Greinar

Orðskýringar

Helstu orð sem notuð eru í umfjöllun um veður

Trausti Jónsson 22.5.2007

Smellið á bókstaf til að skoða orð sem byrjar á viðkomandi staf
A Á B C D E É F G H I Í J K L M N O Ó P Q R S T U Ú V W X Y Z Þ Æ Ö

A

 • A: Austan - um vind úr austurátt.
 • Aftaka hafrót: Lykiltala 9 í sjólagsmati, ölduhæð metin meiri en 14 m. Þetta er hæsta tala sjólagslykilsins og kemur sárasjaldan fyrir í veðurskeytum.
 • Agnúði: Örsmáir dropar sem samsettir eru bæði úr vatni og uppleystum efnum, svo sem brennisteinssýru eða öðrum mengunarefnum.
 • Allmikill sjór: Lykiltala 5 í sjólagsmati, ölduhæð metin 2,5 til 4,0 m.
 • ANA: Austnorðaustan - um vindátt sem er mitt á milli austan og norðaustan.
 • ASA: Austsuðaustan - um vindátt sem er mitt á milli austan og suðaustan.
 • Atlantshafsspár: Veðurspár fyrir hluta Norður-Atlantshafsins.

Efst á síðu

Á

 • Ársspönn: Oftast er átt við mismun á hæsta og lægsta hita (þrýstingi, o.s.frv.) ársins.
 • Árssveifla: Mismunur af meðalhita kaldasta mánaðar og hlýjasta mánaðar ársins.
 • Árstíðasveifla: hér: mismunur af meðalhita í janúar og júlí (aðrar skilgreiningar, svo sem mismunur á hæsta og lægsta hita ársins, eru mögulegar).

Efst á síðu

B

 • Bólstraský: Nafn á einni af 10 meginskýjaættum flokkunarkerfis WMO. Þau myndast í óstöðugu lofti, ætíð mynduð við það að loft kólnar í uppstreymi sem orðið er til annað hvort vegna ójafnrar upphitunar yfirborðs jarðar eða þar sem kalt loft streymir yfir hlýjan sjó.

 • Brúun: Aðferð til að reikna gögn á einum stað með því að nota að minnsta kosti tvo nærliggjandi staði.

Efst á síðu

C

 • °C: Hiti á selsíuskvarða.

Efst á síðu

D

 • Dálítill sjór: Lykiltala 3 í sjólagsmati, ölduhæð metin 0,5 til 1,25 m.
 • Dægursveifla: Mismunur á hæsta og lægsta hita dagsins.
 • Daggarmark: Daggarmark segir til um það niður í hvaða hita þurfi að kæla loft til þess að raki í því fari að þéttast (við óbreyttan þrýsting).

Efst á síðu

E

 • Eðlisraki: Er venjulega táknað með bókstafnum q (e. specific humidity). Náskylt hugtak er rakablönduhlutfall (venjulega táknað með bókstafnum x, e. mixing ratio). Hvoru tvegga hugtökin mæla magn raka í einu kílói lofts. Í skilgreiningu eðlisraka er vatnið talið með öðrum lofttegundum kílósins, en í skilgreingingu rakablönduhlutfalls er það ekki með. Einingin er því í báðum tilvikum g/kg og eru dæmigerð gildi á bilinu 5-30 g/kg.
 • Eiginvigrar og eigingildi landslags: Tölfræðilegt fyrirbæri. Meginform sem útskýra breytileika á tilteknum lengdarkvarða. Notað við aðhvarfsgreiningu.

 • El Niño (1): Hlýr sjávarstraumur sem læðist suður frá miðbaug við strendur Ekvador og stundum til Perú um jólaleytið nefnist El Niño. Nafnið er dregið af því að í spænsku þýðir El Niño "sveinbarn" og er þá átt við Jesúbarnið í jötunni eða jólabarnið.

 • El Niño (2): Sjór í hitabeltinu er mun kaldari austan til í Kyrrahafi heldur en vestar. Stundum minnkar þessi munur stórlega þegar hlýsjór að vestan breiðist austur um, jafnvel til stranda Perú. Þetta hlýja ástand í austanverðu Kyrrahafi hitabeltisins nefnist einnig El Niño. Þegar talað er um fyrirbrigðið í fréttum er oftast átt við þetta ástand fremur en hið staðbundna við Perústrendur.

