Áhrif loftslagsbreytinga: Úttekt vinnuhóps 2 hjá IPCC

Skaftafellsjökull; horft frá Kristínartindum.

Samantekt skýrslu vinnuhóps 2, WGII, hjá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna IPCC

Halldór Björnsson 4.4.2014

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) gefur á nokkurra ára fresti út úttektarskýrslur þar sem vísindaleg þekking á loftslagsbreytingum er dregin saman með megináherslu á breytingar af mannavöldum.

Verkinu er skipt niður á þrjá vinnuhópa og skoðar sá fyrsti orsakir og umfang loftslagsbreytinga. Annar hópurinn skoðar afleiðingar þeirra fyrir náttúru og samfélög og til hvaða úrræða megi grípa til þess að aðlagast breytingunum. Þriðji hópurinn skoðar síðan hvernig hægt sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Hvað varðar fimmtu úttekt milliríkjanefndarinnar, þá kom skýrsla fyrsta vinnuhópsins út haustið 2013 en skýrsla vinnuhóps 2 kom út í lok mars 2014. Í henni er fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á náttúru og samfélög og möguleika til aðlögunar. Hér verður stiklað á stóru um niðurstöður þeirrar skýrslu og neðst fylgir mynd úr skýrslunni sem sýnir merkjanleg áhrif í hverjum heimshluta.

Loftslagsbreytingar hafa á liðnum áratugum haft áhrif á náttúru og samfélög á öllum meginlöndum og um öll heimsins höf. Áhrif loftslagsbreytinga koma greinilegast fram og eru víðtækust í náttúrufari. Sumar breytingar á samfélagskerfum má rekja til loftslagsbreytinga að meira eða minna leyti.

Breytingar á úrkomu eða bráðnun snævar og íss hafa víða haft áhrif á vatnsauðlindir, bæði hvað varðar magn og vatnsgæði. Loftslagsbreytingar hafa valdið því að nánast allir jöklar á jörðinni hopa, sem hefur áhrif á afrennsli og vatnsforða á vatnasviði þeirra. Á heimskautasvæðum og í fjalllendi valda loftslagsbreytingar því að sífreri í jörðu þiðnar.

Vegna loftslagsbreytinga hefur útbreiðsla ýmissa dýrategunda breyst, bæði á landi og í sjó, auk þess sem árstíðabundin hegðun (svo sem ferðir farfugla, göngur fiskistofna o.s.frv.) hefur breyst, með áhrifum á stofnstærð og víxlverkan við aðrar tegundir. Enn sem komið er eru fá tilvik þar sem rekja má útdauða tegunda til loftslagsbreytinga en saga lífs á jörðinni síðustu ármilljónir geymir dæmi um miklar breytingar á búsvæðum og fjölda tegunda sem dóu út af völdum loftslagsbreytinga sem voru mun hægari en þær sem nú ganga yfir.

Fjöldi rannsókna, frá ólíkum svæðum og á mörgum nytjategundum, sýnir að loftslagsbreytingar hafa oftar neikvæð áhrif á jarðrækt en jákvæð. Þær rannsóknir sem sýna jákvæð áhrif eiga við um köld svæði og er ekki enn ljóst hvort áhrifin þar eru í heildina jákvæð eða neikvæð. Loftslags-breytingar hafa haft neikvæð áhrif á maís- og hveitirækt á mörgum svæðum og í heildina þegar litið er til jarðarinnar allrar. Á hinn bóginn eru áhrif á sojabauna- og hrísgrjónarækt víðast hvar lítil eða ekki merkjanleg. Áhrifin eru einkum á framleiðslu matvara en síður á dreifingu, aðgengi eða aðra þætti sem lúta að fæðuöryggi. Síðan síðasta skýrsla IPCC kom út árið 2007 hafa skyndilegar en tímabundnar verðhækkanir á kornvöru og matvælum fylgt í kjölfar óvenjulegs veðurfars á mikilvægum framleiðslusvæðum. Sýnir það að þessir markaðir eru m.a. viðkvæmir fyrir óvenjulegu veðurlagi.

Til þessa hafa loftslagsbreytingar ekki talist hafa mikil áhrif á heilsufar mannkyns miðað við aðra mælanlega álagsþætti en áhrifin eru ekki vel þekkt. Þó hefur dauðsföllum af völdum hitabylgna fjölgað en fækkað af kulda. Þá hafa staðbundnar breytingar á hitastigi og úrkomu áhrif á útbreiðslu meinsemda sem berast í vatni, sem og á lífverur sem bera þær.

Mismunandi er hversu berskjölduð þjóðfélög eru fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og ræðst það af þáttum sem ekki eru eru beintengdir loftslagi. Almennt gildir að hópar sem eru illa settir félagslega eða efnahagslega, eða búa við ótryggt stjórnarfar og slaka innviði, eru sérstaklega viðkvæmir fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga og hafa takmarkaða getu til aðlögunar eða annarra viðbragða. Yfirleitt er flóknu samspili ólíkra þátta um að kenna.

Áhrif aftakaveðra á umliðnum árum, svo sem hitabylgna, þurrka, flóða, fellibylja og gróðurelda, benda til þess að sum vistkerfi og mörg félagsleg kerfi séu berskjölduð og viðkvæm gagnvart núverandi breytileika í veðurfari. Dæmi um slík áhrif eru tjón á vistkerfum, truflanir á matvæla-framleiðslu og dreifingu vatns, tjón á innviðum og byggðum svæðum, heilsutjón og neikvæðar afleiðingar á geðheilsu og líðan manna. Dæmi frá þjóðfélögum á öllum stigum efnahagsþróunar benda til þess að sumir efnahagsgeirar ráði illa við ríkjandi tíðni aftakaveðra.

Loftslagstengd náttúruvá eykur annað álag og hefur oft neikvæð áhrif á lífsbjargir, sérstaklega fyrir fátækari hópa. Meðal beinna áhrifa má nefna minni afrakstur ræktarlands og eyðileggingu heimila; óbein áhrif eru t.d. hærra matvælaverð og minna matvælaöryggi. Meðal jákvæðra áhrifa fyrir þessa hópa, sem eru þó yfirleitt takmörkuð og oftast óbein, má nefna breytta högun landbúnaðar og bætt tengslanet.

Vopnuð átök gera samfélög berskjaldaðri gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga og draga úr getu til aðlögunar með því að valda tjóni á innviðum, náttúru- og félagsauði og draga úr tækifærum til þess að nýta lífsbjargir.

Afleiðingar sem þegar má sjá
Mynd (stækkanleg) sem sýnir þau áhrif loftslagsbreytinga sem þegar hafa komið fram á ólífræna þætti (blátt), lífríki (grænt) og mannvist (rautt). Í ramma eru tekin saman áhrif á heimsálfur. Fyllt tákn þýðir meiri áhrif en tákn dregið með útlínu þýðir minni áhrif. Fleiri kubbar þýðir meiri vissa.

Heimild

Ofangreint er útdráttur úr kafla A-1 í skýrslu milliríkjanefndarinnar sem nefnist Climate Change 2014: Impacts, Adaption and Vulnerability (Loftslagsbreytingar 2014: Áhrif, aðlögun og veikleikar) og er ætluð til stuðnings fyrir stefnumótendur og stjórnmálamenn (summary for policymakers). Tengillinn opnar pdf-skjal sem er 12 Mb að stærð.

 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica