Fréttir
Skjálftar yfir 1 að stærð, frá 2000 til júní 2015.

Skjálftavirkni á Reykjanesskaga

Vert að rifja upp viðbrögð og yfirfara búnað

19.6.2015

Undanfarnar vikur hefur verið nokkuð mikil jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaganum og nágrenni hans. Meðal annars varð skjálfti af stærð 4 í lok maí sem átti upptök við Kleifarvatn og fannst vel, víða á höfuðborgarsvæðinu.

Í framhaldi slíks atburðar getur spennuástand í jarðskorpunni orðið óstöðugra á stærra svæði í kring. Greining á smáskjálftum bendir til þess að slíkur óstöðugleiki geti verið til staðar allt frá Kleifarvatni og austur í Ölfus. Mælingar á jarðskorpuhreyfingum síðustu árin gefa einnig vísbendingar um að á þessu svæði sé mögulega talsverð spenna sem getur losnað út í stærri skjálftum.

Sögulegar upplýsingar benda til að jarðskjálftar á þessu svæði geti orðið allt að 6,5 að stærð. Meðal annars urðu skjálftar um og yfir 6 að stærð á Bláfjallasvæðinu árin 1968 og 1929. Þeir skjálftar ollu ekki miklu tjóni á höfuðborgarsvæðinu en þess ber að geta að byggð hefur færst miklu nær þessu skjálftasvæði. Betur er fjallað um þetta í fréttatilkynningu RLS (pdf 0,2 Mb).

Áhrif skjálfta af þessari stærðargráðu í nálægum byggðum getur mögulega orðið allt að 6 til 7 stig á Mercalli áhrifakvarðanum.

Engin áreiðanleg leið er til að segja fyrir um hvenær stórir skjálftar verða á þessu svæði en fólki er bent á að nota þetta tilefni til að rifja upp viðbrögð við jarðskjálftum og fara yfir viðbúnað á heimilinu.

Það er hjálplegt að skoða þetta myndskeið vel:

Myndskeið frá Landsbjörgu um rétt viðbrögð við jarðskjálftum og réttan viðbúnað.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica