Skýjahula og sólskin á Íslandi frá 1910

Trausti Jónsson 24.1.2007

Eins og við er að búast breytast skýjahula og sólskinsstundafjöldi öfugt í takt við hvort annað. Á árs- eða mánaðagrundvelli er sambandið þó ekki alveg hreint, þegar skýjað er á nóttunni en bjart veður að deginum verður misgengi nokkuð. Yfir háveturinn ríkir skammdegismyrkur og álíka sólarlítið er í björtu og skýjuðu veðri.

Skýjahula

Skýjahula er ætíð metin af athugunarmönnum og það sýnir sig að meðaltöl eru einnig háð þeim. Langar athugunarraðir eru því gjarnan mengaðar og er mikil vinna því samfara að hreinsa raðirnar.

Mynd 1 sýnir meðalskýjahulu í Reykjavík frá 1921 að telja (í áttunduhlutum himins). Sé meðaltal dags 8, þýðir það að alskýjað hefur verið allan sólarhringinn, en sé það 0 hefur verið heiðskírt á öllum athugunartímum.

Á myndinni má sjá að sérlega mikið var skýjað á tímabilinu frá 1972 og fram yfir 1995, þó að nokkur bjartari ár hafi komið inn á milli. Leitnin sem kom fram á þessum árum, miðað við fyrri ár, var svo mikil að túlkendur töldu jafnvel að hér hlyti að vera um villu í mati að ræða, en árin frá og með 1998 hafa aftur á móti verið álíka björt og gerðist fyrir 1970.

Mest skýjaða árið var 1983, hið illræmda rigningasumar, en bjartast var 1924. Svipaðan gang má sjá í sólskinsstundafjöldanum (mynd 2), nema hvað hér þýðir upp á línuritinu meiri birtu (öfugt við mynd 1).

línurit

Mynd 1. Skýjahula í Reykjavík í áttunduhlutum. Athugið að myndin nær ekki nema aftur til ársins 1920.

Aftur upp

Sólskinsstundir

línurit

Mynd 2. Sólskinsstundafjöldi í Reykjavík 1923 til 2005.

Það eru sömu árin sem eiga metin, 1924 í sólskini og 1983 í sólarleysi. Síðustu árin hafa verið sólrík og nálgast það sem best gerðist áður. Nokkuð ákveðinn toppur er á sjöunda áratugnum, þá var hár þrýstingur oft ríkjandi og hluta tímans var norðlæg átt ríkjandi (hafísárin). 

línurit

 Mynd 3. Sólskinsstundafjöldi á Akureyri 1928 til 2006.

 Á Akureyri (mynd 3) var mjög sólríkt á milli 1970 og 1980, þegar hvað drungalegast var sunnanlands, en annars virðist sólskinsstundafjöldi á Akureyri og í Reykjavík ekkert tengdur (sjá ítarefni).

Árið 2000 var sólríkast á Akureyri, en munur á því ári og 1975 og 1976 er vart marktækur. Sólarminnst var á Akureyri 1943 og 1956, fyrra árið var sérlega dauft og kalt á Norðausturlandi, enda var hafís ekki langt undan.

  
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica