Hlutverk

Hlutverk

Jóhanna M. Thorlacius 28.8.2012

Hlutverk Veðurstofu Íslands er vöktun lofts, láðs og lagar með öflun, gæðaeftirliti, varðveislu og greiningu upplýsinga ásamt rannsóknum byggðum á þeim. Einnig miðlun upplýsinga og þjónusta við notendur.

Öflun upplýsinga

Veðurstofan stundar kerfisbundnar athuganir og mælingar á fagsviðum sínum í því skyni að vakta breytingar á þeim og afla upplýsinga um náttúrufar á landinu öllu. Auk mælinga frá eigin landsnetum mælikerfa nýtir stofnunin gögn frá innlendum og erlendum samstarfsaðilum við starfsemi sína.

Gæðaeftirlit og varðveisla upplýsinga

Veðurstofan stundar öflugt gæðaeftirlit með gagnaöflun og skráningu til að tryggja öryggi og áreiðanleika gagna á öllum stigum notkunar og varðveislu. Hún ber ábyrgð á vörslu gagna til frambúðar þannig að þau nýtist jafnt við rauntímavinnslu upplýsinga og til langtímarannsókna. Stofnunin varðveitir bæði frumgögn og unnin gögn í öruggum gagnageymslum og sér til þess að þau séu aðgengileg almenningi og samstarfsaðilum, innlendum sem erlendum.  Hún ber ábyrgð á varðveislu gagna um náttúrufar.

Greining upplýsinga og rannsóknir

Veðurstofan greinir og túlkar niðurstöður mælinga, afleiddra stærða og annarra gagna sem hún aflar á fagsviðum sínum.  Hún vinnur upplýsingar um náttúrfar, gefur út spár og viðvaranir og fleira til að draga úr hættu á manntjóni og öðrum skaða. Stofnunin stundar einnig úrvinnslu á gögnum og ráðgjöf vegna skipulags, mannvirkjahönnunar og áhættumats og tekur þátt í gerð viðbragðsáætlana vegna ýmiss konar náttúruvár.

Á Veðurstofunni eru stundaðar rannsóknir sem miða að því að auka færni hennar til að sinna hlutverki sínu og þróa áfram þekkingu og aðferðir á þeim sviðum sem undir stofnunina heyra.  Hún er þátttakandi í innlendu og alþjóðlegu samstarfi sem stuðlar að framþróun og öflun og miðlun þekkingar á verksviði stofnunarinnar. Jafnframt eru upplýsingar og þekking nýtt til að þróa þjónustu sem skapar verðmæti fyrir viðskiptavini.

Miðlun upplýsinga og þjónusta við notendur

Veðurstofan miðlar upplýsingum til almennings og veitir margs konar þjónustu á fagsviðum sínum, auk þess að veita almennar upplýsingar um viðfangsefni stofnunarinnar.

Veðurstofan veitir þjónustu, upplýsingar og almenna ráðgjöf til stjórnvalda og er í beinu samstarfi við yfirvöld almannavarna varðandi ýmiss konar upplýsingar um náttúruvá, hættuástand og áhættumat. Hún sinnir mælingum og rannsóknum fyrir stofnanir og fyrirtæki samkvæmt verksamningum. Stofnunin annast samskipti við ýmsar innlendar og alþjóðlegar stofnanir og eru dagleg gagnaskipti stór þáttur þess samstarfs.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica