Greinar

Háloftakort: 300 hPa

Hvers leita menn í 300 hPa fletinum?

Trausti Jónsson 1.9.2010

Á norðurslóðum er 300 hPa-flöturinn mjög ofarlega í veðrahvolfinu, í 9-10 km hæð, ekki fjarri athafnasvæði þeirrar meginvindrastar sem kennd er við pólinn. Þar er því gott að fylgjast með pólröstinni og bylgjuhnykkjum hennar. Vindhraðahámörk rastarinnar (skotvindar) gefa til kynna hvar ókyrrðar/heiðkviku er helst að vænta í flugi og sömuleiðis má stundum ráða í hvar upp- og niðurstreymissvæði eru neðar í veðrahvolfinu. Einnig má gróflega fylgjast með hegðan veðrahvarfanna.

Hæð og vindur í 300hPa - spá sem gildir kl. 24, 3. sept. 2010
veðurkort
Dæmigert 300 hPa kort. Skýringar í meginmáli. Lægðin beint suður af Íslandi og vestur af Írlandi er bylgja sem inniheldur leifar fellibylsins Danielle. Leifarnar hafa hér ekki alveg náð því að samlagast meginhringrásinni á svæðinu.

Á myndinni má sjá hæð 300 hPa flatarins eins og henni var spáð í HIRLAM-líkaninu aðfaranótt 4. september 2010. Svörtu línurnar eru jafnhæðarlínur.

Við lægstu línuna (nærri Suður-Grænlandi) stendur talan 898. Hún táknar að hæð flatarins sé þar í 898 dekametra hæð (= 8980 m, rétt tæpir 9 kílómetrar*). Línurnar eru teiknaðar fyrir hverja 4 dekametra (40 metra). Hæsta línan, suðvestast á kortinu sýnir 9740 metra. Hér munar því meir en 800 metrum á hæð flatarins á svæðinu sem kortið sýnir.

Að jafnaði er flöturinn hæstur þar sem hlýjasta loftið er undir honum, en lægstur þar sem kaldast er. Á kortinu eru einnig hefðbundnar vindörvar. Svartur fáni þýðir um 50 hnúta vind (25 m/s). Litir eru notaðir til að greinilega sjáist hvar vindhraðinn er mestur. Ljósgræni liturinn byrjar við 80 hnúta (40 m/s). Við getum fylgt pólröstinni frá vinstri á kortinu við Hudsonflóa, allt til hægri jaðarsins í Mið-Evrópu. Hún tekur fyrst sveig til suðausturs, en stefnir síðan beint til norðurs nærri Íslandi og nær allt til Svalbarða áður en hún sveigir aftur til suðurs.

Sjá má aðskilin vindhraðahámörk í röstinni (græn- og blámerkt á myndinni). Þau eru gjarnan kölluð skotvindar (e. jet-streak eða jet-core). Öldufaldur rastarinnar (þar sem hún nær lengst norður) og öldudalurinn (lægðin við Suður-Grænland) hreyfast mun hægar en vindurinn í röstinni. Stóru bylgjurnar hreyfast að jafnaði hægar en þær smærri.

Vindar fylgja hér jafnhæðarlínum að mestu, en á því eru þó mjög mikilvægar undantekningar. Sérlega er það þar sem loft kemur inn í skotvind (vindhraðinn eykst) og þar sem loft kemur út úr skotvindi (vindhraði minnkar). Þetta veldur því að kerfisbundnar lóðréttar hreyfingar lofts fylgja skotvindum.

Áætlunarflug er skipulagt að nokkru eftir því hvar meginröstin og skotvindar hennar liggja. Flugvélar hraða sér með þeim í vindstefnu (oftast til austurs) og spara þar með eldsneyti en forðast að lenda inn í þeim á móti vindi. Eins og áður sagði fylgir heiðkvika (ókyrrð) vindröstum í háloftunum.

Pólröstin er sjaldan alveg samfelld allan hringinn um norðurhvel jarðar. Af hlykkum hennar má ráða hvar veður eru afbrigðileg á hverjum tíma. Venjulega er mjög kalt þar sem röstin sveigir til suðurs. Að sama skapi er óvenjuhlýtt þar sem hún stefnir til norðurs. Skotvindarnir ná hver um sig yfir miklu minna svæði, svipað og eitt lægðakerfi. Sum illviðri tengjast röstunum og skotvindum þeirra náið.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica