Rýmingaráætlanir
Samkvæmt breyttum lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, sem samþykkt voru á Alþingi í desember 1995, ber Veðurstofu Íslands að gefa út viðvaranir um staðbundna snjóflóðahættu. Skal þá rýma húsnæði á reitum sem tilgreindir eru í viðvörun Veðurstofunnar. Veðurstofan hefur, í samráði við heimamenn, gert sérstök kort af þéttbýlisstöðum landsins þar sem talin er snjóflóðahætta og byggja rýmingaráætlanir staðanna á þessum kortum.
Rýmingaráætlun fyrir bæjarfélag felst í fyrsta lagi í reitaskiptu rýmingarkorti, í öðru lagi greinargerð Veðurstofu Íslands um snjóflóðaaðstæður og síðast en ekki síst áætlun almannavarnanefndar staðarins um það hvernig staðið er að rýmingu þegar tilkynning um slíkt berst frá Veðurstofunni. Áætlun þessa vinna almannavarnanefndir staðanna í samráði við Almannavarnir ríkisins á grundvelli rýmingarkortanna.
Rýmingarkort
Endurskoðuð rýmingarkort hafa verið unnin af snjóflóðavakt Veðurstofunnar. Fyrri rýmingaráætlun var borin saman við fyrirliggjandi hættumat og gerðar breytingar til samræmis við hættumatið þar sem tilefni var til. Einnig var rýmingaráætluninni breytt þar sem reist hafa verið varnarvirki. Lýsing í rýmingargreinargerð á landfræðilegum aðstæðum og aðstæðum sem leiða til snjóflóðahættu var samræmd hliðstæðum lýsingum í hættumatsskýrslum. Endurskoðuð rýmingarkort og rýmingargreinargerð voru kynntar almannavarnanefnd, bæjarstjórn og öðrum sem að málinu koma og endanleg útgáfa kortsins og greinargerðarinnar staðfest af umhverfisráðherra og gefin út. Rýmingargreinargerðirnar og rýmingarkortin verða almenningi aðgengileg á ytri vef Veðurstofunnar innan tíðar.
Yfirlitsgreinargerð um rýmingu húsnæðis vegna snjóflóðahættu