Efst á síðu

É

 • Él: Sjá Skúra- eða éljaveður.

Efst á síðu

F

 • fim: fimmtudagur.
 • Fjölvitnaröð: Samsafn margra veðurvitnaraða sem sameiginlega geta sagt frá veðurfari fortíðar á ítarlegri hátt en ein röð gerir, t.d. hlutfall mismunandi samsæta í sama ískjarnanum. Fjölvitnasafn getur innihaldið vitnaraðir frá ólíkum stöðum.
 • Fjölvitnagreining: Greining á fjölvitnaröðum, oftast til mats á veðurlagi fortíðar. Hægt er að beita ýmsum greiningaraðferðum á mismunandi fjölvitnasöfn eða fjölvitnaröð. Þeim ber oft ekki saman.
 • Flugveðurspá: Veðurspá fyrir flugumferð á íslenska flugumsjónarsvæðinu.
 • Freðhvolf: Safnheiti yfir hafís, jökla, frera í jörðu, frosin stöðuvötn og frosnar ár.
 • Frostúði: Úði sem myndar ísingu.
 • fös: föstudagur.

Efst á síðu

G

 • Gráð: Lykiltala 1 í sjólagsmati, ölduhæð talin 0 til 0,1 m.
 • Gróðurhúsaáhrif: Það að lofttegundir í gufuhvolfinu endurkasta sólargeislum til jarðar og skapa þar meiri hita en ella.
 • Gróðurhúsalofttegundir: Lofttegundir sem valda gróðurhúsaáhrifum (m.a. koldíoxíð, vatnsgufa, metan, óson, köfnunarefnisdíoxíð, flúoríð).

Efst á síðu

H

 • Hafísárin: Kuldatímabilið 1965 til 1971 er oft nefnt Hafísárin. Hafís lagðist að landinu í febrúarlok 1965 í meira magni en áratugina næstu á undan. Þó nær enginn ís hafi sést 1966 var hann síðan viðloðandi landið frá úthöllum vetri fram á vor eða sumar næstu árin, allt til og með 1971. Síðan hefur landið aðeins átt við hann skyndikynni, reyndar að undanteknu árinu 1979 þegar mikill hafís var við landið. Hafísinn varð mestur hér við land vorið 1968.
 • Hafrót: Lykiltala 8 í sjólagsmati, ölduhæð metin 9 til 14 m.
 • Hagi: Tala sem greinir frá ástandi bithaga fyrir búfénað. Hagi var metinn á fjölmörgum veðurfarsstöðvum á landinu, en nú hefur þeim fækkað mjög. Lykiltölurnar eru sjö: 0 = haglaust; 1 = snöp; 2 = töluverð jörð; 3 = góður hagi; 4 = vorgróður byrjar, eða tún farin að sölna að hausti; 5 = tún algræn (úthagi ekki orðinn algrænn eða farinn að sölna); 6 = úthagi algrænn.
 • Haust: Á Veðurstofunni er haustið talið 2 mánaða langt, frá 1. október til 30. nóvember. Þetta er styttra tímbabil en miðað er við erlendis því þar er september einnig talinn til haustmánaða. (Sjá einnig, vetur, vor, sumar.)
 • hPa: - Hektópaskal (fleirtala: hektópasköl). Loftþrýstingur er mældur í hektópaskölum. 1 hPa jafngildir 1 millibari.
 • Hellmann-úrkomumælir: Úrkomumælir sem verið hefur í notkun í Danmörku frá því um 1910 og síðan. Úrkoma á Íslandi var mæld með slíkum mælum frá því á öðrum áratug tuttugustu aldar, en misjafnt var eftir stöðvum hvenær nákvæmlega var skipt um. Eldri mælar voru mun fyrirferðarmeiri. Kringum 1950 var farið að setja vindhlífar á mæla hérlendis.
 • Hnúkaþeyr (einnig skrifað hnjúkaþeyr): Hlýr, þurr vindur sem stendur af fjöllum. Upphaflega notað í Skaftafellssýslum og skilgreint svo: Nær vindur er á útnorðan um vetur og stendur af Öræfajökli þeyjar snjór á Hnappavöllum, þó alls staðar sé frost annars staðar, og kallast það hnúkaþeyr (Sæmundur Hólm). Tíðkast hefur að nota orðið sem beina þýðingu á erlenda hugtakinu föhn (foehn), en það hugtak er runnið frá Alpalöndum. Ástæður hnjúkaþeys eru fleiri en ein og hugtakið er heldur ofnotað sem skýring á háum hita hlémegin fjalla.
 • Hviða: Vindur sem skellur yfir en stendur stutt.

Efst á síðu

I

 • Innrauð geislun: Rafsegulöldur með bylgjulengd á bilinu 0,8 til 100 míkrómetrar. Einnig nefnd varmageislun eða langbylgjugeislun. Útgeislun jarðar er einna mest milli 10 og 20 míkrómetra.

Efst á síðu

Í

Efst á síðu

J

 • Jarðlag: Veðurþáttur sem athugaður er kl. 9 að morgni á mönnuðum veðurskeytastöðvum. Þar kemur fram hvort jörð er þurr, blaut, frosin, hulin ryki eða hulin snjó eins og nánar er tiltekið í skeytalykli.

Efst á síðu

K

 • klst: Klukkustund - klukkustundir.
 • km: - Kílómetri - 1000 metrar.
 • Kriging aðferð: Tölfræðileg aðferð við að brúa gögn.

Efst á síðu

L

 • Landnyrðingur: Norðaustanátt á Suður- og Vesturlandi, oftast þurr.
 • Landsynningur: Hvass og úrkomusamur vindur af áttum milli austurs og suðurs. Orðið er einkum notað á Suður- og Vesturlandi. Úrkoman oftast nokkuð samfelld, regnþykkni er þá algengast skýja. Suðaustanátt með élja- og skúrahryðjum og klakkaskýjum er oft kölluð öfugur útsynningur. Orðin útsynningur og landsynningur gefa ekki aðeins vindátt í skyn, heldur einnig veðurlag.
 • lau: laugardagur.
 • Ládautt: Lykiltala 0 í sjólagsmati, engar gárur sjást á sjó. Stundum er þá einnig talað um heiðblik.
 • Leshættir: (1) Þó leiðbeiningar um veðurathuganir séu ítarlegar eru athugunarmenn oft með sérvisku og frávik sem geta reynt á reglurnar. Stundum skipta þessi frávik litlu eða engu máli, en stundum eru þau mjög til baga og spilla athugunum. Hér má nefna frávik frá umsömdum veðurathugunartímum, kerfisbundið val ákveðinna aukastafa í hitaaflestri eða það álit að úrkoma minni en t.d. 0,5 mm skipti engu máli og því megi þess vegna sleppa því að vera að kíkja í mælinn. Þetta er mjög til baga. (2) Reglur um mælaaflestur og athugunartíma hafa breyst í tímans rás, ekki endilega alltaf til bóta.
 • Línuleg hneigð: Meðalbreytileiki í gögnum.

Efst á síðu

M

 • M - m: metrar - lengdareining.
 • m/s: Metrar á sekúndu. Vindhraði er mældur í metrum á sekúndu.
 • mán: mánudagur.
 • Meðalhiti: Meðalhiti miðast við sólarhringinn allan. Á stöðvum sem mæla 8 sinnum á sólarhring (fáeinar mannaðar stöðvar á þriggja stunda fresti) eða 24 sinnum (sjálfvirku stöðvarnar, á klukkustundarfresti) er meðalhitinn fundinn sem beint meðaltal allra athugana sólarhringsins. - Á stöðvum sem mæla sjaldnar eru sérstakar formúlur notaðar. Þær eru búnar til með það í huga að mánaðarmeðalhitinn sé sem réttastur fremur en að hiti einstakra sólarhringa sé það. Tvær formúlur eru nú í notkun og hafa verið óbreyttar frá 1956. Önnur reiknar meðalhitann sem meðaltal hita kl. 9 og kl. 21 að viðbættum leiðréttingarstuðli sem er misjafn frá stöð til stöðvar og eftir árstímum. Þessi formúla hefur reynst mjög vel. Hin formúlan er notuð á stöðvum sem ekki athuga kl. 21, í stað þeirrar athugunar kemur þá hiti kl. 18, í formúlu þessari vegur morgunhitinn fimmfalt á við hita kl. 18. Leiðréttingastuðlar eru notaðir á sama hátt og fyrir 9 og 21 formúluna. Þessi 9/18-formúla hefur reynst mun verr en hin og stefnt er að útrýmingu hennar. - Meðalhiti er ekki eins reiknaður í öllum löndum heims.
 • Mesti vindur: Mesti vindhraði sem mælist á ákveðnu tímabili á ákveðnum stað.
 • mið: miðvikudagur.
 • Mikill sjór: Lykiltala 6 í sjólagsmati, ölduhæð metin 4 til 6 m.
 • mín. mínútur. 10 mín. vindur er til dæmis meðalvindhraði á 10 mínútna tímabili.
 • mm: - Millimetrar. Úrkoma er mæld í millimetrum.

Efst á síðu

N

 • N: Norðan - um vind úr norðurátt.
 • NA: Norðaustan - um vind úr norðausturátt.
 • NNA: Norðnorðaustan- um vind úr norðnorðausturátt (mitt á milli norðan og norðaustan).
 • NNV: Norðnorðvestan - um vind úr norðnorðvesturátt (mitt á milli norðan og norðvestan).
 • NV: Norðvestan - um vind úr norðvesturátt.

Efst á síðu

O

 • Ofsaveður: Tæknileg merking er nafn á 11. stigi Beaufortvindkvarðans (28,5 til 32,6 m/s), en hefur almennari merkingu manna á meðal.

Efst á síðu

Ó

 • Óbein sólgeislun: Sá hluti sólargeislanna sem berst til jarðar eftir að hafa endurkastast á sameindum lofthjúpsins, skýjum eða öðru.

Efst á síðu

P

 • PDF skjöl: (Portable Document Format): Sérstakt snið skjals, mikið notað fyrir greinar á vefsíðum.

Efst á síðu

Q

 • QFE: Þrýstingur í brautarhæð flugvallar í heilum hPa (hektó-paskölum). Þrýstingshæðarmælir, sem kvarðaður er samkvæmt ICAO-reglum um meðalloftþrýstifall með hæð sýnir hæð yfir QFE-viðmiðun þegar hann er stilltur á QFE (sjá annars QNH). Mun algengara er að stilla mæla skv. QNH frekar en QFE. Undantekningar eru þó svæði þar sem flugvellir eru hátt yfir sjávarmáli.
 • QNH: Hæðarmælasetning í heilum hPa (hektó-paskölum). (1) Þrýstingur við sjávarmál á ákveðnum flugvelli og nágrenni hans. Þrýstingshæðarmælir, sem kvarðaður er samkvæmt ICAO-reglum um meðalloftþrýstifall um hæð sýnir flughæð (yfir sjávarmáli) þegar hann er stilltur á QNH. Aukastaf þrýstingsins er ætíð sleppt, en aldrei hækkað upp í næstu heilu tölu fyrir ofan. Dæmi: Sé þrýstingur 1008,9 hPa er QNH=1008, sé þrýstingur 1008,1 er QNH líka 1008. Nákvæmnin 1 hPa jafngildir í mesta lagi 8 metra skekkju á mælingu. QNH í þessari merkingu kemur ætíð fram í veðurskeytum frá flugvöllum, nú orðið aðeins kallað Q í skeytinu. (2) Líklegur lægsti þrýstingur á flugsvæði nefnist svæðisbundið QNH (regional QNH). Ísland er eitt flugsvæði og Veðurstofan gefur á þriggja klukkustunda fresti út spá um líklegan lægsta þrýsting á svæðinu fyrir hverja klukkustund, þrjár stundir fram í tímann.

R

 • Rakastig: Prósentumælikvarði á loftraka, sé loft mettað raka er rakastigið 100%, innihaldi það enga vatnsgufu (eim) er rakastigið 0%.

Efst á síðu

S

 • S: Sunnan - um vind úr suðurátt.
 • SA: Suðaustan - um vind úr suðausturátt.
 • Sek.: sekúndur.
 • Sjálfvirk spá: Veðurspá sem gerð er sjálfvirkt af tölvu án þess að mannshönd komi þar nærri.
 • Sjólítið: lykiltala 2 í sjólagsmati, ölduhæð metin 0,1 til 0,5 m.
 • Sjóveðurspá: Veðurspá fyrir hafsvæðið umhverfis Ísland.
 • Skeytastöð - (einnig veðurskeytastöð): Skeytastöðvar eru mannaðar veðurstöðvar sem mæla hita, úrkomu og snjódýpt. Nú orðið er vindhraði yfirleitt mældur, en annars metinn. Á sumum stöðvanna er loftþrýstingur einnig mældur og jafnvel fleiri veðurstikar. Skyggni og skýjahula er metin og greint frá veðri í sérstökum veðurlykli. Skýjategundir eru metnar sem og snjóhula. Skeytin berast Veðurstofunni jafnóðum og athuganir eru gerðar, en athugunartímar eru mismargir, allt frá þremur upp í 8 á sólarhring.
 • Skúra- eða éljaveður: Úrkomuveður nefnt þegar uppstytta, ein eða fleiri, hefur orðið á síðustu klukkustund og um leið hefur birt verulega í lofti, stundum svo að sést í heiðan himin. Úrkoman byrjar og endar oftast snögglega og úrkomumagnið tekur snöggum breytingum. Þessar snöggu breytingar skilja á milli skúraúrkomu og annarrar úrkomu með uppstyttum.
 • Skyggni: Veðurathugunarskyggni á alltaf við lárétt skyggni, skyggni sem er takmarkað af veðurfyrirbrigðum en ekki náttmyrkri, skuggum eða ástandi yfirborðs jarðar. Í náttmyrkri er auðveldast að meta skyggni eftir því hversu vel sést til fjarlægra ljósa, en þar sem engin slík eru til staðar er miðað við útlínur í landslagi eða stundum hvort stjörnur eða tungl sjást neðarlega á himni eða ekki. Það sem takmarkar skyggni, sem skilgreint er á þennan hátt, getur verið úrkoma af ýmsu tagi, skafrenningur, ryk, raki, mengun eða þoka.
 • Skýjahula: Skýjahula er sýnd í áttunduhlutum, 8/8 er alskýjað, 0/8 heiðskírt
 • Sleði: Yfirleitt lína fyrir neðan veðurkort þar sem hægt er að færa fram og aftur breiða ör sem vísar á daganöfn og tíma innan daga til þess að skoða veðurspána.
 • Sml, sml: Sjómíla, sjómílur. Fast, alþjóðlegt gildi á sjómílu er 1852 metrar.
 • Snjókantur, snjósívalningur: Gömul dönsk mælitæki, orðin eru þýðingar á dönsku hugtökunum Kant til Sneemaaling og Cylinder til Sneemaaling. Talið er að þetta hafi verið rétthyrndur rammi og sívalningslaga gjörð sem var þrýst niður í gegnum nýfallinn snjó, sem síðan var tekinn upp, bræddur og vatnsgildi (úrkomumagn) reiknað. Áhersla var lögð á að gera þetta þar sem snjór var jafnfallinn.
 • Spábreytur: Þeir orsakaþættir (breytur) sem tölfræðilegt líkan notar til að spá fyrir öðrum þáttum (e. predictand).
 • Spönn: ársspönn, mismunur af hæsta og lægsta meðalgildi ársins.
 • SSA: Suðsuðaustan - um vind úr suðsuðausturátt (mitt á milli sunnan og suðaustan).
 • SSV: Suðsuðvestan - um vind úr suðsuðvesturátt (mitt á milli sunnan og suðvestan).
 • Staðaspá - staðaspár: Veðurspár sem byggjast á því að spáð er veðri á einstökum veðurstöðvum, svo sem Akureyri, Blönduósi, Reykjavík, Stykkishólmi. Nákvæmni spárinnar minnkar eftir því sem fjær dregur staðnum.
 • Stórsjór: Lykiltala 7 í sjólagsmati, ölduhæð metin 6 til 9 m.
 • Sumar: Í samanburðarreikningum á Veðurstofunni er sumarið talið 4 mánaða langt, frá 1. júní til 30. september. Þetta er lengra tímabil en að jafnaði er notað erlendis því þar er miðað við að sumarið standi yfir tímabilið frá júní og út ágúst. Þessi skilgreining Veðurstofunnar kann að orka tvímælis en varð ofan á á sínum tíma til þess að skýrslusumarið væri jafnlangt og veturinn. September hefur í raun sennilega oftar veðureinkenni hausts fremur en sumars, þó það sé raunar misjafnt frá ári til árs. (Sjá einnig, vetur, vor, haust.)
 • sun: sunnudagur.
 • Súld: Sjá úði.

 • SV: Suðvestan - um vind úr suðvesturátt.

Efst á síðu

T

 • Talsverður sjór: Lykiltala 4 í sjólagsmati, ölduhæð metin 1,25 til 2,5 m.
 • Textaspár: Veðurspár sem settar eru fram í orðum eingöngu.

Efst á síðu

U

 • Uppsöfnuð úrkoma: Magn úrkomu eins og það hefur mælst (eða spáð er) í ákveðinn tíma, t.d. 6 klst.

Efst á síðu 

Ú

 • Úði (súld): Smágerð úrkoma þar sem droparnir eru af jafnri stærð, minni en 0,5 mm að þvermáli og virðast svífa í loftinu. Úðinn kemur úr lágum og fremur samfelldum þokuskýjum. Úrkoman getur orðið allt að því 1 mm á klst einkum til fjalla eða nálægt ströndinni. Úði sem myndar ísingu er kallaður frostúði.

 • Úrkomuákefð: Úrkomumagn á tímaeiningu. Langoftast er átt við tiltölulega stuttan tíma, allt niður í um 1 mínútu, en gjarnan 10 til 60 mínútur (klukkustund). Hönnun fráveitu- og frárennsliskerfa verður að taka tillit til úrkomuákefðar og er hún oft bundin í staðla, sem miða t.d. við líkleg 5 til 50-ára hámarksgildi. Hafa verður í huga að slík gildi eru mjög staðbundin og gera jafnvel kröfur til sérfræðilegra úttekta eða mats þegar ný svæði eru skipulögð.    
 • Úrkomustöð:  Á þessum stöðvum eru aðeins gerðar úrkomumælingar, auk þess sem snjódýpt er víðast hvar mæld, snjóhula metin og úrkomutegundar getið. Flestar úrkomustöðvarnar senda nú stutt veðurskeyti til Veðurstofunnar að lokinni mælingu. Stöðvar af þessu tagi voru sárafáar fyrir 1960, en þá fjölgaði þeim verulega.
 • Úrstreymi: Úrstreymi kallast þegar magn lofts (massi) minnkar í föstu rúmmáli. Úrstreymi í háloftum veldur oftast uppstreymi að neðan. Þar með aukast líkur á úrkomu. Andhverfa úrstreymis er ístreymi. Þá vex magn lofts (massi) í föstu rúmmáli. Sé úrstreymi ofan til í loftsúlu meira en ístreymið neðan til fellur þrýstingur undir henni.
 • Útgildi: Hæsta eða lægsta gildi í röð eða safni athugana eða mælinga. Í stærðfræði merkir útgildi stærsta stak (hágildi) eða minnsta stak (lággildi) mengis.
 • Útslag: Útslag árstíðasveiflu er til dæmis skilgreint sem mismunur hitastigs júlímánaðar og hitastigs janúarmánaðar. Aðrar skilgreiningar (t.d. mismunur mesta og minnsta hitastigs) eru mögulegar.
 • Útnyrðingur: Vindur úr norðvestri um sunnan-, vestan- og norðanvert landið. Vegna þess að þessi átt er sjaldgæf á Íslandi nema við norðausturströndina er merking orðsins ekki jafn eindregin og merking útsynningsins.
 • Útsynningur: Vindur úr áttum milli suðurs og vesturs, oftast nokkuð hvass með skúra- eða éljahryðjum um sunnan- og vestanvert landið. Bjartara veður er þá á Norðaustur- og Austurlandi. Orðið lýsir í senn vindátt og veðurlagi. Suðaustanátt með hryðjum og klakkaskýjum er stundum nefnd öfugur útsynningur.

Efst á síðu

V

 • V: Vestan:- um vind úr vesturátt.
 • Veðurfarsstöð: Veðurfarsstöðvar mæla hita, úrkomu og snjódýpt. Á flestum eru einnig rakamælingar. Vindhraði er oftast metinn. Greint er frá snjóhulu, úrkomutegund og skyggni. Á stöku stað eru sjávarhitamælingar. Stöðvarnar senda ekki skeyti, en mánaðarlegar skýrslur. Langoftast er athugað þrisvar á dag, kl. 9, 15 og 21. Fyrir 1961 var kvöldathugunin gerð kl. 22. Úrkoma er að jafnaði mæld einu sinni á dag. 
 • Veðurfarsstöðvar Dönsku veðurstofunnar: Að jafnaði voru gerðar þrjár hitamælingar á dag, kl. 8, 14 og 21 að staðartíma. Venjulega voru engir hámarksmælar á stöðvunum, en alloft lágmarksmælar. Lítið var um aðrar mælingar, en þó voru t.d. úrkomumælingar á Eyrarbakka og sjávarhitamælingar í Papey. Veðri var lýst í stöðluðum orðum og sömuleiðis skýjafari, en skýjahula ekki metin. Flestar stöðvarnar athuguðu aðeins í örfá ár og algengt var að veðurathugunarmenn flyttu stöðvarnar með sér þegar þeir fluttu sjálfir milli staða.
 • Veðurvitni: Mælanlegur umhverfisþáttur sem er á einhvern hátt tengdur veðri, oftast hita eða úrkomu. Veðurvitni eru notuð til að meta hita, úrkomu og hugsanlega annað veðurlag aftur í tímann þegar ekki er hægt að styðjast við beinar mælingar. Dæmi: Trjáhringir, samsætur í ískjörnum, ásýnd setkjarna, sethraði, steinmyndanir o.s.frv. 
 • Veðurfar: Veðrátta, tíðarfar, loftslag, meðaltal veðurþátta, meðallagsveður á ákveðna tímaeiningu á löngu tímabili, t.d. tiltekinn mánuð í nokkra áratugi.
 • Veðurfyrirbrigði: Óvenjulegt veður eða veðurfyrirbrigði sem starfsfólk Veðurstofunnar þiggur þakksamlega upplýsingar um (og myndir af) á þar til gerðu eyðublaði á vef Veðurstofu.
 • Veðurhorfur: Veðurútlit, það hvernig veður lítur út fyrir að verða.
 • Veðursjá (RADAR):Tæki sem sendir út stuttbylgjugeisla og nemur síðan endurvarp þeirra frá úrkomu en einnig frá öðrum hlutum sem verða á vegi hans, t.d. fjöllum.
 • Veðurþáttaspá 9 km: Veðurspár sem byggjast tölvulíkani þar sem upplausn er 9 kílómetrar.
 • Veðurþáttaspár 3 km: Veðurspár sem byggjast tölvulíkani þar sem upplausn er 3 kílómetrar.
 • Veðurþáttur - veðurþættir: Hin ýmsu tilbrigði veðurs, svo sem úrkoma, vindur og vindhraði, þoka, skýjafar o.fl.
 • Vetur: Í samanburðarreikningum á Veðurstofunni er vetur talinn 4 mánaða langur, frá 1. desember til 31. mars. Þetta er lengra tímabil en að jafnaði er notað erlendis því þar er miðað við að veturinn standi yfir tímabilið frá desember og út febrúar. Hér á landi er mars alloft kaldasti mánuður ársins og því er erfitt að tala um hann sem vormánuð. (Sjá einnig, vor, sumar, haust.)
 • Vindátt: Í veðurathugunum er hefð fyrir því að stefna sé gefin upp sem horn af hring. Hringurinn byrjar við norðanátt og hækkar gráðutalan sólarsinnis, þ.e.a.s. með því að farið er um austur, austanátt talin 90°, suður (180°), vestur (270°) og að lokum í norður, en hrein norðanátt er eftir hefð talin stefnan 360° (ekki 0°). Aðrar vindáttir hafa hver um sig ákveðnar gráðutilvísanir °, hvort sem þær eru 8 (í textaspám), 16 (í athugunum án mælitækja), 32 (fyrir 1949), 36 (gróf mælitæki) eða 360 (fullkomnar sjálfvirkar stöðvar). Sé hringnum skipt á 8 áttir hefur norðaustanátt (NA) stefnuna 45°, en inniheldur reyndar allar stefnur frá 23° til 67°, sé skiptingin á 16 áttir telst stefna innan geirans 34° til 56° til norðaustanáttar. Til hliðar við hana eru þá NNA (norðnorðaustur) og ANA (austnorðaustur).  

 • Vindhraði í flugvallarspám er alltaf í hnútum (KT) og ef búist er við að vindhviður verði 10 hnútum meiri en 10-mínútna meðalvindhraði er gert ráð fyrir því í veðurspánni með G sem þýðir „gust“ eða hviða. Til dæmis er 14030G40KT  snúið í orð: SA 30 hnútar og gustar í 40 hnúta.

 • Vindhviða: Skammvinn vindgusa. Oftast er miðað við að hún standi í 3 sekúndur (veðurstofumælar). Sum mælitæki (flestir mælar Vegagerðarinnar) miða þó við 1 sekúndu.
 • VNV: Vestnorðvestur - um vind úr vestnorðvesturátt (mitt á milli vestan og norðvestan).
 • Vor: Á Veðurstofunni er vorið talið 2 mánaða langt, frá 1. apríl til 31. maí. Þetta er styttra tímabil en miðað er við erlendis því þar er mars einnig talinn til vormánaða. (Sjá einnig, vetur, sumar, haust.)
 • VSV: Vestsuðvestan - um vind úr vestsuðvesturátt (mitt á milli vestan og suðvestan).

Efst á síðu

W

 • WMO: Alþjóðaveðurfræðistofnunin, World Meteorological Organisation.

Efst á síðu

X

 • X eða / : Veðurskeyti eru samsett úr „orðum“ sem hafa fyrirfram ákveðna lengd. Ef atriði vantar er að jafnaði settur kross (X) eða brotastrik (/) sem tákn fyrir eyðu. Orðið er því aldrei stytt. 

Efst á síðu

Y

 • Yfirlitsstöðvar: Helstu veðurstöðvar á einstökum spásvæðum. Hægt er að skoða veðrið nokkra daga aftur í tímann.

Efst á síðu

Ý

 • Ýringur: Annað nafn á súld eða úða.

Efst á síðu

Z

 • z: Í sérhæfðum veðurskeytum er bókstafurinn z (lágstafur) oft notaður til að tákna að undanfarandi tala sé tímaeining (klukka). z-tíminn er ætíð heimstími (utc eða GMT). Þegar lesið er úr z er hún kölluð zúlú. 17:30z er þannig klukkan hálf sex síðdegis að heimstíma (sautján þrjátíu zúlú).

Efst á síðu

Þ

 • þ.e.a.s (skammstöfun): það er að segja.
 • Þoka: Í veðurskeytum er þoka úrkomulaust veður, þegar skyggni er takmarkað af örsmáum vatnsdropum eða agnúða. Skyggnið verður að vera minna en 1000 m til þess að um þoku sé að ræða. Rakastig er oftast um 100%. Falli úrkoma úr þokunni telst veðrið sem súld, jafnvel þó skyggnið sé lélegt af völdum þokunnar. Þokuhugtak veðurskeyta er því nokkru þrengra en það sem almennt er notað í tali og textum.
 • þri: þriðjudagur.

Efst á síðu

Æ

 • Æðiveður: Aftakastormur eða illviðri.

Efst á síðu

Ö

 • Öskufall: Veðurathugunarmenn fylgjast með öskufalli úr eldgosum fyrir Veðurstofuna og koma stundum til hennar sýnum af öskunni. Í leiðbeiningum til veðurathugunarmanna er þeim bent á að setja út hvítan disk til öskusöfnunar. Fylgst er með öskufalli vegna öryggis í flugsamgöngum.
 • Efst á síðu

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica