Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC)
Á vegum Sameinuðu þjóðanna starfar vísindanefnd sem fjallar um loftslagsbreytingar. Á ensku heitir nefndin Intergovernmental Panel on Climate Change sem er skammstafað IPCC, en á íslensku er nefndin kölluð milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Nefndin hefur það hlutverk að taka saman vísindalegar, tæknilegar, félags- og efnahagslegar upplýsingar um grundvöll þekkingar á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Úttektirnar fjalla um vísindalega þekkingu á loftslagsbreytingum af mannavöldum, um afleiðingar þessara breytinga og um aðlögun og viðbrögð til að sporna við þessum breytingum.
Úttektir eru gerðar á opinn og gagnsæjan hátt. IPCC stundar hvorki rannsóknir né eftirlit með veðurfari, heldur eru samantektir nefndarinnar að megninu til byggðar á faglegri ritrýni og á greinum sem birtar hafa verið í ritrýndum tímaritum.
Úttektir nefndarinnar eru unnar af þremur mismunandi vinnuhópum. Vinnuhópur eitt (WG1) fjallar um vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum. Vinnuhópur tvö (WG2) leggur mat á tjónnæmi (e. vulnerability) félags-, efnahags- og náttúrulegra kerfa, neikvæðar og jákvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga og möguleika á aðlögun. Vinnuhópur þrjú (WG3) leggur mat á leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og á aðrar leiðir til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar.
Milliríkjanefnd SÞ hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2007.
Sjá undirflokka hér til vinstri sem fjalla um úttektarskýrslu IPCC 2007 og úttektarskýrslu IPCC 2013 og úttektarskýrslu IPCC 2014.