Hafís við Ísland og Austur-Grænland
Áhrif hafíss á hitafar
Hafísinn hefur áhrif á hitafar á Íslandi. Mjög líklegt er að minnkun hans frá 19. öld skýri að minnsta kosti hluta af hlýnuninni síðan. Umtalsvert kuldakast gerði á hafísárunum svonefndu (sjá orðskýringar) upp úr 1965 og þá jókst bratti hitasviðsins yfir Íslandi, en minnkaði aftur þegar ísinn hörfaði eins og sjá má á mynd 8 í fróðleiksgreininni Hitafar.
Sömuleiðis var flökt meira í hita á sama tíma en fyrir og eftir (mynd 10 í Hitafar), auk þess sem ársspönn hitans (mynd 7 í Hitafar) var einnig öllu meiri en annars síðustu 60 árin.
Í öllum þessum tilvikum var um afturhvarf að ræða til ástands þess sem var ríkjandi á 19. öld. Á myndum 8 og 10 (í Hitafar) má einnig sjá minni hámörk á ferlunum um 1940.
Ísmagn við Ísland í samhengi við Vinje- og Kochtölurnar
Á þeim tíma fer ekki mikið fyrir hafís í íslenskum heimildum en athyglisvert er að í mati á heildarmagni Austur-Grænlandsíssins (Vinje, 2001) frá 1864 til 1998 kemur mjög greinilegt hámark fram á þessum sama tíma í aprílútbreiðslu íssins (hér eftir nefnt Vinjetala). Það hámark hafði greinilega áhrif á hitamun milli norður- og suðurstranda Íslands.
Líklegt er að ísmagn við landið þessi árin hafi verið vanmetið og að nánar þurfi að líta á málið (hina hefðbundnu Kochtölu).
Mynd 2 sýnir breytileika Austur-Grænlandsíssins eins og hann kemur fram í 7 ára keðjumeðaltölum Koch- og Vinjetalnanna. Kochtalan (grænn ferill, hægri kvarði) er hefðbundinn mælikvarði á ískomur við Ísland (sjá rit Kochs (1945)).
Árið 1998 var talan endurskoðuð fyrir árabilið 1900 til 1990 (sjá ritgerð Jóns Wallevik og Hjalta Sigurjónssonar (1998). Sökum mun þéttari athugana á ísnum við Ísland síðustu áratugi miðað við fyrri tíð er líklegt að Koch-talan ofmeti ísmagn á árabilinu 1975 til 1990 miðað við fyrri ár.
Eins og bent var á að ofan er ýmislegt sem bendir til þess að Kochtalan vanmeti ísmagn á stríðsárunum 1940 til 1945. Á sama tíma er einnig meiri óvissa í Vinjetölunum en annars (sjá ritgerð Vinje, 2001).
Bláa línan sýnir Vinjetöluna í apríl í hundruðum þúsunda ferkílómetra (vinstri kvarði), en sú rauða í ágúst á sama kvarða. Vinjetölurnar ná aðeins til 1998. Tölur ársins 2006 eru fengnar af vef The Cryosphere Today og sýna gervihnattamælingar.
Aftur uppGildi einstakra mánaða
Ágústgildið (tæplega 200 þúsund ferkílómetrar) er lægra en öll 7 ára meðaltölin sem ná aftur til 1920. Lægsta einstaka gildið frá þeim tíma til 1998 er 209 þúsund ferkílómetrar. Það var 1955 (rauður kross á myndinni).
Ekki er ótrúlegt að gervihnattamælingin vanmeti ísmagnið eitthvað, en beinn samanburður á Vinjetölunni og mælingum liggur ekki fyrir.
Aprílgildið 2006 (um 500 þúsund ferkílómetrar) er talsvert hærra en lægsta Vinje-gildið, en það er frá 1984, 330 þúsund ferkílómetrar (blár kross á myndinni). Hæsta Vinjetala aprílmánaðar frá 1864 er 1,3 milljón ferkílómetrar 1881 (frostaveturinn mikli), ofan við ramma myndarinnar, en hæsta gildi eftir 1920 er tæplega milljón ferkílómetrar (980 þúsund). Það var 1969 (blár hringur).
Lægsta aprílgildi 19. aldar er 1872, um 580 þúsund ferkílómetrar (stutt, blátt strik).
Hæsta ágústgildið (þau ná aðeins aftur til 1920) er 566 þúsund ferkílómetrar, það var 1968 (ekki merkt sérstaklega).
Ekki er eindregið samband milli útbreiðslu að hausti og aprílútbreiðslu árið eftir þegar tímabilið frá 1920 er skoðað, þó hæstu haust og vorgildi megi finna á hafísárunum.
Línuritin sýna mikla minnkun íssins frá því sem var á 19. öld. Síðustu árin hafa verið sérlega ísrýr að hausti ekki ósvipuð 2006-gildinu sem sjá má á myndinni.
Minnkunin síðvetrar er ekki alveg jafnmikil, en þó áberandi síðan 1980. Túlka má línuritin sem svo að stöðug ísrýrnun hafi átt sér stað frá því um 1900 (blá strikalína), um 40 þúsund ferkílómetrar á áratug. Tvisvar hafa þó komið veruleg hik í rýrnunina.
Rétt er að benda á að einnig má túlka gögnin sem svo að jafnstaða með allstórum áratugasveiflum hafi ríkt frá því um 1920 til okkar daga (rauð strikalína) eftir um 250 þúsund ferkílómetra þreplækkun um 1920. Þessar túlkanir samsvara þeim tveim túlkunarháttum sem bent var á varðandi hitaleitni síðustu 200 ára (mynd 1 í Hitafar).
Tímabil viðbótarrýrnunar allra síðustu ára (eftir 1998) er ekki orðið nægilega langt til að hægt sé að greina á milli þessara tveggja hátta með vissu. Hefur orðið nýtt þrep í þróuninni?
Því miður liggur úrvinnsla gagna um ágústísinn á 19. öld ekki fyrir ennþá, þannig að lítið er hægt að segja um rýrnunarleitni yfir jafnlangt tímabil og aprílgögnin sýna.
Rýrnunin frá 1920 er vart marktæk, en af myndinni má þó með góðum vilja lesa rýrnun upp á um 12 þúsund ferkílómetra á áratug.
Á Koch-línuritinu (græni ferillinn) sést íslágmarkið milli 1840 og 1850 mjög vel. Sömuleiðis var ís yfirleitt minni á 8. áratug 19. aldar en þeim 7. og 9.
Unnið er að endurskoðun Koch-tölunnar, bæði á fyrri tíð og framlengingu hennar eftir 1990.
Aftur upp