Íslensk eldfjöll
Gasmælir settur upp á tindi Heklu.

Gasmælingar á Heklu

Söfnun gastegunda hófst 2012

Gasstreymi frá eldstöðvum getur gefið vísbendingar um innri byggingu kvikukerfa og samspil þeirra við jarðhitakerfi. Breyting á gaslosun (samsetning gastegunda og heildarflæði þeirra) er oft merki um yfirvofandi breytingu á hegðun eldstöðvarinnar, til dæmis merki um upphaf goss.

Í byrjun árs 2012 fór af stað svokallað Hekluverkefni sem er samstarf milli Veðurstofu Íslands, ÍSOR og INGV á Ítalíu. Markmið þess er tvíþætt:

  • að kanna magn og samsetningu gass sem Hekla losar og öðlast þar með frekari innsýn í innviði hennar
  • aðlaga aðferðarfræðina og tæknibúnaðinn að íslenskum aðstæðum, svo setja megi upp gasmælingar við fleiri eldstöðvar

Í júlí 2012 var settur upp gasmælir á tindi Heklu sem nemur CO2, H2S, SO2 og H2 ásamt hitastigi, þrýstingi og raka. Þetta er í fyrsta skipti sem gasútstreymi er mælt með síritandi hætti á íslenskri eldstöð. Mælirinn er í 3G sambandi.

Tveir starfsmenn Veðurstofunnar, ásamt sérfræðingi frá ítölsku jarðeðlisfræði- og eldfjallastöðinni INGV, unnu við uppsetninguna í erfiðum aðstæðum eins og sést á meðfylgjandi mynd. Mælitækið sem nefnist MultiGaS er í eigu INGV en er í langtímaláni hjá Veðurstofunni.

Fyrstu gögn komu fljótt í hús og litu vel út. Mikið streymi var af koltvísýringi ásamt nokkru af vatnsgufu, brennisteinsvetni og vetni (eða CO2 ásamt H2O, H2S og H2).

Mælt var í 30 mínútur, fjórum sinnum á sólarhring. Línuritið hér undir sýnir dæmi um mældan styrk á CO2 og H2O (þegar styrkur þessara gastegunda í andrúmslofti hefur verið dreginn frá):

Vatnsgufa og koltvísýringur frá Heklu
Hluti af niðurstöðum úr einni gasmælingu. H2O er sýnt með svörtum lit en CO2 með rauðum. Einingin er ppm eða milljónustuhlutar. Tímaásinn sýnir sekúndur frá upphafi mælingar.

Síritandi mælingarnar voru gerðar frá júlí til september 2012 en þá komu upp vandkvæði vegna ísingar á vindrafstöðinni og verið er að finna lausnir á því. Stefnt er að söfnun í allan vetur og þá verða birt fleiri gögn hér í greininni.

af tindi Heklu
Á Heklu 19. september 2012, umrætt mælitæki er skammt frá. Þarna er verið safna gassýnum beint úr jörðu til að greina samsætur en það getur gefið upplýsingar um uppruna gassins. Plastdúkur er breiddur út og haldið niðri með grjóti svo gasið beinist fremur á einn stað. Ljósmynd: Finnbogi Óskarsson.

Evgenia Ilyinskaya, Richard Yeo og Vilhjálmur S. Kjartansson lögðu til efni í þessa grein.

Finnbogi Óskarsson frá ÍSOR hefur einnig komið að þessu verkefni.

Skoða má samsett víðsýni frá Heklu 19. september 2012 sem Richard Yeo gerði má sjá sjá hér.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica