Hætta í dreifbýli
Könnun á ofanflóðahættu í dreifbýli
Snjóflóðasaga, greining á ofanflóðaaðstæðum
Í könnun á ofanflóðahættu fyrir dreifbýli eru dregnar saman upplýsingar um ofanflóðasögu ákveðinna landsvæða og ofanflóðaaðstæður ofan byggðar eru greindar, m.a. möguleg upptakasvæði og farvegir snjóflóða. Sveitabæir og önnur byggð eru flokkuð eftir ofanflóðahættu. Slík úttekt felur í sér almenna þekkingaröflun sem nýtist fyrir skipulagsvinnu í viðkomandi sveitarfélögum. Jafnframt nýtist hún íbúum svæðisins, yfirvöldum almannavarna og snjóflóðavakt Veðurstofunnar í sambandi við viðbúnað við yfirvofandi ofanflóðahættu. Eftir sem áður getur verið ástæða til að vinna formlegt staðbundið hættumat fyrir einstaka sveitabæi og aðra staði þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Megintilgangur könnunarinnar er að finna þá bæi sem taldir eru í „verulegri ofanflóðahættu“. Miðað er við að staðaráhætta bæjar í verulegri ofanflóðahættu kunni að samsvara hættusvæði C samkvæmt hættumatsreglugerð. Þrátt fyrir slíka samsvörun, hefur könnunin ekki formlegt gildi fyrir skipulag byggðar með sama hætti og hættumat fyrir þéttbýli.
Eftirfarandi skýrslur um könnun á ofanflóðahættu í dreifbýli hafa verið gefnar út.
- Könnun á ofanflóðaaðstæðum í Skagafirði austan Vatna utan Akrahrepps ásamt kortum í sérhefti og Viðauka. Höfundar: Sveinn Brynjólfsson, Brynjólfur Sveinsson og Halldór G. Pétursson. Veðurstofa Íslands, skýrsla 2019-006, 377 bls og kort.
- Könnun á ofanflóðaaðstæðum í Öxnadal og Hörgárdal eftir Svein Brynjólfsson, Brynjólf Sveinsson og Halldór G. Pétursson. Veðurstofa Íslands, skýrsla 2016-009, 201 bls.
- Könnun á ofanflóðaaðstæðum í Öxnadal og Hörgárdal. Viðaukar eftir Svein Brynjólfsson, Brynjólf Sveinsson og Halldór G. Pétursson. Veðurstofa Íslands, viðaukar við skýrslu 2016-009, 243 bls.
- Könnun á snjóflóðaaðstæðum í Svarfaðardal
eftir Svein Brynjólfsson, Hörpu Grímsdóttir, Halldór G. Pétursson og
Höskuld Búa Jónsson. Veðurstofa Íslands, greinargerð 06017, 188 bls.
Könnun á snjóflóðaaðstæðum í Fnjóskadal er vel á veg komin og verður skýrsla gefin út á næstunni. Árið 2015 hófst vinna við gagnaöflun og skýrsluskrif í vestanverðum Skagafirði. Þar hafa aðstæður verið kannaðar á einstökum bæjum og unnið er að skrásetningu snjóflóða og kortlagningu á ofanflóðasögu héraðsins. Á næstunni verður hafist handa við upplýsingaöflun á fjórum nýjum landsvæðum: Syðridal við Bolungarvík, Ólafsfjörð, Eyjafjarðarsveit og Mýrdal.