaldi um að litlar breytingar hefðu orðið.

Þetta viðhorf studdu einnig niðurstöður Danans Speerschneider sem tók saman upplýsingar um ís við Danmörku frá því að sögur hófust. Niðurstaða hans var að engar marktækar breytingar hefðu orðið allt frá því að minnsta kosti um árið 700.

Þorvaldur stóð í ritdeilum við Svíann Petterson og Norðmanninn Bull sem töldu að efnahagsleg „hnignun“ sem þeir þóttust merkja á Norðurlöndum (þar með á Íslandi og Grænlandi) á síðmiðöldum stafaði af versnandi veðurfari á þeim tíma. Því hefðu fylgt bæði farsóttir og hungursneyðir. Petterson skýrði þetta með reglubundnum sveiflum í afstöðu tungls og jarðar sem hefðu áhrif á sjávarföll og þar með hringrás heimshafanna.

Því er ekki að neita að skrif Þorvaldar og rökstuðningur skoðanabræðra hans væru enn þann dag í dag meira sannfærandi en tilgátur andstæðinga þeirra ef ekki kæmi fleira til.

Aftur upp

Veðurfarsbreytingar síðustu 100 ár

Á þriðja áratug 20. aldar gerðist það nefnilega að veðurfar hlýnaði meira en menn höfðu séð dæmi um eftir að hitamælingar hófust. Fyrst meðalhiti gat hækkað hér á landi um nærri eina og hálfa gráðu á tíu árum (1920 til 1930) gat hann þá ekki hafa lækkað að minnsta kosti svipað á síðmiðöldum?

Jarðvísindamenn voru, eins og vænta mátti, fljótir að átta sig á því að eitthvað óvenjulegt var á seyði. Þegar árið 1940 var farið að bendla hlýnunina við aukin gróðurhúsaáhrif. Hlýnunin varð langmest á norðurslóðum, norðan við 50. breiddargráðu, en annars mun minni.

Hungurdiskar - lummuísteikning Fridjofs Nansen
Mynd 3. Hungurdiskar - lummuís. Staðurinn er ekki langt frá Jan Mayen 18. apríl 1882, nokkrum dögum áður en eitt versta norðanveður 19. aldar gekk yfir Ísland og mikill uppblástur varð á Rangárvöllum. Teikning eftir Fridtjof Nansen. (Mynd úr: Fridtjof Nansen: Blant sel og bjørn: min første Ishavs-ferd. Oslo, Aschehoug, 1924.)

Nokkuð misjafnt var hvenær hlýjast varð á hverjum stað, sums staðar strax um 1920, en annars staðar ekki fyrr en á sjötta áratugnum.

Breytingin hér á landi var svo mikil að köldustu ár áranna 1930 til 1940 voru álíka hlý og þau allra hlýjustu frá um 1850 til þess tíma. Jöklar um nær allt norðurhvel tóku að hörfa, þar á meðal hér á landi.

Hér til hliðar er gerð grein fyrir stærstu atriðum í veðurfari hérlendis á tímabilinu frá því um 1830 til okkar daga.

Aftur upp

Veðurathuganir á Íslandi

Hitamælingar

Fyrstu hitamælingar hérlendis voru gerðar á Bessastöðum á árunum 1749 til 1752. Heimildir benda til þess að síðan hafi hitamælingar verið stundaðar flest ár, en því miður virðist mikið af þeim hafa glatast. Mælingar eru þó til á stangli frá 1776, nokkur ár milli 1780 og 1790 samfellt og sömuleiðis mestallan tímann frá 1798 og fram yfir 1820.

Vandi er þó að samræma eldri og yngri mælingar. Meira er vitað um mæliaðstæður frá því um 1830 og áfram og því má telja að upplýsingar um hitafar á landinu síðustu 180 árin eða svo séu nokkuð áreiðanlegar.

Mikil fylgni er á milli hita í hinum ýmsu landshlutum þannig að mánaðameðaltöl frá einum stað gefa mjög miklar upplýsingar um hita á öðrum. Stundum bregður þó út af.

Sé veður óvenju hægviðrasamt er talsvert kaldara inn til landsins á vetrum en hlýrra á sumrin.

Sé hafís við land verður líka kalt við sjóinn fyrir norðan og almennt samband milli hita á Norður- og Suðurlandi raskast.

Hafís við Strandirhafís
Mynd 4. Hafís við Strandir í mars 2005. Séð til Litlu-Ávíkur og Reykjaneshyrnu frá Krossnesi. Ljósmynd: Jón G. Guðjónsson.

Á sumrin ráða vindáttir miklu um hitafar, á þeim tíma árs er sambandið milli landshluta verst. Í sunnanáttarsumrum er þungbúið syðra en hlýtt nyrðra, séu norðanáttir ríkjandi er mjög kalt nyrðra en skárra syðra o.s.frv.

Hámarks- og lágmarkshiti eru stundum teknir sem sérstakir veðurþættir. Lágmarksmælingar hafa verið gerðar hér um mjög langt skeið en hámarksmælingar voru mjög óvíða fyrr en undir 1930.

Sjávarhiti er mikilvægur veðurþáttur, en mælingar við ströndina eru oft truflaðar af tilviljanakenndu rennsli ferskvatns af landi og sömuleiðis hafa hafnarframkvæmdir raskað mælistöðum.

Aftur upp

Úrkomumælingar

Fyrstu úrkomumælingarnar sem vitað er um hérlendis voru gerðar við Lambhús við Bessastaði 1789, en aðeins það ár, síðan eru engar úrkomumælingar fyrr en í Reykjavík um 1830. Mælingar þar héldu áfram til 1854, þá vantar rúm tvö ár þar til farið var að mæla úrkomu í Stykkishólmi haustið 1856. Síðan hafa mælingar verið samfelldar á landinu.

Meðan við teljum okkur þekkja hitafarið allvel á 19. öld, þótt stöðvar hafi verið fáar, erum við mun óvissari með úrkomuna. Stöðvar voru færri og við búum einnig við þann vanda að úrkomumælingar á einum stað segja mjög lítið um úrkomu annars staðar, jafnvel í sama landshluta.

Úrkoma á landinu er því ekki vel þekkt fyrr en undir 1925 þó að mælingar hefjist 70 árum áður og enn vitum við ekki nóg um landfræðilega dreifingu hennar.

Aftur upp

Loftþrýstingsmælingar

Snemma var farið að mæla loftþrýsting og reyndar eru loftþrýstingsmælingar fleiri til á tímabilinu 1749 til 1820 en mælingar á hita.

Auðvelt er fyrir almenna lesendur að átta sig á því að lágur meðalhiti tákni kulda og háar úrkomutölur fylgja í aðalatriðum dumbungi, rigningu eða snjó. Loftþrýstingur er að ýmsu leyti miklu óræðari veðurþáttur en bæði úrkoma og hiti. Fyrir utan sjálft mæligildið skiptir bratti þrýstisviðsins einnig mjög miklu máli þegar ljá skal þrýstingnum merkingu og ekki er hægt að bæta úr því nema með mælingum á mörgum stöðvum. Þrýstingurinn gefur þó veigamiklar upplýsingar um veðurlag.

Aftur upp

Vindmælingar

Vindstyrkur var lengst af áætlaður hérlendis en ekki mældur, langtímabreytingar hans hafa því hlotið minni umfjöllun en aðrir veðurþættir og svipað má segja um vindáttina.

Veðurathugunarmaður klífur vindmælamasturað klífa vindmælamastur
Mynd 5. Harpa Lind Guðbrandsdóttir, veðurathugunarmaður á Hveravöllum á Kili (1. ágúst 1990-31. júlí 1992), klifrar upp í staur með vindmælum í nóvember 1990. Ljósmynd: Grímur Sigurjónsson.

Ótrúlegt er hvað vindáttatíðni getur breyst þegar skipt er um athugunarmenn, ef ekki er um beinar mælingar að ræða. Í nágrannalöndunum og víðar hafa menn ekki látið þetta hindra sig í að búa til langtímameðaltöl vindáttatíðni og margt athyglisvert komið út úr því, en hér er enn óplægður akur hvað þetta varðar. Þrýstisviðið má þó nota til mats á vindáttatíðni.

Aftur upp

Skýja- og snjóhulumælingar

Skýjahula er einnig metin og því mjög háð athugunarmönnum, breytileiki hennar er heldur minni en víða er erlendis og henni ekki sinnt að marki hér í úrvinnslu langtímaraða.

Snjóhula hefur verið athuguð hérlendis í um 80 ár og segir sitthvað um veðurfarið.

 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica